Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líktu eftir Jesú og sýndu fátækum umhyggju

Líktu eftir Jesú og sýndu fátækum umhyggju

Líktu eftir Jesú og sýndu fátækum umhyggju

FÁTÆKT og kúgun eru næstum jafngömul mannkyninu. Með lögmáli Guðs, sem hann gaf Ísrael, var leitast við að vernda fátæka og létta byrðar þeirra. En Ísraelsþjóðin virti oft lögmálið að vettugi. (Amos 2:6) Esekíel spámaður fordæmdi hvernig farið var með fátæka. Hann sagði: „Landslýðurinn hefir haft kúgun og rán í frammi, þeir hafa undirokað volaða og snauða og kúgað útlendinga án nokkurs réttar.“ — Esekíel 22:29.

Staðan var óbreytt þegar Jesús var á jörðinni. Trúarleiðtogarnir voru skeytingalausir um hag fátækra og þurfandi og þeim var lýst sem ‚fégjörnum‘. Sagt var að þeir ‚ætu upp heimili ekkna‘ og væri meira í mun að halda erfikenningar sínar en að sinna þörfum aldraðra og fátækra. (Lúkas 16:14; 20:47; Matteus 15:5, 6) Það er eftirtektarvert að í dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann voru það prestur og levíti sem sveigðu fram hjá slasaða manninum í stað þess að hjálpa honum. — Lúkas 10:30-37.

Jesús sýndi fátækum umhyggju

Frásögur guðspjallanna af ævi Jesú sýna að hann skildi mætavel þá erfiðu aðstöðu sem fátækir voru í og var mjög næmur á þarfir þeirra. Jafnvel þótt Jesús hafi lifað á himnum svipti hann sig öllu, varð maður og ‚gerðist fátækur okkar vegna‘. (2. Korintubréf 8:9) Þegar „hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa“. (Matteus 9:36) Frásagan af fátæku ekkjunni sýnir að Jesús hreifst af verðlitlu framlagi hennar en ekki af stóru peningagjöfunum sem auðmennirnir gáfu „af allsnægtum sínum“. Gjöf fátæku ekkjunnar snart hann þar sem „hún gaf af skorti sínum, alla björg sína“. — Lúkas 21:4.

Jesús fann ekki bara til samúðar með fátækum heldur lét hann sér líka einlæglega annt um þarfir þeirra. Hann og postular hans áttu sameiginlegan sjóð sem þeir gáfu úr til þurfandi Ísraelsmanna. (Matteus 26:6-9; Jóhannes 12:5-8; 13:29) Jesús hvatti þá sem vildu vera fylgjendur hans til að viðurkenna að þeir hefðu skyldum að gegna gagnvart hinum fátæku. Hann sagði ríkum höfðingja: „Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ Sú staðreynd að maðurinn var ekki fús til að segja skilið við eigur sínar sýndi að honum þótti vænna um auðinn en um Guð og náungann. Hann hafði því ekki það sem þurfti til að geta verið lærisveinn Jesú. — Lúkas 18:22, 23.

Fylgjendur Krists láta sér annt um fátæka

Postularnir og aðrir fylgjendur Jesú héldu áfram að sýna fátækum umhyggju eftir dauða hans. Árið 49 eða þar um bil hitti Páll postuli þá Jakob, Pétur og Jóhannes til að ræða það umboð sem hann hafði fengið frá Jesú Kristi að boða fagnaðarerindið. Þeir féllust á að Páll og Barnabas skyldu fara til annarra þjóða og einbeita sér að því að prédika fyrir heiðingjum. En Jakob og félagar hans hvöttu Pál og Barnabas til þess að „minnast hinna fátæku“. Og það kappkostaði Páll að gera. — Galatabréfið 2:7-10.

Á stjórnartíma Kládíusar keisara skall á mikil hungursneyð víða í Rómarveldi. Kristnir menn í Antíokkíu „samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu. Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.“ — Postulasagan 11:28-30.

Þeir sem fylgja fordæmi Jesú nú á dögum ættu líka að sýna fátækum og þurfandi umhyggju. Og þeir ættu að láta sér sérstaklega annt um trúbræður sína. (Galatabréfið 6:10) Þeim er einlæglega umhugað um efnislegar þarfir bágstaddra. Lítum á dæmi. Miklir þurrkar urðu árið 1998 á stóru svæði í norðausturhluta Brasilíu. Hrísgrjóna-, bauna- og kornuppskeran eyðilagðist og mikil hungursneyð fylgdi í kjölfarið — sú versta í 15 ár. Sums staðar var drykkjarvatn meira að segja af skornum skammti. Vottar Jehóva í öðrum landshlutum komu strax á laggirnar nefndum til að skipuleggja neyðaraðstoð. Á skömmum tíma var búið að safna miklu magni af matvælum og flutningsgjöld voru greidd.

Vottar, sem tóku þátt í neyðaraðstoðinni, skrifuðu: „Það var sönn ánægja að geta hjálpað trúsystkinum okkar, sérstaklega þar sem við vitum að það hefur glatt Jehóva. Við gleymum aldrei orðunum í Jakobsbréfinu 2:15, 16.“ Í þessum versum segir: „Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og einhver yðar segði við þau: ‚Farið í friði, vermið yður og mettið!‘ en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?“

Í einum söfnuði Votta Jehóva í São Paulo er auðmjúk og kappsöm kona sem á oft erfitt með að láta enda ná saman. Hún segir: „Jafnvel þótt ég sé fátæk hefur boðskapur Biblíunnar gefið lífinu raunverulegan tilgang. Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki notið stuðnings trúsystkina minna.“ Fyrir nokkru þurfti þessi ötula kona á skurðaðgerð að halda en hún gat ekki greitt fyrir hana sjálf. Bræður hennar og systur í söfnuðinum voru að þessu sinni í aðstöðu til að standa undir kostnaðinum vegna skurðaðgerðarinnar. Kristnir menn um allan heim eru vanir að aðstoða trúbræður sína.

Svona frásögur ylja manni um hjartaræturnar en það er samt nokkuð ljóst að viðleitni af þessu tagi bindur ekki enda á fátækt. Ríkum þjóðum og stórum hjálparstofnunum hefur orðið eitthvað ágengt í glímunni við fátækt en þeim hefur ekki tekist að útrýma þessum aldagamla óvini. Spurningin er þess vegna: Hvar er varanlega lausn að finna á vandamálum eins og fátækt og öðru sem þjakar mannkynið?

Boðskapur Biblíunnar veitir varanlega hjálp

Í guðspjöllunum lesum við hvernig Jesús Kristur lagði það í vana sinn að gera þeim gott sem voru fátækir eða þurftu hjálp af einhverju tagi. (Matteus 14:14-21) En hvað skipti mestu máli hjá honum? Einu sinni þegar hann hafði notað talsverðan tíma til að hjálpa þurfandi sagði hann lærisveinum sínum: „Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar.“ Hvers vegna hætti hann að hjálpa veikum og þurfandi til að halda áfram að prédika? Hann sagði: „Því að til þess [að prédika] er ég kominn.“ (Markús 1:38, 39; Lúkas 4:43) Jesú þótti það vissulega mikilvægt að gera mönnum gott en aðalverkefni hans var að prédika Guðsríki. — Markús 1:14.

Biblían hvetur kristna menn til að feta í fótspor Jesú þannig að við höfum skýra leiðsögn um það hvernig við eigum að forgangsraða aðstoð okkar við aðra. (1. Pétursbréf 2:21) Kristnir menn hjálpa nauðstöddum alveg eins og Jesús. En aðaláherslan er sú sama og hjá Jesú, að kenna fagnaðarerindið um ríki Guðs sem Biblían boðar. (Matteus 5:14-16; 24:14; 28:19, 20) Hvers vegna ætti það að vera ofar í forgangsröðinni að boða orð Guðs en að aðstoða með öðrum hætti?

Raunsannar frásögur alls staðar að úr heiminum sýna og sanna að þegar fólk skilur leiðbeiningar Biblíunnar og lifir samkvæmt þeim er það betur í stakk búið að takast á við vandamál líðandi stundar, þar með talið fátækt. Boðskapur Biblíunnar um ríki Guðs, sem vottar Jehóva boða, veitir þar að auki von fyrir framtíðina, von sem gerir lífið þess virði að lifa því, jafnvel á erfiðum tímum. (1. Tímóteusarbréf 4:8) Hvaða von er það?

Orð Guðs lýsir framtíðinni og fullvissar okkur: „En eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Þegar Biblían notar orðið „jörð“ er stundum átt við fólkið sem býr á jörðinni. (1. Mósebók 11:1) Það þýðir að ‚nýja jörðin‘, sem er lofað, er samfélag manna sem hefur velþóknun Guðs. Orð Guðs lofar enn fremur að þeir sem hafi velþóknun Guðs fái að gjöf eilíft líf og lifi ánægjulegu lífi í paradís á jörð undir stjórn Krists. (Markús 10:30) Þessi dásamlega framtíð stendur öllum opin, líka fátækum. Á ‚nýrri jörð‘ verður fátækt úr sögunni fyrir fullt og allt.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

HVERNIG BJARGAR JESÚS „HINUM SNAUÐA“? — Sálmur 72:12

RÉTTLÆTI: „Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.“ (Sálmur 72:4) Undir stjórn Krist á jörðinni verður réttlæti handa öllum. Þar verður engin spilling en hún er böl sem hefur steypt mörgum þjóðum í fátækt þótt þær gætu verið ríkar.

FRIÐUR: „Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.“ (Sálmur 72:7) Fátækt stafar oft af átökum og stríði. Kristur mun koma á algerum friði á jörðinni og þannig útrýma einni af meginorsökum fátæktar.

SAMÚÐ: „Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“ (Sálmur 72:12-14) Hinir snauðu, bágstöddu og þjökuðu verða hluti af einni stórri fjölskyldu mannkyns undir stjórn konungsins Jesú Krists.

VELMEGUN: „Gnóttir korns munu vera í landinu.“ (Sálmur 72:16) Undir stjórn Krists verður velmegun og nóg af öllu. Enginn mun þjást vegna matarskorts eða hallæris sem veldur oft fátækt á okkar tímum.

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Jesús lét sér einlæglega annt um þarfir fátækra.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Boðskapur Biblíunnar veitir sanna von.