Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sérhver mun verða að bera sína byrði“

„Sérhver mun verða að bera sína byrði“

„Sérhver mun verða að bera sína byrði“

„Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 14:12.

1. Hvaða ábyrgð öxluðu þrír ungir Hebrear?

ÞRÍR ungir Hebrear í Babýlon þurfa að taka ákvörðun. Um líf og dauða er að tefla. Eiga þeir að falla fram fyrir stóru líkneski eins og landslög kveða á um eða eiga þeir að neita að tilbiðja það og láta kasta sér í brennheitan eldsofn? Sadrak, Mesak og Abed-Negó hafa engan tíma til að ráðfæra sig við aðra. Og þeir þurfa þess ekki. Þeir segja án þess að hika: „Þú [skalt] vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ (Daníel 3:1-18) Hebrearnir þrír báru hver sína byrði. Þeir öxluðu ábyrgð sína.

2. Hverjir tóku ákvörðun fyrir Pílatus um örlög Jesú Krists og leysti það rómverska landstjórann undan ábyrgð?

2 Um sex öldum síðar hlustar landstjóri á ákærur á hendur manni nokkrum. Hann kynnir sér málið og sannfærist um að ákærði sé saklaus. En mannfjöldinn heimtar að maðurinn sé tekinn af lífi. Landstjórinn spyrnir við fótum í fyrstu en veigrar sér við að axla ábyrgð sína og lætur undan þrýstingnum. Hann þvær hendur sínar og segir: „Sýkn er ég af blóði þessa manns!“ Síðan framselur hann manninn til aftöku. Pontíus Pílatus axlar ekki þá ábyrgð sína að ákveða sjálfur örlög Jesú Krists heldur lætur aðra taka ákvörðun fyrir sig. Hversu rækilega sem hann þvær hendur sínar ber hann samt sem áður ábyrgð á hinum rangláta dómi yfir Jesú. — Matteus 27:11-26; Lúkas 23:13-25.

3. Af hverju ættum við ekki að láta aðra taka ákvarðanir fyrir okkur?

3 Hvað um þig? Ertu eins og Hebrearnir þrír þegar þú þarft að taka ákvörðun eða læturðu aðra gera það fyrir þig? Það er ekki auðvelt að taka réttar ákvarðanir og það þarf þroska til. Foreldrar þurfa til dæmis að taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir ung börn sín. Auðvitað er erfitt að taka ákvörðun í flóknu máli þegar við þurfum að vega og meta marga þætti. Sú ábyrgð að taka ákvarðanir er hins vegar ekki svo þung að hún flokkist undir þær erfiðu byrðar sem við getum þurft að láta andlega þroskaða menn í söfnuðinum bera fyrir okkur. (Galatabréfið 6:1, 2) Hér er um að ræða byrði sem hvert og eitt okkar þarf að „lúka Guði reikning fyrir“. (Rómverjabréfið 14:12) „Sérhver mun verða að bera sína byrði,“ segir í Biblíunni. (Galatabréfið 6:5) Hvernig getum við þá tekið viturlegar ákvarðanir í lífinu? Við verðum að byrja á því að gera okkur grein fyrir mannlegum takmörkum okkar og kanna hvað við þurfum að gera til að vega upp á móti þeim.

Hvað er nauðsynlegt?

4. Hvaða mikilvæga lærdóm um ákvarðanir ættum við að draga af óhlýðni fyrstu hjónanna?

4 Snemma í sögu mannkyns tóku fyrstu hjónin ákvörðun sem hafði hrikalegar afleiðingar. Þau ákváðu að borða ávöxt af skilningstrénu góðs og ills. (1. Mósebók 2:16, 17) Af hverju ákváðu þau að gera þetta? Biblían segir: „Er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.“ (1. Mósebók 3:6) Ákvörðun Evu byggðist á eigingjarnri löngun og Adam fór svo að dæmi hennar. Þetta olli því að synd og dauði barst „til allra manna“. (Rómverjabréfið 5:12) Við ættum að draga mikilvægan lærdóm af óhlýðni Adams og Evu: Manninum eru takmörk sett og ef hann fylgir ekki leiðsögn Guðs hættir honum til að taka rangar ákvarðanir.

5. Hvaða leiðsögn hefur Jehóva gefið okkur og hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af henni?

5 Við megum vera þakklát fyrir að Jehóva Guð skuli veita okkur leiðsögn. Biblían segir: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ (Jesaja 30:21) Jehóva talar við okkur í innblásnu orði sínu, Biblíunni. Við þurfum að kynna okkur hana og þekkja efni hennar vel. Til að taka réttar ákvarðanir þurfum við að neyta ‚fastrar fæðu‘ sem er „fyrir fullorðna“. Við þurfum sömuleiðis að temja „skilningarvitin til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Við getum tamið þau með því að fara eftir því sem við lærum í orði Guðs.

6. Hvað er nauðsynlegt til að samviskan virki eðlilega?

6 Samviskan, sem við höfum tekið í arf, er mikilvæg þegar við tökum ákvarðanir. Samviskan getur dæmt og hún er fær um að „ásaka“ okkur og jafnvel „afsaka“. (Rómverjabréfið 2:14, 15) En til að samviskan virki eðlilega þurfum við að uppfræða hana með nákvæmri biblíuþekkingu og við þurfum að gera hana næma með því að fara eftir orði Guðs. Staðbundnir siðir og venjur geta auðveldlega haft áhrif á óuppfrædda samvisku. Umhverfi okkar og skoðanir annarra geta sömuleiðis leitt okkur afvega. Hvaða áhrif hefur það á samviskuna ef við hunsum rödd hennar æ ofan í æ og brjótum gegn þeim reglum sem Guð setur? Þá getur hún með tímanum orðið ‚brennimerkt‘ eins og hold sem fær örvef eftir brunasár — hún verður ónæm og tilfinningalaus. (1. Tímóteusarbréf 4:2) Ef við látum orð Guðs móta samviskuna er hún aftur á móti öruggur leiðarvísir.

7. Hvað er nauðsynlegt til að taka viturlegar ákvarðanir?

7 Það er sem sagt nauðsynlegt að hafa nákvæma biblíuþekkingu og vera fær um að heimfæra hana til að geta axlað þá ábyrgð að taka viturlegar ákvarðanir. Við megum ekki taka fljótfærnislegar ákvarðanir heldur verðum við að gefa okkur tíma til að leita uppi meginreglur í Biblíunni og hugleiða síðan vandlega hvernig þær eiga við. Ef við höfum nákvæma þekkingu á orði Guðs og höfum látið hana móta samviskuna erum við vel í stakk búin til að taka ákvarðanir í skyndingu, eins og Sadrak, Mesak og Abed-Negó þurftu að gera. Við skulum kanna hvernig við getum orðið færari í að taka ákvarðanir ef við sækjum fram til þroska og líta í því sambandi á tvö svið lífsins.

Að velja sér félagsskap

8, 9. (a) Hvaða meginreglur sýna fram á að við verðum að forðast vondan félagsskap? (b) Er vondur félagsskapur aðeins fólginn í beinni umgengni við siðspillt fólk? Skýrðu svarið.

8 „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum,“ skrifaði Páll postuli. (1. Korintubréf 15:33) Jesús Kristur sagði við lærisveina sína: „Þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Þegar við lærum þessar meginreglur áttum við okkur fljótt á því að við þurfum að forðast félagsskap við saurlífismenn, þjófa, drykkjumenn og þess háttar. (1. Korintubréf 6:9, 10) En þegar við bætum við biblíuþekkingu okkar gerum við okkur grein fyrir því að það er jafn skaðlegt að „umgangast“ slíkt fólk með því að horfa á það í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum eða á tölvuskjá, eða með því að lesa um það í bókum. Hið sama má segja um félagsskap á spjallrásum Netsins við einstaklinga sem leyna því hverjir þeir eru. — Sálmur 26:4.

9 Hvað um náinn félagsskap við fólk sem lifir að vísu siðsömu lífi en trúir ekki á hinn sanna Guð? „Allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Við áttum okkur á því að fólk þarf ekki að vera siðspillt eða umburðarlynt gagnvart siðspillingu til að vera vondur félagsskapur. Það er því viturlegt af okkur að eiga ekki náin vináttutengsl við aðra en þá sem elska Jehóva.

10. Hvað hjálpar okkur að taka viturlegar ákvarðanir um samskipti við heiminn?

10 Það er hvorki gerlegt né nauðsynlegt að eiga alls engin samskipti við fólk í heiminum. (Jóhannes 17:15) Við þurfum að umgangast heiminn að vissu marki þegar við förum í boðunarstarfið, sækjum skóla eða stundum vinnu. Þjónn Guðs getur þurft að eiga meira samneyti við heiminn en aðrir ef maki hans er ekki í trúnni. En ef við höfum þjálfað skilningarvitin gerum við okkur grein fyrir því að það er eitt að eiga nauðsynleg en þó takmörkuð samskipti við heiminn en allt annað að mynda náin tengsl við hann. (Jakobsbréfið 4:4) Við getum þá tekið þroskaðar ákvarðanir um það hvort við tökum þátt í félagslífi í skólanum, svo sem íþróttaviðburðum eða skólaböllum, eða sækjum samkvæmi með vinnufélögum eða förum út að borða með þeim.

Að velja sér vinnu

11. Hvað þarf fyrst að athuga áður en við ráðum okkur í vinnu?

11 Ef við heimfærum meginreglur Biblíunnar á þroskaðan hátt er auðveldara að ákveða hvernig við rækjum þá skyldu að sjá heimili okkar farborða. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Það fyrsta, sem við þurfum að skoða, er það hvers eðlis vinnan er, það er að segja hvað við þurfum að gera. Það er augljóslega rangt að velja sér vinnu ef hún tengist einhverju sem er beinlínis fordæmt í Biblíunni. Sannkristinn maður myndi ekki ráða sig í vinnu ef hún fæli í sér skurðgoðadýrkun, þjófnað, misnotkun blóðs eða annað sem Biblían bannar. Við myndum ekki heldur ljúga eða svíkja jafnvel þó að vinnuveitandinn krefðist þess. — Postulasagan 15:29; Opinberunarbókin 21:8.

12, 13. Hvað annað en eðli vinnunnar þurfum við að skoða þegar við tökum ákvarðanir varðandi vinnu?

12 Hvað þá ef vinnan sjálf brýtur ekki beinlínis gegn neinum af kröfum Guðs? Þegar við vöxum í þekkingu á sannleikanum og þjálfum skilningarvitin komum við auga á aðra þætti sem taka þarf mið af. Segjum til dæmis að vinnan væri fólgin í því að svara í síma í spilavíti. Myndi hún þá ekki tengja okkur við starfsemi sem Biblían bannar? Eins þarf að taka mið af því hver greiðir launin og hvar vinnan er innt af hendi. Myndi kristinn maður, sem er sjálfstæður verktaki, gera tilboð í að mála eina af kirkjum kristna heimsins og styðja þar með á vissan hátt við fölsk trúarbrögð? — 2. Korintubréf 6:14-16.

13 En segjum sem svo að vinnuveitandi okkar taki að sér það verkefni að mála kirkjubyggingu. Þá þyrftum við meðal annars að hugleiða hve mikla ábyrgð við bærum á verkinu og hve mikinn þátt við þyrftum að taka í því. Og hvað um góð og gild þjónustustörf eins og að bera út póst til allra á einhverju svæði, þar á meðal til staða þar sem óbiblíuleg starfsemi fer fram? Myndi ekki meginreglan í Matteusi 5:45 hafa áhrif á afstöðu okkar? Við megum auðvitað ekki horfa fram hjá þeim áhrifum sem það gæti haft á samvisku okkar að vinna daginn út og daginn inn við þau störf sem um er að ræða. (Hebreabréfið 13:18) Til að axla þá ábyrgð að taka þroskaðar ákvarðanir varðandi vinnu þurfum við að skerpa skilningarvitin og þjálfa samviskuna sem Guð hefur gefið okkur.

„Mundu til hans á öllum þínum vegum“

14. Hvað ættum við að gera þegar við tökum ákvarðanir?

14 Hvað um ákvarðanir okkar á öðrum sviðum, svo sem varðandi menntun eða það hvort við þiggjum ákveðna læknismeðferð eða ekki? Þegar við þurfum að taka ákvörðun verðum við að ganga úr skugga um hvaða meginreglur Biblíunnar eiga við og beita síðan rökhugsuninni til að heimfæra þær. „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit,“ sagði hinn vitri Salómon, konungur Ísraels til forna. „Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — Orðskviðirnir 3:5, 6.

15. Hvað má læra af kristnum mönnum á fyrstu öld um ákvarðanatöku?

15 Ákvarðanir okkar hafa oft áhrif á aðra og við þurfum að taka mið af því. Lítum á kristna menn á fyrstu öld sem dæmi. Flest af ákvæðum Móselaganna um mataræði höfðu verið afnumin. Þeir gátu lagt sér til munns ýmislegt sem hafði verið talið óhreint meðan lögmálið var í gildi, svo framarlega sem það var ekki bannað að öðru leyti. Páll postuli sagði hins vegar um kjöt af dýrum sem höfðu hugsanlega einhver tengsl við musteri þar sem skurðgoð voru dýrkuð: „Ef matur verður bróður mínum til falls, [mun ég] um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.“ (1. Korintubréf 8:11-13) Frumkristnir menn voru hvattir til að taka tillit til samvisku annarra til að hneyksla þá ekki. Ákvarðanir okkar ættu ekki að vera öðrum „til ásteytingar“. — 1. Korintubréf 10:29, 32.

Leitið eftir visku frá Guði

16. Hvernig hjálpar bænin okkur að taka ákvarðanir?

16 Bænin er ómetanleg hjálp til að taka ákvarðanir. Lærisveinninn Jakob segir: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“ (Jakobsbréfið 1:5) Við getum óhikað leitað til Jehóva í bæn og beðið hann að gefa okkur visku til að taka réttar ákvarðanir. Þegar við tölum við hinn sanna Guð um áhyggjur okkar og leitum leiðsagnar hans getur heilagur andi hjálpað okkur að skilja ritningarstaði sem við erum að velta fyrir okkur og rifjað upp fyrir okkur aðra sem okkur gæti hafa yfirsést.

17. Hvernig geta aðrir hjálpað okkur þegar við þurfum að taka ákvörðun?

17 Geta aðrir hjálpað okkur að taka ákvarðanir? Já, Jehóva hefur látið söfnuðinum í té þroskaða einstaklinga. (Efesusbréfið 4:11, 12) Við getum leitað ráða hjá þeim, einkum ef við þurfum að taka alvarlega ákvörðun. Þeir sem hafa djúpan skilning á andlegu málunum og búa yfir mikilli lífsreynslu geta vakið athygli okkar á fleiri meginreglum Guðs sem geta haft áhrif á ákvörðun okkar og hjálpað okkur að ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. (Filippíbréfið 1:9, 10) Rétt er þó að minna á eitt: Við verðum að gæta þess að láta ekki aðra taka ákvarðanir fyrir okkur. Það er ábyrgð sem við verðum sjálf að axla.

Verður árangurinn alltaf góður?

18. Hvað má segja um árangur réttra ákvarðana?

18 Verður árangurinn alltaf góður ef við byggjum ákvarðanir okkar tryggilega á meginreglum Biblíunnar og tökum mið af ábendingum samviskunnar? Já, til langs tíma litið. Hins vegar gætum við orðið fyrir andstreymi fyrst í stað. Sadrak, Mesak og Abed-Negó vissu að sú ákvörðun þeirra að tilbiðja ekki líkneskið mikla gæti kostað þá lífið. (Daníel 3:16-19) Eftir að postularnir sögðu æðstaráði Gyðinga að þeir yrðu að hlýða Guði framar en mönnum voru þeir húðstrýktir áður en þeim var sleppt. (Postulasagan 5:27-29, 40) Auk þess getur „tími og tilviljun“ haft neikvæð áhrif á afleiðingar hvaða ákvörðunar sem er. (Prédikarinn 9:11) Ef við höfum tekið rétta ákvörðun en lendum þrátt fyrir það í einhverjum erfiðleikum megum við treysta að Jehóva hjálpi okkur að þrauka og blessi okkur að lokum. — 2. Korintubréf 4:7.

19. Hvernig getum við axlað þá ábyrgð að taka eigin ákvarðanir?

19 Þegar við tökum ákvarðanir þurfum við sem sagt að leita uppi viðeigandi meginreglur í Biblíunni og hugleiða síðan hvernig þær eigi við. Við megum vera Jehóva innilega þakklát fyrir hjálp heilags anda og fyrir þroskuð trúsystkini sem við eigum að í söfnuðinum. Við skulum nýta okkur þessa leiðsögn og þennan stuðning og hafa kjark til að axla ábyrgð okkar þegar við þurfum að taka ákvarðanir.

Hvað lærðir þú?

• Hvað er nauðsynlegt til að taka viturlegar ákvarðanir?

• Hvaða áhrif hefur aukinn þroski í trúnni á þann félagsskap sem við veljum okkur?

• Nefndu nokkur mikilvæg atriði sem við ættum að hugleiða þegar við tökum ákvarðanir um vinnu.

• Hvaða hjálp getum við fengið þegar við þurfum að taka ákvarðanir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Við getum dregið dýrmætan lærdóm af óhlýðni Adams og Evu.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Leitum uppi viðeigandi meginreglur í Biblíunni áður en við tökum mikilvæga ákvörðun.