Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Vakið“

„Vakið“

„Vakið“

„Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 14:15.

1, 2. (a) Hvað lærum við af frásögunni um Lot? (b) Hvað merkir orðið sem þýtt er „vakið“ í 1. Pétursbréfi 1:13?

ÞEGAR ABRAHAM bauð Lot að velja landsvæði á undan sér, heillaðist Lot af vatnsríku landi sem var „eins og aldingarður Drottins“. Þetta hefur örugglega virst tilvalinn staður fyrir fjölskylduna því að „Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið“ og setti tjöld sín upp nálægt Sódómu. En hið ytra útlit var blekkjandi vegna þess að í grenndinni bjuggu „mennirnir í Sódómu [sem] voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni“. (1. Mósebók 13:7-13) Þegar fram liðu stundir urðu Lot og fjölskylda hans fyrir hræðilegu tjóni og að síðustu þurftu hann og dætur hans að hafast við í helli. (1. Mósebók 19:17, 23-26, 30) Það sem leit svo vel út í byrjun reyndist alls ekki vera gott þegar á reyndi.

2 Þjónar Guðs nú á dögum geta lært mikið af frásögunni um Lot. Þegar við tökum ákvarðanir þurfum við að vera meðvituð um hugsanlegar hættur og gæta þess að láta ekki blekkjast af ytra útliti. Það er því viðeigandi að orð Guðs hvetji okkur til að vaka. (1. Pétursbréf 1:13) Gríska orðið, sem hér er þýtt „vakið“, merkir bókstaflega „að vera algáður“. Biblíufræðingurinn R. C. H. Lenski bendir á að orðið þýði að vera „yfirvegaður í hugsun og vega og meta hluti rétt sem gerir manni kleift að taka réttar ákvarðanir“. Við skulum skoða nokkrar aðstæður þar sem nauðsynlegt er að vaka og vera algáð.

Að vega og meta viðskiptatækifæri

3. Af hverju þurfum við að sýna aðgát ef einhver býður okkur að taka þátt í viðskiptum með sér?

3 Hvað myndirðu gera ef virtur einstaklingur, jafnvel trúbróðir, byði þér að taka þátt í viðskiptum með sér? Ef til vill er hann sannfærður um að viðskiptin eigi eftir að ganga vel og hvetur þig til að taka ákvörðun í flýti svo að þú missir ekki af þessu einstaka tækifæri. Þú sérð kannski fyrir þér að þið fjölskyldan getið lifað betra lífi og hugsar jafnvel sem svo að þetta gefi þér möguleika á að nota meiri tíma fyrir trúna. En í Orðskviðunum 14:15 er að finna þessi varnaðarorð: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ Því fylgir mikil eftirvænting að takast á við ný verkefni og þess vegna hættir fólki oft til þess að horfa fram hjá áhættum eða vanmeta þær. Og kannski er óvissan, sem fylgir því að eiga í fjárhagsviðskiptum, ekki heldur tekin til greina. (Jakobsbréfið 4:13, 14) Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að við séum algáð.

4. Hvernig getum við ‚athugað fótmál okkar‘ þegar við vegum og metum viðskiptatækifæri?

4 Hygginn maður skoðar vandlega öll viðskiptatilboð áður en hann tekur ákvörðun. (Orðskviðirnir 21:5) Þá kemur oft í ljós að ekki er allt sem sýnist. Segjum sem svo að einhver biðji þig að lána sér peninga í tengslum við ákveðna viðskiptahugmynd og lofi þér miklum ágóða. Tilboðið gæti virst freistandi en hver er áhættan? Lofar lántakandinn að endurgreiða fjárhæðina óháð því hvernig viðskiptin fara eða er endurgreiðslan háð því að viðskiptin gangi vel? Gætirðu sem sagt tapað peningunum ef viðskiptin fara í vaskinn? Þú gætir líka spurt: Hvers vegna biður hann um lán frá einstaklingum? Telja bankar þessa hugmynd of áhættusama? Ef þú gefur þér tíma til að hugleiða áhættuna ertu betur í stakk búinn til að vega og meta tilboðið á raunsæjan hátt. — Orðskviðirnir 13:16; 22:3.

5. (a) Hvernig sýndi Jeremía fyrirhyggju þegar hann keypti akur? (b) Af hverju er gott að gera skriflegan samning um öll viðskipti?

5 Þegar spámaðurinn Jeremía keypti akur af frænda sínum, sem var tilbiðjandi Jehóva, gerði hann skriflegan samning um viðskiptin í votta viðurvist. (Jeremía 32:9-12) Skynsamir kristnir menn gæta þess einnig að gera skriflega samninga um öll viðskipti, einnig við ættingja og trúsystkini. * Ef skýr og greinargóður samningur er fyrir hendi getur það komið í veg fyrir misskilning og varðveitt eininguna. Þegar skriflegan samning vantar verður það oft til þess að upp kemur misklíð milli þjóna Jehóva. Því miður geta slík vandamál oft valdið mikilli biturð og leiðindum og jafnvel skaðað trú fólks.

6. Hvers vegna þurfum við að varast græðgi?

6 Við verðum einnig að varast fégirnd. (Lúkas 12:15) Fyrirheit um mikinn gróða getur blindað fólk fyrir hættunni sem fylgir áhættuviðskiptum. Þeir sem hafa sinnt verðmætum þjónustuverkefnum í söfnuðinum hafa jafnvel gengið í þessa gildru. Orð Guðs áminnir okkur: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið.“ (Hebreabréfið 13:5) Þegar kristinn maður skoðar viðskiptatilboð ætti hann að leiða hugann að því hvort það sé virkilega nauðsynlegt fyrir hann að taka þátt í þessum viðskiptum. Ef við lifum einföldu lífi og einbeitum okkur að tilbeiðslunni á Jehóva verndar það okkur fyrir „mörgum harmkvælum“. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-10.

Vandi sem einhleypir standa frammi fyrir

7. (a) Hvaða vanda stendur margt einhleypt fólk frammi fyrir? (b) Hvernig tengist val á maka hollustunni við Guð?

7 Margir þjónar Jehóva vilja gjarnan gifta sig en hafa ekki enn fundið maka við sitt hæfi. Í sumum löndum þrýstir þjóðfélagið mikið á að fólk gifti sig. En möguleikarnir á að finna gott manns- eða konuefni innan safnaðarins geta verið takmarkaðir. (Orðskviðirnir 13:12) Kristnir menn gera sér þó grein fyrir því að þeir sýna Jehóva hollustu með því að fylgja fyrirmælum Biblíunnar um að giftast aðeins „í Drottni“. (1. Korintubréf 7:39) Einhleypt kristið fólk verður að vaka og vera algáð til að sporna gegn þeim þrýstingi og þeim freistingum sem það mætir.

8. Undir hvaða þrýstingi var stúlkan frá Súlem og hvernig gætu kristnar konur staðið frammi fyrir svipuðum vanda?

8 Í Ljóðaljóðunum segir frá fátækri sveitastúlku frá Súlem sem vekur hrifningu konungs. Hann nýtir sér auðlegð sína og stöðu og reynir að ganga í augun á henni þótt hún sé þegar ástfangin af ungum manni. (Ljóðaljóðin 1:9-11; 3:7-10; 6:8-10, 13) Kristnar konur gætu líka fengið athygli frá einhverjum þótt þær kæri sig ekki um það. Kannski fer vinnufélagi, sem er jafnvel í hárri stöðu, að hrósa þér, gera þér greiða og leitast við að verja tíma með þér. Gættu þín á slíku daðri. Þótt ásetningurinn sé ekki alltaf að stofna til nánari kynna er hann það mjög oft. Vertu „múrveggur“ eins og stúlkan frá Súlem. (Ljóðaljóðin 8:4, 10) Hafnaðu staðfastlega öllum slíkum umleitunum. Segðu vinnufélögum strax að þú sért vottur Jehóva og nýttu þér öll tækifæri til að vitna fyrir þeim. Það mun vernda þig.

9. Hvaða hættur eru fólgnar í því að stofna til kynna við ókunnuga á Netinu? (Sjá einnig rammagrein á bls. 16.)

9 Vefsíður, sem eru gerðar til að hjálpa einhleypu fólki að finna sér maka, eru sífellt að verða vinsælli. Sumir líta á þessar síður sem leið til að kynnast fólki sem þeir myndu annars ekki hitta. En það er alvarleg hætta fólgin í því að ana út í samband við ókunnugan. Á Netinu getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er satt og hvað logið. (Sálmur 26:4) Það er ekki víst að allir sem segjast þjóna Jehóva geri það í raun og veru. Auk þess geta fljótt myndast sterk bönd milli þeirra sem kynnast á Netinu og það getur skert dómgreindina. (Orðskviðirnir 28:26) Það er alltaf óviturlegt að stofna til náinna kynna við einhvern sem maður veit mjög lítið um, hvort sem það er í gegnum Netið eða með öðrum hætti. — 1. Korintubréf 15:33.

10. Hvernig er hægt að hvetja og styrkja einhleypa bræður og systur?

10 Jehóva „ber umhyggju“ fyrir þjónum sínum. (1. Pétursbréf 5:7) Hann veit að fólk getur orðið niðurdregið ef það er einhleypt án þess að hafa kosið sér það og hann kann að meta trúfesti þess. En hvernig geta aðrir hughreyst þessa einstaklinga? Við ættum að vera dugleg að hrósa þeim fyrir hlýðni þeirra og fórnfýsi. (Dómarabókin 11:39, 40) Þegar við ákveðum að eiga uppbyggjandi stund með trúsystkinum gætum við boðið þeim að vera með. Hefur þú gert það nýlega? Og umfram allt getum við minnst þeirra í bænum okkar og beðið Jehóva um að hjálpa þeim að vera stöðugir í trúnni og finna gleði í þjónustunni við hann. Einlægur áhugi okkar á þeim er sönnun þess að við metum þá mikils eins og Jehóva gerir. — Sálmur 37:28.

Að takast á við heilsubrest

11. Hvaða erfiðleikar mæta þeim sem glíma við alvarleg veikindi?

11 Það getur fengið mjög á okkur þegar við sjálf eða ástvinur okkar þarf að glíma við alvarleg veikindi. (Jesaja 38:1-3) Að sjálfsögðu reynum við að finna læknismeðferð sem ber árangur en mikilvægt er þó að fylgja meginreglum Biblíunnar. Kristnir menn verða til dæmis að gæta þess að hlýða boði Biblíunnar um að halda sér frá blóði og forðast læknis- og sjúkdómsgreiningaraðferðir sem tengjast spíritisma. (Postulasagan 15:28, 29; Galatabréfið 5:19-21) En fyrir þá sem hafa enga menntun á heilbrigðissviði getur verið mjög flókið og yfirþyrmandi að velja læknismeðferð. Hvað getur hjálpað okkur að vera algáð?

12. Hvernig getur kristinn maður gætt jafnvægis þegar hann tekur ákvörðun um læknismeðferð?

12 „Kænn maður athugar fótmál sín“ með því að leita ráða í Biblíunni og biblíutengdum ritum. (Orðskviðirnir 14:15) Í heimshlutum, þar sem vöntun er á læknum og spítölum, gæti eini möguleikinn verið sá að nýta sér þær læknisaðferðir sem teljast hefðbundnar á þeim slóðum, eins og til dæmis jurtalækningar. Þeir sem íhuga slíka læknismeðferð gætu þurft að hafa eftirfarandi atriði í huga: Er græðarinn þekktur fyrir að stunda spíritisma? Er læknismeðferðin byggð á þeirri trú að veikindi og dauði komi til vegna þess að guðirnir (eða andar forfeðranna) séu móðgaðir eða vegna þess að óvinir leggi álög á okkur? Er stuðst við fórnir, galdraþulur eða aðra spíritíska helgisiði á meðan á meðferðinni stendur eða við undirbúning hennar? (5. Mósebók 18:10-12) Ef við gerum slíka athugun auðveldar það okkur að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar um að ‚prófa allt‘, það er að segja rannsaka það vandlega, og ‚halda því sem gott er‘. * (1. Þessaloníkubréf 5:21) Það hjálpar okkur að gæta jafnvægis.

13, 14. (a) Hvernig getum við sýnt skynsemi í sambandi við heilsufarsmál? (b) Af hverju verðum við að vera skynsöm þegar við ræðum um heilsufarsmál við aðra?

13 Það þarf að sýna skynsemi á öllum sviðum lífsins, líka í sambandi við heilsufarsmál. Ef við gefum hæfilegan gaum að heilsunni sýnir það að við kunnum að meta þá gjöf sem lífið er. Þegar heilsan er slæm þurfum við réttilega að sinna því en við fáum hins vegar ekki fullkomna heilsu fyrr en tími Guðs kemur „til lækningar þjóðunum“. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Við verðum að gæta þess að verða ekki svo upptekin af heilsunni að við hættum að sinna andlegum þörfum okkar. — Matteus 5:3; Filippíbréfið 1:10.

14 Við verðum líka að gæta jafnvægis og sýna skynsemi þegar við ræðum um heilsufarsmál við aðra. Þetta ætti ekki að verða helsta umræðuefni okkar þegar við hittum trúsystkini á safnaðarsamkomum og mótum. Auk þess er ákvörðun um læknismeðferð oft byggð á sambandi fólks við Jehóva, biblíulegum meginreglum og samvisku hvers og eins. Það væri því kærleikslaust að þröngva skoðunum okkar upp á trúsystkini eða hvetja þau til að hunsa sína eigin samvisku. Þótt leita megi ráða hjá þroskuðum trúsystkinum verður hver kristinn maður að „bera sína byrði“ og vera ábyrgur fyrir þeim ákvörðunum sem hann tekur, því að „sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig“. — Galatabréfið 6:5; Rómverjabréfið 14:12, 22, 23.

Þegar við erum undir álagi

15. Hvaða áhrif getur álag haft á okkur?

15 Þegar trúfastir þjónar Jehóva eru undir álagi tala þeir stundum eða hegða sér óviturlega. (Prédikarinn 7:7) Þegar Job varð fyrir miklum raunum missti hann jafnvægið um stund og það þurfti að leiðrétta hugsunarhátt hans. (Jobsbók 35:2, 3; 40:6-8) Þótt Móse hafi verið „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu“ talaði hann eitt sinn í fljótfærni þegar honum var ögrað. (4. Mósebók 12:3; 20:7-12; Sálmur 106:32, 33) Davíð sýndi mikla sjálfstjórn með því að drepa ekki Sál konung en þegar Nabal móðgaði hann og öskraði á menn hans reiddist hann og missti dómgreindina. Hann kom ekki til sjálfs sín fyrr en Abígail greip inn í og forðaði honum frá því að gera hörmuleg mistök. — 1. Samúelsbók 24:2-7; 25:9-13, 32, 33.

16. Hvað getur hjálpað okkur að forðast fljótfærni?

16 Við gætum líka þurft að þola álag og það gæti skert dómgreind okkar. En með því að hugleiða vandlega sjónarmið annarra getum við forðast að syndga í fljótfærni. (Orðskviðirnir 19:2) Orð Guðs hvetur okkur: „Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir.“ (Sálmur 4:5) Ef það er hægt er skynsamlegt að bíða með að grípa til aðgerða eða taka ákvörðun þar til við höfum róað okkur niður. (Orðskviðirnir 14:17, 29) Við getum snúið okkur til Jehóva í einlægri bæn „og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu [okkar] og hugsanir . . . í Kristi Jesú“. (Filippíbréfið 4:6, 7) Sú ró, sem Guð gefur, getur hjálpað okkur að vera yfirveguð og algáð.

17. Hvers vegna verðum við að reiða okkur á Jehóva til að vaka og vera algáð?

17 En öll gerum við mistök þótt við reynum eftir bestu getu að forðast hættur og hegða okkur skynsamlega. (Jakobsbréfið 3:2) Við gætum verið komin á fremsta hlunn með að gera alvarleg mistök án þess að hafa hugmynd um það. (Sálmur 19:13, 14) Auk þess höfum við mennirnir hvorki hæfni né rétt til að stýra skrefum okkar óháð Jehóva. (Jeremía 10:23) „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér,“ segir Jehóva. (Sálmur 32:8) Við erum innilega þakklát fyrir þetta loforð hans. Já, með hjálp Jehóva getum við vakað og verið algáð.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Ítarlegri upplýsingar um skriflega viðskiptasamninga er að finna í Varðturninum 1. apríl 1987, bls. 14-15; Varðturninum á ensku 1. ágúst, 1997, bls. 30-31; og Vaknið! á ensku 8. febrúar 1983, bls. 13-15, gefið út af Vottum Jehóva.

^ gr. 12 Þessar leiðbeiningar geta einnig hjálpað þeim sem íhuga óhefðbundnar lækningar.

Hvert er svarið?

Hvernig getum við vakað og verið algáð

• þegar við vegum og metum viðskiptatilboð?

• þegar við leitum okkur að maka?

• þegar við tökumst á við heilsubrest?

• þegar við erum undir álagi?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 16]

Geturðu treyst þessum vefsíðum?

Eftirfarandi klausur er að finna á vefsíðum fyrir einhleypa.

„Þótt við gerum okkar besta getum við ekki komið í veg fyrir að fólk villi á sér heimildir.“

„Við ábyrgjumst ekki nákvæmni, áreiðanleika eða nytsemi þeirra upplýsinga sem hér koma fram.“

„Ráð, skoðanir, staðhæfingar, tilboð og aðrar upplýsingar eða efni, sem nálgast má á [þessari] síðu, kemur frá notendum . . . og ætti ekki að treysta fyrirvaralaust.“

[Mynd á blaðsíðu 14]

„Kænn maður athugar fótmál sín.“

[Myndir á blaðsíðu 15]

Hvernig geta kristnar konur líkt eftir stúlkunni frá Súlem?

[Mynd á blaðsíðu 17]

„Prófið allt, haldið því, sem gott er.“