Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónum konunginum Kristi af hollustu

Þjónum konunginum Kristi af hollustu

Þjónum konunginum Kristi af hollustu

„Honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ — DANÍEL 7:14.

1, 2. Hvernig vitum við að Kristur tók ekki völd að fullu árið 33?

HVAÐA stjórnandi gat fórnað lífinu fyrir þegna sína en lifnað á ný til að ríkja sem konungur? Hvaða konungur gat búið á jörðinni, vakið traust og hollustu meðal þegna sinna og síðan stjórnað frá himnum? Sá eini sem gat það — og miklu meira — var Jesús Kristur. (Lúkas 1:32, 33) Guð gerði hann „höfuðið yfir“ kristna söfnuðinum á hvítasunnu árið 33 eftir dauða hans, upprisu og uppstigningu til himna. (Efesusbréfið 1:20-22; Postulasagan 2:32-36) Kristur hóf þá að stjórna en aðeins að takmörkuðu leyti. Fyrstu þegnar hans voru andasmurðir kristnir menn sem mynduðu hina andlegu Ísraelsþjóð, „Ísrael Guðs“. — Galatabréfið 6:16; Kólossubréfið 1:13.

2 Næstum 30 árum eftir hvítasunnuna árið 33 staðfesti Páll postuli að Kristur hefði ekki enn tekið völd að fullu: „[Hann] settist um aldur við hægri hönd Guðs og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.“ (Hebreabréfið 10:12, 13) Undir lok fyrstu aldar sá hinn aldraði Jóhannes postuli sýn þar sem Jehóva, alheimsdrottinn, setti Jesú Krist í embætti sem konung hins nýstofnaða himneska ríkis. (Opinberunarbókin 11:15; 12:1-5) Við getum horft um öxl og séð sannanir fyrir því að Kristur hafi byrjað að ríkja sem konungur Messíasarríkisins á himnum árið 1914. *

3. (a) Hvað bættist við fagnaðarerindið um Guðsríki árið 1914? (b) Hvaða spurninga getum við spurt okkur?

3 Frá 1914 hefur því bæst við nýr þáttur í fagnaðarerindið um Guðsríki. Síðan þá hefur Kristur verið stjórnandi Guðsríkis þó að hann sé „mitt á meðal óvina [sinna]“. (Sálmur 110:1, 2; Matteus 24:14; Opinberunarbókin 12:7-12) Hollir þegnar hans um heim allan viðurkenna yfirvald hans heilshugar með því að taka þátt í alþjóðlegu biblíufræðslustarfi sem á sér enga hliðstæðu í sögunni. (Daníel 7:13, 14; Matteus 28:18) Andasmurð „börn ríkisins“ þjóna sem „erindrekar Krists“. Mikill múgur ‚annarra sauða‘ styður þá og þessi hópur starfar sem fulltrúi Guðsríkis. (Matteus 13:38; 2. Korintubréf 5:20; Jóhannes 10:16) En við verðum samt hvert og eitt að grandskoða hvort við viðurkennum yfirráð Krists í raun og veru. Er hollusta okkar við hann óhagganleg? Hvernig getum við sýnt konungi, sem stjórnar frá himnum, tryggð? Við skulum fyrst leiða hugann að því hvaða ástæður við höfum til að sýna Kristi hollustu.

Konungur sem vekur hollustu þegna sinna

4. Hverju áorkaði Jesús sem tilvonandi konungur þegar hann starfaði hér á jörð?

4 Hollusta okkar við Krist byggist á því að við kunnum að meta einstaka eiginleika hans og erum þakklát fyrir það sem hann gerði fyrir okkur. (1. Pétursbréf 1:8) Þegar Jesús var hér á jörð sýndi hann í smáum mæli hvað hann mun gera á heimsvísu sem ríkjandi konungur á tilsettum tíma Guðs. Hann mettaði hungraða. Hann læknaði sjúka, blinda, fatlaða, heyrnarlausa og mállausa. Hann reisti jafnvel látna til lífs á ný. (Matteus 15:30, 31; Lúkas 7:11-16; Jóhannes 6:5-13) Með því að lesa um ævi Jesú hér á jörð kynnumst við eiginleikum framtíðarstjórnanda jarðarinnar, ekki síst fórnfúsum kærleika hans. (Markús 1:40-45) Í tengslum við þetta er haft eftir Napóleon Bonaparte: „Alexander, Sesar, Karlamagnús og ég stofnsettum heimsveldi, en á hverju byggðum við frábæran árangur okkar? Á valdi. Jesús Kristur einn byggði ríki sitt á kærleika, og enn þann dag í dag væru milljónir manna fúsar til að deyja fyrir hann.“

5. Hvers vegna var Jesús svona aðlaðandi persóna?

5 Það var uppörvandi fyrir niðurdregna og þá sem höfðu þungar byrðar að bera að vera í návist Jesú af því að hann var hógvær og af hjarta lítillátur og kennsla hans var uppbyggjandi. (Matteus 11:28-30) Börnum leið vel í návist hans. Hógværir og skynsamir menn vildu óðfúsir gerast lærisveinar hans. (Matteus 4:18-22; Markús 10:13-16) Margar guðhræddar konur sýndu Jesú hollustu, ekki síst vegna þess að hann var hugulsamur og kurteis í framkomu. Þær studdu hann í boðunarstarfinu með því að gefa fúslega af tíma sínum, kröftum og efnislegum eigum. — Lúkas 8:1-3.

6. Hvaða tilfinningar lét Jesús í ljós þegar Lasarus dó?

6 Kristur lét í ljós sínar dýpstu tilfinningar þegar Lasarus vinur hans dó. Angist Maríu og Mörtu hreyfði svo sterkt við honum að hann gat ekki leynt hryggð sinni og grét. Hann „varð hrærður mjög“ — fann fyrir trega og sorg — þó að hann vissi að bráðlega myndi hann vekja Lasarus upp frá dauðum. Jesús sýndi kærleika sinn og umhyggju með því að nota kraftinn sem hann fékk frá Guði til að vekja Lasarus aftur upp til lífs. — Jóhannes 11:11-15, 33-35, 38-44.

7. Hvers vegna verðskuldar Jesús hollustu okkar? (Sjá ramma á bls. 22.)

7 Réttlætisást Jesú og andstyggð hans á hræsni og illsku vekur aðdáun okkar. Hann tók tvisvar sinnum til hendinni í musterinu og hreinsaði það af ágjörnum kaupmönnum. (Matteus 21:12, 13; Jóhannes 2:14-17) Auk þess varð hann fyrir alls konar mótlæti þegar hann var hér á jörðinni sem maður og það veitti honum innsýn í þau vandamál og þá erfiðleika sem við verðum fyrir. (Hebreabréfið 5:7-9) Jesús vissi líka hvernig það var að verða fyrir hatri og óréttlæti. (Jóhannes 5:15-18; 11:53, 54; 18:38–19:16) Að lokum sýndi hann það hugrekki að deyja kvalafullum dauða til að gera vilja föður síns og veita þegnum sínum eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Vekja þessir eiginleikar Krists ekki hjá þér löngun til að halda áfram að þjóna honum af hollustu? (Hebreabréfið 13:8; Opinberunarbókin 5:6-10) En hvers er krafist af þegnum konungsins Krists?

Hver fær að vera þegn hans?

8. Hvers er krafist af þegnum Krists?

8 Til að verða ríkisborgari annars lands þarf yfirleitt að uppfylla ákveðnar grundvallarkröfur. Væntanlegur ríkisborgari þarf að hafa gott mannorð og standast ákveðnar heilsufarskröfur. Á sama hátt þurfa þegnar Krists að hafa gott siðferði og vera heilbrigðir í trúnni. — 1. Korintubréf 6:9-11; Galatabréfið 5:19-23.

9. Hvernig getum við sýnt Kristi hollustu?

9 Jesús Kristur krefst þess réttilega að þegnar hans séu hollir honum og ríki hans. Þeir sýna þessa hollustu með því að lifa í samræmi við það sem hann kenndi þegar hann var hér á jörð. Þeir taka hagsmuni Guðsríkis og vilja Guðs fram yfir efnisleg gæði. (Matteus 6:31-34) Þeir leggja sig einlæglega fram um að endurspegla eiginleika Krists, líka undir erfiðum kringumstæðum. (1. Pétursbréf 2:21-23) Þegnar Krists fara að fordæmi hans og eiga frumkvæðið að því að gera öðrum gott. — Matteus 7:12; Jóhannes 13:3-17.

10. Hvernig getum við sýnt Kristi hollustu (a) innan fjölskyldunnar og (b) innan safnaðarins?

10 Fylgjendur Jesú sýna honum líka hollustu með því að líkja eftir eiginleikum hans innan fjölskyldunnar. Til dæmis sýna eiginmenn Kristi hollustu með því að líkja eftir honum í framkomu sinni við konu og börn. (Efesusbréfið 5:25, 28-30; 6:4; 1. Pétursbréf 3:7) Eiginkonur sýna Kristi hollustu með hreinu líferni og með ‚hógværð og kyrrlátum anda‘. (1. Pétursbréf 3:1-4; Efesusbréfið 5:22-24) Börn sýna Kristi hollustu þegar þau fylgja fordæmi hans og hlýða foreldrum sínum. Sem barn var Jesús undirgefinn foreldrum sínum þó að þeir væru ófullkomnir. (Lúkas 2:51, 52; Efesusbréfið 6:1) Þegnar hans leggja sig fram um að líkja eftir honum með því að vera „hluttekningarsamir, bróðurelskir [og] miskunnsamir“. Þeir kappkosta að vera auðmjúkir og gjalda ekki „illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli“. — 1. Pétursbréf 3:8, 9; 1. Korintubréf 11:1.

Löghlýðnir þegnar

11. Hvaða lögmáli lúta þegnar Krists?

11 Þegnar Krists lúta lögmáli hans með því að lifa í samræmi við það sem hann kenndi og boðaði, líkt og þeir sem sækja um ríkisborgararétt í nýju landi hlýða lögum þess. (Galatabréfið 6:2) Þeir hlýða einkum ‚hinu konunglega boðorði‘ kærleikans. (Jakobsbréfið 2:8) En hvað felur lögmál Krists í sér?

12, 13. Hvernig hlýðum við lögmáli Krists?

12 Þegnar Krists eru ekki lausir við ófullkomleika og veikleika. (Rómverjabréfið 3:23) Þeir verða því að temja sér „hræsnislausa bróðurelsku“ og elska „hver annan af heilu hjarta“. (1. Pétursbréf 1:22) „Ef einhver hefur sök á hendur öðrum“ hlýða kristnir menn lögmáli Krists með því að ‚umbera hver annan og fyrirgefa hver öðrum‘. Að hlýða þessu boði hjálpar þeim að horfa fram hjá göllum annarra og koma auga á ástæður til að elska hver annan. Kunnum við að meta það að mega vera meðal þeirra sem íklæðast elskunni, ‚bandi algjörleikans‘, og eru undirgefnir konunginum Kristi? — Kólossubréfið 3:13, 14.

13 Enn fremur útskýrði Jesús að kærleikurinn, sem hann sýndi, næði lengra en kærleikur milli manna almennt. (Jóhannes 13:34, 35) Ef við elskum bara þá sem elska okkur er það ekki neitt sérstakt afrek í sjálfu sér. Þá væri kærleikur okkar takmarkaður og ófullkominn. Jesús hvatti okkur til að líkja eftir kærleika föður síns með því að sýna kærleika byggðan á meginreglu, jafnvel gagnvart óvinum sem hata okkur og ofsækja. (Matteus 5:46-48) Þessi kærleikur fær þegna ríkisins líka til að halda aðalstarfi sínu áfram og sinna því dyggilega. Hvaða starf er það?

Hollustan reynd

14. Hvers vegna er boðunarstarfið afar mikilvægt?

14 Þegnar Guðsríkis sinna nú því áríðandi starfi að ‚vitna um Guðs ríki‘. (Postulasagan 28:23) Þetta er mjög mikilvægt starf því að ríki Messíasar mun upphefja alheimsdrottinvald Jehóva. (1. Korintubréf 15:24-28) Þegar við boðum fagnaðarerindið fá þeir sem heyra það tækifæri til að verða þegnar Guðsríkis. Auk þess eru viðbrögð fólks við boðskapnum mælikvarði sem Kristur getur notað til að dæma mannkynið eftir. (Matteus 24:14; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Ein helsta leiðin til að sýna Kristi hollustu er sú að hlýða boði hans um að segja öðrum frá ríkinu. — Matteus 28:18-20.

15. Hvers vegna reynir á hollustu kristinna manna?

15 Satan vinnur auðvitað á móti boðunarstarfinu á allan mögulegan hátt og mennskir valdhafar viðurkenna ekki vald Krists sem Guð hefur gefið honum. (Sálmur 2:1-3, 6-8) Jesús aðvaraði þess vegna lærisveinana: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Fylgjendur Krists eru því þátttakendur í andlegum hernaði sem reynir á hollustu þeirra. — 2. Korintubréf 10:3-5; Efesusbréfið 6:10-12.

16. Hvernig gjalda þegnar Guðsríkis „Guði það, sem Guðs er“?

16 En þegnar Guðsríkis sýna ósýnilegum konungi sínum hollustu án þess að vanvirða mennsk yfirvöld. (Títusarbréfið 3:1, 2) Jesús sagði: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Markús 12:13-17) Þegnar Krists hlýða þess vegna landslögum sem stangast ekki á við lög Guðs. (Rómverjabréfið 13:1-7) En þegar æðstaráð Gyðinga hunsaði lög Guðs með því að banna lærisveinum Jesú að prédika sögðu þeir ákveðið en virðulega: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum“ — Postulasagan 1:8; 5:27-32.

17. Hvers vegna getum við verið hugrökk í prófraunum?

17 Það kostar þegna Krists að sjálfsögðu hugrekki að sýna honum hollustu þegar þeir eru ofsóttir. Engu að síður sagði Jesús: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:11, 12) Fylgjendur Krists á fyrstu öld fundu sannarlega fyrir þessu. Jafnvel þegar þeir voru hýddir fyrir að halda áfram að prédika glöddust þeir „yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú. Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:41, 42) Þú átt hrós skilið fyrir að sýna þessa sömu hollustu þegar þú verður fyrir erfiðleikum, veikindum, ástvinamissi eða andstöðu. — Rómverjabréfið 5:3-5; Hebreabréfið 13:6.

18. Hvað má ráða af orðum Jesú við Pontíus Pílatus?

18 Jesús var ekki búinn að taka við konungdómi þegar hann sagði við rómverska landstjórann Pontíus Pílatus: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Þegnar þessa himneska ríkis grípa þess vegna ekki til vopna né taka afstöðu í átökum manna. Þeir sýna Friðarhöfðingjanum hollustu og eru algerlega hlutlausir í málefnum þessa sundraða heims. — Jesaja 2:2-4; 9:6, 7.

Hollir þegnar hljóta eilíf laun

19. Hvers vegna geta þegnar Krists horft öruggir til framtíðar?

19 Hollir þegnar Krists, sem er „konungur konunga“, horfa öruggir til framtíðarinnar. Þeir bíða þess með óþreyju að sjá hann beita ofurmannlegum mætti sínum sem hann gerir von bráðar. (Opinberunarbókin 19:11–20:3; Matteus 24:30) Þeir sem eftir eru af drottinhollum ‚börnum ríkisins‘, hinum andasmurðu, horfa fram til þess að hljóta þá dýrmætu arfleifð að verða konungar með Kristi á himnum. (Matteus 13:38; Lúkas 12:32) Drottinhollir ‚aðrir sauðir‘ hlakka til að heyra konunginn lýsa yfir velþóknun sinni og segja: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið [í paradís á jörð], sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ (Jóhannes 10:16; Matteus 25:34) Allir þegnar ríkisins ættu þess vegna að vera staðráðnir í því að halda áfram að þjóna konunginum Kristi af hollustu.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sjá bókina Reasoning From the Scriptures, bls. 95-97, gefin út af Vottum Jehóva.

Getur þú útskýrt?

• Hvers vegna verðskuldar Kristur hollustu okkar?

• Hvernig sýna þegnar Krists honum hollustu sína?

• Hvers vegna viljum við sýna konunginum Kristi hollustu?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 22]

FLEIRI EINSTAKIR EIGINLEIKAR KRISTS

Óhlutdrægni — Jóhannes 4:7-30.

Umhyggja — Matteus 9:35-38; 12:18-21; Markús 6:30-34.

Fórnfús kærleikur — Jóhannes 13:1; 15:12-15.

Hollusta — Matteus 4:1-11; 28:20; Markús 11:15-18.

Hluttekning — Markús 7:32-35; Lúkas 7:11-15; Hebreabréfið 4:15, 16.

Sanngirni — Matteus 15:21-28.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Með því að sýna öðrum kærleika lútum við lögmáli Krists.

[Myndir á blaðsíðu 22]

Vekja eiginleikar Krists löngun hjá þér til að þjóna honum af hollustu?