Hirðar sem eru „fyrirmynd hjarðarinnar“
Hirðar sem eru „fyrirmynd hjarðarinnar“
„Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður . . . af fúsu geði . . . af áhuga . . . [verið] fyrirmynd hjarðarinnar.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:2, 3.
1, 2. (a) Hvaða verkefni fól Jesús Pétri postula og af hverju er ljóst að hann var traustsins verður? (b) Hvernig lítur Jehóva á hirða safnaðarins?
PÉTUR og sex aðrir lærisveinar voru staddir á strönd Galíleuvatns einhvern tíma fyrir hvítasunnu árið 33. Þeir voru að snæða morgunverð sem Jesús hafði eldað handa þeim. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Pétur sá Jesú upprisinn og hann var eflaust himinlifandi að vita að Jesús skyldi vera á lífi. En ef til vill var hann eilítið kvíðinn. Það voru ekki liðnir nema fáeinir dagar síðan hann hafði neitað því í heyranda hljóði að hafa nokkurn tíma þekkt Jesú. (Lúkas 22:55-60; 24:34; Jóhannes 18:25-27; 21:1-14) Snupraði Jesús hinn iðrandi Pétur fyrir að skorta trú? Nei, í staðinn fól hann honum það verkefni að gæta sauða sinna og næra þá. (Jóhannes 21:15-17) Ljóst er af sögu kristna safnaðarins á fyrstu öld að Jesús hafði fulla ástæðu til að treysta Pétri fyrir þessu verkefni. Í félagi við hina postulana og öldungana í Jerúsalem gætti Pétur kristna safnaðarins á meðan miklar prófraunir gengu yfir og söfnuðurinn var í hröðum vexti. — Postulasagan 1:15-26; 2:14; 15:6-9.
2 Jehóva hefur skipað hæfa karlmenn fyrir milligöngu Jesú til að gæta hjarðarinnar nú á dögum og leiða sauði sína gegnum mestu erfiðleikatíma mannkynssögunnar. (Efesusbréfið 4:11, 12; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Hafa þeir reynst traustsins verðir? Um allan heim er að finna friðsamt kristið bræðralag sem sannar að svo er. Þessir hirðar eru auðvitað skeikulir menn eins og Pétur. (Galatabréfið 2:11-14; Jakobsbréfið 3:2) Jehóva treystir þeim engu að síður til að gæta sauðanna sem hann keypti með blóði sonar síns. (Postulasagan 20:28) Honum þykir ákaflega vænt um þá og segir að þeir skuli „hafðir í tvöföldum metum“. — 1. Tímóteusarbréf 5:17.
3. Hvernig varðveita hirðar hjarðarinnar fúsleika og áhuga?
3 Hvernig varðveita hirðar hjarðarinnar fúsleika og áhuga þannig að þeir séu söfnuðinum til fyrirmyndar? Rétt eins og Pétur og aðrir hirðar fyrstu aldar reiða þeir sig á heilagan anda Guðs sem gefur þeim þann styrk sem þeir þurfa til að rísa undir ábyrgðinni. (2. Korintubréf 4:7) Heilagur andi kallar fram í fari þeirra ávöxt andans — kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Við skulum nú kanna hvernig hirðar hjarðar Guðs geta sýnt þennan ávöxt í hjarðgæslunni og þannig verið öðrum til fyrirmyndar.
Þeir elska bæði hjörðina sem heild og einstaklingana
4, 5. (a) Hvernig sýna Jehóva og Jesús kærleika sinn til hjarðarinnar? (b) Nefndu dæmi um hvernig hirðar hjarðarinnar sýna kærleika sinn.
4 Kærleikurinn er fremstur þeirra eiginleika sem andi Guðs kallar fram. Jehóva sýnir hjörðinni í heild kærleika sinn með því að Jesaja 65:13, 14; Matteus 24:45-47) En hann lætur sér ekki nægja einungis að næra hjörðina heldur er honum líka innilega annt um hvern einstakan sauð. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Jesús elskar hjörðina sömuleiðis. Hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir hana og hann þekkir hvern sauð „með nafni“. — Jóhannes 10:3, 14-16.
láta henni í té meira en nóg af andlegri fæðu. (5 Hirðar hjarðarinnar líkja eftir Jehóva og Jesú. Þeir sýna hjörð Guðs í heild kærleika sinn með því að leggja sig kostgæfilega fram við að kenna söfnuðinum. Biblíufræðsla þeirra á sinn þátt í því að næra og vernda hjörðina og dugnaður þeirra á þessum vettvangi er öllum augljós. (1. Tímóteusarbréf 4:13, 16) Það ber ekki eins mikið á þeirri vinnu sem fer í að halda utan um skjöl safnaðarins, annast bréfaskriftir, semja dagskrár og sinna öllu mögulegu öðru sem er nauðsynlegt til að safnaðarsamkomur og annað safnaðarstarf „fari sómasamlega fram og með reglu“. (1. Korintubréf 14:40) Þessi vinna er ekki unnin fyrir allra augum og safnaðarmenn vita oft lítið af henni. Þetta er engu að síður kærleiksrík þjónusta. — Galatabréfið 5:13.
6, 7. (a) Hvernig geta hirðar hjarðarinnar kynnst sauðunum betur? (b) Af hverju er stundum gott að segja öldungi frá gleði sinni eða sorgum?
6 Kærleiksríkir hirðar hjarðarinnar leggja sig fram um að sýna hverjum safnaðarmanni umhyggju. (Filippíbréfið 2:4) Til að kynnast einstökum safnaðarmönnum betur er gott fyrir hirða hjarðarinnar að starfa með þeim að boðun fagnaðarerindisins meðal almennings. Jesús tók fylgjendur sína oft með sér í boðunarstarfið og notaði þá tækifærið til að hvetja þá. (Lúkas 8:1) Reyndur hirðir í söfnuðinum segir: „Mín reynsla er sú að einhver besta leiðin til að kynnast og hvetja bróður eða systur sé að fara með þeim í boðunarstarfið.“ Ef þú hefur ekki haft tækifæri nýlega til að fara með einhverjum af öldungunum í boðunarstarfið væri kannski þjóðráð að gera það sem fyrst.
7 Jesús tók þátt í gleði og sorgum fylgjenda sinna af því að hann elskaði þá. Hann gladdist þegar lærisveinarnir 70 komu fagnandi úr boðunarferð. (Lúkas 10:17-21) Hann „grét“ hins vegar þegar hann sá hvaða áhrif það hafði á Maríu, fjölskyldu hennar og vini að missa Lasarus. (Jóhannes 11:33-35) Umhyggjusömum hirðum stendur ekki heldur á sama um líðan sauðanna. Þeir ‚fagna með fagnendum og gráta með grátendum‘ af því að þeim þykir vænt um söfnuðinn. (Rómverjabréfið 12:15) Vertu ófeiminn að deila gleði þinni og sorgum með hirðum hjarðarinnar. Það er hvetjandi fyrir þá að gleðjast með þér. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Og þeir geta hugreyst þig og uppörvað ef þú segir þeim frá sorgum þínum. — 1. Þessaloníkubréf 1:6; 3:1-3.
8, 9. (a) Lýstu hvernig öldungur nokkur sýndi eiginkonunni að hann elskaði hana. (b) Hve mikilvægt er að öldungur sýni fjölskyldu sinni kærleika?
8 Umhyggjusamur hirðir annast fjölskyldu sína vel og það vitnar um kærleika hans fyrir hjörðinni. (1. Tímóteusarbréf 3:1, 4) Giftur öldungur elskar og virðir eiginkonu sína og er þannig öðrum eiginmönnum góð fyrirmynd. (Efesusbréfið 5:25; 1. Pétursbréf 3:7) Linda er ekkja en eiginmaður hennar þjónaði sem umsjónarmaður í meira en 20 ár. Hún segir: „Maðurinn minn var alltaf önnum kafinn við að annast söfnuðinn. En hann sá til þess að mér fannst ég alltaf eiga þátt í því með honum. Hann þakkað mér oft fyrir að styðja við bakið á sér og hann notaði þær stundir, sem hann átti aflögu, með mér. Ég fann að hann elskaði mig og ég var aldrei afbrýðisöm þó að hann notaði drjúgan tíma til að sinna safnaðarmálum.“
9 Ef safnaðaröldungur á börn setur hann öðrum foreldrum fordæmi með því að aga börnin sín ástúðlega og hrósa þeim oft. (Efesusbréfið 6:4) Kærleikur hans til fjölskyldu sinnar er reyndar stöðugur vitnisburður um að hann sé verður þess trausts sem honum var sýnt þegar heilagur andi skipaði hann til starfa. — 1. Tímóteusarbréf 3:4, 5.
Tjáskipti stuðla að gleði og friði
10. (a) Hvað getur haft neikvæð áhrif á gleði og frið safnaðarins? (b) Hvaða deila ógnaði friði safnaðarins á fyrstu öld og hvernig var málið leyst?
10 Heilagur andi getur vakið gleði og frið í hjarta einstaklings, í heilu öldungaráði og í söfnuðinum öllum. Það getur hins vegar haft neikvæð áhrif á gleðina og friðinn ef menn skiptast ekki hreinskilnislega á skoðunum. „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin,“ sagði Salómon forðum daga. (Orðskviðirnir 15:22) Einlæg og háttvís skoðanaskipti stuðla aftur á móti að gleði og friði. Tökum dæmi. Þegar umskurnardeilan ógnaði friði safnaðarins á fyrstu öld leitaði hið stjórnandi ráð í Jerúsalem leiðsagnar heilags anda. Ráðsöldungarnir skiptust einnig á skoðunum. Eftir langar og fjörugar umræður komust þeir að einróma niðurstöðu. Þeir skýrðu söfnuðunum frá niðurstöðunni og bræðurnir „urðu . . . glaðir yfir þessari uppörvun“. (Postulasagan 15:6-23, 25, 31; 16:4, 5) Þannig varðveittu þeir friðinn og gleðina.
11. Hvernig geta öldungar stuðlað að gleði og friði safnaðarins?
11 Umsjónarmenn stuðla sömuleiðis að gleði og friði í söfnuðinum með því að tjá sig og hlusta. Þegar einhver vandamál ógna friði safnaðarins hittast þeir og tjá skoðanir sínar óhikað og hlusta háttvíslega hver á annan. (Orðskviðirnir 13:10; 18:13) Þeir biðja um hjálp heilags anda og byggja svo ákvarðanir sínar á meginreglum Biblíunnar og leiðbeiningum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gefið út. (Matteus 24:45-47; 1. Korintubréf 4:6) Eftir að öldungaráðið hefur tekið ákvörðun í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar lúta allir öldungarnir leiðsögn heilags anda með því að styðja ákvörðun meirihlutans, jafnvel þó að meirihlutinn hafi ekki fallist á skoðun þeirra í málinu. Slík hógværð stuðlar að gleði og friði og er sauðunum góð fyrirmynd um það hvernig eigi að ganga með Guði. (Míka 6:8) Sýnir þú þá hógværð að styðja ákvarðanir öldunganna sem eru byggðar á Biblíunni?
Verið góðviljaðir og langlyndir
12. Af hverju þurfti Jesús að vera góðviljaður og langlyndur í samskiptum við postulana?
12 Jesús var góðviljaður og langlyndur í samskiptum við postulana þótt þeir misstigju sig aftur og aftur. Svo dæmi sé tekið margítrekaði hann við þá að þeir þyrftu að vera hógværir og auðmjúkir. (Matteus 18:1-4; 20:25-27) Engu að síður fóru þeir að „metast um, hver þeirra væri talinn mestur“ kvöldið áður en hann var tekinn af lífi, og var hann þó nýbúinn að þvo fætur þeirra til að sýna þeim í verki hvað auðmýkt snerist um. (Lúkas 22:24; Jóhannes 13:1-5) Ávítaði hann postulana? Nei, hann rökræddi við þá í vinsamlegum tón og spurði: „Hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.“ (Lúkas 22:27) Góðvild Jesú, langlyndi og gott fordæmi náði að snerta hjörtu postulanna að lokum.
13, 14. Hvenær þurfa umsjónarmenn að gæta þess sérstaklega að vera góðviljaðir?
13 Hirðir hjarðarinnar getur sömuleiðis þurft að leiðbeina safnaðarmanni æ ofan í æ út af ákveðnum veikleika. Umsjónarmaðurinn gæti orðið pirraður út í einstaklinginn. Hann er hins vegar minnugur þess að hann er sjálfur ófullkominn og þess vegna er hann góðviljaður og langlyndur þegar hann áminnir bróður sinn. Þannig líkir hann eftir Jesú og Jehóva sem eru góðviljaðir og langlyndir við alla kristna menn, þeirra á meðal umsjónarmenn. — 1. Þessaloníkubréf 5:14; Jakobsbréfið 2:13.
14 Stundum þurfa umsjónarmenn að gefa beinskeytt ráð ef einhver hefur drýgt alvarlega synd. Ef syndarinn iðrast ekki verða öldungarnir að víkja honum úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:11-13) Þeir sýna engu að síður með framkomu sinni við hann að það er syndin sem þeir hata en ekki syndarinn. (Júdasarbréfið 23) Góðvild umsjónarmannanna getur auðveldað villuráfandi sauð að snúa aftur inn í sauðabyrgið síðar. — Lúkas 15:11-24.
Góð verk eru sprottin af trú
15. Nefndu dæmi um hvernig hirðar hjarðarinnar endurspegla gæsku Guðs og af hvaða hvötum þeir gera það.
15 „Drottinn er öllum góður,“ jafnvel þeim sem kunna ekki að meta það sem hann gerir fyrir þá. (Sálmur 145:9; Matteus 5:45) Gæska Jehóva birtist ekki síst í því að hann skuli senda þjóna sína út til að prédika fagnaðarerindið um ríkið. (Matteus 24:14) Hirðar hjarðarinnar endurspegla gæsku Guðs með því að taka forystuna í boðunarstarfinu. Þeir leggja sig ötullega fram af því að þeir hafa sterka trú á Jehóva og fyrirheit hans. — Rómverjabréfið 10:10, 13, 14.
16. Hvernig geta hirðar hjarðarinnar gert sauðunum gott?
Galatabréfið 6:10) Uppörvandi hirðisheimsóknir eru ein leið til þess. „Ég hef ánægju af því að fara í hirðisheimsóknir,“ segir öldungur. „Þá fæ ég tækifæri til að hrósa bræðrum og systrum fyrir það sem þau gera og minna þau á að erfiði þeirra er mikils metið.“ Af og til benda hirðar trúsystkinum sínum á hvernig þeir geti tekið framförum í þjónustunni við Jehóva. Þegar þeir gera það er viturlegt af þeim að líkja eftir Páli postula. Hann höfðaði til bræðranna í Þessaloníku og sagði: „Vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður.“ (2. Þessaloníkubréf 3:4) Með því að sýna sauðunum slíkt traust höfða umsjónarmennirnir til hins besta í fari þeirra og auðvelda þeim að hlýða þeim sem fara með forystuna. (Hebreabréfið 13:17) Væri ekki gott að tjá þakklæti sitt þegar öldungar koma í hirðisheimsókn til að hvetja þig og uppörva?
16 Hirðar hjarðarinnar eiga ekki aðeins að „gjöra öllum gott“ með því að boða fagnaðarerindið heldur ber þeim sérstaklega skylda til að gera „trúbræðrum“ sínum gott. (Hógværð útheimtir sjálfstjórn
17. Hvaða lexíu lærði Pétur af Jesú?
17 Jesús var hógvær og mildur í viðmóti, jafnvel þegar honum var ögrað. (Matteus 11:29) Hann sýndi af sér hógværð og mikla sjálfstjórn þegar hann var svikinn og handtekinn. Pétur var hvatvís og dró upp sverð til að verjast en Jesús spurði hann: „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?“ (Matteus 26:51-53; Jóhannes 18:10) Pétur lærði sína lexíu og sagði síðar í bréfi til trúsystkina sinna: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. . . . Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið.“ — 1. Pétursbréf 2:21-23.
18, 19. (a) Undir hvaða kringumstæðum reynir sértaklega á hógværð og sjálfstjórn öldunganna? (b) Um hvaða spurningar verður fjallað næst?
18 Hirðar hjarðarinnar þurfa sömuleiðis að vera hógværir til að starf þeirra skili sem bestum árangri. Þetta á líka við þegar aðrir eru ósanngjarnir við þá. Sumir í söfnuðinum bregðast kannski illa við þegar reynt er að hjálpa þeim. Ef þeir eru veikburða í trúnni gætu hugsunarlaus orð þeirra verið eins og „spjótsstungur“. (Orðskviðirnir 12:18) Hirðar hjarðarinnar líkja eftir Jesú og gjalda ekki í sömu mynt með meiðandi orðum. Þeir reyna ekki að koma fram hefndum heldur sýna sjálfstjórn og samkennd. Það getur orðið þeim sem eru hjálparþurfi til blessunar. (1. Pétursbréf 3:8, 9) Lærir þú af fordæmi öldunganna og sýnirðu hógværð og sjálfstjórn þegar þér eru gefin góð ráð?
19 Það leikur enginn vafi á að Jehóva og Jesús meta mikils elju og dugnað þeirra þúsunda hirða um heim allan sem gæta hjarðarinnar af fúsu geði. Jehóva og syni hans þykir líka innilega vænt um alla safnaðarþjónana sem styðja öldungana í þjónustu þeirra við hina heilögu. (Hebreabréfið 6:10) Hvers vegna ætli sumir skírðir bræður hiki þá við að sækjast eftir þessu ‚fagra hlutverki‘? (1. Tímóteusarbréf 3:1) Og hvernig kennir og leiðbeinir Jehóva þeim sem hann útnefnir til hirðastarfa? Við fjöllum um þessar spurningar í næstu grein.
Manstu?
• Hvernig geta hirðar sýnt hjörðinni kærleika sinn?
• Hvernig geta allir í söfnuðinum stuðlað að gleði og friði?
• Af hverju eru hirðar hjarðarinnar langlyndir og góðviljaðir þegar þeir vanda um og leiðbeina?
• Hvernig sýna öldungarnir gæsku og trú?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Öldungar þjóna söfnuðinum af kærleika.
[Myndir á blaðsíðu 9]
Þeir verja einnig tíma með fjölskyldunni við afþreyingu . . .
. . . og boðunarstarf.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Góð tjáskipti milli öldunganna stuðla að gleði og friði safnaðarins.