Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að finna sanna þekkingu

Að finna sanna þekkingu

Að finna sanna þekkingu

ÞAÐ gerðist 18. desember árið 1810. Nóttin var að skella á. Freigáta breska sjóhersins, HMS Pallas, hafði misst stefnuna í haugasjó einhvers staðar úti fyrir suðausturströnd Skotlands. Svartamyrkur og kafaldsbylur gerði skipverjum sífellt erfiðara fyrir að staðsetja nauðsynleg ljósmerki til að geta siglt skipinu í var. Hægt er að ímynda sér hvað þeim létti þegar þeir sáu loksins ljós og stefndu þangað skipi sínu. Því miður voru þetta ekki leiðarljós sem urðu þeim að gagni. Þetta reyndust vera eldar sem verkamenn voru að brenna nálægt ströndinni. Pallas rak upp í klettana og brotnaði í spón! Ellefu sjómenn fórust. Þetta var mikill harmleikur.

Mistök leiddu til þess að Pallas lenti í þessum hörmungum. Stundum lentu sjómenn í enn meiri hættu — villuljósum. Slíkum ljósum var komið fyrir af ásettu ráði til að tæla skip upp að klettóttri strönd svo að hægt yrði að ræna skipsflakið, samkvæmt því sem segir í bókinni Wrecks, Wreckers and Rescuers.

‚Heilagar ritningar geta veitt sáluhjálp‘

Í leitinni að upplýsingu og þekkingu lendir þú í svipaðri hættu og þessir sjómenn lentu í. Þú gætir farið eftir villandi upplýsingum eða orðið fórnarlamb úthugsaðra svikabragða. Hvort tveggja gæti leitt til ógæfu. Hvað geturðu gert til að vernda þig? Vertu viss um að heimildirnar séu ósviknar og áreiðanlegar. Í yfir 125 ár hafa talsmenn þessa rits haldið því fram að innblásið orð Guðs, Biblían, sé áreiðanlegasta uppspretta þekkingar og upplýsingar sem til er. Ástæðan er sú að „heilagar ritningar geta veitt þér speki til sáluhjálpar“. — 2. Tímóteusarbréf 3:15-17.

Til að hægt sé að treysta því að Biblían sé öruggt leiðarljós er auðvitað skynsamlegt að ganga úr skugga um hvort hún sé áreiðanleg. (Sálmur 119:105; Orðskviðirnir 14:15) Þú getur skrifað til útgefenda þessa rits til að fá upplýsingar sem hafa hjálpað fjölda manns að sannfærast um að Biblían sé innblásið orð Guðs. Lestu til dæmis bæklinginn „Bók fyrir alla menn“. * Þar eru veittar upplýsingar sem sýna að Biblían er nákvæm, áreiðanleg og innblásin.

Grundvallarsannindi

Hver eru þá nokkur af grundvallarsannindum „heilagrar ritningar“? Hugum að nokkrum þeirra.

Það er aðeins einn almáttugur Guð og skapari sem skapaði alla hluti. (1. Mósebók 1:1) Við erum til „því að [Guð] hefur skapað alla hluti“ og gefið okkur lífið. (Opinberunarbókin 4:11) Það er ástæðan fyrir því að hann einn verðskuldar tilbeiðslu okkar. Skaparinn er æðsta uppspretta allrar upplýsingar og þekkingar. (Sálmur 36:10; Jesaja 30:20, 21; 48:17, 18) Hann á sér nafn sem hann vill að við notum. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Þetta nafn, sem er ritað með hebresku letri og umritað JHVH, kemur um 7000 sinnum fyrir í Biblíunni. Myndin „Jehóva“ hefur verið þekkt um langan aldur í íslensku. — 1. Mósebók 2:4, neðanmáls, Biblían 1859.

Guð skapaði karla og konur til að lifa að eilífu í paradís á jörð. Hann gaf mönnunum andlega eiginleika sem endurspegluðu eiginleika hans. Hann gaf þeim hæfileika og hæfni svo að þau gætu lifað hamingjusöm að eilífu á jörðinni. (1. Mósebók 1:26-28) Það var aldrei ætlun hans að jörðin yrði einhvers konar reynslustaður fyrir menn og konur, áfangi að því marki að lifa á himni sem andaverur, rétt eins og þar væri eini möguleikinn fyrir þau að hafa samband við Guð.

Það var ekkert illt til í sköpunarverki Guðs. Illskan kom til sögunnar þegar nokkrar sköpunarverur hans, bæði menn og andaverur, misnotuðu valfrelsi sitt og gerðu uppreisn gegn honum. (5. Mósebók 32:5) Foreldrar mannkynsins tóku sér þann rétt að ákveða sjálfir hvað væri gott og illt. (1. Mósebók 2:17; 3:1-5) Þannig varð dauðinn hlutskipti allra manna. (1. Mósebók 3:19; Rómverjabréfið 5:12) Jehóva ákvað að leyfa illskuna tímabundið til þess að leysa deilumálið sem uppreisnin hafði í för með sér. En tilgangur hans með jörðina og mannkynið hefur haldist óbreyttur. (Jesaja 45:18) Mennirnir munu lifa að eilífu í paradís á hreinsaðri jörð. — Matteus 6:10; Opinberunarbókin 21:1-5.

Jesús Kristur er ekki almáttugur Guð heldur sonur Guðs. Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Hann gerði aldrei kröfu til að vera jafn Guði heldur sagði: „Faðirinn er mér meiri.“ — Jóhannes 14:28.

Jesús gegnir veigamiklu hlutverki í tilgangi Guðs. Guð sendi hann sem „ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á [hann] trúir, sé áfram í myrkri“. (Jóhannes 12:46) Pétur postuli sagði: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum.“ (Postulasagan 4:12) Ástæðan er sú að lausnin er háð dýrmætu blóði Krists. (1. Pétursbréf 1:18, 19) Jesús Kristur gaf líf sitt sem lausnargjald til þess að leysa menn undan syndinni sem foreldrar mannkyns, Adam og Eva, leiddu yfir mennina. (Matteus 20:28; 1. Tímóteusarbréf 2:6) Guð lét Jesú enn fremur opinbera vilja sinn og tilgang. — Jóhannes 8:12, 32, 46, 47; 14:6; Postulasagan 26:23.

Guð hefur stofnað himneskt ríki eða stjórn í höndum Jesú Krists og þeirra sem útvaldir eru úr hópi manna. Þessi boðskapur er rauði þráðurinn í allri Biblíunni. Guð hefur treyst þessari stjórn fyrir því verkefni að sjá til þess að vilji hans verði örugglega gerður á jörðu sem á himni. (Matteus 6:10) Hinn upphaflegi tilgangur Guðs var aldrei sá að nokkur maður færi til himna. Þeir áttu að búa á jörðinni. Eftir syndafall mannsins ákvað Guð hins vegar að gera nýja hluti. Hann gerði ráðstafanir til þess að velja menn „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð“ og gjöra þá að „konungsríki“ ásamt Kristi í himneskri stjórn. (Opinberunarbókin 5:9, 10) Þessi himneska stjórn mun bráðlega „knosa og að engu gjöra“ hvers konar mannlegar stjórnir sem hafa leitt miklar þjáningar og sársauka yfir mannkynið. — Daníel 2:44.

Sálin er dauðleg. Þessi grundvallarsannleikur Biblíunnar skýrir margt um manninn og framtíðarhorfur hans. Hann eyðir einnig misskilningi og ranghugmyndum um eðli dauðans.

Í fyrstu bók Biblíunnar segir: „Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Veistu hvað þetta merkir? Sálin er ekki eitthvað óljóst fyrirbæri sem býr í manninum. Maðurinn hefur ekki sál. Hann er sál — sambland frumefna sem eru í „leiri jarðar“ og lífskrafts sem kemur frá Guði. Sálin er ekki ódauðleg. Sálin deyr þegar maðurinn deyr. — 1. Mósebók 3:19; Prédikarinn 9:5, 10.

Þeir sem hafa dáið verða reistir upp til lífsins. Guð hefur tímabundið leyft illskuna en síðan kemur sá tími „þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins“. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) Í upprisunni verður fólk reist upp til lífs í paradís, þess lífs sem Guð ætlaði mannkyninu í upphafi.

Rannsakaðu Biblíuna á hverjum degi

Gerirðu þér grein fyrir hvernig þekking á slíkum grundvallarsannleika getur orðið þér til góðs? Á þessum síðustu og verstu tímum getur slík þekking verndað þig fyrir hinni ‚rangnefndu þekkingu‘ sem Satan djöfullinn breiðir út. Hann tekur á sig „ljósengilsmynd“ og fulltrúar hans taka á sig mynd „réttlætisþjóna“. (1. Tímóteusarbréf 6:20; 2. Korintubréf 11:13-15) Nákvæm biblíuþekking getur verndað þig fyrir svokallaðri upplýsingu eða þekkingu sem byggist á heimspekikenningum manna, það er að segja „spekingum og hyggindamönnum“ sem „hafa hafnað orði Drottins“. — Matteus 11:25; Jeremía 8:9.

Á fyrstu öld voru uppi margar villukenningar og heimspekihugmyndir. Jóhannes postuli gaf því kristnum mönnum þessa viðvörun: „Trúið ekki sérhverjum anda.“ Hann sagði: „Reynið andana, hvort þeir séu frá Guði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:1) Hugsum okkur að einhver flytti þér boðskap sem gæti haft djúpstæð áhrif á líf þitt. Tækirðu við honum umhugsunarlaust eingöngu vegna þess að heimildin virtist áreiðanleg? Auðvitað ekki. Þú gengir úr skugga um áreiðanleika heimildarinnar og sannreyndir hvað fælist í boðskapnum áður en þú færir eftir honum.

Með því að Guð hefur séð okkur fyrir innblásnum, rituðum frásögnum, sem hafa að geyma grundvallarsannleika, hefur hann gert þér fært að gera einmitt það — að ‚prófa‘ hvort leiðarljósið, sem þú fylgir, sé ósvikið. (1. Þessaloníkubréf 5:21) Réttsinnuðum mönnum á fyrstu öld var hrósað fyrir að ‚rannsaka daglega ritningarnar‘ til þess að fullvissa sig um að það sem þeir væru að læra væri sannleikanum samkvæmt. (Postulasagan 17:11) Þú getur gert slíkt hið sama. Láttu Biblíuna leiða þig í örugga höfn ‚eins og ljós sem skín á myrkum stað‘. (2. Pétursbréf 1:19-21) Ef þú gerir það muntu „öðlast þekking á Guði“, sanna þekkingu. — Orðskviðirnir 2:5.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Gefinn út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Orð Guðs er eins og lampi.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hvert er nafn Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hverjar eru framtíðarhorfur mannanna?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Er Jesús almáttugur Guð?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hvar eru hinir dánu?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Ein af grundvallarkenningum Biblíunnar er upprisa hinna dánu.