Dæmi um hroka og lítillæti
Dæmi um hroka og lítillæti
ATVIK í lífi Davíðs konungs sýnir vel muninn á sönnu lítillæti og hroka. Það átti sér stað þegar Davíð hafði unnið Jerúsalem og gert hana að höfuðborg. Davíð leit á Jehóva sem hinn raunverulega konung Ísraels, þannig að hann lét færa örkina, sem táknaði nærveru Guðs, til borgarinnar. Davíð þótti þessi atburður svo mikilvægur að hann sýndi öllum hvað hann var glaður þegar hann fylgdi prestunum sem báru örkina. Íbúar Jerúsalem sáu konung sinn „hoppa og dansa“ „af öllum mætti“. — 1. Kroníkubók 15:15, 16, 29; 2. Samúelsbók 6:11-16.
Míkal, kona Davíðs, tók hins vegar ekki þátt í þessari gleðigöngu. Hún horfði á út um gluggann og í stað þess að dást að því hvernig Davíð lofaði Jehóva „fyrirleit hún hann í hjarta sínu“. (2. Samúelsbók 6:16) Hvers vegna? Hún virðist hafa lagt of mikið upp úr því að vera dóttir fyrsta konungs Ísraels og nú eiginkona annars konungsins. Henni fannst kannski að eiginmaður sinn, sjálfur konungurinn, ætti ekki að gera lítið úr sjálfum sér sig og taka þátt í fögnuði almúgans. Þessi hroki kom vel fram í því hvernig hún heilsaði Davíð þegar hann kom heim. Hún sagði í kaldhæðnistón: „Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!“ — 2. Samúelsbók 6:20.
Hvernig brást Davíð við þessari gagnrýni? Hann ávítaði Míkal og sagði að Jehóva hefði hafnað Sál, föður hennar, og tekið sig fram yfir hann. Svo bætti hann við: „[Ég vil] lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur.“ — 2. Samúelsbók 6:21, 22.
Já, Davíð var ákveðinn í að halda áfram að þjóna Jehóva í auðmýkt. Þetta viðhorf hjálpar okkur að skilja hvers vegna Jehóva kallaði Davíð „mann eftir [sínu] hjarta“. (Postulasagan 13:22; 1. Samúelsbók 13:14) Davíð fylgdi bestu fyrirmyndinni í lítillæti — Jehóva Guði. Það er athyglisvert að orð Davíðs um að „líta smáum augum“ á sjálfan sig koma af hebresku stofnorði sem er líka notað til að lýsa viðhorfi Guðs til mannkyns. Þótt Jehóva sé mesta tignarpersóna alheims segir í Sálmi 113:6, 7 að hann ‚horfi djúpt á himni og á jörðu. Hann reisi lítilmagnann úr duftinu, lyfti snauðum upp úr saurnum‘.
Jehóva er lítillátur. Það kemur því ekki á óvart að hann hati „drembileg augu“ hrokafullra manna. (Orðskviðirnir 6:16, 17) Míkal sýndi þennan illa eiginleika og vanvirti útvalinn konung Guðs. Henni var þess vegna neitað um að ala Davíð son. Hún dó barnlaus. Við getum lært mikið af þessu dæmi. Allir sem vilja velþóknun Guðs verða að fylgja þessum orðum: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ — 1. Pétursbréf 5:5.