Er sjónvarpið góð barnfóstra?
Er sjónvarpið góð barnfóstra?
STUNDUM getur verið mjög freistandi að hafa ofan af fyrir börnunum með því að láta þau horfa á sjónvarpið. Foreldrarnir geta þá sinnt öðru á meðan. En hvaða áhrif gæti það haft á börnin?
„Jafnvel ungbörn geta orðið fyrir áhrifum af tilfinningalegum boðum sem sýnd eru í sjónvarpinu,“ segir í The New York Times. Í nýlegri rannsókn voru ársgömul börn látin horfa á myndskeið þar sem leikkona sýndi mismunandi viðbrögð við leikfangi. „Þegar leikkonan var hrædd við leikfangið,“ sagði í Times, „forðuðust börnin það og voru líklegri til að vera hrædd, setja upp skeifu, gretta sig eða gráta. Þegar leikkonan var hrifin af leikfanginu langaði smábörnin frekar til að leika sér með það.“
Það er greinilegt að sjónvarpið getur haft áhrif á ungbörn. En hvað um langtímaáhrif á börn? Dr. Naoki Kataoka, prófessor í barnalækningum við Kawasaki-læknaháskólann í Kurashiki í Japan, hefur fylgst með fjölmörgum börnum sem eru einstaklega þögul og sýna lítil svipbrigði. Öll höfðu þau horft mikið á sjónvarp eða myndbönd um langan tíma. Tveggja ára strákur gat ekki haldið uppi samræðum og hafði mjög lítinn orðaforða. Hann hafði horft á myndbönd frá morgni til kvölds á hverjum degi frá eins árs aldri. Það var ekki fyrr en móðir hans fór að ráði prófessorsins, hætti að láta strákinn horfa á myndbönd og fór að leika við hann að orðaforði hans jókst með tímanum. Já, foreldrar verða að hafa samskipti við börnin sín.
Jehóva Guð, höfundur fjölskyldunnar, lagði áherslu á hvaða samskipti væru mikilvægust. Hann sagði fólki sínu fyrir löngu: „Þú skalt brýna [orð Guðs] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:7) Það eru foreldrarnir en ekki sjónvarpið sem eru best til þess fallnir að leiðbeina börnunum með orðum sínum og verkum „um veginn“ sem þau eiga að halda. — Orðskviðirnir 22:6.