Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu búinn undir björgun?

Ertu búinn undir björgun?

Ertu búinn undir björgun?

„Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð.“ — 1. MÓSEBÓK 7:1.

1. Hvaða ráðstöfun til björgunar gerði Jehóva á dögum Nóa?

JEHÓVA „lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu“ á dögum Nóa en gerði jafnframt ráðstafanir til að menn gætu bjargast. (2. Pétursbréf 2:5) Hinn sanni Guð gaf Nóa skýr fyrirmæli um að smíða örk til björgunar þegar heimsflóðið kæmi. (1. Mósebók 6:14-16) Eins og við mátti búast af samviskusömum þjóni Guðs gerði Nói „allt . . . eins og Guð bauð honum.“ Hann fylgdi fyrirmælum Guðs í einu og öllu. Að nokkru leyti er það hlýðni Nóa að þakka að við skulum vera til. — 1. Mósebók 6:22.

2, 3. (a) Hvernig brugðust samtíðarmenn Nóa við starfi hans? (b) Hverju treysti Nói þegar hann gekk inn í örkina?

2 Það var ekkert áhlaupaverk að smíða örkina. Mörgum hefur að öllum líkindum þótt það merkilegt sem Nói og fjölskylda hans voru að gera. En það dugði ekki til að sannfæra þá um að þeir yrðu að fara inn í örkina til að bjargast. Að lokum þraut þolinmæði Guðs gagnvart þessum illa heimi. — 1. Mósebók 6:3; 1. Pétursbréf 3:20.

3 Eftir að Nói og fjölskylda hans höfðu stritað áratugum saman sagði Jehóva honum: „Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð.“ Nói trúði og treysti orðum Jehóva og „gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum“. Jehóva lokaði arkardyrunum til að vernda tilbiðjendur sína. Þegar flóðið skall á reyndist örkin örugg ráðstöfun Guðs til björgunar. — 1. Mósebók 7:1, 7, 10, 16.

Nútíminn er hliðstæður dögum Nóa

4, 5. (a) Við hvað líkti Jesús nærverutíma sínum? (b) Hvað er hliðstætt með tímum Nóa og nútímanum?

4 „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.“ (Matteus 24:37) Með þessum orðum gaf Jesús til kynna að komu hans eða ósýnilegri nærveru myndi svipa til daga Nóa. Og sú hefur orðið raunin. Svipuð viðvörun og gefin var á dögum Nóa hefur verið boðuð fólki af öllum þjóðum, einkum frá 1919. Viðbrögð fólks hafa á heildina litið verið svipuð og á dögum Nóa.

5 Jehóva greip til aðgerða gegn heimi sem var ‚fullur af glæpaverkum‘ með því að láta flóð koma yfir hann. (1. Mósebók 6:13) Það var augljóst öllum sem til sáu að Nói og fjölskylda hans tóku engan þátt í ofbeldis- og glæpaverkum heldur unnu þau í friðsemd að því að smíða örkina. Hér sjáum við líka hliðstæðu við okkar tíma. Einlægt fólk sér greinilega „þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum“. (Malakí 3:18) Fordómalaust fólk dáist að vottum Jehóva fyrir að vera heiðarlegir, góðviljaðir, friðsamir og duglegir. Þetta eru eiginleikar sem gera þjóna Guðs ólíka heiminum almennt. Vottarnir hafna ofbeldi í hvaða mynd sem er og láta anda Guðs leiða sig. Þess vegna njóta þeir friðar og ástunda réttlæti. — Jesaja 60:17.

6, 7. (a) Hvað skildi fólk ekki á dögum Nóa og hvernig er staðan áþekk núna? (b) Hvaða dæmi sýna að vottar Jehóva eru yfirleitt álitnir frábrugðnir fjöldanum?

6 Samtíðarmenn Nóa skildu ekki að Guð studdi hann og gaf honum fyrirmæli. Þess vegna tóku þeir ekki mark á prédikun hans og viðvörun. Hvað um okkar daga? Margir eru hrifnir af hegðun og starfi votta Jehóva en fæstir taka fagnaðarerindið og boðskap Biblíunnar alvarlega. Nágrannar, vinnuveitendur og ættingjar fara stundum lofsamlegum orðum um ágæti þeirra en segja síðan í mæðutón: „Bara að þeir væru ekki vottar Jehóva.“ Þessu fólki yfirsést það að vottarnir sýna kærleika, friðsemd, gæsku, góðvild, hógværð og sjálfstjórn af því að þeir láta heilagan anda Guðs leiða sig. (Galatabréfið 5:22-25) Þetta ætti að gera boðskap þeirra trúverðugri.

7 Lítum á dæmi. Vottar Jehóva voru að reisa ríkissal í Rússlandi. Maður kom þar að og tók einn af byggingarmönnunum tali: „Þetta er skrýtinn byggingarstaður. Enginn reykir, enginn blótar og allir eru allsgáðir! Þú skyldir þó ekki vera vottur Jehóva?“ „Myndirðu trúa mér ef ég segði nei?“ spurði verkamaðurinn. „Eiginlega ekki,“ svaraði maðurinn um hæl. Bæjarstjóri í öðrum bæ í Rússlandi varð stórhrifinn þegar hann sá vottana byggja nýjan ríkissal. Hann sagðist áður hafa talið alla trúarhópa vera eins en kvaðst hafa skipt um skoðun eftir að hafa séð einlægni og óeigingirni votta Jehóva í verki. Þetta eru aðeins tvö dæmi sem sýna að þjónar Jehóva eru frábrugðnir þeim sem fylgja ekki meginreglum Biblíunnar.

8. Hvað er nauðsynlegt til að lifa af endalok þessa illa heims?

8 Nói var dyggur ‚prédikari réttlætisins‘ undir lok hins ‚forna heims‘ sem fórst í flóðinu. (2. Pétursbréf 2:5) Núna á síðustu dögum þessa heimskerfis kunngera þjónar Jehóva réttlátar kröfur hans og boða þau fagnaðartíðindi að hægt sé að bjargast og fá að lifa í nýjum heimi. (2. Pétursbréf 3:9-13) Til að bjargast er nauðsynlegt að trúa og við þurfum að tilheyra jarðneskum hluta alheimssafnaðar Jehóva, rétt eins og Nói og guðhrædd fjölskylda hans björguðust með því að vera í örkinni.

Trú er nauðsynleg til að bjargast

9, 10. Af hverju verðum við að trúa til að lifa af þegar heimskerfi Satans líður undir lok?

9 Hvað er nauðsynlegt að gera til að umflýja yfirvofandi eyðingu þessa heims sem er á valdi Satans? (1. Jóhannesarbréf 5:19) Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á því að við þurfum að fá vernd og síðan þurfum við að notfæra okkur hana. Fólkið á dögum Nóa gekk að daglegum störfum eins og það var vant og sá enga þörf á að leita verndar gegn yfirvofandi ógæfu. Það skorti trú á Guð.

10 Nói og fjölskylda hans gerðu sér hins vegar grein fyrir því að þau þurftu að leita verndar til að bjargast. Þau trúðu sömuleiðis á alheimsdrottin, Jehóva Guð. „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Jehóva],“ skrifaði Páll postuli, „því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ Hann heldur áfram: „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.“ — Hebreabréfið 11:6, 7.

11. Hvað má læra af því hvernig Jehóva verndaði þjóna sína forðum daga?

11 Ef við viljum lifa af endalok núverandi heimskerfis er ekki nóg að trúa að því verði eytt. Við verðum að trúa á björgunarráðstöfun Guðs og sýna trúna í verki með því að notfæra okkur hana. Við þurfum auðvitað að trúa á lausnarfórn Jesú Krists, sonar Guðs. (Jóhannes 3:16, 36) En við ættum líka að minna okkur á að enginn lifði af Nóaflóðið nema þeir sem voru í örkinni. Griðaborgirnar í Ísrael fortíðar veittu ekki vernd þeim sem hafði óviljandi orðið manni að bana nema hann flýði til slíkrar borgar og héldi sig svo innan borgarmarka meðan æðstipresturinn var á lífi. (4. Mósebók 35:11-32) Frumburðir Egypta voru drepnir í tíundu plágunni sem kom yfir landið á dögum Móse en frumburðum Ísraelsmanna var þyrmt. Af hverju? Jehóva hafði sagt Móse: „Skulu þeir [Ísraelsmenn] taka nokkuð af blóðinu [blóði páskalambsins] og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. . . . Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni.“ (2. Mósebók 12:7, 22) Hvaða frumburður meðal Ísraelsmanna hefði vogað sér að virða að vettugi fyrirmæli Guðs með því að fara út úr húsi sem var merkt með blóði á dyrastöfum og dyratré?

12. Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur og hvers vegna?

12 Við höfum þess vegna ástæðu til að hugleiða vandlega hvar við erum á vegi stödd. Notfærum við okkur til fullnustu það sem Jehóva hefur gert til að veita okkur andlega vernd? Þegar þrengingin mikla skellur á munu gleði- og þakkartár streyma niður kinnar þeirra sem hafa leitað sér verndar. Hinir geta aðeins grátið af sorg og eftirsjá.

Markvissar umbætur búa okkur undir björgun

13. (a) Hvaða tilgangi hafa skipulagsbreytingar þjónað? (b) Lýstu sumum af þeim umbótum sem hafa verið gerðar.

13 Jehóva hefur jafnt og þétt fegrað, bætt og styrkt söfnuð sinn á jörðinni. Þannig hefur hann betrumbætt ráðstafanir sínar til að veita okkur andlega vernd. Frá áttunda áratug nítjándu aldar fram til 1932 voru öldungar og djáknar kosnir í embætti af safnaðarmönnum. Þetta breyttist árið 1932 þegar farið var að skipa þjónustustjóra í söfnuðunum, og söfnuðurinn kaus svo þjónustunefnd honum til aðstoðar. Árið 1938 var sú tilhögun tekin upp að útnefna guðræðislega alla þjóna safnaðarins. Frá 1972 hefur sá háttur verið hafður á að mælt er með bræðrum til starfa, og hljóti þeir samþykki fá söfnuðirnir bréf þess efnis að viðkomandi bræður séu útnefndir umsjónarmenn og safnaðarþjónar. Útnefningin er guðræðisleg, gerð undir forystu hins stjórnandi ráðs Votta Jehóva. Hlutverk hins stjórnandi ráðs hefur farið vaxandi með árunum og ýmsar breytingar hafa verið gerðar til að greiða fyrir starfi þess.

14. Hvaða menntun var farið að veita árið 1959?

14 Í framhaldi af ítarlegri athugun á Sálmi 45:17, sem gerð var árið 1950, var byrjað að veita þeim sem fóru með forystu í söfnuðunum símenntun í starfi. Í Sálminum stendur: „Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.“ Öldungar í söfnuðinum fá nú menntun til að sinna verkefnum í þjónustu Guðs, bæði núna og eftir Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Ríkisþjónustuskólinn var settur á laggirnar árið 1959. Þá var farið að bjóða upp á eins mánaðar námskeið, fyrst og fremst fyrir safnaðarþjóna eins og umsjónarmenn í forsæti voru kallaðir á þeim tíma. Hlutverk skólans hefur nú verið víkkað út til að mennta alla umsjónarmenn og safnaðarþjóna sem leggja sig síðan fram við að mennta aðra votta í heimasöfnuðum sínum. Þannig fá allir stuðning í trúnni og þeim er hjálpað að verða skilvirkari boðberar fagnaðarerindisins um ríkið. — Markús 13:10.

15. Á hvaða tvo vegu er söfnuðinum haldið hreinum?

15 Þeir sem vilja fá að tilheyra kristna söfnuðinum þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Rökrétt er að spottarar fái ekki inngöngu í söfnuðinn, rétt eins og spottarar á tímum Nóa áttu ekki heima í örkinni. (2. Pétursbréf 3:3-7) Vottar Jehóva hafa, einkum frá 1952, stutt dyggilega við ákveðna ráðstöfun sem er gerð söfnuðinum til verndar en hún er fólgin í því að víkja iðrunarlausum syndurum úr söfnuðinum. En syndarar, sem iðrast í einlægni, fá auðvitað kærleiksríka hjálp til að ‚láta fætur sína feta beinar brautir‘. — Hebreabréfið 12:12, 13; Orðskviðirnir 28:13; Galatabréfið 6:1.

16. Lýstu andlegri velsæld þjóna Jehóva.

16 Andleg velsæld þjóna Jehóva kemur hvorki á óvart né er hún nein tilviljun. Jehóva sagði fyrir munn Jesaja spámanns: „Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.“ (Jesaja 65:13, 14) Jehóva viðheldur trúarstyrk okkar með því að halda áfram að veita okkur tímabæra og heilnæma andlega fæðu í ríkum mæli. — Matteus 24:45.

Búðu þig undir björgun

17. Hvernig getum við búið okkur undir björgun?

17 Nú er ríkari ástæða en nokkru sinni fyrr til að gera eins og hvatt er til í Hebreabréfinu 10:23-25: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan.“ Við búum okkur undir björgun með því að halda okkur fast við og starfa með einum af söfnuðum Votta Jehóva en þeir eru rúmlega 98.000 talsins. Við njótum þá stuðnings trúsystkina okkar þegar við kappkostum að vera íklædd „hinum nýja manni“ og leggjum okkur heilshugar fram við að hjálpa öðrum að kynnast björgunarráðstöfun Jehóva. — Efesusbréfið 4:22-24; Kólossubréfið 3:9, 10; 1. Tímóteusarbréf 4:16.

18. Af hverju ertu staðráðinn í að halda þér fast við kristna söfnuðinn?

18 Satan og illur heimur hans reyna allt hvað þeir geta til að tæla okkur burt frá kristna söfnuðinum. Við getum hins vegar haldið okkur innan safnaðarins og lifað af þegar hið illa heimskerfi samtímans líður undir lok. Við elskum Jehóva og erum þakklát fyrir allt sem hann hefur gert í okkar þágu. Látum það vera okkur hvöt til að vera staðráðin í að standa á móti Satan. Við getum styrkt þann ásetning með því að hugleiða hvaða blessana við njótum núna. Fjallað verður um sumar þeirra í greininni á eftir.

Hvert er svarið?

• Hvað er hliðstætt með nútímanum og dögum Nóa?

• Hvaða eiginleiki er nauðsynlegur til að bjargast?

• Hvaða umbætur hefur Jehóva gert til að vernda okkur sem best?

• Hvernig getum við búið okkur undir björgun?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 22]

Samtíðarmenn Nóa tóku hann ekki alvarlega.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Það borgar sig að taka viðvaranir Guðs alvarlega.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hvaða tilgangi þjónar Ríkisþjónustuskólinn?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Það er mikilvægt að halda sér fast við kristna söfnuðinn núna.