Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðin af því að ganga fram í ráðvendni

Gleðin af því að ganga fram í ráðvendni

Gleðin af því að ganga fram í ráðvendni

„Blessun Jehóva, hún auðgar, og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 10:22, NW.

1, 2. Af hverju megum við ekki vera of upptekin af því að hugsa um framtíðina?

„EF VIÐ erum of upptekin af því að hugsa um framtíðina . . . kemur það í veg fyrir að við sjáum nútímann í réttu ljósi,“ sagði bandarískur heimspekingur. Þetta getur til dæmis gerst hjá börnum þegar þau verða svo upptekin af því hvað þau megi gera þegar þau verða fullorðin að þau njóta þess ekki að vera börn meðan þau hafa tækifæri til.

2 Tilbiðjendur Jehóva eru ekki heldur ónæmir fyrir því að hugsa svona. Lítum á dæmi: Við þráum að sjá loforð Guðs rætast um paradís á jörð. Við bíðum þess óþreyjufull að losna við veikindi, elli, þjáningar og sársauka. Vissulega er æskilegt að halda eftirvæntingunni vakandi. En hvað myndi gerast ef við yrðum svo upptekin af því að hugsa um gæði framtíðarinnar að það blindaði okkur fyrir þeirri andlegu blessun sem við njótum núna? Það væri miður. Við gætum hæglega orðið niðurdregin og ‚hjartað sjúkt‘ af því að væntingar okkar hafa látið á sér standa. (Orðskviðirnir 13:12) Vandamál og erfiðleikar gætu orðið til þess að við fylltumst sjálfsvorkunn og vonleysi. Við gætum orðið kvörtunarsöm í stað þess að takast á við erfiðleikana. Hægt er að forðast þetta með því að horfa með þakklæti á þá blessun sem við njótum núna.

3. Að hverju einbeitum við okkur í þessari grein?

3 „Blessun Jehóva, hún auðgar, og hann lætur enga kvöl fylgja henni,“ segir í Orðskviðunum 10:22. (NW ) Er ekki ástæða til að gleðjast yfir andlegri velsæld þjóna Jehóva nú á tímum? Við skulum líta nánar á þá andlegu velsæld, sem við njótum, og kanna hvað hún þýðir fyrir okkur sem einstaklinga. Við verðum enn ákveðnari í að þjóna Jehóva með fögnuði ef við tökum okkur tíma til að hugleiða þau miklu gæði sem hann hefur veitt ‚réttlátum mönnum sem ganga fram í ráðvendni sinni‘. — Orðskviðirnir 20:7.

Blessun sem auðgar okkur núna

4, 5. Hvaða biblíukenningu þykir þér sérstaklega vænt um og hvers vegna?

4 Við höfum nákvæma þekkingu á kenningum Biblíunnar. Trúfélög kristna heimsins segjast yfirleitt trúa Biblíunni. Þau eru hins vegar hvergi nærri sammála um hvað hún kenni. Og fólk, sem tilheyrir sama trúfélagi, er oft ósammála um kenningar Biblíunnar. Þjónar Jehóva eru harla ólíkir þeim. Óháð því hvaðan við erum, hverrar þjóðar og úr hvaða menningarheimi við erum sprottin dýrkum við Guð sem við þekkjum með nafni. Hann er engin dularfull þrenning. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls; 5. Mósebók 6:4; Markús 12:29) Við vitum líka að deilan mikla um drottinvald Guðs verður útkljáð innan skamms og að sérhvert okkar á aðild að henni með því að vera ráðvönd honum. Við vitum sannleikann um eðli dauðans og lifum ekki í stöðugum ótta við Guð sem er sagður senda menn í hreinsunareld eða pína þá í eldum vítis. — Prédikarinn 9:5, 10.

5 Og það er einstaklega gleðilegt að vita að við skulum ekki hafa myndast við tilviljanakennda þróun heldur vera sköpuð af Guði í mynd hans. (1. Mósebók 1:26; Malakí 2:10) Sálmaskáldið söng Guði: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ — Sálmur 139:14.

6, 7. Hvaða breytingar til blessunar hefur þú gert eða fólk sem þú þekkir?

6 Við forðumst skaðlegar venjur og hátterni. Í fjölmiðlum er sífellt varað við að reykingar, óhófleg notkun áfengis og lauslæti sé hættulegt. Þessar viðvaranir eru hunsaðar að mestu leyti. En hvað gerist þegar einlægur maður uppgötvar að hinn sanni Guð fordæmir slíkt og það hryggir hann þegar menn stunda það? Hann finnur þá hjá sér löngun til að forðast allt þvílíkt. (Jesaja 63:10; 1. Korintubréf 6:9, 10; 2. Korintubréf 7:1; Efesusbréfið 4:30) Hann gerir það fyrst og fremst til að þóknast Jehóva Guði en fær að auki betri heilsu og hugarfrið.

7 Mörgum veitist erfitt að leggja af slæma ávana. Tugþúsundum manna tekst það samt á hverju ári. Þeir vígjast Jehóva, láta skírast niðurdýfingarskírn og lýsa þannig yfir opinberlega að þeir hafi hætt að ástunda hvaðeina sem Guð hefur vanþóknun á. Það er uppörvandi fyrir okkur öll og styrkir þann ásetning að vera ekki þrælar syndsamlegrar og skaðlegrar hegðunar.

8. Hvaða ráð Biblíunnar stuðla að hamingju fjölskyldunnar?

8 Við eigum hamingjuríkt fjölskyldulíf. Fjölskyldan stendur höllum fæti víða um lönd. Algengt er að hjón skilji og oft sitja börnin eftir með skaddaðar tilfinningar. Í sumum löndum Evrópu eru fjölskyldur einstæðra foreldra næstum 20 prósent allra fjölskyldna. Hvernig hefur Jehóva hjálpað okkur að ganga fram í ráðvendni á þessu sviði lífsins? Lestu Efesusbréfið 5:22–6:4 og taktu eftir þeim góðu ráðum sem eiginmenn, eiginkonur og börn fá í orði Guðs. Ef farið er eftir því sem segir í þessum versum og annars staðar í Biblíunni styrkir það hjónabandið, auðveldar foreldrum að ala börnin vel upp og stuðlar að hamingjuríku fjölskyldulífi. Er það ekki blessun sem ástæða er til að fagna?

9, 10. Hvernig lítum við á framtíðina, ólíkt heiminum?

9 Við vitum að vandamálin í heiminum verða bráðlega leyst. Þrátt fyrir vísinda- og tæknikunnáttu mannkyns og einlæga viðleitni sumra leiðtoga eru mörg alvarleg vandamál óleyst. Klaus Schwab, stofnandi Alþjóðaefnahagsráðsins, sagði ekki alls fyrir löngu að „vandamálunum í heiminum fari fjölgandi og tíminn til að leysa þau styttist óðum“. Hann minntist á „hættur sem snerta allar þjóðir, svo sem hryðjuverk, umhverfisspjöll og óstöðugleika í fjármálum“. Hann sagði að lokum: „Nú sem aldrei fyrr á heimurinn við vanda að etja sem verður ekki leystur nema með sameiginlegum og skjótum aðgerðum.“ Framtíðarhorfur mannkyns eru ekki bjartar nú í upphafi 21. aldar.

10 Það er ánægjulegt til þess að vita að Jehóva er búinn að gera ráðstafanir til að leysa öll vandamál mannkyns. Hér er um að ræða Messíasarríkið sem hinn sanni Guð notar til að ‚stöðva styrjaldir‘ og koma á algerum friði. (Sálmur 46:10; 72:7) Hinn smurði konungur, Jesús Kristur, ‚bjargar hinum snauða, hinum þjáða og hinum bágstadda frá ofbeldi og ofríki‘. (Sálmur 72:12-14) Þegar Guðsríki hefur tekið völd verður enginn matarskortur. (Sálmur 72:16) Jehóva „mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Guðsríki hefur nú þegar verið stofnsett á himnum og mun innan skamms grípa til nauðsynlegra aðgerða til að leysa öll vandamál jarðarbúa. — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:15.

11, 12. (a) Veitir gleði og skemmtun varanlega hamingju? Skýrðu svarið. (b) Hvað veitir sanna hamingju?

11 Við vitum hvað veitir sanna hamingju. Hvað veitir sanna hamingju? Sálfræðingur segir að hamingja sé fólgin í þrennu — gleði, þátttöku (til dæmis vinnu og fjölskyldulífi) og tilgangi (að hafa háleitara markmið en að þjóna sjálfum sér). Af þessu þrennu telur hann gleðina hafa minnst að segja og bætir við: „Þetta er athyglisvert vegna þess að hjá mjög mörgum snýst lífið um það að skemmta sér.“ Hver er afstaða Biblíunnar í þessu máli?

12 Salómon Ísraelskonungur sagði: „Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi. Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið?“ (Prédikarinn 2:1, 2) Að sögn Biblíunnar er sú hamingja, sem sprettur af gleði og hlátri, í besta lagi stundleg. En hvað um vinnu? Við höfum mikilvægasta verk að vinna sem hugsast getur, að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Með því að segja öðrum frá hjálpræðisboðskap Biblíunnar tökum við þátt í starfi sem getur orðið sjálfum okkur til hjálpræðis og sömuleiðis þeim sem hlusta á okkur. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Við erum „samverkamenn Guðs“ og finnum að „sælla er að gefa en þiggja“. (1. Korintubréf 3:9; Postulasagan 20:35) Þetta starf gefur lífi okkar aukið gildi og gerir skaparanum kleift að svara smánaryrðum Satans djöfulsins. (Orðskviðirnir 27:11) Jehóva hefur sýnt okkur fram á að guðrækni og guðhræðsla eru uppspretta sannrar og varanlegrar hamingju. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

13. (a) Að hvaða leyti er Boðunarskólinn mikil blessun? (b) Hvernig hefur þú notið góðs af Boðunarskólanum?

13 Við fáum góða og gagnlega þjálfun. Gerhard er öldungur í einum af söfnuðum Votta Jehóva. Hann segir um unglingsárin: „Sem ungur piltur átti ég mjög erfitt með að tjá mig. Undir álagi kom ég varla upp orði og fór að stama. Ég fékk minnimáttarkennd og varð þunglyndur. Foreldrar mínir settu mig á tal- og málörvunarnámskeið en allt kom fyrir ekki. Vandinn hjá mér var sálrænn en ekki líkamlegur. En Jehóva sá mér fyrir frábærri kennslu í Boðunarskólanum. Ég skráði mig í skólann og það gaf mér hugrekki. Ég gerði mitt besta til að nota það sem ég lærði og það skilaði sér. Ég varð óþvingaðri, losnaði við þunglyndið og varð hugrakkari í boðunarstarfinu. Nú flyt ég meira að segja opinbera fyrirlestra. Ég er Jehóva innilega þakklátur fyrir að bæta líf mitt til muna með hjálp skólans.“ Er ekki ástæða til að gleðjast yfir því hvernig Jehóva þjálfar okkur til að vinna það verk sem hann hefur falið okkur?

14, 15. Hvaða hjálp er nærtæk á neyðarstund? Lýstu með dæmi.

14 Við eigum persónulegt samband við Jehóva og stuðning alþjóðlegs bræðrafélags. Katrin býr í Þýskalandi. Henni var illa brugðið þegar hún frétti af miklum jarðskjálfta og flóðbylgju í Suðaustur-Asíu en dóttir hennar var á ferðalagi í Taílandi þegar hamfarirnar urðu. Í 32 klukkustundir vissi hún ekki hvort dóttir hennar væri á lífi eða væri meðal þeirra sem fórust. Tala látinna fór hækkandi með hverri klukkustund. Við getum rétt ímyndað okkur hve henni létti þegar síminn hringdi að lokum og hún fékk að vita að dóttirin væri heil á húfi!

15 Hvað hjálpaði Katrinu þessar angistarfullu klukkustundir? Hún skrifar: „Ég var nánast allan tímann á bæn til Jehóva og fann margsinnis hve mikinn styrk og hugarfrið það gaf mér. Og umhyggjusamir trúbræður heimsóttu mig og studdu mig.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Hún hefði verið miklu verr sett ef hún hefði þurft að bíða þessar þjakandi klukkustundir án þess að geta beðið til Jehóva og án þess að hljóta hughreystingu trúsystkina. Hið nána samband, sem við eigum við Jehóva og son hans og samfélagið við trúsystkini okkar, er einstök blessun og dýrmætari en svo að við megum líta á hana sem sjálfsagðan hlut.

16. Nefndu dæmi sem lýsir gildi upprisuvonarinnar.

16 Við eigum þá von að sjá látna ástvini á ný. (Jóhannes 5:28, 29) Matthias var alinn upp sem vottur Jehóva. Hann gerði sér hins vegar ekki grein fyrir hve mikil blessun það væri og fjarlægðist kristna söfnuðinn á unglingsárunum. Hann skrifar núna: „Ég átti eiginlega aldrei innilegar samræður við pabba og við rifumst oft. Pabbi vildi mér samt alltaf hið besta. Honum þótti innilega vænt um mig en ég gerði mér alls ekki grein fyrir því þá. Árið 1996 sat ég við sjúkrabeð hans, hélt í hönd honum og grét beisklega. Ég sagði honum hve miður mér þætti allt sem ég hefði gert og hve vænt mér þætti um hann. En hann heyrði ekki hvað ég sagði og dó eftir stutta sjúkralegu. Ef ég lifi það að sjá pabba upprisinn eigum við eftir að bæta upp það sem fór úrskeiðis á sínum tíma. Og það mun áreiðanlega gleðja hann að vita að ég skuli vera öldungur núna og að við hjónin séum brautryðjendur.“ Hvílík blessun að eiga upprisuvonina!

„Hann lætur enga kvöl fylgja henni“

17. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að hugleiða blessun Jehóva?

17 Jesús Kristur sagði um himneskan föður sinn: „[Hann] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:45) Fyrst Jehóva Guð blessar jafnvel rangláta og óguðlega hlýtur hann að blessa ráðvanda menn enn frekar. Jehóva „synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik“, segir í Sálmi 84:12. Við fyllumst þakklæti og gleði þegar við hugleiðum alla umhyggju og natni Jehóva við þá sem elska hann.

18. (a) Af hverju er hægt að segja að Jehóva láti enga kvöl fylgja blessun sinni? (b) Hvers vegna þjást margir dyggir þjónar Guðs?

18 Það er „blessun Jehóva“ að þakka að þjónar hans hafa dafnað andlega. Og hann lofar að ‚láta enga kvöl fylgja henni‘. (Orðskviðirnir 10:22, NW ) Af hverju verða margir dyggir þjónar hans þá fyrir ýmiss konar prófraunum og erfiðleikum sem valda þeim oft miklum þjáningum? Það er fyrst og fremst þrennt sem veldur því að þrengingar og erfiðleikar verða á vegi okkar. (1) Syndugar tilhneigingar okkar. (1. Mósebók 6:5; 8:21; Jakobsbréfið 1:14, 15) (2) Satan og illu andarnir. (Efesusbréfið 6:11, 12) (3) Hinn illi heimur. (Jóhannes 15:19) Enda þótt Jehóva leyfi að við verðum fyrir ýmsum erfiðleikum er það ekki hann sem veldur þeim. „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna.“ (Jakobsbréfið 1:17) Blessun Jehóva hefur aldrei kvöl í för með sér.

19. Hvað bíður þeirra sem ganga fram í ráðvendni?

19 Andleg velsæld er alltaf samfara því að nálægja sig Guði. Þegar við eignumst náið samband við hann ‚söfnum við handa sjálfum okkur fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munum geta höndlað hið sanna líf‘ — eilíft líf. (1. Tímóteusarbréf 6:12, 17-19) Í nýjum heimi Guðs hljótum við líkamleg og efnisleg gæði í viðbót við andlega auðinn. Allir sem hlýða raust Jehóva hljóta þá hið sanna líf. (5. Mósebók 28:2) Við skulum halda áfram, einbeitt og ánægð, að ganga fram í ráðvendni.

Hvað lærðir þú?

• Af hverju er óskynsamlegt að vera of upptekinn af því að hugsa um framtíðina?

• Hvaða blessunar njótum við núna?

• Af hverju þurfa trúfastir þjónar Guðs að þjást?

[Spurningar]