Leitin að þekkingu
Leitin að þekkingu
„ÞEKKINGARLEYSI er aldrei betra en þekking,“ sagði Laura Fermi, eiginkona hins þekkta eðlisfræðings Enricos Fermi. Einhverjir kunna að mæla þessu mót og segja að það skaði engan sem hann ekki veit. Flestum finnst samt að athugasemdin eigi ekki eingöngu rétt á sér varðandi vísindarannsóknir heldur einnig á öðrum sviðum lífsins. Þekkingarleysi í þeim skilningi að gera sér ekki grein fyrir sannleikanum hefur orðið til þess að margir hafa öldum saman reikað um í vitsmunalegu, siðferðilegu og andlegu myrkri. — Efesusbréfið 4:18.
Þess vegna leitar hugsandi fólk að þekkingu. Það langar til að vita hvers vegna við erum til og hvað verður um okkur. Fólk hefur leitað ýmissa leiða. Við skulum stuttlega líta á nokkrar þeirra.
Leitað til trúarbragða
Siddhārtha Gautama, höfundur búddhatrúarinnar, velti mjög fyrir sér mannlegum þjáningum og dauða, að því er fram kemur í búddhískri arfsögn. Hann bað kennimenn hindúa að hjálpa sér að finna „hinn upplýsta veg“. Sumir mæltu með jóga og öfgakenndum meinlætalifnaði. Gautama taldi að lokum djúpa íhugun vera leiðina til að hljóta sanna þekkingu og upplýsingu.
Aðrir hafa notað skynvillulyf í leit sinni að upplýsingu. Í Kirkju amerískra frumbyggja er til dæmis talað um sandkaktusinn sem „opinberara leyndrar þekkingar“ en hann inniheldur skynvilluefni.
Jean-Jacques Rousseau, franskur heimspekingur á 18. öld, trúði því að hver sá sem leiti svara af einlægni geti fengið persónulega opinberun frá Guði. Hvernig þá? Með því að hlusta á „það sem Guð talar til hjartans“. Hvernig maður skynjar hlutina, það er að segja tilfinningarnar og samviskan, er „öruggasta leiðarljósið í þessu gríðarstóra völundarhúsi mannlegra skoðana“, sagði Rousseau. — History of Western Philosophy.
Leitað til skynseminnar
Margir samtímamenn Rousseaus voru algerlega mótfallnir því að beita trúarlegum aðferðum eins og hann mælti með. Til dæmis fannst Voltaire, samlanda hans, að það væri langt frá því að trúarbrögðin hefðu upplýst fólk. Þau hefðu öllu heldur verið aðalþátturinn í þekkingarleysi, hjátrú og umburðaleysi sem ríkt hefði í margar aldir í Evrópu á tímabilinu sem sagnfræðingar kalla hinar myrku miðaldir.
Voltaire var einn þeirra sem aðhylltust stefnu evrópskra skynsemishyggjumanna sem þekkt er undir nafninu upplýsingastefnan.
Fylgjendur hennar hurfu til hugmynda Forn-Grikkja, það er að segja að skynsemi mannsins og vísindarannsóknir væru lykillinn að sannri þekkingu og upplýsingu. Bernard de Fontenelle, annar fylgismaður upplýsingastefnunnar, hélt því fram að skynsemi mannsins ein og sér myndi leiða mannkynið inn í „öld þar sem upplýsingin myndi vaxa svo með degi hverjum að allar fyrri aldir týndust í myrkri við þann samanburð“. — Encyclopædia Britannica.Þetta eru aðeins nokkrar af mörgum ólíkum hugmyndum um hvernig leita megi þekkingar og upplýsingar. Er til eitthvert ‚öruggt leiðarljós‘ sem við getum snúið okkur til í leit að sannleikanum? Við skulum athuga hvað segir í næstu grein um uppsprettu þekkingar og upplýsingar sem hægt er að treysta á.
[Myndir á blaðsíðu 3]
Gautama (Búddha), Rousseau og Voltaire fóru mismunandi leiðir í leit sinni að upplýsingu og þekkingu.