Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Verið hughraustir“

„Verið hughraustir“

„Verið hughraustir“

„Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna.“ — SAKARÍA 8:9.

1, 2. Af hverju ættum við að gefa gaum að bókum Haggaí og Sakaría?

SPÁDÓMAR Haggaí og Sakaría voru skrifaðir fyrir um það bil 2500 árum, en þeir hafa samt mikla þýðingu fyrir okkur nú á tímum. Efni þessara tveggja biblíubóka er meira en sagan ein. Bækurnar eru hluti af ,öllu því sem áður var ritað okkur til uppfræðingar‘. (Rómverjabréfið 15:4) Mikið af því sem við lesum í þeim minnir okkur á atburði sem hafa átt sér stað frá því að Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914.

2 Páll postuli sagði um þá atburði og aðstæður sem þjónar Guðs til forna upplifðu: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ (1. Korintubréf 10:11) Þér er því kannski spurn hvaða þýðingu bækur Haggaí og Sakaría hafi fyrir okkur.

3. Að hverju beindu Haggaí og Sakaría athyglinni?

3 Eins og fram kom í greininni á undan áttu spádómar Haggaí og Sakaría við þann tíma þegar Gyðingar, sem höfðu verið leystir úr ánauð í Babýlon, sneru aftur til landsins sem Guð hafði gefið þeim. Spámennirnir tveir beindu athyglinni að endurbyggingu musterisins. Gyðingar lögðu grunn að musterinu árið 536 f.Kr. Almennt kváðu við mikil „fagnaðar- og gleðióp“ þótt sumir af eldri kynslóðinni hafi einblínt á fortíðina. Enn þýðingarmeiri atburðir hafa þó átt sér stað á okkar tímum. Hvaða atburðir eru það? — Esrabók 3:3-13.

4. Hvað gerðist stuttu eftir fyrri heimsstyrjöldina?

4 Stuttu eftir fyrri heimsstyrjöldina voru andasmurðir þjónar Jehóva leystir úr ánauð Babýlonar hinnar miklu. Þetta var afgerandi vísbending um stuðning Jehóva. Nokkru áður virtist sem trúarleiðtogum og pólitískum vinum þeirra hefði tekist að stöðva boðunar- og kennslustarf Biblíunemendanna. (Esrabók 4:8, 13, 21-24) En Jehóva Guð ruddi í burtu hindrunum sem stóðu í vegi fyrir því að hægt væri að prédika og gera menn að lærisveinum. Frá árinu 1919 hefur boðunarstarfið blómstrað og ekkert hefur getað stöðvað framgang þess.

5, 6. Til hvaða stórfenglega viðburðar vísa orðin í Sakaría 4:7?

5 Við getum verið viss um að boðunar- og kennslustarf hlýðinna þjóna Jehóva nú á dögum haldi áfram með stuðningi hans. Við lesum í Sakaría 4:7: „Hann mun færa út hornsteininn, og þá munu kveða við fagnaðaróp: Dýrlegur, dýrlegur er hann!“ Til hvaða stórfenglega viðburðar vísa þessi orð?

6 Sakaría 4:7 vísar fram til þess tíma þegar sönn tilbeiðsla á alvöldum Drottni fullkomnast í jarðneskum forgörðum hins andlega musteris. Þetta musteri táknar þá ráðstöfun sem Jehóva gerði til að menn gætu tilbeðið hann á grundvelli friðþægingarfórnar Jesú Krists. Hið mikla andlega musteri hefur verið til síðan á fyrstu öld en sönn tilbeiðsla í jarðneskum forgörðum þess er enn ekki fullkomnuð. Milljónir tilbiðjenda þjóna nú í jarðneskum forgörðum hins andlega musteris. Þeir munu, ásamt stórum hópi upprisinna manna, hljóta fullkomleika undir þúsund ára stjórn Jesú Krists. Eftir þúsund árin verða engir nema sannir tilbiðjendur Guðs eftir á hreinsaðri jörð.

7. Hvaða hlutverki gegnir Jesús í því að fullkomna sanna tilbeiðslu á okkar dögum og af hverju er það uppörvandi?

7 Serúbabel landstjóri og Jósúa æðstiprestur urðu vitni að því þegar musterið var fullgert árið 515 f.Kr. Í Sakaría 6:12, 13 er talað um sambærilegt hlutverk sem Jesús gegnir í því að fullkomna sanna tilbeiðslu: „Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins. Hann . . . mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar.“ Jesús ríkir á himnum og sér til þess að konungsætt Davíðs haldist við. Getur nokkur hindrað framgang þjónustunnar við ríkið í andlega musterinu fyrst hún nýtur stuðnings hans? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ætti þetta ekki að hvetja okkur til að halda þjónustu okkar áfram og láta ekki hversdagsleg mál koma okkur út af sporinu?

Hvað lætur þú ganga fyrir?

8. Af hverju verðum við að láta þjónustuna við andlega musterið ganga fyrir?

8 Til að njóta stuðnings og blessunar Jehóva verðum við að láta þjónustuna við andlega musterið ganga fyrir. Við megum ekki vera eins og Gyðingarnir sem sögðu: „Enn er ekki tími kominn.“ Við verðum að muna að við lifum á „síðustu dögum“. (Haggaí 1:2; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Jesús sagði fyrir að trúfastir fylgjendur sínir myndu prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum. Við verðum að gæta þess að vanrækja ekki þjónustu okkar sem er svo verðmæt. Boðunar- og kennslustarfið, sem stöðvaðist um tíma vegna andstöðu frá heiminum, hófst á ný árið 1919, en því er ekki lokið. Við getum samt verið viss um að það verður til lykta leitt.

9, 10. Hverju er blessun Jehóva háð og hvað þýðir það fyrir okkur?

9 Okkur verður umbunað í þeim mæli sem við sinnum þjónustu okkar, bæði sem hópur og einstaklingar. Taktu eftir því hughreystandi loforði sem Jehóva gaf Gyðingum þegar þeir fóru aftur að tilbiðja hann af heilum huga og vinna ötullega við grunninn að musterinu. Hann sagði: „Frá þessum degi vil ég blessun gefa!“ (Haggaí 2:19) Nú nutu þeir hylli hans á ný. Skoðum hvaða blessun hann lofaði að veita þeim: „Sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar.“ — Sakaría 8:9-13.

10 Jehóva blessar okkur þegar við vinnum kappsamlega og með glöðu geði það verk sem hann hefur falið okkur, rétt eins og hann blessaði Gyðingana andlega og efnislega. Þessi blessun er meðal annars fólgin í friði okkar á meðal, öryggi, velgengni og andlegum framförum. Við gerum okkur samt grein fyrir því að til að geta notið blessunar Guðs áfram verðum við að sinna þjónustunni við andlega musterið á þann hátt sem hann vill.

11. Hvernig getum við gert sjálfsrannsókn?

11 Núna er tíminn til að ,taka eftir hvernig fyrir okkur fer‘. (Haggaí 1:5, 7) Við ættum að staldra við og athuga hvernig við forgangsröðum í lífi okkar. Jehóva blessar okkur í hlutfalli við það sem við gerum til að upphefja nafn hans og sinna þjónustunni við andlega musterið. Við gætum spurt okkur: Hef ég breytt um áherslur í lífinu? Er ég enn jafn kappsamur í þjónustu Jehóva og þegar ég lét skírast? Er ég enn jafn áhugasamur um sannleikann og það starf sem Jehóva hefur falið okkur? Hefur áhugi á að lifa þægilegu lífi áhrif á það hversu mikilli athygli ég beini að Jehóva og ríki hans? Heldur ótti við menn eða hræðsla við álit annarra aftur af mér? — Opinberunarbókin 2:2-4.

12. Hvaða ástandi er lýst í Haggaí 1:6, 9?

12 Við myndum alls ekki vilja að Jehóva héldi aftur af ríkulegri blessun sinni sökum þess að við vanræktum að upphefja nafn hans. Mundu að til að byrja með unnu hinir heimkomnu Gyðingar af kappi við musterið en síðan fór ,sérhver þeirra að flýta sér með sitt hús‘ eins og kemur fram í Haggaí 1:9. Þeir urðu uppteknir af hversdagslegum þörfum og eigin lífsstíl. Þetta varð til þess að þeir ,söfnuðu litlu‘, það er að segja þeir fengu hvorki nægan mat og drykk né hlýjan fatnað. (Haggaí 1:6) Jehóva hélt aftur af blessun sinni. Getum við lært eitthvað af þessu?

13, 14. Hvernig getum farið eftir því sem við lærum í Haggaí 1:6, 9 og hvers vegna er það mikilvægt?

13 Ertu ekki sammála því að til að halda áfram að njóta blessunar Guðs verðum við að standa gegn þeirri tilhneigingu að uppfylla okkar eigin langanir á kostnað tilbeiðslunnar á Jehóva? Það skiptir ekki máli hvort áhugamálið eða starfið, sem dreifir athygli okkar, snýst um að græða peninga eða taka þátt í áhættuviðskiptum sem eiga að skila skjótfengnum gróða, eða hvort það er fólgið í metnaðarfullum áformum um æðri menntun og starfsframa í þessu heimskerfi eða því að sækja ýmis námskeið til að sinna eigin áhugamálum.

14 Þessir hlutir eru kannski ekki synd í sjálfu sér. En eru þetta ekki samt ,dauð verk‘ ef við höfum eilíft líf fyrir augum? (Hebreabréfið 9:14) Í hvaða skilningi? Þau eru andlega dauð, hégómleg og gagnslaus. Ef maður eyðir of miklum tíma í þau gæti það verið ávísun á andlegan dauða. Sumir smurðir kristnir menn á dögum postulanna féllu í þessa gildru. (Filippíbréfið 3:17-19) Og þetta hefur líka komið fyrir suma á okkar dögum. Þú þekkir ef til vill einhverja sem beindu athyglinni smám saman frá söfnuðinum og kristnum verkum og sýna núna engin merki um að vilja þjóna Jehóva á ný. Við vonum svo sannarlega að þeir snúi sér aftur til Jehóva. Staðreyndin er hins vegar sú að ef við ástundum ,dauð verk‘ getur það orðið til þess að við missum velþóknun og blessun Jehóva. Það væri sorglegt. Þá myndum við glata þeirri gleði og þeim friði sem andi Guðs veitir okkur. Og ímyndaðu þér hvað það væri mikill missir að tilheyra ekki hinu kærleiksríka kristna bræðrafélagi. — Galatabréfið 1:6; 5:7, 13, 22-24.

15. Hvernig bendir Haggaí 2:14 okkur á alvöru málsins?

15 Þetta er mjög alvarlegt mál. Í Haggaí 2:14 sjáum við hvernig Jehóva leit á Gyðinga sem vanræktu tilbeiðsluhús hans en þiljuðu húsin sín í staðinn, annaðhvort bókstaflega eða í óeiginlegri merkingu. „Eins er um þennan lýð og þessa þjóð í mínum augum — segir Drottinn — svo og um allt verk er þeir vinna, og það sem þeir færa mér þar að fórn, það er óhreint.“ Svo lengi sem fólkið vanrækti sanna tilbeiðslu hafði Jehóva ekki þóknun á þeim fórnum sem það færði af hálfum huga á bráðabirgðaaltarinu í Jerúsalem. — Esrabók 3:3.

Jehóva lofar að styðja okkur

16. Hverju gátu Gyðingar treyst með hliðsjón af sýnum Sakaría?

16 Sakaría fékk að sjá átta sýnir. Þær fullvissuðu hlýðna Gyðinga, sem unnu að endurbyggingu musterisins, um að Guð myndi styðja þá. Fyrsta sýnin veitti þeim vissu fyrir því að musterið yrði fullgert og að velmegun myndi ríkja í Jerúsalem og Júda ef hlýðnir Gyðingar héldu vinnunni áfram. (Sakaría 1:8-17) Önnur sýnin var fyrirheit um að öllum stjórnum, sem stæðu gegn sannri tilbeiðslu, yrði rutt úr vegi. (Sakaría 1:18-21) Aðrar sýnir fullvissuðu þá um að Guð myndi vernda þá við bygginguna, að fólk af mörgum þjóðum myndi streyma til hins fullgerða tilbeiðsluhúss Guðs, að sannur friður og öryggi myndi ríkja, að fjallháum hindrunum gegn starfinu, sem Guð hafði falið þeim, yrði rutt úr vegi, að illskan yrði fjarlægð og að englar myndu hafa umsjón með verkinu og vernda fólkið. (Sakaría 2:5, 11; 3:10; 4:7; 5:6-11; 6:1-8) Þar sem hlýðnir menn höfðu þessa tryggingu fyrir stuðningi Guðs getum við skilið hvers vegna þeir breyttu lífsstíl sínum og beindu athyglinni að verkinu sem Guð fól þeim þegar hann frelsaði þá frá Babýlon.

17. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur í ljósi þess loforðs sem við höfum fengið?

17 Loforðið um að sönn tilbeiðsla hrósi sigri þegar fram líða stundir ætti sömuleiðis að hvetja okkur til dáða og fá okkur til að hugsa alvarlega um tilbeiðsluhús Jehóva. Spyrðu sjálfan þig: Sýna markmið mín og lífsstíll að ég sé sannfærður um að núna sé tíminn til að boða fagnaðarerindið um Guðsríki og gera menn að lærisveinum? Nota ég nægan tíma til að nema spádómsorð Guðs, hugleiða það og tala um það við trúsystkini mín og aðra?

18. Hvað er fram undan samkvæmt 14. kafla Sakaría?

18 Sakaría vísar í eyðingu Babýlonar hinnar miklu og Harmagedónstríðið sem kemur í kjölfarið. Við lesum: „Það mun verða óslitinn dagur — hann er Drottni kunnur — hvorki dagur né nótt, og jafnvel um kveldtíma mun vera bjart.“ Já, dagur Jehóva verður sannarlega dimmur og kaldur fyrir óvini hans hér á jörð. En hjá trúföstum tilbiðjendum Jehóva verður stöðug birta og þeir munu alltaf njóta velþóknunar hans. Sakaría lýsir því líka hvernig allt í nýja heiminum mun kunngera heilagleika Jehóva. Sönn tilbeiðsla í hinu mikla andlega musteri Guðs verður eina tilbeiðslan sem fram fer á jörðinni. (Sakaría 14:7, 16-19) Finnst þér ekki stórkostlegt að hafa þessa fullvissu? Við munum upplifa það sem spáð var og verða vitni að því þegar drottinvald Jehóva verður réttlætt. Dagur Jehóva verður engum líkur!

Varanleg blessun

19, 20. Hvers vegna finnst þér uppörvandi að lesa Sakaría 14:8, 9?

19 Í kjölfar þessa stórfenglega atburðar verður Satan djöflinum og illum englum hans kastað í undirdjúpið þar sem þeir geta ekkert aðhafst. (Opinberunarbókin 20:1-3, 7) Eftir það mun mannkynið hljóta ríkulega blessun í þúsundáraríki Krists. Sakaría 14:8, 9 segir: „Á þeim degi munu lifandi vötn út fljóta frá Jerúsalem, og mun annar helmingur þeirra falla í austurhafið, en hinn helmingurinn í vesturhafið. Skal það verða bæði sumar og vetur. Drottinn mun þá vera konungur yfir öllu landinu. Á þeim degi mun Drottinn vera einn og nafn hans eitt.“

20 „Lifandi vötn“, eða ,móða lífsvatnsins‘, munu streyma stöðuglega frá hásæti Messíasarríkisins og þau tákna það sem Jehóva hefur gert til að viðhalda lífinu. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Mikill múgur tilbiðjenda Jehóva, sem lifir af Harmagedón, hlýtur þá blessun að losna undan fordæmingu dauðans sem við erfðum frá Adam. Hinir dánu njóta meira að segja góðs af ráðstöfunum Guðs þar sem þeir fá upprisu. Þannig hefst nýr áfangi í stjórn Jehóva yfir jörðinni. Um allan heim munu menn viðurkenna að Jehóva er alheimsdrottinn og sá eini sem á að tilbiðja.

21. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

21 Með hliðsjón af öllu því sem Haggaí og Sakaría sögðu fyrir og öllu því sem hefur uppfyllst höfum við fulla ástæðu til að halda áfram að vinna í jarðneskum forgörðum hins andlega musteris eins og Jehóva hefur falið okkur. En þangað til sönn tilbeiðsla verður fullkomnuð skulum við öll keppast við að láta Guðsríki ganga fyrir í lífi okkar. Í Sakaría 8:9 erum við hvött: „Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru.“

Manstu?

• Hvaða sögulegu hliðstæður segja okkur að bækur Haggaí og Sakaría eigi við á okkar dögum?

• Hvað er hægt að læra af Haggaí og Sakaría um forgangsröðun?

• Af hverju veita bækur Haggaí og Sakaría okkur ástæðu til að horfa með trúartrausti til framtíðarinnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Haggaí og Sakaría hvöttu Gyðinga til að vinna af heilum huga og hljóta þar með blessun.

[Myndir á blaðsíðu 19]

Ert þú að ‚flýta þér með þitt hús‘.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jehóva lofaði að blessa fólk sitt og hann hefur staðið við það.