Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég hef unun af áminningum þínum“

„Ég hef unun af áminningum þínum“

„Ég hef unun af áminningum þínum“

„Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 15:4.

1. Hvernig veitir Jehóva okkur áminningar og hvers vegna þurfum við á þeim að halda?

JEHÓVA veitir þjónum sínum áminningar til að hjálpa þeim að takast á við erfiðleika nútímans. Við fáum sumar þessara áminninga þegar við lesum og hugleiðum Biblíuna en aðrar fáum við í gegnum efnið sem flutt er á safnaðarsamkomum eða í svörum bræðra og systra. Margt af því sem við lesum eða heyrum við þessi tækifæri er engin nýlunda. Við höfum sennilega farið yfir svipað efni áður. En þar sem við erum að eðlisfari gleymin þurfum við stöðugt að minna okkur á fyrirætlanir Jehóva, lög hans og leiðbeiningar. Við ættum að vera þakklát fyrir áminningar Jehóva. Þær hvetja okkur og hjálpa okkur að hafa skýrt í huga ástæðurnar fyrir því að við völdum að lifa í samræmi við vilja Guðs. Þess vegna lofaði sálmaritarinn Jehóva og söng: „Ég hef unun af áminningum þínum.“ — Sálmur 119:24, NW.

2, 3. (a) Hvers vegna lét Jehóva skrá í Biblíuna sannar frásögur af fólki? (b) Hvaða biblíufrásögur ætlum við að skoða í þessari grein?

2 Orð Guðs er mjög kröftugt þótt það hafi verið skrifað fyrir mörgum öldum. (Hebreabréfið 4:12) Þar er að finna sannar frásögur af fólki. Þótt siðvenjur og viðhorf hafi breyst mikið frá þeim tíma, þegar Biblían var skrifuð, þurfum við oft að glíma við svipuð vandamál. Margar frásögur, sem hafa verið varðveittar í Biblíunni okkur til góðs, segja frá fólki sem elskaði Jehóva og þjónaði honum trúfastlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Aðrar frásögur benda okkur á hvers konar breytni Guð hatar. Jehóva lét skrá í Biblíuna dæmi um bæði góða og slæma hegðun okkur til áminningar. Páll postuli komst svo að orði: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ — Rómverjabréfið 15:4.

3 Við skulum skoða nánar þrjú dæmi í Biblíunni: Samskipti Davíðs og Sáls, hegðun Ananíasar og Saffíru og framkomu Jósefs við eiginkonu Pótífars. Hver frásaga miðlar okkur mikilvægum lærdómi.

Hollusta við fyrirkomulag Guðs

4, 5. (a) Hvaða vandi kom upp í samskiptum Sáls og Davíðs? (b) Hvernig brást Davíð við óvild Sáls?

4 Sál konungur varð Jehóva ótrúr og ekki þess verður að ríkja yfir þjóðinni. Þess vegna hafnaði Guð honum og sagði Samúel spámanni að smyrja Davíð sem verðandi konung Ísraels. Davíð reyndist hraustur bardagamaður og hlaut lof fólksins. Sál fór því að líta á hann sem keppinaut og reyndi hvað eftir annað að drepa hann. Davíð komst undan í hvert skipti því að Jehóva var með honum. — 1. Samúelsbók 18:6-12, 25; 19:10, 11.

5 Í mörg ár neyddist Davíð til að vera á flótta. Þegar hann fékk tækifæri til að drepa Sál hvöttu félagarnir hann til að láta til skarar skríða. Þeir sögðu að Jehóva væri að gefa honum óvin hans í hendur. En Davíð neitaði. Breytni hans byggðist á hollustu í garð Jehóva og virðingu fyrir stöðu Sáls sem var smurður konungur þjóðar Guðs. Fyrst Jehóva hafði útvalið Sál sem konung Ísraels myndi hann þá ekki fjarlægja hann þegar það væri tímabært? Davíð fannst það ekki vera í sínum verkahring að skerast í leikinn. Eftir að hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að draga úr óvild Sáls sagði hann: „Vissulega mun annaðhvort Drottinn ljósta hann eða dauða hans ber að hendi með náttúrlegum hætti, eða hann fer í hernað og fellur. Drottinn láti það vera fjarri mér að leggja hendur á Drottins smurða.“ — 1. Samúelsbók 24:4-16; 26:7-20.

6. Af hverju ættum við að hafa áhuga á frásögunni af Davíð og Sál?

6 Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessari frásögu. Hefurðu einhvern tíma spurt þig hvers vegna ákveðin vandamál koma upp í söfnuðinum? Kannski hegðar einhver sér á óviðeigandi hátt. Hann hefur ef til vill ekki brotið alvarlega af sér en hegðun hans truflar þig samt. Hvernig ættir þú að bregðast við? Þar sem þú berð velferð bróður þíns fyrir brjósti og vilt sýna Jehóva trúfesti gætirðu ákveðið að tala vingjarnlega við hann til að reyna að hjálpa honum. En hvað ef vandamálið leysist ekki? Þegar þú hefur gert allt sem í þínu valdi stendur gætirðu lagt málið í hendur Jehóva. Það gerði Davíð.

7. Hvernig getum við líkt eftir Davíð ef við verðum fyrir óréttlæti eða fordómum?

7 Vandamál þín gætu líka tengst þjóðfélagslegu óréttlæti eða trúarfordómum. Kannski geturðu lítið sem ekkert gert til að leysa þau að svo stöddu. Það getur verið mjög erfitt að þrauka við aðstæður sem þessar en við getum lært margt af viðbrögðum Davíðs við óréttlæti. Í sálmum Davíðs er ekki aðeins að finna hjartnæmar bænir hans til Guðs um að forða sér úr klóm Sáls heldur vitna þessir sálmar einnig um trúfesti hans í garð Jehóva og hve honum var innilega umhugað um að nafn Guðs yrði helgað. (Sálmur 18:2-7, 26-28, 31-33, 49-51; 57:2-12) Davíð var trúfastur Jehóva þótt Sál hafi haldið áfram að beita hann óréttlæti í mörg ár. Við ættum líka að vera Jehóva og söfnuði hans trúföst óháð því hvernig aðrir hegða sér eða því óréttlæti sem við verðum fyrir. Við getum verið fullviss um að Jehóva þekkir allar aðstæður. — Sálmur 86:2.

8. Hvernig brugðust Vottar Jehóva í Mósambík við þegar reyndi á trúfesti þeirra?

8 Kristnir menn í Mósambík eru dæmi um fólk sem sýndi Jehóva óbilandi trúfesti við erfiðar aðstæður. Árið 1984 urðu þorp þeirra fyrir ítrekuðum árásum af vopnuðum mönnum úr andspyrnuhreyfingu sem fóru ránshendi um svæðið, brenndu hús og drápu fólk. Svo virtist sem sannkristnir menn gætu lítið sem ekkert gert til að vernda sig. Reynt var að fá íbúa á svæðinu til að ganga í lið með vopnaðri hersveit eða styðja hana á einhvern hátt. Vottar Jehóva töldu það brjóta gegn kristnu hlutleysi sínu. Það kallaði yfir þá mikla reiði. Allt að 30 vottar voru drepnir á þessu ólgusama tímabili, en þótt þeim væri hótað lífláti brást ekki trúfesti þeirra. * Þeir máttu þola óréttlæti líkt og Davíð en stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar.

Dæmi til viðvörunar

9, 10. (a) Hvað má læra af hegðun sumra í Biblíunni? (b) Hvað var athugavert við hegðun Ananíasar og Saffíru?

9 Hegðun sumra, sem nefndir eru í Biblíunni, er okkur víti til varnaðar. Þar er að finna margar frásögur af einstaklingum sem breyttu illa og uppskáru eftir því. Sumir voru jafnvel þjónar Guðs. (1. Korintubréf 10:11) Ein slík frásaga er af Ananíasi og Saffíru, hjónum í frumkristna söfnuðinum í Jerúsalem á fyrstu öld.

10 Eftir hvítasunnuna árið 33 þurfti að sjá fyrir efnislegum þörfum nýrra trúsystkina sem ílengdust í Jerúsalem því að þau vildu njóta góðs af samveru við postulana. Sumir í söfnuðinum seldu eignir til að tryggja að engan skorti neitt. (Postulasagan 2:41-45) Ananías og Saffíra seldu akur en færðu postulunum aðeins hluta andvirðisins. Þau sögðu hins vegar að þetta væri allt sem þau hefðu fengið fyrir söluna. Vissulega var þeim í sjálfsvald sett hversu mikið eða lítið þau gáfu en þau voru óheiðarleg og hvatir þeirra slæmar. Þau vildu koma vel fyrir og láta aðra halda að þau væru gjafmildari en raun bar vitni. Undir innblæstri heilags anda afhjúpaði Pétur postuli óheiðarleika þeirra og hræsni og Jehóva deyddi þau á staðnum. — Postulasagan 5:1-10.

11, 12. (a) Hvaða áminningar í Biblíunni hvetja okkur til að vera heiðarleg? (b) Hvaða gagn höfum við af því að vera heiðarleg?

11 Ef okkur finnst einhvern tíma freistandi að hagræða sannleikanum til að vaxa í áliti annarra skulum við minnast frásögunnar af Ananíasi og Saffíru en hún ætti að vera okkur kröftug áminning. Þótt við getum kannski villt um fyrir mönnum getum við ekki blekkt Jehóva. (Hebreabréfið 4:13) Í Biblíunni erum við ítrekað hvött til að vera heiðarleg hvort við annað því að lygarar eiga ekki heima á jörð sem hefur verið hreinsuð af öllu óréttlæti. (Orðskviðirnir 14:2; Opinberunarbókin 21:8; 22:15) Ástæðan er augljós. Faðir lyginnar er enginn annar en Satan djöfullinn. — Jóhannes 8:44.

12 Þegar við temjum okkur að vera heiðarleg í öllu hefur það margt gott í för með sér. Við fáum meðal annars hreina samvisku og vitum að við njótum trausts annarra. Oft hafa kristnir menn fengið vinnu eða haldið henni af því að þeir eru heiðarlegir. En það sem mestu máli skiptir er að heiðarleiki aflar okkur vináttu hins alvalda Guðs. — Sálmur 15:1, 2.

Að varðveita hreinleika sinn

13. Í hvaða aðstæðum lenti Jósef og hvernig brást hann við?

13 Jósef, sonur ættföðurins Jakobs, var seldur í þrælkun til Egyptalands þegar hann var 17 ára gamall. Hann var settur í þjónustu á heimili Pótífars sem var hirðmaður Faraós. Þar vakti hann athygli eiginkonu húsbónda síns. Hún vildi hafa kynmök við Jósef sem var myndarlegur ungur maður og dag eftir dag nauðaði hún í honum og sagði: „Leggstu með mér.“ Jósef var langt frá fjölskyldu sinni í landi þar sem enginn þekkti hann. Hann hefði auðveldlega geta haldið við þessa konu án þess að aðrir vissu af því. En þegar kona Pótífars greip að lokum í hann flúði hann. — 1. Mósebók 37:2, 18-28; 39:1-12.

14, 15. (a) Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á frásögunni af Jósef? (b) Af hverju var kristin kona þakklát fyrir að hafa hlýtt áminningum Guðs?

14 Jósef var alinn upp á guðræknu heimili og vissi að kynmök ógiftra einstaklinga væru röng. „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ spurði hann. Ályktun hans byggðist sennilega á því að hann þekkti staðlana sem Guð setti í Eden um einkvæni. (1. Mósebók 2:24) Það er gagnlegt fyrir þjóna Guðs nú á dögum að hugleiða hvernig Jósef brást við þessum aðstæðum. Í sumum löndum er viðhorf fólks til kynlífs svo frjálslegt að ungt fólk, sem neitar að stunda siðleysi, þarf að þola háð og spott jafnaldra sinna. Algengt er að fullorðið fólk haldi fram hjá maka sínum. Í frásögunni af Jósef er því að finna mjög tímabæra áminningu. Guð lítur enn svo á að hórdómur og hjúskaparbrot séu synd. (Hebreabréfið 13:4) Margir sem hafa látið undan þrýstingi til að stunda siðleysi eru sammála um að það eru ríkar ástæður til að gera það ekki. Óæskilegar afleiðingar geta meðal annars verið slæm samviska, afbrýðisemi, þungun, kynsjúkdómar og að finnast maður niðurlægður. Eins og segir í Biblíunni ‚syndgar saurlífismaðurinn á móti eigin líkama‘. — 1. Korintubréf 5:9-12; 6:18; Orðskviðirnir 6:23-29, 32.

15 Jenny, * einhleyp kona sem er vottur Jehóva, hefur ástæðu til að vera þakklát fyrir áminningar Guðs. Í vinnunni fór myndarlegur samstarfsmaður að sýna henni áhuga. Þegar hún endurgalt ekki áhugann gerðist hann áleitnari. „Ég stóð sjálfa mig að því að eiga erfitt með að varðveita hreinleika minn,“ viðurkennir hún, „því að maður verður upp með sér þegar einhver af hinu kyninu tekur eftir manni.“ Hún gerði sér samt grein fyrir því að maðurinn var bara að reyna að bæta henni á listann yfir þær konur sem hann hafði sofið hjá. Þegar henni fannst erfitt að standast freistinguna sárbað hún Jehóva að hjálpa sér að vera trúföst. Jenny komst að raun um að þegar hún rannsakaði Biblíuna og biblíutengd rit fékk hún áminningar sem virkuðu mjög hvetjandi á hana og hjálpuðu henni að vera á varðbergi. Ein af þessum áminningum var sagan af Jósef og konu Pótífars. Hún segir: „Svo framarlega sem ég held áfram að minna mig á hve sterkan kærleika ég ber til Jehóva þarf ég ekki að vera hrædd um að ég aðhafist þessa miklu óhæfu og syndgi á móti honum.“

Gefðu gaum að áminningum Jehóva

16. Hvernig getum við notið góðs af því að rifja upp og hugleiða frásögur af biblíupersónum?

16 Við getum öll dýpkað þakklæti okkar fyrir meginreglur Jehóva með því að reyna að skilja hvers vegna hann lét varðveita vissar frásögur í Biblíunni. Hvað kenna þær okkur? Hvaða eiginleikum, sem við sjáum í fari biblíupersóna, ættum við að líkja eftir og hvaða tilhneigingar ættum við að forðast? Hundruð einstaklinga koma við sögu í Biblíunni. Allir sem elska leiðbeiningar Guðs ættu að þroska með sér löngun í þá visku sem veitir líf og vilja læra af frásögunum sem Jehóva hefur látið varðveita. Í þessu blaði hafa oft birst greinar um biblíupersónur sem við getum lært af. Væri ekki tilvalið að lesa aftur yfir nokkrar þeirra?

17. Hvað finnst þér um áminningar Jehóva og hvers vegna?

17 Við getum verið innilega þakklát fyrir þá umhyggju sem Jehóva sýnir þeim sem leggja sig fram um að gera vilja hans. Við erum ekki fullkomin frekar en karlar og konur sem fjallað er um í Biblíunni. En við getum haft heilmikið gagn af því sem ritað er um þau. Þegar við gefum gaum að áminningum Jehóva getum við forðast dýrkeypt mistök og líkt eftir góðu fordæmi þeirra sem gengu veg réttlætisins. Ef við gerum það getum við tekið undir með sálmaritaranum sem söng: „Sælir eru þeir er halda reglur [Jehóva], þeir er leita hans af öllu hjarta. Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.“ — Sálmur 119:2, 167.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Sjá árbók Votta Jehóva fyrir árið 1996, bls. 160-62.

^ gr. 15 Nafninu hefur verið breytt.

Hvert er svarið?

• Hvað getum við lært af framkomu Davíðs við Sál?

• Hvað lærum við af frásögunni um Ananías og Saffíru?

• Af hverju á saga Jósefs sérstakt erindi til okkar nú á dögum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Af hverju vildi Davíð ekki heimila að Sál yrði drepinn?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Hvað lærum við af frásögunni um Ananías og Saffíru?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Af hverju hafnaði Jósef siðlausum umleitunum?