Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hve mjög elska ég lögmál þitt“

„Hve mjög elska ég lögmál þitt“

„Hve mjög elska ég lögmál þitt“

„Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ — SÁLMUR 119:97.

1, 2. (a) Í hvaða raunum lenti ritari 119. sálmsins? (b) Hvernig brást hann við og af hverju?

RITARI 119. sálmsins lenti í miklum raunum. Hann átti ofstopafulla óvini sem hunsuðu lög Guðs, spottuðu hann og spunnu lygar gegn honum. Þjóðhöfðingjar tóku saman ráð gegn honum og ofsóttu hann. Óguðlegir menn umkringdu hann og líf hans var í hættu. Allt þetta kom honum til að „tárast af trega“. (Sálmur 119:9, 23, 28, 51, 61, 69, 85, 87, 161) En þrátt fyrir þessar raunir söng sálmaritarinn: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ — Sálmur 119:97.

2 Þú veltir kannski fyrir þér hvernig lögmálið gat huggað sálmaritarann og hughreyst. Hann treysti því að Jehóva hefði áhuga á honum og það styrkti hann. Sálmaritarinn vissi hversu gagnlegt væri að fylgja lögmálinu sem Guð hafði gefið í kærleika sínum og það veitti honum gleði þrátt fyrir erfiðleikana sem andstæðingar hans ollu honum. Hann gerði sér grein fyrir því að Jehóva hafði gert vel við hann. Auk þess gerðu leiðbeiningarnar í lögmáli Guðs hann vitrari en óvini hans og létu hann jafnvel halda lífi. Það veitti honum innri frið og góða samvisku að hlýða lögmálinu. — Sálmur 119:1, 9, 65, 93, 98, 165.

3. Af hverju getur verið erfitt fyrir kristna menn að lifa í samræmi við mælikvarða Guðs nú á dögum?

3 Sumir þjónar Guðs nú á dögum verða einnig fyrir miklum trúarprófraunum. Við lendum kannski ekki í lífsháska eins og sálmaritarinn en við lifum á ‚örðugum tíðum‘. Margir sem við hittum dagsdaglega kunna ekki að meta það sem andlegt er. Markmið þeirra eru eigingjörn og stjórnast af efnishyggju og fólkið sjálft er hrokafullt og ber ekki virðingu fyrir neinu. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Ungt kristið fólk þarf stöðugt að standast þrýsting sem reynir á siðferðisþrek þess. Við slíkar aðstæður getur verið erfitt að viðhalda kærleika til Jehóva og þess sem er rétt. Hvernig getum við verndað okkur?

4. Hvernig sýndi sálmaritarinn að hann kunni að meta lögmál Guðs og ættu kristnir menn að gera slíkt hið sama?

4 Það sem hjálpaði sálmaritaranum að standast þrýstinginn, sem hann varð fyrir, var að gefa sér góðan tíma til að lesa lögmál Guðs vandlega og hugleiða það með þakklæti. Þannig lærði hann að elska lögmál Guðs. Í næstum hverju einasta versi í Sálmi 119 nefnir hann lög Jehóva á einn eða annan hátt. * Kristnir menn nú á dögum eru ekki undir Móselögunum sem Guð gaf Ísraelsmönnum til forna. (Kólossubréfið 2:14) En meginreglurnar í lögmálinu hafa varanlegt gildi. Þessar meginreglur voru sálmaritaranum til hughreystingar og þær geta einnig uppörvað þjóna Guðs sem glíma við erfiðleika nútímans.

5. Hvaða ákvæði Móselaganna ætlum við að skoða?

5 Við skulum skoða nánar þrjú ákvæði Móselaganna og sjá hvernig þau geta verið okkur til hvatningar. Þetta eru hvíldardagsboðið, ákvæðið um eftirtíning og boðorðið sem bannar ágirnd. Við munum komast að raun um að til að geta tekist á við erfiðleikana, sem einkenna okkar daga, verðum við að skilja meginreglurnar á bak við þessi ákvæði.

Að sinna andlegri þörf okkar

6. Hvaða grundvallarþarfir hafa allir menn?

6 Manninum voru áskapaðar ýmsar þarfir. Það er til dæmis nauðsynlegt fyrir fólk að fá mat, drykk og húsaskjól til að halda heilsu. En maðurinn þarf líka að sinna ‚andlegri þörf‘ sinni. Annars getur hann ekki orðið raunverulega hamingjusamur. (Matteus 5:3, NW) Jehóva taldi svo nauðsynlegt að menn sinntu þessari ásköpuðu þörf, að hann bauð þeim að gera hlé á daglegum störfum í heilan sólarhring í hverri viku til að sinna andlegum málum.

7, 8. (a) Hvaða greinarmun gerði Guð á hvíldardeginum og öðrum dögum? (b) Hvaða tilgangi þjónaði hvíldardagurinn?

7 Hvíldardagsákvæðið undirstrikaði hve mikilvægt er að einbeita sér að andlegum málum. Í fyrsta skiptið sem orðið „hvíldardagur“ kemur fyrir í Biblíunni er það notað í tengslum við himnabrauðið manna sem Jehóva sá Ísraelsmönnum fyrir í eyðimörkinni. Í sex daga áttu þeir að safna þessu brauði sem þeir fengu fyrir kraftaverk. Á sjötta deginum áttu þeir að safna brauði „til tveggja daga“ því að á sjöunda deginum yrði ekkert til að safna. Sjöundi dagurinn átti að vera „heilagur hvíldardagur Drottins“ og á honum átti hver maður að halda kyrru fyrir á sínum stað. (2. Mósebók 16:13-30) Eitt af boðorðunum tíu kvað á um að enginn skyldi vinna á hvíldardegi. Sá dagur var helgur. Það lá dauðarefsing við því að halda hann ekki helgan. — 2. Mósebók 20:8-11; 4. Mósebók 15:32-36.

8 Hvíldardagslögin sýndu hve umhugað Jehóva var um bæði líkamlega og andlega velferð fólksins. „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna,“ sagði Jesús. (Markús 2:27) Þessi dagur gaf Ísraelsmönnum ekki aðeins tækifæri til að hvílast heldur einnig til að styrkja tengslin við skaparann og sýna kærleika sinn til hans. (5. Mósebók 5:12) Hvíldardagurinn átti að vera algerlega helgaður andlegum hugðarefnum. Það fól meðal annars í sér að biðja, hugleiða lögmál Guðs og tilbiðja hann í sameiningu sem fjölskylda. Þetta fyrirkomulag kom í veg fyrir að Ísraelsmenn notuðu allan tíma sinn og krafta til að sinna efnislegum þörfum. Hvíldardagurinn minnti þá á að samband þeirra við Jehóva var það dýrmætasta sem þeir áttu. Jesús undirstrikaði þessa óbreytanlegu meginreglu þegar hann sagði: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ — Matteus 4:4.

9. Hvað geta kristnir menn lært af hvíldardagsákvæðinu?

9 Þjónar Guðs þurfa ekki lengur að halda bókstaflegan hvíldardag. En hvíldardagsákvæðið hefur ekki bara sögulegt gildi. (Kólossubréfið 2:16) Það minnir okkur á að við verðum að láta andleg mál ganga fyrir. Afþreying og eftirsókn eftir efnislegum hlutum má ekki skyggja á tilbeiðslu okkar. (Hebreabréfið 4:9, 10) Við gætum því spurt okkur: Hvað gengur fyrir í lífi mínu? Læt ég nám, bænasamband við Jehóva, safnaðarsamkomur og boðun fagnaðarerindisins hafa forgang í lífinu? Eða taka önnur áhugamál allan tíma minn? Jehóva lofar að okkur muni ekki skorta efnislegar nauðsynjar ef við látum andleg mál ganga fyrir. — Matteus 6:24-33.

10. Hvaða gagn höfum við af því að nota tíma til að sinna andlegum málum?

10 Sá tími, sem við notum til að nema Biblíuna og biblíutengd rit og hugleiða efnið vandlega, hjálpar okkur að nálægja okkur Jehóva. (Jakobsbréfið 4:8) Kona nokkur að nafni Susan fór fyrir 40 árum að taka reglulega frá tíma til biblíunáms. Hún viðurkennir að í fyrstu hafi henni ekki þótt það gaman. Þetta var bara skylduverk. En því meira sem hún las þeim mun skemmtilegra fannst henni það. Núna saknar hún þess ef hún missir úr eina biblíunámsstund einhverra hluta vegna. „Námið hefur hjálpað mér að kynnast Jehóva sem föður,“ segir hún. „Ég get treyst honum, reitt mig á hann og nálgast hann frjálslega í bæn. Það er alveg dásamlegt að hugsa til þess hve mikið Jehóva elskar þjóna sína, hvernig hann annast mig persónulega og hefur hjálpað mér.“ Það getur einnig gefið okkur mikla gleði að sinna andlegri þörf okkar.

Lög Guðs um eftirtíning

11. Hvernig var ákvæðið um eftirtíning?

11 Lögin um eftirtíning voru annað ákvæði Móselaganna sem endurspeglaði umhyggju Guðs fyrir þjónum sínum. Jehóva gaf fyrirmæli um að þegar ísraelskur bóndi uppskæri afurðir landsins ættu bágstaddir að fá að safna því saman sem uppskerumennirnir skildu eftir. Bændur áttu hvorki að skera akur sinn út í hvert horn né gjörtína ólífulundina eða víngarðana. Ef þeir gleymdu kornbundini úti á akrinum áttu þeir ekki að snúa aftur til að sækja það. Þetta var kærleiksríkt fyrirkomulag fyrir fátæka, útlendinga, munaðarlausa og ekkjur. Að vísu kostaði það talsverða vinnu að tína eftirtíning en þá þurfti fólk ekki að betla. — 3. Mósebók 19:9, 10; 5. Mósebók 24:19-22; Sálmur 37:25.

12. Hvaða tækifæri fengu bændur með ákvæðinu um eftirtíning?

12 Í lögunum um eftirtíning var ekki tekið fram hve mikið bændur áttu að skilja eftir fyrir bágstadda. Það var undir þeim komið hvort þeir skildu eftir mjóa eða breiða ræmu af óuppskornu korni á jöðrum akursins. Þannig lærðu þeir að sýna örlæti. Bændur fengu tækifæri til að sýna skapara sínum þakklæti, honum sem sá þeim fyrir uppskerunni, því að „sá heiðrar [skapara sinn], er miskunnar sig yfir fátækan“. (Orðskviðirnir 14:31) Bóas er dæmi um mann sem gerði þetta. Af örlæti sínu sá hann til þess að Rut gæti safnað saman nægu korni, en hún var ekkja sem tíndi eftirtíning á akri hans. Jehóva umbunaði Bóasi ríkulega fyrir örlæti hans. — Rutarbók 2:15, 16; 4:21, 22; Orðskviðirnir 19:17.

13. Hvað lærum við af hinu forna ákvæði um eftirtíning?

13 Meginreglan á bak við ákvæðið um eftirtíning hefur ekki breyst. Jehóva ætlast til þess að þjónar hans séu örlátir, sérstaklega í garð bágstaddra. Því örlátari sem við erum þeim mun meiri blessun fáum við. „Gefið, og yður mun gefið verða,“ sagði Jesús. „Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ — Lúkas 6:38.

14, 15. Hvernig getum við sýnt örlæti og hvernig er það til góðs bæði fyrir okkur og þá sem við hjálpum?

14 Páll postuli hvatti okkur til þess að „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum“. (Galatabréfið 6:10) Þess vegna ætti okkur að vera umhugað um að trúsystkini okkar fái leiðsögn og uppörvun frá Biblíunni þegar þau verða fyrir trúarprófraunum. En þau gætu líka þurft að fá hjálp í verki til dæmis til að komast í ríkissalinn eða kaupa í matinn. Eru einhverjir í söfnuðinum sem eru komnir til ára sinna, eru veikir eða eiga ekki heimangengt og myndu gjarnan vilja fá hvetjandi heimsókn eða aðstoð? Ef við leggjum okkur fram um að taka eftir því hvernig við getum hjálpað öðrum á þennan hátt getur Jehóva kannski notað okkur til að svara bænum einhvers sem er hjálparþurfi. Þótt það sé skylda kristinna manna að annast hver annan nýtur sá sem veitir hjálpina einnig góðs af því. Þegar við sýnum trúsystkinum okkar ósvikinn kærleika gefur það okkur mikla gleði og innri vellíðan og veitir okkur velþóknun Jehóva. — Orðskviðirnir 15:29.

15 Það er líka mjög mikilvægt að kristnir menn sýni óeigingirni með því að nota tíma sinn og krafta til að tala við aðra um fyrirætlun Guðs. (Matteus 28:19, 20) Allir sem hafa notið þeirrar gleði að hjálpa annarri manneskju að ná því marki að vígja líf sitt Jehóva þekkja sannleikann í orðum Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

Vörumst ágirnd

16, 17. Hvað bannaði tíunda boðorðið og hvers vegna?

16 Þriðja ákvæðið í lögmáli Guðs til Ísraelsmanna, sem við ætlum að skoða, er tíunda boðorðið sem bannar ágirnd. Það segir: „Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ (2. Mósebók 20:17) Enginn maður gat séð til þess að boðorðinu væri framfylgt þar sem menn sjá ekki hvað býr í hjartanu. Boðorðið gerði lögmálið háleitara en lög manna. Það minnti Ísraelsmenn á að hver og einn væri ábyrgur frammi fyrir Jehóva sem sér hvatir hjartans. (1. Samúelsbók 16:7) Auk þess benti þetta boðorð á undirrót margra illra verka. — Jakobsbréfið 1:14.

17 Lagaákvæðið, sem bannaði ágirnd, hvatti þjóna Guðs til að forðast efnishyggju, græðgi og það að kvarta undan aðstæðum sínum í lífinu. Það verndaði þá líka gegn freistingunni til að stela eða fremja siðleysi. Það munu alltaf vera einhverjir sem eiga eignir sem við erum hrifin af eða virðast ganga betur en okkur á einhverju sviði. Ef við höfum ekki stjórn á hugsunum okkar gætum við orðið óánægð og farið að öfunda þá. Biblían segir að ágirnd sé merki um ‚ósæmilegt hugarfar‘. Við erum mun betur sett ef við forðumst ágirnd með öllu. — Rómverjabréfið 1:28-30.

18. Hvaða andrúmsloft ríkir í heiminum og hvaða slæmu áhrif getur það haft?

18 Andrúmsloftið í heiminum ýtir undir efnishyggju og samkeppnisanda. Viðskiptaheimurinn notar auglýsingar til að vekja löngun í nýjar vörur og oft er gefið í skyn að við getum ekki verið hamingjusöm án þeirra. Þetta er einmitt hugarfarið sem er fordæmt í lögmálinu. Annað sem tengist þessu er löngunin til að verða ríkur og komast áfram í lífinu hvað sem það kostar. Páll postuli aðvaraði: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

19, 20. (a) Hvað er sérstaklega verðmætt í augum þeirra sem þjóna Jehóva? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?

19 Þeir sem elska lög Guðs vita hversu hættuleg efnishyggjan er og fá vernd gegn henni. Sálmaritarinn bað til dæmis Jehóva: „Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi. Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.“ (Sálmur 119:36, 72) Ef við erum sannfærð um sannleiksgildi þessara orða hjálpar það okkur að halda réttu jafnvægi og forðast snöru efnishyggjunnar, græðgi og óánægju með hlutskipti okkar í lífinu. Það er „guðhræðslan“ sem er mikill gróðavegur en ekki það að sanka að sér efnislegum eignum. — 1. Tímóteusarbréf 6:6.

20 Meginreglurnar á bak við lögmálið, sem Jehóva gaf Ísraelsmönnum til forna, eru jafn gagnlegar núna á þessum erfiðu tímum og þær voru þegar Móse fékk lögmálið frá Jehóva. Því betur sem við förum eftir þessum meginreglum, því betur skiljum við þær, þeim mun meira elskum við þær og þeim mun hamingjusamari verðum við. Lögmálið kennir okkur margt og við erum minnt á gildi þess þegar við lesum lýsandi frásögur af biblíupersónum. Í næstu grein skoðum við nokkrar slíkar frásögur.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Í öllum nema 4 af 176 versum þessa sálms nefnir sálmaritarinn ákvæði Jehóva, boð hans, dóma, fyrirheit, fyrirmæli, lög, lögmál, orð, reglur, skipanir og vegi eða sagnorð dregin af þessum orðum.

Hvert er svarið?

• Af hverju elskaði ritari 119. sálmsins lögmál Jehóva?

• Hvað geta kristnir menn lært af hvíldardagsboðinu?

• Hvaða gagn höfum við af ákvæðinu um eftirtíning?

• Hvaða vernd veitir lagaákvæðið sem bannar ágirnd?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hvað undirstrikaði hvíldardagsboðið?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hvað lærum við af ákvæðinu um eftirtíning?