Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað átti Jesús við þegar hann sagði við Nikódemus: „Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn“? — Jóhannes 3:13.

Þegar Jesús sagði þetta var hann enn á jörðinni og hafði ekki stigið aftur upp til himna. En það sem við vitum um Jesú og samhengið í orðum hans getur hjálpað okkur að skilja hvað hann átti við.

Jesús „steig niður frá himni“ því hann hafði áður lifað á andlega tilverusviðinu hjá föður sínum. En á fyrir fram ákveðnum tíma var líf sonarins fært í móðurkvið Maríu svo að Jesús myndi fæðast sem maður. (Lúkas 1:30-35; Galatabréfið 4:4; Hebreabréfið 2:9, 14, 17) Eftir dauða sinn yrði Jesús reistur upp sem andavera og myndi snúa aftur til Jehóva. Rétt fyrir dauða sinn gat Jesús því beðið: „Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“ — Jóhannes 17:5; Rómverjabréfið 6:4, 9; Hebreabréfið 9:24; 1. Pétursbréf 3:18.

Þegar Jesús talaði við Nikódemus, sem var farísei og kennari í Ísrael, hafði hann enn ekki snúið aftur til himna. Auðvitað hafði enginn annar maður stigið upp til himna eftir dauðann. Jesús sagði að þótt enginn spámaður Guðs jafnaðist á við Jóhannes skírara væri ‚hinn minnsti í himnaríki honum meiri‘. (Matteus 11:11) Og Pétur postuli sagði að jafnvel hinn trúfasti konungur Davíð hefði dáið og lægi enn í gröf sinni og hefði ekki stigið upp til himna. (Postulasagan 2:29, 34) En það var ástæða fyrir því að þeir sem dóu fyrir daga Jesú, eins og Davíð, Jóhannes skírari og aðrir trúmenn, fóru ekki til himna. Þeir dóu áður en Jesús opnaði leiðina eða möguleikann fyrir menn að fá upprisu til himnesks lífs. Páll postuli skrifaði að Jesús hefði verið „fyrirrennari“ sem „vígði oss . . . nýjan veg og lifandi“ til himna. — Hebreabréfið 6:19, 20; 9:24; 10:19, 20.

Þar sem Jesús hafði enn ekki dáið og fengið upprisu, hvað átti hann þá við þegar hann sagði við Nikódemus: „Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn“? (Jóhannes 3:13) Skoðum samhengið. Um hvað var Jesús að ræða við Nikódemus?

Þegar þessi höfðingi meðal Gyðinga kom til Jesú í skjóli nætur sagði Jesús við hann: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.“ (Jóhannes 3:3) Nikódemus spurði þá: ‚Hvernig getur það verið? Hvernig getur maður fæðst í annað sinn?‘ Hann skildi ekki það sem Jesús var að kenna honum varðandi það að vera í ríki Guðs. Gat hann á einhvern hátt fengið nánari upplýsingar? Hann gat í það minnsta ekki fengið upplýsingar frá neinum manni því að enginn hafði verið á himni og enginn var fær um að útskýra hvernig maður kæmist í himnaríki. Jesús var sá eini sem gat það. Hann gat frætt Nikódemus og aðra vegna þess að hann hafði stigið niður frá himni og var því fær um að upplýsa fólk um þessa hluti.

Það er hægt að draga mikilvægan lærdóm af þessari spurningu hvað varðar nám í orði Guðs. Það er ekki skynsamlegt að gera veður út af ritningastað aðeins vegna þess að hann er torskilinn. Við þurfum að skoða það sem segir á einum stað í Biblíunni með hliðsjón af því sem segir annars staðar í henni. Auk þess getur samhengið — aðstæður eða það sem var til umræðu — hjálpað okkur að fá rökréttan skilning á flóknum texta.