Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir tilheyrðu útvalinni þjóð Guðs frá fæðingu

Þeir tilheyrðu útvalinni þjóð Guðs frá fæðingu

Þeir tilheyrðu útvalinni þjóð Guðs frá fæðingu

„Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans.“ — 5. MÓSEBÓK 7:6.

1, 2. Hvaða máttarverk vann Jehóva fyrir þjóð sína og hvers konar samband eignaðist hún við hann?

JEHÓVA tók upp nýtt samband við þjóna sína á jörð árið 1513 f.Kr. Það var þá sem hann auðmýkti voldugt heimsveldi og frelsaði Ísraelsmenn úr þrælkun. Þar með varð hann frelsari þeirra og eigandi. Áður en hann gerði það sagði hann Móse: „Seg því Ísraelsmönnum: ‚Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum. Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð.“ — 2. Mósebók 6:6, 7; 15:1-7, 11.

2 Ísraelsmenn eignuðust sáttmálasamband við Jehóva, Guð sinn, skömmu eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. Þaðan í frá átti Jehóva skipulagða þjóð á jörð í stað þess að eiga samskipti við einstaklinga, fjölskyldur eða ættflokka. (2. Mósebók 19:5, 6; 24:7) Hann gaf þjóð sinni lög sem stjórnuðu daglegu lífi hennar og einnig tilbeiðslu. Móse sagði þjóðinni: „Hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og Drottinn Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann? Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag?“ — 5. Mósebók 4:7, 8.

Ísraelsmenn voru vottar Guðs frá fæðingu

3, 4. Nefndu mikilvæga ástæðu fyrir því að Ísraelsmenn voru til sem þjóð.

3 Öldum síðar minnti Jehóva Ísraelsmenn á mikilvæga ástæðu fyrir því að þeir væru til sem þjóð. Hann innblés Jesaja spámanni að skrifa: „Nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. . . . ‚Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar: sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!‘ En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið. . . . Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.“ — Jesaja 43:1, 3, 6, 7, 10, 21.

4 Ísraelsmenn báru nafn Jehóva og áttu að vitna um drottinvald hans fyrir öðrum þjóðum. Þeir voru ‚skapaðir Jehóva til dýrðar‘. Þeir áttu að ‚víðfrægja lof hans‘ með því að segja frá því hvernig hann hefði frelsað þá með undursamlegum hætti. Þannig myndu þeir vegsama heilagt nafn hans. Ísraelsmenn áttu með öðrum orðum að vera vottar Jehóva.

5. Að hvaða leyti voru Ísraelsmenn vígð þjóð?

5 Salómon konungur sagði á 11. öld f.Kr. að Jehóva hefði aðskilið Ísraelsmenn frá öðrum þjóðum. Hann sagði í bæn til Jehóva: „Þú hefir skilið þá frá öllum þjóðum jarðarinnar þér til eignar.“ (1. Konungabók 8:53) Hver einstakur Ísraelsmaður átti einnig sérstakt samband við Jehóva. Móse hafði sagt þeim: „Þér eruð börn Drottins, Guðs yðar. . . . Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður.“ (5. Mósebók 14:1, 2) Ungir Ísraelsmenn þurftu þess vegna ekki að vígja Jehóva líf sitt. Þeir tilheyrðu vígðri þjóð hans frá fæðingu. (Sálmur 79:13; 95:7) Hver ný kynslóð var frædd um lögmál Jehóva og henni var skylt að halda það vegna sáttmálans sem tengdi þjóðina við Jehóva. — 5. Mósebók 11:18, 19.

Þeim var frjálst að velja

6. Hvað þurfti hver einstakur Ísraelsmaður að ákveða?

6 Enda þótt hver einstakur Ísraelsmaður væri vígður Guði frá fæðingu þurfti hver og einn að taka persónulega ákvörðun um að þjóna honum. Móse sagði þjóðinni áður en hún gekk inn í fyrirheitna landið: „Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.“ (5. Mósebók 30:19, 20) Ísraelsmenn þurftu því hver og einn að ákveða að elska Jehóva, hlýða rödd hans og halda sér fast við hann. Og þar eð þeir höfðu frjálsan vilja þurftu þeir að taka afleiðingunum af ákvörðun sinni. — 5. Mósebók 30:16-18.

7. Hvað gerðist eftir að kynslóðin, sem var samtíða Jósúa, var horfin af sjónarsviðinu?

7 Dómaratíminn er ágætisdæmi til að sýna fram á hvaða afleiðingar það hefur að vera trúfastur eða ótrúr. Fyrir dómaratímann höfðu Ísraelsmenn fylgt góðu fordæmi Jósúa og hlotið blessun fyrir. „Lýðurinn þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir er séð höfðu öll hin miklu verk Drottins, er hann gjörði fyrir Ísrael.“ En eftir dauða Jósúa „reis upp önnur kynslóð . . . er eigi þekkti Drottin né þau verk, er hann hafði gjört fyrir Ísrael. Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins.“ (Dómarabókin 2:7, 10, 11) Ljóst er að ný og óreynd kynslóð kunni hvorki að meta þá arfleifð að mega tilheyra vígðri þjóð né þau máttarverk sem Jehóva hafði unnið í þágu hennar forðum daga. — Sálmur 78:3-7, 10, 11.

Að lifa í samræmi við vígsluheit þjóðarinnar

8, 9. (a) Hvernig gátu Ísraelsmenn sýnt í verki að þeir væru vígðir Jehóva? (b) Hvað uppskáru þeir sem færðu sjálfviljafórnir?

8 Jehóva gaf Ísraelsmönnum tækifæri til að lifa í samræmi við vígsluheit þjóðarinnar. Í lögmálinu var til dæmis kveðið á um fórnir. Sumar þeirra var skylt að færa en aðrar gátu menn fært að eigin ósk. (Hebreabréfið 8:3) Sjálfviljafórnirnar voru meðal annars brennifórnir, fórnir af mjöli og heillafórnir. Þær voru eins og gjafir sem menn gáfu Jehóva til að ávinna sér velvild hans og færa honum þakkir. — 3. Mósebók 7:11-13.

9 Sjálfviljafórnirnar glöddu Jehóva. Sagt var um brennifórnir og fórnir af mjöli að þær væru Jehóva til „þægilegs ilms“. (3. Mósebók 1:9; 2:2) Þegar færð var heillafórn voru blóð og fita fórnardýrsins færð Jehóva en prestarnir og sá sem færði fórnina átu hluta hennar. Máltíðin var þannig tákn um friðsamlegt samband við Jehóva. Í lögmálinu sagði: „Er þér slátrið heillafórn Drottni til handa, þá slátrið henni þannig, að hún afli yður velþóknunar.“ (3. Mósebók 19:5) Allir Ísraelsmenn voru vígðir Jehóva frá fæðingu en þeir sem færðu Jehóva sjálfviljafórnir sýndu þar með að þeir vildu eiga Jehóva að Guði, og þeir ‚öfluðu sér velþóknunar‘ og hlutu ríkulega blessun fyrir. — Malakí 3:10.

10. Hvernig lýsti Jehóva yfir vanþóknun sinni á dögum Jesaja og Malakís?

10 En oft reyndist vígð þjóð Jehóva honum ótrú. Hann sagði Ísraelsmönnum fyrir munn Jesaja spámanns: „Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum.“ (Jesaja 43:23) Auk þess var fórn einskis virði í augum Jehóva nema hún væri færð af fúsu geði og af kærleika. Ísraelsmenn voru til dæmis farnir að færa gallaðar skepnur að fórn á dögum Malakís spámanns sem var uppi þrem öldum eftir daga Jesaja. Malakí sagði þeim þess vegna: „Ég hefi enga velþóknun á yður — segir Drottinn allsherjar, og ég girnist enga fórnargjöf af yðar hendi. . . . Þér færið fram það sem rænt er og það sem halt er og það sem sjúkt er og færið það í fórn. Ætti ég að girnast slíkt af yðar hendi? — segir Drottinn.“ — Malakí 1:10, 13; Amos 5:22.

Hafnað sem vígðri þjóð

11. Hvaða tækifæri stóð Ísraelsmönnum til boða?

11 Jehóva lofaði Ísraelsmönnum um það leyti sem þeir urðu vígð þjóð hans: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Hinn fyrirheitni Messías myndi koma fram meðal þeirra og gefa þeim fyrstum manna tækifæri til að tilheyra stjórn Guðsríkis. (1. Mósebók 22:17, 18; 49:10; 2. Samúelsbók 7:12, 16; Lúkas 1:31-33; Rómverjabréfið 9:4, 5) En aðeins minnihluti Ísraelsmanna lifði eftir vígsluheiti sínu. (Matteus 22:14) Meirihlutinn hafnaði Messíasi og tók hann að lokum af lífi. — Postulasagan 7:51-53.

12. Hvað sagði Jesús sem sýnir að Ísrael var hafnað sem vígðri þjóð Jehóva?

12 Fáeinum dögum fyrir dauða sinn sagði Jesús trúarleiðtogum Gyðinga: „Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum. Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:42, 43) Til marks um að Jehóva hefði hafnað Gyðingum sem vígðri þjóð sinni sagði Jesús: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ — Matteus 23:37, 38.

Ný vígð þjóð

13. Hvað boðaði Jehóva á dögum Jeremía?

13 Á dögum Jeremía spámanns boðaði Jehóva nýja hluti varðandi þjóð sína. Við lesum: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir Drottinn — að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra — segir Drottinn. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta — segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“ — Jeremía 31:31-33.

14. Hvenær og á hvaða grundvelli varð ný vígð þjóð Jehóva til? Hver er þessi nýja þjóð?

14 Grundvöllur nýja sáttmálans var lagður árið 33 þegar Jesús dó og bar andvirði úthellts blóðs síns fyrir föður sinn. (Lúkas 22:20; Hebreabréfið 9:15, 24-26) Sáttmálinn tók síðan gildi á hvítasunnu það ár þegar heilögum anda var úthellt og til varð ný þjóð sem nefnd er „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16; Rómverjabréfið 2:28, 29; 9:6; 11:25, 26) Pétur postuli sagði í bréfi til andasmurðra kristinna manna: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir ‚Guðs lýður‘.“ (1. Pétursbréf 2:9, 10) Hið sérstaka samband Jehóva og Ísraelsþjóðarinnar var á enda. Árið 33 færðist velþóknun Jehóva frá hinum jarðneska Ísrael til hins andlega, kristna safnaðarins en hann var ‚sú þjóð sem bar ávöxt‘ Messíasarríkisins. — Matteus 21:43.

Hver og einn þarf að vígjast

15. Í hvaða tilgangi áttu áheyrendur Péturs á hvítasunnu árið 33 að skírast?

15 Eftir hvítasunnu árið 33 þurftu allir, hvort heldur Gyðingar eða heiðingjar, að vígjast Guði og láta skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“. * (Matteus 28:19) Pétur postuli sagði Gyðingum og trúskiptingum sem tóku við boðskap hans á hvítasunnu: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.“ (Postulasagan 2:38) Gyðingar og trúskiptingar urðu að skírast til að gefa tákn um að þeir hefðu bæði vígt Jehóva líf sitt og eins viðurkennt að hann fyrirgæfi syndir þeirra fyrir atbeina Jesú. Þeir urðu að viðurkenna Jesú sem æðstaprest Jehóva og sem leiðtoga sinn og höfuð kristna safnaðarins. — Kólossubréfið 1:13, 14, 18.

16. Hvernig gátu Gyðingar og heiðingjar á dögum Páls orðið hluti af hinum andlega Ísrael?

16 Páll postuli sagði mörgum árum síðar: „Boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.“ (Postulasagan 26:20) Eftir að Páll hafði sannfært menn, bæði Gyðinga og heiðingja, um að Jesús væri Kristur eða Messías kenndi hann þeim áfram uns þeir vígðust og létu skírast. (Postulasagan 16:14, 15, 31-33; 17:3, 4; 18:8) Með því að snúa sér til Guðs urðu nýir lærisveinar hluti af hinum andlega Ísrael.

17. Hvaða innsiglun er brátt á enda en hvaða annað starf er í fullum gangi?

17 Nú er þess skammt að bíða að lokið verði við að innsigla þá sem eftir eru af hinum andlega Ísrael. Þegar því er lokið verður þeim ‚fjórum englum‘, sem halda aftur af „vindum“ eyðingarinnar, sagt að sleppa þeim lausum og ‚þrengingin mikla‘ skellur á. Þangað til er haldið áfram af kappi að safna saman ‚miklum múgi‘ af ‚öðrum sauðum‘ sem eiga sér þá von að lifa að eilífu á jörðinni. Þeir trúa á ‚blóð lambsins‘ og láta skírast til tákns um að þeir séu vígðir Jehóva. (Opinberunarbókin 7:1-4, 9-15; 22:17; Jóhannes 10:16; Matteus 28:19, 20) Meðal þeirra er einnig fjöldi ungs fólks sem hefur alist upp á kristnum heimilum. Ef þú tilheyrir þeim hópi ætti greinin á eftir að höfða til þín.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. maí 2003, bls. 30-31.

Til upprifjunar

• Af hverju þurftu ungir Ísraelsmenn ekki að vígjast Guði sjálfir?

• Hvernig gátu Ísraelsmenn sýnt að þeir lifðu í samræmi við það að þeir voru vígðir Guði?

• Af hverju hafnaði Jehóva Ísrael sem vígðri þjóð sinni og hvað kom í staðinn?

• Hvað þurftu bæði Gyðingar og heiðingjar að gera frá og með hvítasunnu árið 33 til að verða hluti hins andlega Ísraels?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Ísraelsmenn tilheyrðu útvalinni þjóð Guðs frá fæðingu.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hver einstakur Ísraelsmaður þurfti að ákveða sjálfur að þjóna Guði.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Með því að færa sjálfviljafórnir gátu Ísraelsmenn sýnt Jehóva að þeir elskuðu hann.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Frá og með hvítasunnu árið 33 urðu fylgjendur Krists að vígjast Guði sjálfir og skírast til tákns um það.