Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gerið allt án þess að mögla

Gerið allt án þess að mögla

Gerið allt án þess að mögla

„Gjörið allt án þess að mögla.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:14.

1, 2. Hvað ráðlagði Páll postuli kristnum mönnum í Filippí og Korintu og hvers vegna?

PÁLL postuli hafði margt til að hrósa fyrir í innblásnu bréfi sínu til kristinna manna í Filippí á fyrstu öld. Hann hrósaði trúsystkinum sínum þar í borg fyrir örlæti þeirra og kostgæfni og nefndi hvað það gleddi hann að vita af góðum verkum þeirra. Hann minnti þau samt sem áður á að ‚gera allt án þess að mögla‘. (Filippíbréfið 2:14) Af hverju hvatti hann sérstaklega til þess?

2 Páll vissi hvaða afleiðingar það gæti haft að mögla. Nokkrum árum áður hafði hann minnt Korintusöfnuðinn á hve skaðlegt það gæti verið. Hann benti á að Ísraelsmenn hefðu margsinnis reitt Jehóva til reiði meðan þeir voru í eyðimörkinni. Hvernig? Með því að vera sólgnir í það sem illt var, með skurðgoðadýrkun og hórdómi, með því að freista Jehóva og með því að mögla. Hann hvatti Korintumenn til að draga lærdóm af þessu og skrifaði: „Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.“ — 1. Korintubréf 10:6-11.

3. Af hverju er ástæða fyrir okkur til að fjalla um þetta mál?

3 Við sem erum þjónar Jehóva sýnum sams konar hugarfar og söfnuðurinn í Filippí. Við erum kostgæfin til góðra verka og elskum hvert annað. (Jóhannes 13:34, 35) En þegar litið er á þann skaða, sem það olli meðal þjóna Jehóva forðum daga að mögla, er full ástæða til að taka til sín ráðleggingu postulans: „Gjörið allt án þess að mögla.“ Við skulum nú líta á dæmi í Biblíunni um fólk sem möglaði. Síðan könnum við hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir skaðlegt mögl.

Illur lýður möglar gegn Jehóva

4. Yfir hverju kvörtuðu Ísraelsmenn í eyðimörkinni?

4 Hebreska orðið, sem merkir að ‚mögla, nöldra og kvarta‘, er notað í Biblíunni um atburði sem áttu sér stað á 40 ára göngu Ísraelsmanna í eyðimörkinni. Stundum voru þeir óánægðir með hlutskipti sitt og mögluðu. Það voru til dæmis ekki liðnar nema fáeinar vikur frá því að þeir voru frelsaðir úr þrælkun í Egyptalandi þegar „allur söfnuður Ísraelsmanna [möglaði] gegn Móse og Aroni“. Þeir kvörtuðu undan matnum og sögðu: „Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri.“ — 2. Mósebók 16:1-3.

5. Gegn hverjum voru Ísraelsmenn í rauninni að mögla?

5 Sannleikurinn er sá að Jehóva hélt Ísraelsmönnum uppi meðan þeir voru í eyðimörkinni og sá þeim fyrir öllu sem þeir þurftu. Hann gaf þeim mat og drykkjarvatn. Það var aldrei nein hætta á að þeir dæju úr hungri í eyðimörkinni. Þeir voru hins vegar óánægðir með hlutskipti sitt, ýktu bágindi sín og mögluðu. Þeir beindu orðum sínum að Móse og Aroni en í augum Jehóva voru þeir í rauninni að mögla gegn honum. Móse sagði þeim: „Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni.“ — 2. Mósebók 16:4-8.

6, 7. Hvernig snerist Ísraelsmönnum hugur eins og fram kemur í 4. Mósebók 14:1-3?

6 Áður en langt um leið mögluðu Ísraelsmenn á nýjan leik. Móse sendi 12 njósnara til að kanna fyrirheitna landið. Tíu þeirra höfðu ófagra sögu að segja með þeim afleiðingum að „allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: ‚Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk! Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land [Kanaan] til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?‘“ — 4. Mósebók 14:1-3.

7 Ísraelsmönnum hafði sannarlega snúist hugur. Í byrjun voru þeir Jehóva innilega þakklátir fyrir að hann skyldi frelsa þá frá Egyptalandi og leiða þá gegnum Rauðahafið og þeir sungu honum lof. (2. Mósebók 15:1-21) En eyðimörkinni fylgdu ýmis óþægindi og þeir hræddust Kanverja. Þakklætið vék fyrir óánægju. Í stað þess að þakka Guði fyrir frelsið fannst þeim þeir líða skort og þeir ásökuðu hann fyrir. Þeir kunnu ekki að meta það sem Jehóva gerði fyrir þá og það braust út í mögli. Það er engin furða að Jehóva skyldi spyrja: „Hversu lengi á ég að umbera þennan illa lýð, sem möglar í gegn mér?“ — 4. Mósebók 14:27; 21:5.

Dæmi frá fyrstu öld

8, 9. Nefndu dæmi úr Grísku ritningunum þar sem fólk möglaði.

8 Í dæmunum hér á undan létu hópar manna í sér heyra og lýstu óánægju sinni opinskátt. Þegar Jesús Kristur kom til Jerúsalem til að halda laufskálahátíðina árið 32 var „margt um hann talað“ manna á meðal. (Jóhannes 7:12, 13, 32) En fólk skrafaði um hann í hálfum hljóðum. Sumir sögðu að hann væri góður maður en aðrir hið gagnstæða.

9 Í öðru tilviki voru Jesús og lærisveinar hans gestir á heimili Leví (Matteusar) tollheimtumanns. „Farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: ‚Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?‘“ (Lúkas 5:27-30) Nokkru síðar gerðist það í Galíleu að „kurr [kom upp] meðal Gyðinga út af því, að [Jesús] sagði: ‚Ég er brauðið, sem niður steig af himni‘.“ Sumir af fylgjendum Jesú hneyksluðust jafnvel á orðum hans og mögluðu. — Jóhannes 6:41, 60, 61.

10, 11. Af hverju kvörtuðu grískumælandi Gyðingar og hvað geta safnaðaröldungar lært af viðbrögðum postulanna?

10 Lítum á dæmi um mögl sem var svolítið annars eðlis. Skömmu eftir hvítasunnu árið 33 var mikið af aðkomumönnum í Ísrael sem voru nýbúnir að taka kristna trú og trúsystkini þeirra í Júdeu sýndu þeim mikla gestrisni. En þá kom upp vandi í sambandi við úthlutun matvæla. Frásagan segir: „Fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.“ — Postulasagan 6:1.

11 En þessar kvartanir voru annars eðlis en mögl Ísraelsmanna í eyðimörkinni. Grískumælandi Gyðingar voru ekki að kvarta yfir hlutskipti sínu í lífinu heldur vekja athygli á að sumum ekkjum í hópnum væri ekki sinnt. Og þeir voru ekki að reyna að stofna til vandræða eða mögla gegn Jehóva. Þeir kvörtuðu við postulana sem gerðu viðeigandi ráðstafanir þegar í stað vegna þess að kvörtunin var réttmæt. Safnaðaröldungar ættu að taka postulana sér til fyrirmyndar og gæta þess að ‚byrgja ekki eyrun fyrir kveini hins fátæka‘. — Orðskviðirnir 21:13; Postulasagan 6:2-6.

Mögl er skemmandi

12, 13. (a) Lýstu með dæmi hvaða áhrif mögl getur haft. (b) Hvað gæti fengið fólk til að mögla?

12 Flest af þeim dæmum, sem við höfum litið á, sýna að það hafði mjög skaðleg áhrif meðal þjóna Guðs forðum daga að mögla. Við ættum því að hugsa alvarlega um það hve skemmandi áhrif mögl getur haft. Tökum dæmi til glöggvunar. Járn hefur tilhneigingu til að ryðga. Ef ekki er brugðist við ryðinu strax í byrjun getur járnið ryðgað svo illa að það geti ekki lengur þjónað tilgangi sínum. Ótal bílar enda sem brotajárn, ekki af því að þeir séu beinlínis bilaðir heldur af því að þeir eru orðnir svo illa ryðgaðir að þeir eru ekki lengur öruggir. Hvernig er hægt að heimfæra þetta dæmi upp á mögl?

13 Ófullkomnir menn hafa tilhneigingu til að kvarta, rétt eins og járn vill ryðga. Við ættum að vera vakandi fyrir sérhverju merki þessa. Rétt eins og raki og selta hraða því að járn ryðgi eykur mótlæti líkurnar á að við möglum. Álag getur breytt smávægilegum pirringi í meiri háttar gremju. Ástand mála versnar jafnt og þétt núna á síðustu dögum þessa heimskerfis og búast má við að hugsanlegum kvörtunarefnum fjölgi að sama skapi. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þjónn Jehóva gæti því farið að mögla yfir samþjóni sínum. Orsökin gæti verið lítilfjörleg, svo sem óánægja út af veikleikum einhvers, hæfileikum hans eða þjónustuverkefnum.

14, 15. Af hverju ættum við að bregðast skjótt við ef við höfum tilhneigingu til að kvarta?

14 Ýmislegt getur gert okkur gramt í geði. En ef við höfum ekki hemil á tilhneigingunni til að kvarta getum við orðið að nöldurskjóðum sem eru óánægðar með allt. Já, mögl er andlega skemmandi og getur gerspillt okkur. Þegar Ísraelsmenn mögluðu yfir lífinu í eyðimörkinni gengu þeir svo langt að kenna Jehóva um. (2. Mósebók 16:8) Látum það aldrei henda okkur!

15 Hægt er að draga úr hættunni á ryði með því að mála málminn með ryðvarnarmálningu og bregðast fljótt við þegar einn og einn ryðblettur birtist. Ef við höfum tilhneigingu til að kvarta getum við sömuleiðis haldið henni í skefjum ef við bregðumst skjótt við og leitum til Jehóva í bæn. Hvernig förum við að því?

Sjáðu málin sömu augum og Jehóva

16. Hvernig getum við sigrast á tilhneigingu til að kvarta?

16 Með því að mögla einblínum við á sjálf okkur og erfiðleika okkar og horfum fram hjá þeirri blessun sem við njótum í þjónustu Jehóva. Ef við höfum tilhneigingu til að kvarta getum við sigrast á henni með því að hafa blessunina efst í huga. Öll höfum við til dæmis þann mikla heiður að bera nafn Jehóva. (Jesaja 43:10) Við getum byggt upp náið samband við hann og getum talað við hann í bæn hvenær sem er. (Sálmur 65:3; Jakobsbréfið 4:8) Lífið hefur gildi fyrir okkur vegna þess að við skiljum deiluna um drottinvaldið og höfum hugfast að það er mikill heiður að mega vera ráðvönd Guði. (Orðskviðirnir 27:11) Við getum tekið reglulega þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið. (Matteus 24:14) Þar sem við trúum á lausnarfórn Jesú Krists getum við haft hreina samvisku. (Jóhannes 3:16) Þetta er blessun sem við njótum óháð öllu mótlæti sem við verðum fyrir.

17. Af hverju ættum við að reyna að sjá málin sömu augum og Jehóva, jafnvel þó að við höfum góða og gilda ástæðu til að kvarta?

17 Við skulum reyna að sjá málin sömu augum og Jehóva, ekki aðeins frá okkar eigin sjónarhóli. „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína,“ söng sálmaskáldið Davíð. (Sálmur 25:4) Ef við höfum góða og gilda ástæðu til að kvarta yfir einhverju veit Jehóva mætavel af því og gæti bætt úr því á augabragði. Hvers vegna leyfir hann andstreyminu stundum að halda áfram? Hann gæti verið að hjálpa okkur að þroska góða eiginleika eins og þolinmæði, þolgæði, trúarstaðfestu og langlyndi. — Jakobsbréfið 1:2-4.

18, 19. Hvaða áhrif getur það haft að þola óþægindi án þess að kvarta?

18 Með því að þola óþægindi án þess að kvarta gerum við ekki aðeins sjálf okkur að betri mönnum heldur getum við líka haft jákvæð áhrif á þá sem sjá til okkar. Árið 2003 fór hópur votta Jehóva með langferðabíl frá Þýskalandi til að sækja mót í Ungverjalandi. Bílstjórinn var ekki vottur og var ekkert sérlega hrifinn af því að þurfa að vera með vottunum í tíu daga. Í lok ferðarinnar hafði hann hins vegar gerbreytt um skoðun. Af hverju?

19 Ýmislegt fór úrskeiðis í ferðinni en vottarnir kvörtuðu ekki. Ökumaðurinn sagði að þetta væri besti farþegahópur sem hann hefði nokkurn tíma haft. Hann lofaði meira að segja að bjóða vottunum inn næst þegar þeir bönkuðu upp á hjá honum og hlusta vel á þá. Farþegarnir höfðu sannarlega góð áhrif með því að ‚gera allt án þess að mögla‘.

Fyrirgefning stuðlar að einingu

20. Af hverju ættum við að fyrirgefa hvert öðru?

20 Setjum nú sem svo að við höfum eitthvað upp á trúsystkini okkar að klaga. Ef málið er alvarlegs eðlis ættum við að fara eftir meginreglunni í orðum Jesú í Matteusi 18:15-17. En það þarf ekki alltaf að fara þá leiðina vegna þess að yfirleitt eru ávirðingarnar smávægilegar. Hví ekki að sjá þetta sem tækifæri til að fyrirgefa? Páll skrifaði: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:13, 14) Getum við fyrirgefið? Sér ekki Jehóva ýmislegt athugavert við okkur? Jú, en samt er hann sífellt að miskunna okkur og fyrirgefa.

21. Hvaða áhrif getur mögl haft á aðra?

21 Hver svo sem ávirðingin er leysir það engin vandamál að mögla. Hebreska orðið, sem merkir að mögla, getur einnig merkt að urra eða öskra. Okkur finnst sennilega óþægilegt að umgangast mann sem er símöglandi og reynum að sneiða hjá honum. Ef við mögluðum gætum við haft sams konar áhrif á aðra. Þeim gæti jafnvel fundist möglið svo óþægilegt að þeir vilja helst halda sér í hæfilegri fjarlægð frá okkur. Við getum vissulega náð athygli einhverra með því að mögla en við löðum engan að okkur.

22. Hvað sagði stúlka nokkur um votta Jehóva?

22 Fyrirgefning stuðlar að einingu og eining er þjónum Jehóva mikils virði. (Sálmur 133:1-3) Sautján ára kaþólsk stúlka skrifaði deildarskrifstofu Votta Jehóva í landi einu í Evrópu. Hún lýsti yfir aðdáun sinni á þeim og sagði: „Þetta eru einu samtökin sem ég þekki þar sem fólk er ekki sundrað sökum haturs, ágirndar, umburðarleysis, eigingirni eða ósamkomulags.“

23. Um hvað fjöllum við í greininni á eftir?

23 Ef við erum þakklát fyrir alla blessunina sem við njótum í þjónustu hins sanna Guðs, Jehóva, stuðlum við að einingu og möglum síður yfir trúsystkinum okkar. Í greininni á eftir fjöllum við um það hvernig eiginleikar Guði að skapi geta komið í veg fyrir að við gerum okkur sek um enn hættulegra mögl — það er að segja gegn söfnuði Jehóva hér á jörð.

Manstu?

• Hvað er mögl?

• Lýstu með dæmi hvaða áhrif það hefur að mögla.

• Hvernig getum við sigrast á tilhneigingunni til að mögla?

• Hvernig getum við haft hemil á mögli með því að vera fús til að fyrirgefa?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Ísraelsmenn mögluðu gegn Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Reynirðu að sjá málin sömu augum og Jehóva?

[Myndir á blaðsíðu 26]

Fyrirgefning stuðlar að einingu kristinna manna.