Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur lifað að eilífu

Þú getur lifað að eilífu

Þú getur lifað að eilífu

FLESTIR, sem tilheyra trúarbrögðum heimsins, horfa fram til þess að öðlast eilíft líf á einn eða annan hátt. Hugmyndirnar um framhaldslíf eru breytilegar frá einu trúfélagi til annars en vonin er í grundvallaratriðum sú sama — að lifa hamingjusamur við fullkomnar aðstæður án þess að þurfa að óttast dauðann. Er það ekki líka það sem þig dreymir um? Hvernig er hægt að skýra útbreiðslu slíkra trúarhugmynda? Og verður eilíft líf einhvern tíma að veruleika?

Í Biblíunni kemur fram að allt frá byrjun hafi skaparinn lagt djúpt í vitund okkar þá löngun að lifa að eilífu, alveg frá því að hann skapaði fyrstu hjónin. „Eilífðina hefir [Guð] lagt í brjóst þeirra,“ segir í Biblíunni. — Prédikarinn 3:11.

Engu að síður þurftu fyrstu hjónin að viðurkenna rétt Guðs til að ákveða hvað væri rétt og rangt til að fá þessa ósk uppfyllta. Ef þau hefðu gert það hefði Guð dæmt þau verðug til að lifa „eilíflega“ á heimilinu sem hann hafði búið þeim — í Edengarðinum. — 1. Mósebók 2:8; 3:22.

Eilífa lífið glatast

Biblían skýrir frá því að Guð hafi gróðursett „skilningstréð góðs og ills“ í garðinum og bannað Adam og Evu að borða ávexti þess, annars myndu þau deyja. (1. Mósebók 2:9, 17) Með því að borða ekki ávextina af þessu tré myndu Adam og Eva sýna Guði að þau viðurkenndu yfirráð hans. En borðuðu þau af því gæfu þau til kynna að þau höfnuðu yfirráðum hans. Adam og Eva óhlýðnuðust fyrirmælum Jehóva og gengu í lið með Satan, andaveru sem hafði gert uppreisn gegn stjórn hans. Því ákvað Guð réttilega að Adam og Eva væru ekki hæf til að lifa að eilífu. — 1. Mósebók 3:1-6.

Það sem Guð hafði boðið þeim var líf eða dauði, tilvera eða tilveruleysi. Afleiðing óhlýðninnar var dauði og alger endir á tilveru þeirra. Hvorki Adam, Eva né börn þeirra gátu haldið áfram að lifa fyrir tilstuðlan einhvers töfradrykks eða ódauðlegrar sálar. *

Allir afkomendur Adams þjáðust vegna uppreisnar hans. Páll postuli útskýrði afleiðingarnar. Hann skrifaði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12.

Eilífa lífið endurheimt

Páll postuli líkti ástandi afkomenda Adams við ástand þræla á fyrstu öldinni. Vegna syndarinnar, sem börn Adams og Evu fengu í arf, fæddust þau óhjákvæmilega sem „þrælar syndarinnar“ og áttu dauðann vísan. (Rómverjabréfið 5:12; 6:16, 17, Biblía 21. aldar) Og það hefði líka verið óhjákvæmilegt til frambúðar ef Jehóva hefði ekki beitt lagalegu úrræði til að kaupa þessa þræla lausa. Páll útskýrði þetta: „Eins og af misgjörð eins [það er Adams] leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn.“ Þetta réttlætisverk var fórnardauði Jesú sem fórnaði fullkomnu mannslífi sínu „til lausnargjalds fyrir alla“. Jehóva viðurkenndi lagalegt gildi lausnargjaldsins til að leysa mannkynið undan dómi til „sakfellingar“. — Rómverjabréfið 5:16, 18, 19; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

Þess vegna munu vísindamenn aldrei finna lykilinn að endalausu lífi í erfðavísum mannsins — lausnin er annars staðar. Samkvæmt Biblíunni er frumorsök dauðans af lagalegum og siðferðilegum toga, ekki líffræðilegum. Sömuleiðis er lausnarfórn Jesú lagalegs eðlis en hún er leiðin til að endurheimta eilífa lífið. Lausnargjaldið er líka staðfesting á réttlæti Guðs og ástúðlegri umhyggju hans. En hverjir njóta góðs af lausnargjaldinu og hljóta eilíft líf?

Ódauðleiki

Jehóva Guð er „frá eilífð til eilífðar“. Hann er ódauðlegur. (Sálmur 90:2) Sá fyrsti sem fékk ódauðleika að gjöf frá Jehóva var Jesús Kristur. Páll postuli sagði: „Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.“ (Rómverjabréfið 6:9) Páll sagði líka að ólíkt valdhöfum jarðarinnar væri hinn upprisni Jesús sá eini sem væri ódauðlegur. Jesús verður til „að eilífu“ og líf hans er ‚óhagganlegt‘. — Hebreabréfið 7:15-17, 23-25; 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16.

Jesús er ekki sá eini sem hefur fengið þessa gjöf. Andasmurðir kristnir menn, sem eru útvaldir til að ríkja sem konungar í himneskri dýrð, fá sams konar upprisu og Jesús. (Rómverjabréfið 6:5) Jóhannes postuli benti á að 144.000 einstaklingar fái þennan heiður. (Opinberunarbókin 14:1) Þeir fá líka ódauðleika. Páll postuli sagði í sambandi við upprisu þeirra: „Hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki . . . lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast. Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.“ Dauðinn hefur ekkert vald yfir þeim sem fá þessa upprisu. — 1. Korintubréf 15:50-53; Opinberunarbókin 20:6.

Þessi opinberun frá Guði er sannarlega eftirtektarverð. Englar voru ekki einu sinni skapaðir ódauðlegir þótt þeir séu andaverur. Það sést á því að þær andaverur, sem tóku þátt í uppreisn Satans, verða teknar af lífi. (Matteus 25:41) Meðstjórnendur Jesú fá hins vegar ódauðleika að gjöf sem sýnir að Jehóva hefur óbifanlegt traust á trúfesti þeirra.

Fá þá aðeins 144.000 einstaklingar eilíft líf af öllum þeim milljörðum manna sem lifað hafa frá upphafi? Nei. Skoðum hvers vegna.

Eilíft líf á paradísarjörð

Opinberunarbókin í Biblíunni lýsir á fallegan hátt ótakmörkuðum fjölda fólks sem hefur fengið eilíft líf í paradís á jörð. Meðal þeirra eru þeir sem hafa dáið en hafa fengið upprisu og öðlast aftur þrótt og heilsu æskunnar. (Opinberunarbókin 7:9; 20:12, 13; 21:3, 4) Þeir eru leiddir að „móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs. . . . Beggja vegna móðunnar, var lífsins tré . . . og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“ Boð Jehóva Guðs er vinsamlegt: „Sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ — Opinberunarbókin 22:1, 2, 17.

Tréð og vatnið í þessari sýn er ekki einhver lífselixír eða æskubrunnur eins og gullgerðarmenn og könnuðir leituðu að hér áður fyrr heldur tákna þau ráðstöfun Guðs. Hann mun, fyrir milligöngu Jesú Krists, veita mannkyninu fullkomleika eins og það hafði í upphafi.

Fyrirætlun Guðs um að veita hlýðnum mönnum eilíft líf á jörð hefur ekki breyst. Sú fyrirætlun mun ná fram að ganga því að Jehóva er trúfastur. Í Sálmi 37:29 segir: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Þetta loforð fær okkur, og þá sem fá himneskan ódauðleika, til að segja: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt?“ — Opinberunarbókin 15:3, 4.

Langar þig til að fá að lifa að eilífu? Þá verður þú að sýna ‚konungi aldanna‘ hollustu og hlýðni. Þú þarft að kynnast Jehóva og Jesú Kristi, en hann gerði okkur mögulegt að öðlast þetta líf. Allir sem viðurkenna lífsreglur Guðs um hvað sé rétt og rangt fá að gjöf „hið eilífa líf“. — Jóhannes 17:3.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Ítarleg útskýring á kenningunni um ódauðleika sálarinnar er í bæklingnum Hvað verður um okkur þegar við deyjum? gefinn út af Vottum Jehóva.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 5]

Gamall draumur

Söguljóðið um Gilgames er hetjusaga frá Mesópótamíu sem talin er vera frá 2. öld f.Kr. Þar er sagt frá leit hetju nokkurrar að eilífri æsku. Egyptar til forna smurðu líkin svo að þau rotnuðu ekki því að þeir trúðu því að sálin væri ódauðleg og gæti notað líkama sinn aftur. Sum grafhýsi Egypta voru því fyllt alls konar hlutum sem hinn dáni gæti þurft á að halda í hinu svokallaða framhaldslífi.

Kínverskir gullgerðarmenn trúðu á ódauðleika líkamans. Sú trú virðist ná allt aftur til 8. aldar f.Kr. og trúin á að ódauðleikinn gæti fengist með hjálp töfradrykkja nær aftur til 4. aldar f.Kr. Á miðöldum leituðu evrópskir og arabískir gullgerðarmenn að lífselixír og reyndu að sjóða saman sína eigin ódáinsveig. Sumar blöndurnar innihéldu sölt af arseníki, kvikasilfri og brennisteini. Hvað ætli margir hafi í raun stytt sér aldur með því að prófa þessar blöndur?

Auk þess voru á tímabili útbreiddar sögusagnir um svokallaðan æskubrunn — vatnslind sem átti að viðhalda krafti og þrótti þeirra sem drukku af henni.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 7]

Yrði eilíft líf leiðigjarnt?

Sumir halda því fram að eilíft líf yrði leiðigjarnt, ekki annað en eilíf tímasóun full af tilgangslausri dægradvöl sem endurtæki sig endalaust. Kannski ímynda þeir sér endalausa framlengingu á lífinu eins og það er núna við sams konar aðstæður, sem mörgum myndi finnast bæði leiðinlegt og tilgangslaust. En í þeirri paradís, sem Guð mun endurreisa, hefur hann lofað að við munum „gleðjast yfir ríkulegri gæfu“. (Sálmur 37:11) Þess konar líf mun gefa mannkyninu tækifæri til að læra um sköpunarverk Jehóva og leggja rækt við hvers kyns kunnáttu, rannsóknir og störf sem við getum aðeins látið okkur dreyma um núna.

Dr. Aubrey de Grey er erfðafræðingur við háskólann í Cambridge og vinnur við rannsóknir til að lengja líf manna. Hann segir: „Fólk með góða menntun og tíma til að nota hana finnur aldrei fyrir leiða og getur ekki ímyndað sér að það verði nokkurn tíma uppiskroppa með hugmyndir um nýja hluti sem það langar til að gera.“ Þrátt fyrir það segir í innblásnu orði Guðs að „maðurinn [fái] ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda“. — Prédikarinn 3:11.