Leit mannsins að eilífu lífi
Leit mannsins að eilífu lífi
FRÁ örófi alda hefur manninn dreymt um að lifa að eilífu. En þessi draumur hefur enn ekki ræst — enginn hefur fundið leið til að sigrast á dauðanum. Undanfarið hafa læknisfræðirannsóknir samt endurvakið vonir manna um að hægt sé að lengja æviskeið okkar svo um munar. Lítum á nokkrar nýlegar vísindarannsóknir.
Líffræðingar gera nú tilraunir með ensím sem nefnist telómerasi í von um að finna leið til að láta frumur líkamans endurnýjast oftar. Vísindamenn vita að nýjar frumur koma í staðinn fyrir gamlar og úr sér gengnar frumur. Raunin er sú að nánast allur líkaminn endurnýjar sig nokkrum sinnum á ævinni. Ef hægt væri að lengja þetta endurnýjunarferli telja rannsóknarmenn að „mannslíkaminn gæti endurnýjað sig mjög lengi — jafnvel að eilífu“.
Einræktun í lækningaskyni, sem er umdeilt rannsóknarsvið, gæti fræðilega séð veitt sjúklingum nýja lifur, nýtt hjarta eða nýru sem passa fullkomlega til ígræðslu. Líffærin væru þá búin til úr stofnfrumum sjúklinganna.
Rannsóknarmenn á sviði nanótækni horfa fram til þess tíma þegar læknar geta komið vélmennum á stærð við frumur inn í blóðrásina til að finna og drepa krabbameinsfrumur og skaðlegar bakteríur. Sumir eru þeirrar skoðunar að þetta svið vísindanna, auk genameðferðar, muni að lokum gera mannslíkamanum kleift að halda lífi endalaust.
Talsmenn frerageymslu djúpfrysta líkama látinna manna. Hugmyndin er að varðveita þessa líkama uns byltingarkenndar uppgötvanir í læknisfræði geri læknum kleift að ráða bót á sjúkdómum, snúa öldrunarferlinu við og veita hinum dánu aftur líf og góða heilsu. Tímaritið American Journal of Geriatric Psychiatry segir að þessi hugmynd „eigi sér samsvörun í múmíum Egyptalands til forna“.
Stöðug leit mannsins að ódauðleika sýnir hve erfitt það er fyrir manninn að viðurkenna endalok tilveru sinnar. En er í rauninni mögulegt fyrir mannkynið að lifa að eilífu? Hvað segir Biblían um málið? Eftirfarandi grein svarar því.