Ráðvendni og þolgæði Jobs
Ráðvendni og þolgæði Jobs
„Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ — JOBSBÓK 1:8.
1, 2. (a) Fyrir hvaða óvæntu hörmungum varð Job? (b) Lýstu lífi Jobs áður en ógæfan dundi yfir.
EINU sinni var uppi maður sem virtist eiga allt. Hann var auðugur, naut virðingar annarra, bjó við góða heilsu og átti farsælt fjölskyldulíf. En þá dundi ógæfa yfir þrisvar sinnum í röð með stuttu millibili. Í einni svipan glataði hann öllum auðæfum sínum. Síðan missti hann börnin sín í ógurlegu stormviðri. Skömmu seinna lagðist á hann sjúkdómur sem dró úr honum allan þrótt og líkami hans varð þakinn sársaukafullum kýlum. Þú áttar þig sennilega á því að þetta var Job, aðalpersónan í biblíubókinni sem ber nafn hans. — Jobsbók 1. og 2. kafli.
2 „Ó að mér liði eins og forðum daga,“ stundi Job. (Jobsbók 3:3; 29:2) Hver horfir ekki með söknuði til fyrri daga þegar erfiðleika ber að garði? Job hafði lifað heiðvirðu lífi og virtist njóta verndar gegn ógæfu. Framámenn mátu hann mikils og leituðu ráða hjá honum. (Jobsbók 29:5-11) Hann var auðugur en hafði rétt viðhorf til efnislegra hluta. (Jobsbók 31:24, 25, 28) Þegar bágstaddar ekkjur og munaðarleysingjar urðu á vegi hans rétti hann þeim hjálparhönd. (Jobsbók 29:12-16) Og hann var konu sinni trúr. — Jobsbók 31:1, 9, 11.
3. Hvernig leit Jehóva á Job?
3 Job lifði vammlausu lífi vegna þess að hann tilbað Guð. „Enginn er hans líki á jörðu,“ sagði Jehóva, „maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:1, 8) En þrátt fyrir ráðvendni sína bundu hörmungarnar enda á þetta þægilega líf. Allt sem hann hafði unnið fyrir hvarf og sársaukinn, kvölin og vonbrigðin reyndu á hans innri mann.
4. Hvers vegna er gagnlegt að rifja upp raunir Jobs?
4 Job er auðvitað ekki sá eini af þjónum Guðs sem hefur orðið fyrir hörmungum. Margir kristnir menn nú á dögum hafa gengið í gegnum sambærilegar raunir og geta því sett sig í spor hans. Við skulum þess vegna skoða tvær mikilvægar spurningar: Hvaða gagn höfum við af því að rifja upp raunir Jobs þegar við verðum fyrir erfiðleikum? Og hvernig getur það kennt okkur að sýna þeim sem þjást meiri samúð?
Reynt á hollustu og ráðvendni
5. Af hvaða hvötum þjónaði Job Guði að sögn Satans?
5 Það sem kom fyrir Job var einsdæmi. Án vitundar hans hafði djöfullinn dregið í efa að Jobsbók 1:8-11.
hann þjónaði Guði af réttum hvötum. Þegar andaverurnar á himnum komu saman vakti Jehóva athygli á góðum eiginleikum Jobs. En þá sagði Satan: „Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring?“ Satan hélt því fram að Job þjónaði Guði af eigingjörnum hvötum og gaf þar með í skyn að hið sama ætti við um alla þjóna Guðs. „Rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið,“ sagði Satan við Jehóva. —6. Hvaða mikilvæga deilumál vakti Satan upp?
6 Deilumálið, sem Satan vakti upp, var mjög mikilvægt. Hann gagnrýndi hvernig Jehóva beitir drottinvaldi sínu. Getur Jehóva virkilega stjórnað alheiminum með kærleika? Eða mun eigingirni alltaf sigra að lokum eins og Satan gaf í skyn? Jehóva leyfði djöflinum að gera mál Jobs að prófmáli því að hann treysti á hollustu Jobs og ráðvendni. Satan var því sjálfur valdur að hörmungunum sem dundu á Job hver af annarri. Þegar fyrstu árásir Satans skiluðu ekki árangri lagði hann sársaukafullan sjúkdóm á Job. „Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á,“ fullyrti Satan. — Jobsbók 2:4.
7. Fyrir hvaða erfiðleikum geta þjónar Guðs orðið sem minna á raunir Jobs?
7 Þótt fæstir kristnir menn nú á dögum þjáist jafn mikið og Job verða þeir fyrir annars konar mótlæti. Margir eru ofsóttir eða eiga við fjölskylduerfiðleika að etja. Erfitt efnahagsástand eða slæm heilsa geta líka dregið úr manni þrótt. Sumir hafa fórnað lífi sínu fyrir trúna. Við megum auðvitað ekki gera ráð fyrir að Satan standi sjálfur að baki hverri raun sem við verðum að þola. Sum vandamál geta jafnvel stafað af eigin mistökum eða erfðum. (Galatabréfið 6:7) Og öll erum við berskjalda fyrir áhrifum ellinnar og náttúruhamfara. Biblían segir skýrt að eins og er muni Jehóva ekki bjarga okkur frá þessum erfiðleikum á yfirnáttúrulegan hátt. — Prédikarinn 9:11.
8. Hvernig getur Satan notfært sér erfiðleika sem við verðum fyrir?
8 Satan getur samt notfært sér erfiðleikana sem við verðum fyrir til að grafa undan trú okkar. Páll postuli sagðist hafa ‚flein í holdinu, Satans engil, sem sló hann‘. (2. Korintubréf 12:7) Hvort sem þetta var líkamlegt vandamál eins og sjóndepra eða eitthvað annað skildi Páll að Satan gæti nýtt sér vandamálið eða vonbrigðin, sem það olli, til að draga úr gleði hans og ráðvendni. (Orðskviðirnir 24:10) Nú á dögum gæti Satan notað fjölskylduna, skólafélaga eða jafnvel einræðisstjórnir til að ofsækja þjóna Guðs á einhvern hátt.
9. Hvers vegna ætti mótlæti eða ofsóknir ekki að koma okkur á óvart?
9 Hvernig getum við tekist á við þessa erfiðleika með góðum árangri? Með því að líta á þá sem tækifæri til að sýna að kærleikur okkar til Jehóva sé óbifanlegur og undirgefni okkar við drottinvald hans sé alger. (Jakobsbréfið 1:2-4) Ef við skiljum mikilvægi þess að sýna Guði hollustu getum við verið stöðug í trúnni sama hvað veldur erfiðleikum okkar. Pétur postuli skrifaði kristnum mönnum: „Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.“ (1. Pétursbréf 4:12) Og Páll sagði: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Satan dregur enn í efa ráðvendni votta Jehóva eins og hann gerði á dögum Jobs. Biblían gefur meira að segja til kynna að árásir Satans á fólk Guðs hafi aukist á þessum síðustu dögum. — Opinberunarbókin 12:9, 17.
Misskilningur og slæm ráð
10. Hvað vissi Job ekki?
10 Job var í stöðu sem við þurfum aldrei að vera í. Hann vissi ekki hvers vegna hann varð fyrir þessum hörmungum. Hann dró þá röngu ályktun að ‚Drottinn hefði gefið og Drottinn hefði tekið‘. (Jobsbók 1:21) Ef til vill reyndi Satan af ásettu ráði að telja Job trú um að það væri Guð sem stæði að baki raunum hans.
11. Hvernig brást Job við ógæfu sinni?
11 Job varð mjög niðurdreginn en vildi samt ekki formæla Guði eins og eiginkona hans hvatti hann til. (Jobsbók 2:9, 10) En honum fannst hinum óguðlegu vegna miklu betur en sér. (Jobsbók 21:7-9) „Hvers vegna er Guð að refsa mér?“ hugsaði hann kannski. Stundum langaði hann jafnvel til að deyja. „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir,“ stundi hann. — Jobsbók 14:13.
12, 13. Hvaða áhrif höfðu orð þriggja vina Jobs á hann?
12 Job átti þrjá vini sem heimsóttu hann til að „votta honum samhryggð sína og hugga hann“. (Jobsbók 2:11) En þeir voru „hvimleiðir huggarar“. (Jobsbók 16:2) Það hefði verið gott fyrir Job að geta talað um erfiðleika sína við góða vini en þessir þrír juku bara á örvinglun hans og vonbrigði. — Jobsbók 19:2; 26:2.
13 Job hefur sennilega spurt sig: „Hvers vegna ég? Hvað hef ég gert til að verðskulda alla þessa ógæfu?“ Vinir hans gáfu honum mjög villandi skýringar. Þeir töldu að Job hefði kallað erfiðleikana yfir sig með því að drýgja alvarlega synd. „Hver er sá, er farist hafi saklaus?“ spurði Elífas. „Að því, er ég hefi séð: Þeir sem plægðu rangindi og sáðu óhamingju, þeir einir hafa uppskorið það.“ — Jobsbók 4:7, 8.
14. Hvers vegna ættum við ekki að ætla að erfiðleikar stafi alltaf af rangri hegðun?
14 Vissulega geta komið upp vandamál ef við sáum í holdið frekar en andann. (Galatabréfið 6:7, 8) En í þessu heimskerfi getum við lent í erfiðleikum óháð hegðun okkar. Auk þess er alls ekki hægt að segja að hinum saklausu sé hlíft við allri ógæfu. Jesús Kristur var „óflekkaður [og] greindur frá syndurum“ en dó sársaukafullum dauða á kvalastaur og Jakob postuli dó píslavættisdauða. (Hebreabréfið 7:26; Postulasagan 12:1, 2) Villandi skýringar Elífasar og vina hans fengu Job til að verja mannorð sitt og halda fram sakleysi sínu. En ítrekaðar ásakanir þeirra um að þjáningar hans væru verðskuldaðar hafa ef til vill haft áhrif á viðhorf hans til réttlætis Guðs. — Jobsbók 34:5; 35:2.
Hjálp á ögurstundu
15. Hvaða viðhorf getur hjálpað okkur þegar við verðum fyrir erfiðleikum?
15 Hvaða lærdóm getum við dregið af raunum Jobs? Það getur virst mjög óréttlátt þegar hörmungar, veikindi eða ofsóknir ber að garði. Aðrir virðast hins vegar komast hjá mörgum þessara vandamála. (Sálmur 73:3-12) Við gætum stundum þurft að spyrja okkur eftirfarandi spurninga: Fær kærleikurinn til Guðs mig til að þjóna honum hvað sem á reynir? Þrái ég að geta ‚svarað þeim orði, sem smána Jehóva‘? (Orðskviðirnir 27:11; Matteus 22:37) Hugsunarlaus orð annarra ættu aldrei að vekja efasemdir um að himneskur faðir okkar muni hjálpa okkur. Trúföst kristin kona, sem glímdi við ólæknandi sjúkdóm í mörg ár, sagði: „Hvað sem Jehóva leyfir veit ég að ég get borið það. Ég veit að hann mun gefa mér þann styrk sem ég þarfnast. Hann hefur alltaf gert það.“
16. Hvaða styrk geta þeir sem verða fyrir erfiðleikum sótt í orð Guðs?
16 Við þekkjum aðferðir Satans betur en Job gerði. „Ekki er oss ókunnugt um vélráð hans“ eða ill áform. (2. Korintubréf 2:11) Auk þess getum við sótt mikla visku í Biblíuna. Þar er að finna frásagnir af trúföstum körlum og konum sem stóðust alls konar raunir. Páll postuli þjáðist meira en margir aðrir og skrifaði: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Í seinni heimsstyrjöldinni sat vottur í Evrópu í fangelsi vegna trúar sinnar. Hann lét þriggja daga matarskammt í skiptum fyrir biblíu. „Mikið átti ég eftir að hagnast á þeim skiptum!“ sagði hann. „Þrátt fyrir matarleysið fékk ég andlega fæðu sem styrkti mig og aðra í prófraunum okkar á þessum erfiðu tímum. Ég hef geymt þessa biblíu fram á þennan dag.“
17. Hverju hefur Jehóva séð okkur fyrir sem getur hjálpað okkur að þola prófraunir?
17 Auk þess að fá huggun frá Biblíunni höfum við aðgang að biblíunámsritum sem gefa okkur góð ráð til að takast á við vandamál. Ef þú leitar í efnisskrá Varðturnsfélagsins finnurðu líklega frásögu af trúsystkini sem hefur glímt við svipaðar raunir og þú. (1. Pétursbréf 5:9) Það getur líka reynst vel að ræða um aðstæður sínar við skilningsríka öldunga eða aðra þroskaða bræður og systur. Umfram allt geturðu treyst á hjálp Jehóva og heilagas anda hans fyrir milligöngu bænarinnar. Hvernig gat Páll staðið stöðugur þegar Satan ‚sló‘ hann? Hann lærði að treysta á mátt Guðs. (2. Korintubréf 12:9, 10) „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir,“ skrifaði hann. — Filippíbréfið 4:13.
18. Hvernig geta trúsystkini veitt ómetanlega uppörvun?
18 Okkur stendur til boða að fá hjálp og við ættum aldrei að hika við að þiggja hana. „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill,“ segir í Orðskviðinum. (Orðskviðirnir 24:10) Kjarkleysi getur grafið undan ráðvendni kristins manns líkt og termítar geta valdið því að timburhús hrynji. Til að vinna á móti þessari hættu notar Jehóva trúsystkini okkur til að veita okkur stuðning. Engill birtist Jesú nóttina sem hann var handtekinn og styrkti hann. (Lúkas 22:43) Þegar Páll var á leið til Rómar sem fangi „gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga“ þegar hann hitti bræðurna á Appíusartorgi og í Þríbúðum. (Postulasagan 28:15) Þýsk systir man enn eftir hjálpinni sem hún fékk þegar hún kom í fangabúðirnar í Ravensbrück sem kvíðafullur unglingur. „Trúsystir fann mig um leið og veitti mér hlýjar móttökur,“ segir hún. „Önnur systir tók mig undir sinn verndarvæng og varð eins og andleg móðir mín.“
„Vertu trúr“
19. Hvað hjálpaði Job að standast árásir Satans?
19 Jehóva sagði um Job að hann væri „staðfastur í ráðvendni sinni“. (Jobsbók 2:3) Job var óhagganlegur í hollustunni við Jehóva þó að hann væri niðurdreginn og skildi ekki hvers vegna hann þjáðist. Hann neitaði að snúa baki við öllu því sem hann hafði lifað fyrir. Hann sagði: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt [„ráðvendni mína,“ NW].“ — Jobsbók 27:5.
20. Af hverju er það þess virði að vera ráðvandur?
20 Ef við erum jafn ákveðin og Job hjálpar það okkur að vera ráðvönd undir öllum kringumstæðum — í freistingum, andstöðu eða mótlæti. „Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða,“ sagði Jesús við söfnuðinn í Smýrnu. „Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa [þola erfiðleika, hörmungar eða kúgun] í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ — Opinberunarbókin 2:10.
21, 22. Hvaða vitneskja getur styrkt okkur þegar við verðum fyrir erfiðleikum?
21 Það mun reyna á ráðvendi okkar og þolgæði í þessum heimi sem er undir stjórn Satans. En Jesús fullvissar okkur um að við þurfum ekki að óttast framtíðina. Það sem mestu máli skiptir er að vera trúföst. „Þrenging vor er skammvinn,“ sagði Páll en ‚dýrðin‘ eða launin, sem Jehóva lofar okkur, ‚yfirgnæfir allt‘. (2. Korintubréf 4:17, 18) Hörmungar Jobs voru meira að segja skammvinnar í samanburði við góðu árin bæði fyrir og eftir prófraunirnar. — Jobsbók 42:16.
22 Það geta samt komið tímar þegar prófraunir okkar virðast engan enda ætla að taka og þjáningarnar virðast nánast óbærilegar. Í næstu grein verður fjallað nánar um það sem við getum lært af þolgæði Jobs. Þar verður líka bent á hvernig við getum styrkt aðra sem verða fyrir mótlæti.
Hvert er svarið?
• Hvaða deilumál vakti Satan upp sem snerti ráðvendi Jobs?
• Hvers vegna ætti mótlæti ekki að koma okkur á óvart?
• Hvernig hjálpar Jehóva okkur að vera þolgóð?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 15]
Nám og efnisleit, samræður við þroskuð trúsystkini og innilegar bænir geta hjálpað okkur að vera þolgóð.