Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu vitur og óttastu Guð

Vertu vitur og óttastu Guð

Vertu vitur og óttastu Guð

„Ótti Drottins er upphaf viskunnar.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 9:10.

1. Af hverju eiga margir erfitt með að skilja hvað guðsótti er?

SÚ VAR tíðin að það var talið hrós að vera kallaður guðhræddur. Núna finnst mörgum þetta hugtak gamaldags og vandskilið. „Fyrst Guð er kærleikur,“ segja menn, „af hverju ætti ég að óttast hann?“ Þeir sjá ótta sem neikvæða kennd og jafnvel lamandi. En eins og við munum sjá er guðsótti annað og meira en hræðsla og er ekki aðeins tilfinning eða kennd.

2, 3. Hvað er fólgið í sönnum guðsótta?

2 Hugtakið guðsótti er notað í jákvæðri merkingu í Biblíunni. (Jesaja 11:3) Það er djúp virðing og lotning fyrir Guði, sterk löngun til að vanþóknast honum ekki. (Sálmur 115:11) Það felur í sér að viðurkenna siðferðisreglur Guðs, fylgja þeim í hvívetna og langa til að lifa í samræmi við það sem Guð segir vera rétt eða rangt. Heimildarrit bendir á að þessi heilnæmi ótti lýsi „grundvallarafstöðu til Guðs sem fær fólk til að breyta viturlega og forðast illsku í allri sinni mynd“. Það er því viðeigandi að okkur skuli vera sagt í orði Guðs: „Ótti Drottins er upphaf viskunnar.“ — Orðskviðirnir 9:10.

3 Guðsótti kemur inn á ótal svið mannlífsins. Hann er ekki aðeins settur í samband við visku heldur einnig við gleði, frið, hagsæld, langlífi, von og traust. (Sálmur 2:11; Orðskviðirnir 1:7; 10:27; 14:26; 22:4; 23:17, 18; Postulasagan 9:31) Hann er nátengdur trú og kærleika og snertir samband okkar við Guð á öllum sviðum og sambandið við aðra menn. (5. Mósebók 10:12; Jobsbók 6:14; Hebreabréfið 11:7) Guðsótti felur í sér þá sannfæringu að faðirinn á himnum láti sér persónulega annt um okkur og sé reiðubúinn að fyrirgefa syndir. (Sálmur 130:4) Það eru einungis iðrunarlausir og óguðlegir menn sem hafa ástæðu til að skelfast Guð. * — Hebreabréfið 10:26-31.

Lærðu að óttast Jehóva

4. Hvað getur hjálpað okkur að læra að óttast Jehóva?

4 Nú er guðsótti nauðsynlegur til að taka réttar ákvarðanir og hljóta blessun Guðs. Hvernig getum við þá lært að óttast Jehóva eins og vera ber? (5. Mósebók 17:19) Okkur „til uppfræðingar“ er sagt frá fjölda guðhræddra karla og kvenna í Biblíunni. (Rómverjabréfið 15:4) Til að glöggva okkur á því hvað það merki í raun og veru að óttast Guð skulum við líta á eitt þessara dæma, Davíð Ísraelskonung.

5. Hvernig hjálpaði hjarðgæslan Davíð að læra guðsótta?

5 Jehóva hafnaði Sál, fyrsta konungi Ísraels, af því að hann óttaðist menn en var hins vegar ekki guðhræddur. (1. Samúelsbók 15:24-26) Davíð var aftur á móti guðhræddur maður og átti náið samband við Jehóva eins og glöggt má sjá af ævi hans. Frá unga aldri gætti hann oft sauða föður síns úti í haga. (1. Samúelsbók 16:11) Hann gat virt fyrir sér stjörnuhimininn um nætur og það hlýtur að hafa hjálpað honum að skilja hvað ótti Jehóva er. Davíð sá vissulega aðeins agnarlítið brot hins víðáttumikla alheims en hann dró rétta ályktun: Guð verðskuldar virðingu okkar og aðdáun. Hann orti síðar: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ — Sálmur 8:4, 5.

6. Hvaða áhrif hafði það á Davíð að gera sér grein fyrir mikilleika Jehóva?

6 Davíð var eðlilega djúpt snortinn þegar hann horfði á stjörnubjartan himininn og fann til smæðar sinnar. En víðátta himinsins fyllti hann ekki ótta heldur fann hann sig knúinn til að lofa Jehóva og segja: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ (Sálmur 19:2) Þessi lotning fyrir Guði styrkti tengsl Davíðs við hann og hafði þau áhrif að hann langaði til að fræðast um fullkomna vegi Guðs og fylgja þeim. Við getum ímyndað okkur hvernig Davíð var innanbrjósts þegar hann söng Guði: „Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð! Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — Sálmur 86:10, 11.

7. Hvernig hjálpaði guðsóttinn Davíð að berjast við Golíat?

7 Í stjórnartíð Sáls réðust Filistar inn í Ísrael og kappinn Golíat, sem var um þrír metar á hæð, hæddist að Ísraelsmönnum. Hann sagði efnislega: ‚Veljið mann til að heyja einvígi við mig! Ef hann sigrar skulum við vera þrælar ykkar.‘ (1. Samúelsbók 17:4-10) Sál og herinn allur var dauðhræddur — en ekki Davíð. Hann vissi að hann átti að óttast Jehóva en ekki menn, hversu sterkir sem þeir væru. „Ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar,“ sagði Davíð við Golíat, „til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins.“ Síðan drap hann risann með slöngvu og einum steini — og með hjálp Jehóva. — 1. Samúelsbók 17:45-47.

8. Hvað lærum við af biblíupersónum sem óttuðust Guð?

8 Við eigum ef til vill í höggi við óvini eða erfiðleika sem eru jafn ógnvekjandi og Davíð átti við að etja. Hvað er þá til ráða? Við getum tekist á við þá á sama hátt og Davíð og aðrir trúmenn fortíðar — með guðsótta. Með ótta Guðs getum við sigrast á ótta við menn. Nehemía, sem var trúfastur þjónn Guðs, hvatti samlanda sína þegar óvinir þjörmuðu að þeim: „Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega.“ (Nehemíabók 4:14) Með stuðningi Jehóva gátu Davíð, Nehemía og aðrir trúir þjónar Guðs gert það sem Guð fól þeim að gera. Við getum það líka ef við erum guðhrædd.

Sýndu guðsótta þegar erfiðleikar steðja að

9. Við hvers konar aðstæður sýndi Davíð guðsótta?

9 Eftir að Davíð felldi Golíat veitti Jehóva honum fleiri sigra. En Sál var öfundsjúkur og reyndi að drepa Davíð, fyrst í fljótræði, síðan með slægð og að lokum með heilan her að baki sér. Jehóva hafði lofað Davíð að hann yrði konungur. En árum saman þurfti Davíð að vera á flótta, verja líf sitt og bíða eftir því að Jehóva léti hann taka við konungdómi. Hvað sem á gekk sýndi Davíð að hann óttaðist hinn sanna Guð. — 1. Samúelsbók 18:9, 11, 17; 24:2.

10. Hvernig sýndi Davíð guðsótta á hættustund?

10 Einhverju sinni leitaði Davíð hælis hjá Akís, konungi í Filistaborginni Gat sem var heimabær Golíats. (1. Samúelsbók 21:10-15) Þjónar konungs komu upp um Davíð og sögðu konungi að þetta væri óvinur þjóðarinnar. Hvernig brást Davíð við þessari hættu sem komin var upp? Hann úthellti hjarta sínu í bæn til Jehóva. (Sálmur 56:2-5, 12-14) Hann þurfti að gera sér upp geðveiki til að komast undan en vissi að það var í rauninni Jehóva sem bjargaði honum með því að blessa það sem hann gerði. Davíð sýndi að hann var guðrækinn með því að treysta á Jehóva í einu og öllu. — Sálmur 34:5-7, 10-12.

11. Hvernig getum við sýnt guðsótta í erfiðleikum, rétt eins og Davíð?

11 Við getum sýnt guðsótta líkt og Davíð með því að treysta loforði Guðs um að hjálpa okkur að takast á við erfiðleika. „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá,“ sagði Davíð. (Sálmur 37:5) Þetta merkir ekki að við eigum einfaldlega að velta vandamálum okkar yfir á Jehóva og ætlast til að hann bjargi okkur, án þess að gera sjálf það sem í okkar valdi stendur til að leysa þau. Davíð lét ekki nægja að biðja um hjálp Guðs og beið svo með hendur í skauti. Hann beitti andlegum og líkamlegum kröftum sínum, sem Jehóva hafði gefið honum, og tókst á við vandann. Hann vissi samt sem áður að mannlegur máttur nægði ekki einn og sér. Þannig ættum við líka að hugsa. Eftir að hafa gert allt sem í okkar valdi stendur verðum við að láta Jehóva um framhaldið. Oft getum við ekkert annað gert en að treysta á Jehóva. Það er þá sem reynir á guðsóttann. Orð Davíðs eru hughreystandi: „Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann.“ — Sálmur 25:14.

12. Af hverju þurfum við að taka bænir okkar alvarlega og hvernig ættum við aldrei að hugsa?

12 Við ættum því að taka bænir okkar og samband við Guð alvarlega. Þegar við göngum fram fyrir Jehóva verðum við „að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita“. (Hebreabréfið 11:6; Jakobsbréfið 1:5-8) Og þegar hann hjálpar okkur ættum við að vera þakklát eins og Páll postuli hvetur til. (Kólossubréfið 3:15, 17) Verum aldrei eins og þeir sem reyndur, andasmurður kristinn maður lýsti svo: „Þeir líta á Guð eins og himneskan þjón. Þegar þá vantar eitthvað vilja þeir geta smellt fingrum og kallað á hann. Og þegar þeir eru búnir að fá það sem þá vantar vilja þeir að hann fari.“ Slíkt hugarfar ber ekki vott um mikinn guðsótta.

Þegar guðsóttinn dalar

13. Í hvaða tilfelli sýndi Davíð ekki virðingu fyrir lögmáli Guðs?

13 Þegar Davíð fann fyrir hjálp Guðs í raunum styrkti það traust hans og guðsótta. (Sálmur 31:23-25) En í þremur tilfellum dalaði guðsótti Davíðs með alvarlegum afleiðingum. Hið fyrsta átti sér stað þegar hann lét flytja sáttmálsörk Jehóva til Jerúsalem á vagni en ekki á öxlum levítanna eins og kveðið var á um í lögmálinu. Þegar Ússa, sem stýrði vagninum, greip í örkina til að styðja hana dó hann samstundis fyrir að sýna slíkt virðingarleysi. Já, Ússa drýgði alvarlega synd en í rauninni mátti rekja þennan harmleik til þess að Davíð hafði ekki sýnt lögmáli Guðs viðeigandi virðingu. Guðsótti felur í sér að gera hlutina eins og Guð vill. — 2. Samúelsbók 6:2-9; 4. Mósebók 4:15; 7:9.

14. Hvaða afleiðingar hafði það að Davíð lét telja Ísraelsmenn?

14 Síðar lét Davíð Satan egna sig til að telja hermenn Ísraels. (1. Kroníkubók 21:1) Með því að gera það sýndi Davíð að guðsóttinn hafði dvínað og það kostaði 70.000 Ísraelsmenn lífið. Davíð iðraðist að vísu frammi fyrir Jehóva en engu að síður kom þetta harkalega niður á honum og þeim sem með honum voru. — 2. Samúelsbók 24:1-16.

15. Hvað varð til þess að Davíð gerðist sekur um hjúskaparbrot?

15 Í þriðja tilfellinu, þegar guðsótti Davíðs dvínaði um stund, leiddist hann út í siðlaust samband við Batsebu, konu Úría. Davíð vissi að það var rangt að fremja hjúskaparbrot og meira að segja rangt að girnast konu annars manns. (2. Mósebók 20:14, 17) Vandræðin byrjuðu þegar Davíð kom auga á Batsebu þar sem hún var að baða sig. Tilhlýðilegur guðsótti hefði átt að fá hann samstundis til að beina augunum og huganum í aðra átt. En Davíð hélt greinilega áfram að horfa á hana uns girndin varð guðsóttanum yfirsterkari. (Matteus 5:28; 2. Samúelsbók 11:1-4) Davíð missti sjónar á því að Jehóva var nátengdur lífi hans í smáu sem stóru. — Sálmur 139:1-7.

16. Hvaða afleiðingar hafði synd Davíðs fyrir hann?

16 Siðlaust samband Davíðs við Batsebu varð til þess að þau eignuðust son. Skömmu síðar sendi Jehóva Natan spámann til að afhjúpa synd Davíðs. Davíð kom til sjálfs sín, hann endurheimti guðsóttann og iðraðist. Hann sárbændi Jehóva um að hafna sér ekki og taka ekki heilagan anda frá sér. (Sálmur 51:9, 13) Jehóva fyrirgaf Davíð og mildaði refsinguna en hlífði honum þó ekki við öllum afleiðingum þess sem hann hafði gert. Sonur Davíðs dó og sorgir og harmleikir fylgdu fjölskyldunni þaðan í frá. Það reyndist honum dýrkeypt að láta guðsóttann dala. — 2. Samúelsbók 12:10-14; 13:10-14; 15:14.

17. Lýstu með dæmi þeirri kvöl sem synd getur valdið.

17 Það getur sömuleiðis haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar fyrir okkur að óttast ekki Guð þegar siðferðismál eru annars vegar. Hugsaðu þér kvöl ungrar eiginkonu þegar hún komst að raun um að kristinn eiginmaður hennar hafði verið henni ótrúr þegar hann var við störf erlendis. Harmi slegin fól hún andlitið í höndum sér og brast í grát. Hve lengi ætli eiginmaðurinn verði að endurheimta traust hennar og virðingu? Ef við óttumst Guð í sannleika getum við hlíft okkur við slíkum áföllum. — 1. Korintubréf 6:18.

Guðsótti aftrar okkur frá að syndga

18. Hvað reynir Satan og hvaða aðferðum beitir hann?

18 Undir áhrifum Satans er siðferði heimsins á hröðu undanhaldi, og honum er sérstaklega í mun að spilla sannkristnum mönnum. Hann notfærir sér beinustu leiðina að hjarta okkar og huga, það er að segja skynfærin og þá sér í lagi augu og eyru. (Efesusbréfið 4:17-19) Hvernig bregst þú við þegar siðlausar myndir, orð eða fólk verður óvænt á vegi þínum?

19. Hvernig hjálpaði guðsótti kristnum manni að standast freistingar?

19 André * er kristinn öldungur, faðir og læknir í landi einu í Evrópu. Þegar hann var á næturvöktum á spítalanum gerðist það margsinnis að samstarfskonur festu miða, skreytta hjörtum, við koddann hans þar sem þær buðu honum upp á kynmök. André hafnaði umleitunum þeirra staðfastlega. Og til að komast úr þessu siðlausa umhverfi skipti hann um vinnu. Það reyndist vera mjög viturlegt fyrir hann að óttast Guð og það varð honum til blessunar. Núna þjónar hann í hlutastarfi á deildarskrifstofu Votta Jehóva í heimalandi sínu.

20, 21. (a) Hvernig getur guðsótti forðað okkur frá að syndga? (b) Um hvað er fjallað í greininni á eftir?

20 Ef við leyfum okkur að dvelja við rangar hugsanir getur það leitt til þess að við séum tilbúin til að kasta fyrir róða dýrmætu sambandi okkar við Jehóva í skiptum fyrir eitthvað sem við eigum engan rétt á. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Ef við óttumst Jehóva höldum við okkur frá — eða forðum okkur frá — fólki, stöðum, starfsemi og skemmtiefni sem gæti orðið til þess að við slökuðum á verðinum. (Orðskviðirnir 22:3) Þótt okkur geti fundist það vandræðalegt eða við þurfum að færa einhverjar fórnir er það ósköp smávægilegt í samanburði við að glata velþóknun Guðs. (Matteus 5:29, 30) Ef við óttumst Guð gerum við okkur aldrei af ásettu ráði berskjalda fyrir siðleysi, þar á meðal klámi í hvaða mynd sem er, heldur snúum augunum „frá því að horfa á hégóma“. Gerum við það getum við treyst að Jehóva ‚veiti okkur líf‘ og gefi okkur allt sem við þurfum í raun og veru. — Sálmur 84:12; 119:37, Biblíurit, ný þýðing 2003.

21 Það er alltaf viturlegt að óttast Guð. Og það er líka uppspretta ósvikinnar hamingju eins og fram kemur í greininni á eftir. — Sálmur 34:10.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sjá greinina „The Bible’s Viewpoint: How Can You Fear a God of Love?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. janúar 1998, gefið út af Vottum Jehóva.

^ gr. 19 Nafninu er breytt.

Geturðu svarað?

• Hvaða eiginleikar eru tengdir guðsótta?

• Hvernig vinnur guðsótti gegn ótta við menn?

• Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta bænina?

• Hvernig getur guðsótti forðað okkur frá að syndga?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Davíð lærði að óttast Guð þegar hann virti fyrir sér handaverk hans.

[Myndir á blaðsíðu 24]

Hvernig bregst þú við þegar óvænt freisting verður á vegi þínum?