Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Áreiðanlegar leiðbeiningar um barnauppeldi

Áreiðanlegar leiðbeiningar um barnauppeldi

Áreiðanlegar leiðbeiningar um barnauppeldi

„ÉG VAR 19 ára, bjó í órafjarlægð frá öllum í fjölskyldunni og var algerlega óundirbúin,“ segir Ruth um fyrstu meðgönguna. Og þar sem hún var einkabarn hafði hún ekki hugsað mikið um foreldrahlutverkið. Hvar gat hún fengið áreiðanlegar leiðbeiningar?

Jan, sem er faðir þriggja uppkominna barna, segir aftur á móti: „Ég var mjög öruggur í fyrstu en gerði mér fljótt grein fyrir því að mig skorti bæði reynslu og þekkingu.“ Já, sumir foreldrar eru ráðvilltir í byrjun en öðrum finnst þeir tapa áttum með tímanum. Hvar geta þeir fengið hjálp við barnauppeldið?

Sífellt fleiri leita ráða á Netinu. En þú veltir kannski fyrir þér hvort þau ráð séu áreiðanleg. Við höfum ríka ástæðu til að vera vör um okkur. Vitum við í raun og veru frá hverjum leiðbeiningar á Netinu koma? Hvernig hefur þeim tekist að ala upp sín eigin börn? Þú vilt án efa vera varkár í öllu því sem snertir fjölskyldu þína. Eins og fram kom í greininni á undan hafa jafnvel leiðbeiningar sérfræðinga stundum reynst illa. Hvert er þá hægt að leita?

Jehóva Guð, höfundur fjölskyldunnar, veitir bestu leiðbeiningarnar um barnauppeldi. (Efesusbréfið 3:15) Hann er eini raunverulegi sérfræðingurinn. Í orði sínu, Biblíunni, veitir hann áreiðanlegar og gagnlegar leiðbeiningar sem reynast vel. (Sálmur 32:8; Jesaja 48:17, 18) En það er undir okkur komið að fara eftir þeim.

Nokkur hjón voru beðin að segja frá því sem þau lærðu þegar þau ólu upp börnin sín sem nú eru uppkomnir, heilsteyptir og guðhræddir einstaklingar. Þau sögðu að góður árangur þeirra væri aðallega að þakka meginreglum Biblíunnar. Þau komust að því að leiðbeiningar hennar eru jafn áreiðanlegar núna og þegar hún var fyrst skrifuð.

Verjið tíma með börnunum

Þegar Catherine, sem er tveggja barna móðir, var beðin um að segja hvaða ráð henni hafi fundist gagnlegust nefndi hún strax 5. Mósebók 6:7. Þar segir: „Þú skalt brýna [boðorð Biblíunnar] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Catherine gerði sér grein fyrir því að hún yrði að verja tíma með börnunum til að geta farið eftir þessum ráðum.

„En það er hægara sagt en gert,“ hugsarðu kannski með þér. Í mörgum fjölskyldum þurfa báðir foreldrar að vinna úti svo að endar nái saman. Hvernig geta uppteknir foreldrar verið meira með börnum sínum? Torlief á son sem er nú að ala upp sín eigin börn. Hann segir að aðalatriðið sé að fylgja leiðbeiningum 5. Mósebókar. Taktu börnin með þér hvert sem þú ferð og þá koma sjálfkrafa upp tækifæri til að tala við þau. „Við feðgarnir unnum saman að ýmsum verkefnum á heimilinu,“ segir Torlief. „Fjölskyldan fór saman í ferðalög. Við borðuðum líka saman.“ Hann segir að árangurinn hafi verið sá að syni þeirra fannst hann alltaf geta talað opinskátt við þau.

En hvað er hægt að gera ef tjáskiptin verða þvinguð og erfið? Það gerist stundum þegar börnin stálpast. Enn og aftur skiptir máli að verja tíma með þeim. Ken, eiginmaður Catherine, minnist þess að þegar dóttir þeirra komst á unglingsaldur hafi hún kvartað undan því að hann hlustaði ekki á hana. Þetta er algengt umkvörtunarefni unglinga. Hvað gat hann gert? Ken segir: Ég ákvað að við skyldum vera meira saman, bara við tvö, svo að hún gæti sagt mér hvað hún væri að hugsa, hvernig henni liði og hverju hún hefði áhyggjur af. Þetta reyndist vel. (Orðskviðirnir 20:5) Ken telur að þessi aðferð hafi virkað vegna þess að góð tjáskipti innan fjölskyldunnar voru ekki ný af nálinni. „Sambandið milli mín og dóttur minnar hafði alltaf verið gott,“ segir hann, „þess vegna gat hún talað opinskátt við mig.“

Það er athyglisvert að samkvæmt nýlegri könnun eru unglingar þrisvar sinnum líklegri en foreldrar til að segja að þeir og foreldrarnir séu ekki nógu mikið saman. Af hverju ekki að fylgja ráðum Biblíunnar? Vertu eins mikið með börnunum og þú getur — þegar þú hvílir þig eða ert að vinna, þegar þú ert heima eða á ferðalagi, á morgnana þegar þú vaknar og á kvöldin áður en þú ferð að sofa. Reyndu að taka þau með þér hvert sem þú ferð ef það er mögulegt. Eins og bent er á í 5. Mósebók 6:7 kemur ekkert í stað þess að verja tíma með börnunum.

Kennið þeim góð lífsgildi

Mario er tveggja barna faðir og hann ráðleggur: „Sýndu börnunum mikla ástúð og lestu fyrir þau.“ En það er ekki nóg að örva huga barnanna heldur verður líka að kenna þeim að greina rétt frá röngu. Mario bætir við: „Eigðu reglulegar biblíunámsstundir með þeim.“

Biblían veitir foreldrum eftirfarandi ábendingu: „Reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.“ (Efesusbréfið 6:4) Á mörgum heimilum er ekki lögð nægileg áhersla á að kenna siðferðileg gildi. Sumir álíta að þegar börnin verði eldri geti þau sjálf ákveðið hvaða lífsgildi þau tileinki sér. Finnst þér það rökrétt? Börn þurfa næringarríka fæðu til að verða líkamlega sterk og hraust og á sama hátt þurfa þau að fá leiðbeiningar til að verða heilbrigð í huga og hjarta. Ef þau læra ekki þessi gildi heima fyrir tileinka þau sér sennilega viðhorf skólafélaga og kennara eða þau gildi sem fjölmiðlar koma á framfæri.

Biblían getur hjálpað foreldrum að kenna börnum sínum að greina rétt frá röngu. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Jeff mælir með því að nota Biblíuna til að kenna börnunum rétt lífsgildi en hann er reyndur safnaðaröldungur og hefur alið upp tvö börn. Hann segir: „Ef maður notar Biblíuna sjá börnin hvað skaparanum finnst en ekki bara hvað mömmu og pabba finnst. Við tókum eftir því að Biblían hefur einstök áhrif á hugann og hjartað. Þegar við þurftum að benda á að ákveðin hegðun eða hugsunarháttur væri ekki við hæfi gáfum við okkur tíma til að finna viðeigandi ritningarstað. Síðan létum við barnið lesa ritningarstaðinn í einrúmi. Áhrifin voru oft þau að eitt eða fleiri tár runnu niður kinnarnar. Við vorum agndofa. Biblían hafði mun meiri áhrif en nokkuð sem við hefðum getað sagt eða gert.“

Í Hebreabréfinu 4:12 segir: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt, . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ Í Biblíunni er því að finna viðhorf Guðs til siðferðilegra málefna en ekki bara persónulegar skoðanir eða reynslu biblíuritaranna sem Guð notaði. Þar af leiðandi eru leiðbeiningar Biblíunnar í algerum sérflokki. Ef þú notar orð Guðs til að fræða börnin kennirðu þeim að tileinka sér viðhorf Guðs. Þá hefur uppeldi þitt meiri áhrif og þú átt auðveldara með að ná til hjartna þeirra.

Catherine, sem vitnað var í áðan, tekur undir þetta. Hún segir: „Því erfiðara sem vandamálið var þeim mun meira reiddum við okkur á leiðbeiningar Biblíunnar. Það virkaði.“ Getur þú nýtt þér Biblíuna betur þegar þú kennir barninu þínu að greina rétt frá röngu?

Verið sanngjörn

Páll postuli bendir á aðra mikilvæga meginreglu sem er gagnleg við barnauppeldið. Hann hvatti trúbræður sína til að vera sanngjarnir. (Títusarbréfið 3:1, 2) Það felur að sjálfsögðu í sér að sýna börnum sínum sanngirni. Og mundu að sanngirni endurspeglar viskuna að ofan. — Jakobsbréfið 3:17.

En hvernig tengist sanngirni uppeldi barna? Þótt við hjálpum þeim eins mikið og við getum er það ekki á okkar valdi að stjórna öllu sem þau gera. Mario, sem vitnað var í áðan, er vottur Jehóva og hann segir: „Við hvöttum börnin alltaf til að setja sér andleg markmið svo sem skírn, þjónustu í fullu starfi og fleira. En við tókum það skýrt fram að það væri þeirra að taka ákvörðun um þessi mál þegar þar að kæmi.“ Hver var árangurinn? Bæði börnin þeirra þjóna nú sem boðberar í fullu starfi.

Í Kólossubréfinu 3:21 eru feður minntir á að vera „ekki vondir við börn [sín], svo að þau verði ekki ístöðulaus“. Catherine þykir mjög vænt um þetta vers. Þegar foreldrar eru að missa þolinmæðina gagnvart börnunum er auðvelt að reiðast eða ætlast til of mikils af þeim. En hún segir: „Gerum ekki jafn miklar kröfur til barnanna og til okkar sjálfra.“ Catherine er líka vottur Jehóva og hún bætir við: „Gerðu þjónustuna við Jehóva ánægjulega.“

Jeff, sem var vitnað í áðan, kom með þessa gagnlegu athugasemd: „Þegar börnin okkar voru orðin aðeins eldri minntist góður vinur á það hve oft hann þurfti að neita börnum sínum um eitthvað. Það hafði neikvæð áhrif á þau og gerði að verkum að þeim fannst þau aldrei mega neitt. Hann hvatti okkur til að reyna að koma í veg fyrir þetta með því að finna eitthvað sem við gætum leyft þeim að gera.“

„Þessar leiðbeiningar reyndust okkur vel,“ segir hann. „Við reyndum að finna eitthvað sem börnin gátu gert með öðrum við aðstæður sem við vorum sátt við. Þá gátum við farið til þeirra og sagt þeim að vinir eða kunningjar væru að fara að gera eitthvað skemmtilegt og spurt hvort þau vildu ekki fara með. Og þegar börnin báðu okkur um að fara eitthvað með sér lögðum við það á okkur jafnvel þótt við værum þreytt. Við gerðum það til að þurfa ekki að segja nei.“ Þetta er kjarni þess að vera sanngjarn — að vera óhlutdrægur, tillitsamur og sveigjanlegur án þess þó að víkja frá meginreglum Biblíunnar.

Njótið góðs af áreiðanlegum leiðbeiningum

Flest þessara hjóna eru núna afar og ömmur. Þau hafa yndi af því að sjá þessar sömu meginreglur Biblíunnar koma börnum sínum að gagni þegar þau takast á við foreldrahlutverkið. Getur þú nýtt þér leiðbeiningar Biblíunnar?

Þegar Ruth, sem var nefnd í byrjun, varð móðir fannst henni og eiginmanni hennar þau stundum vera ein á báti. En þau voru það alls ekki. Þau nutu góðs af bestu leiðbeiningum sem hægt er að hugsa sér — leiðbeiningunum í orði Guðs, Biblíunni. Vottar Jehóva hafa gefið út fjölda gagnlegra biblíunámsrita sem foreldrar geta nýtt sér. Þar á meðal má nefna bækurnar Lærum af kennaranum mikla, Biblíusögubókina mína, Spurningar unga fólksins — svör sem duga og Mesta mikilmenni sem lifað hefur. Torlief, eiginmaður Ruthar, segir: „Foreldrar nú á dögum hafa greiðan aðgang að biblíulegum leiðbeiningum. Ef þeir nýta sér þær getur það hjálpað þeim að takast á við allt sem upp kemur á uppvaxtarárum barnsins.“

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 5]

Það sem sérfræðingar segja . . . það sem Biblían segir

Um ástúð:

Í ritinu The Psychological Care of Infant and Child (1928), veitti dr. John Broadus Watson foreldrum þessi ráð: „Þið skulið hvorki faðma né kyssa“ börnin ykkar. „Leyfið þeim aldrei að sitja í fanginu á ykkur.“ En ekki alls fyrir löngu sögðu dr. Vera Lane og dr. Dorothy Molyneaux í tímaritinu Our Children (mars 1999): „Rannsóknir benda til þess að ung börn dafni oft illa ef þau eru ekki snert og þeim ekki sýnd ástúð.“

Í Jesaja 66:12 er hins vegar talað um að Jehóva sýni þjónum sínum kærleika líkt og ástúðlegt foreldri. Og þegar lærisveinar Jesú reyndu að koma í veg fyrir að fólk kæmi með börnin sín til hans leiðrétti hann þá og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ Síðan „tók [hann] þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau“. — Markús 10:14, 16.

Um góð lífsgildi:

Árið 1969 birtist grein í New York Times Magazine þar sem dr. Bruno Bettelheim lagði áherslu á að börn hefðu „rétt á að mynda eigin skoðanir sem væru ekki mótaðar af valdsmannslegri [prédikun foreldranna] heldur þeirra eigin lífsreynslu“. En næstum 30 árum seinna viðurkenndi dr. Robert Coles, höfundur bókarinnar The Moral Intelligence of Children (1997), að „börn þurfi að finna að þau hafi hlutverk og stefnu í lífinu, ákveðin lífsgildi“ sem foreldrar og aðrir fullorðnir einstaklingar veita þeim.

Í Orðskviðunum 22:6 er að finna þessa hvatningu til foreldra: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ Hebreska orðið, sem hér er þýtt að ‚fræða‘, þýðir einnig að ‚hrinda af stað‘ og lýsir fyrstu fræðslunni sem ung börn fá. Foreldrar eru því hvattir til að kenna börnum sínum góð lífsgildi allt frá blautu barnsbeini. (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Það sem þau læra á þessum mótandi árum hefur trúlega áhrif á þau til frambúðar.

Um aga:

Dr. James Dobson skrifaði í bókinni The Strong-Willed Child (1978): „Líkamleg refsing af hendi ástríkra foreldra er aðferð til að koma í veg fyrir slæma hegðun.“ En í grein sem var unnin úr sjöundu útgáfu af vinsælu bókinni Baby and Child Care (1998) sagði dr. Benjamin Spock: „Flengingar kenna börnum að sá sem er stærri og sterkari hafi vald til að fá sínu framgengt hvort sem hann hefur rétt fyrir sér eða ekki.“

Biblían segir um aga: „Vöndur og umvöndun veita speki.“ (Orðskviðirnir 29:15) Agi getur að sjálfsögðu birst í mörgum myndum. Oft nægja orðin ein. Í Orðskviðunum 17:10 segir: „Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.“

[Mynd]

Notaðu Biblíuna til að ná til hjartans.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Skynsamir foreldrar skipuleggja afþreyingu fyrir börnin.