Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafa „sérfræðingar“ reynst áreiðanlegir?

Hafa „sérfræðingar“ reynst áreiðanlegir?

Hafa „sérfræðingar“ reynst áreiðanlegir?

FORELDRAR, sem leita leiðbeininga um barnauppeldi á Netinu, geta strax fundið milljónir netsíðna um þessi mál. Ef þeir notuðu aðeins örfáar mínútur til að lesa hverja síðu væri barnið vaxið úr grasi og flutt að heiman áður en þeir gætu lokið lestrinum.

En hvar leituðu foreldrar ráða áður en barnalæknar, barnasálfræðingar og Netið kom til sögunnar? Flestir leituðu til stórfjölskyldunnar. Mæður, feður, frænkur og frændur voru meira en fús til að veita ráð og fjárhagslega aðstoð og gæta barnanna. Í mörgum löndum hafa miklir fólksflutningar úr dreifbýlinu til borganna klippt á þessi nánu fjölskyldubönd. Foreldrar þurfa allt of oft að takast á við barnauppeldið án aðstoðar.

Þetta er eflaust ástæða þess að öll þjónusta sem snertir umönnun og gæslu barna hefur aukist til muna nú á tímum. Önnur ástæða er sú að algengt er að fólk leggi traust sitt á vísindi. Undir lok nítjándu aldar var almenningur í Bandaríkjunum orðinn sannfærður um að vísindi gætu bætt flesta þætti mannlífsins. Af hverju ætti það ekki eins við um barnauppeldi? Þess vegna kom fjöldi „vísindalegra sérfræðinga“ fram á sjónarsviðið um 1899 þegar samtökin American National Congress of Mothers kvörtuðu opinberlega undan „vanhæfni foreldra“. Þessir sérfræðingar lofuðu að leiðbeina ráðvilltum foreldrum.

Barnauppeldi eftir bókinni

Hverju hafa þessir sérfræðingar áorkað? Eru foreldrar nú á dögum síður áhyggjufullir en áður og betur undir það búnir að ala upp börnin sín? Ekki ef marka má nýlega skoðanakönnun sem gerð var í Bretlandi. Í ljós kom að um 35 prósent af foreldrum ungra barna eru enn að leita að áreiðanlegum leiðbeiningum. Öðrum finnst þeir ekki hafa um neitt annað að velja en treysta á eigin dómgreind.

Rithöfundurinn Ann Hulbert rekur sögu faglegra rita um barnauppeldi í bókinni Raising America: Experts, Parents, and a Century of Advice About Children. Hún er sjálf tveggja barna móðir og segir að niðurstöður þessara sérfræðinga hafi sjaldnast verið byggðar á áreiðanlegum vísindum. Hún segir að þær hafi frekar mótast af lífsreynslu þeirra sjálfra en hlutlægum sönnunargögnum. Þegar litið er til baka virðist flest af því sem þeir skrifuðu mótast af tískufyrirbrigðum og vera mótsagnakennt eða hreint og beint afkáralegt.

Hvar standa foreldrar þá nú á dögum? Satt að segja eru margir mjög ráðvilltir. Þeir heyra fleiri ráð, skoðanir og deilur um þessi mál en nokkru sinni fyrr. En það eru ekki allir ráðvilltir. Foreldrar um allan heim njóta góðs af fornum viskubrunni sem veitir enn þá áreiðanlegar leiðbeiningar eins og fram kemur í næstu grein.