Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva frelsar hinn þjáða

Jehóva frelsar hinn þjáða

Jehóva frelsar hinn þjáða

„Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.“ — SÁLMUR 34:20.

1, 2. Við hvaða vandamál glímdi trúföst kristin kona og hvers vegna gætum við þurft að kljást við svipaðar tilfinningar?

KEIKO * er ung kona sem hefur verið vottur Jehóva í rúm 20 ár. Um tíma þjónaði hún sem brautryðjandi eða boðberi Guðsríkis í fullu starfi. Henni þótti innilega vænt um þetta þjónustuverkefni. En fyrir ekki svo löngu fylltist Keiko vonleysi og fannst hún vera einangruð. „Ég grét stöðugt,“ segir hún. Til að vinna gegn þessum neikvæðu tilfinningum varði hún meiri tíma til biblíunáms. „Ég gat samt ekki breytt líðan minni. Ég varð svo niðurdregin að mig langaði til að deyja.“

2 Hefur þú þurft að glíma við svipaðar tilfinningar? Sem vottur Jehóva hefurðu mikla ástæðu til að gleðjast því að guðhræðslan „hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda“. (1. Tímóteusarbréf 4:8) Þú býrð nú þegar í andlegri paradís. En þýðir það að þú sért laus við alla erfiðleika? Nei, alls ekki. Í Biblíunni segir: „Margar eru raunir réttláts manns.“ (Sálmur 34:20) Þetta kemur ekki á óvart því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“, Satans djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Við finnum öll fyrir áhrifum hans á einn eða annan hátt. — Efesusbréfið 6:12.

Erfiðleikar hafa áhrif á okkur

3. Nefndu dæmi um þjóna Guðs sem voru niðurdregnir.

3 Langvarandi erfiðleikar geta dregið úr okkur allan kjark og gert okkur niðurdregin. (Orðskviðirnir 15:15) Tökum hinn réttláta Job sem dæmi. Þegar hann varð fyrir miklum raunum sagði hann: „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.“ (Jobsbók 14:1) Job hafði misst gleðina. Um tíma hélt hann meira að segja að Jehóva hefði yfirgefið sig. (Jobsbók 29:1-5) Aðrir þjónar Guðs upplifðu einnig miklar sálarkvalir. Í Biblíunni segir að Hanna hafi verið „sárhrygg“ yfir því að vera barnlaus. (1. Samúelsbók 1:9-11) Þegar fjölskylduerfiðleikar lögðust þungt á Rebekku sagði hún: „Ég er orðin leið á lífinu.“ (1. Mósebók 27:46) Og þegar Davíð leiddi hugann að mistökum sínum sagðist hann „ráfa um harmandi daginn langan“. (Sálmur 38:7) Þessi fáeinu dæmi sýna fram á að guðhræddir menn og konur fyrir daga kristninnar voru stundum mjög langt niðri.

4. Af hverju kemur ekki á óvart að sumir kristnir menn nú á dögum skuli vera niðurdregnir?

4 En hvað um kristna menn? Páll postuli taldi nauðsynlegt að hvetja Þessaloníkumenn til að ‚hughreysta niðurdregna‘. (1. Þessaloníkubréf 5:14, NW) Í heimildarriti kemur fram að gríska orðið, sem þýtt er ‚niðurdregnir‘, geti vísað til þeirra „sem eru tímabundið að bugast undan áhyggjum lífsins“. Orð Páls gefa til kynna að sumir andasmurðir menn í söfnuðinum í Þessaloníku hafi verið raunamæddir. Sumir kristnir menn nú á dögum eru líka niðurdregnir. Hvað veldur því? Við skulum skoða þrjár algengar ástæður.

Okkar eigin ófullkomleiki

5, 6. Hvaða hughreystingu er að finna í Rómverjabréfinu 7:22-25?

5 Sannkristnir menn eru ekki eins og spilltir einstaklingar sem „eru tilfinningalausir“ heldur eru þeir miður sín vegna eigin ófullkomleika. (Efesusbréfið 4:19) Þeim líður kannski eins og Páli sem skrifaði: „Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ Hann bætti svo við: „Ég aumur maður!“ — Rómverjabréfið 7:22-24.

6 Hefur þér einhvern tíma liðið eins og Páli? Það er ekki rangt að vera sér meðvita um ófullkomleika sinn. Það getur minnt mann á hve alvarlegt er að syndga og hjálpað manni að forðast illt. En þú þarft ekki að vera svo hryggur vegna veikleika þinna að það þjaki þig öllum stundum. Í kjölfar orðanna, sem vitnað var í hér á undan, sagði Páll: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ (Rómverjabréfið 7:25) Já, Páll treysti því að úthellt blóð Jesú gæti leyst hann undan erfðasyndinni. — Rómverjabréfið 5:18.

7. Hvað getur hjálpað manni að láta ófullkomleikann ekki draga úr sér allan kjark?

7 Ef þér finnst ófullkomleikinn draga úr þér allan kjark geturðu leitað hughreystingar í orðum Jóhannesar postula sem skrifaði: „Ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Ef þú ert niðurdreginn vegna syndugra tilhneiginga skaltu minnast þess að Jesús dó fyrir syndara en ekki fullkomið fólk. Já, „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ — Rómverjabréfið 3:23.

8, 9. Af hverju ættum við ekki að dæma sjálf okkur of harkalega?

8 En hvað ef þú drýgðir eitt sinn alvarlega synd? Þú hefur örugglega rætt málið við Jehóva í bæn oftar en einu sinni og fengið hjálp frá öldungum safnaðarins. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Þú iðraðist af öllu hjarta og tilheyrðir því áfram söfnuðinum. Þú gætir líka hafa yfirgefið söfnuð Guðs um tíma en seinna iðrast og orðið hreinn frammi fyrir Jehóva á ný. Hvort heldur sem er gæti syndin komið upp í hugann af og til og gert þig niðurdreginn. Ef það gerist skaltu muna að Jehóva „fyrirgefur ríkulega“ þeim sem iðrast í einlægni. (Jesaja 55:7) Auk þess vill hann ekki að þér finnist þú dæmdur fyrir fullt og allt. Það er Satan sem vill að þér líði þannig. (2. Korintubréf 2:7, 10, 11) Hann hlýtur verðskuldaðan dóm þegar honum verður tortímt og hann vill telja þér trú um að þú eigir að fá sama dóm. (Opinberunarbókin 20:10) Láttu Satan ekki komast upp með að eyðileggja trú þína. (Efesusbréfið 6:11) Stattu heldur gegn honum í þessu sem og öllu öðru. — 1. Pétursbréf 5:9.

9 Í Opinberunarbókinni 12:10 er Satan kallaður ‚kærandi bræðra vorra‘, það er að segja andasmurðra kristinna manna. Hann „kærir [þá] fyrir Guði vorum dag og nótt“. Þegar þú hugleiðir þetta vers sérðu að Satan, falskærandinn mikli, yrði ánægður ef þú dæmdir og ásakaðir sjálfan þig þótt Jehóva geri það ekki. (1. Jóhannesarbréf 3:19-22) Þú ættir ekki að velta þér svo mikið upp úr mistökum þínum að þig langi helst til að gefast upp. Láttu ekki Satan eyðileggja samband þitt við Guð eða fá þig til að gleyma því að Jehóva er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður [og] gæskuríkur“. — 2. Mósebók 34:6.

Takmörk okkar

10. Hvernig gætu takmörk okkar gert okkur niðurdregin?

10 Sumir kristnir menn eru niðurdregnir vegna þess að þeir geta ekki gert eins mikið í þjónustu Guðs og þeir vildu. Á það við um þig? Kannski geturðu ekki notað jafn mikinn tíma í boðunarstarfinu og áður vegna alvarlegra veikinda, aldurs eða annarra ástæðna. Kristnir menn eru að sjálfsögðu hvattir til að nota hverja stund í þjónustu Guðs. (Efesusbréfið 5:15, 16) En hvað ef takmörk þín koma í veg fyrir að þú getir gert meira í boðunarstarfinu og það dregur þig niður?

11. Hvaða gagn höfum við af leiðbeiningum Páls í Galatabréfinu 6:4?

11 Biblían hvetur okkur til að gerast ekki sljó heldur breyta „eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin“. (Hebreabréfið 6:12) Það getum við aðeins gert ef við virðum fyrir okkur fordæmi þeirra og reynum að líkja eftir trú þeirra. Það er hins vegar ekki gott að bera sig saman við aðra og hugsa sem svo að ekkert sem við gerum sé nógu gott. Við ættum því að fylgja leiðbeiningum Páls: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ — Galatabréfið 6:4.

12. Hvaða ástæðu höfum við til að gleðjast í þjónustu Jehóva?

12 Kristnir menn hafa góða ástæðu til að gleðjast jafnvel þótt alvarlegur heilsubrestur setji þeim skorður. Biblían fullvissar okkur: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ (Hebreabréfið 6:10) Kannski koma óviðráðanlegar aðstæður í veg fyrir að þú getir gert eins mikið og áður. En með hjálp Jehóva geturðu tekið meiri þátt í sumum greinum boðunarstarfsins eins og símastarfi og bréfaskriftum. Þú getur verið viss um að Jehóva Guð blessar þig fyrir heilshugar þjónustu þína og kærleikann sem þú sýnir honum og öðrum mönnum. — Matteus 22:36-40.

„Örðugar tíðir“

13, 14. (a) Hvaða erfiðleikar gætu steðjað að okkur á þessum örðugu tíðum? (b) Hvernig má sjá að kærleiksleysi er útbreytt vandamál nú á dögum?

13 Þótt við hlökkum til þess að búa í réttlátum nýjum heimi Guðs lifum við núna á örðugum tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það er hughreystandi að vita að erfiðleikarnir í heiminum benda til þess að lausnin sé í nánd. En aðstæðurnar í kringum okkur hafa samt áhrif á okkur. Hvað ef þú ert til dæmis atvinnulaus? Kannski er ekki mikil atvinna í boði. Eftir því sem mánuðirnir líða veltirðu ef til vill fyrir þér hvort Jehóva sjái erfiðleika þína eða heyri bænir þínar. Þú gætir líka hafa orðið fyrir mismunun eða öðru óréttlæti. Þegar þú lítur yfir fyrirsagnir dagblaðanna gæti þér jafnvel liðið eins og hinum réttláta Lot sem „mæddist“ út af siðlausum lifnaði fólksins í kringum sig. — 2. Pétursbréf 2:7.

14 Kærleiksleysi er eitt áberandi einkenni hinna síðustu daga eins og Biblían spáði. (2. Tímóteusarbréf 3:3) Á mörgum heimilum skortir alla ástúð milli fjölskyldumeðlima. Í bókinni Family Violence segir: „Staðreyndir benda til þess að meiri líkur séu á því að fólk sé myrt eða beitt líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi af einhverjum innan fjölskyldunnar frekar en af einhverjum utan hennar. . . . Fyrir sum börn og fullorðna er staðurinn, þar sem þau ættu að finna fyrir ást og öryggi, einmitt hættulegasti staðurinn.“ Þeir sem hafa alist upp við erfiðar heimilisaðstæður gætu seinna á ævinni fengið kvíðaköst og fyllst vonleysi. Er þetta þín reynsla?

15. Af hverju getum við sagt að kærleikur Jehóva sé sterkari en kærleikur manna?

15 Sálmaritarinn Davíð söng: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Það er hughreystandi að vita að kærleikur Jehóva er sterkari en kærleikur foreldra. Þótt það sé vissulega sárt ef foreldrarnir hafna manni, koma illa fram við mann eða yfirgefa mann hefur það ekki áhrif á tilfinningar Jehóva í okkar garð. (Rómverjabréfið 8:38, 39) Mundu að Jehóva dregur til sín þá sem hann elskar. (Jóhannes 3:16; 6:44) Himneskur faðir þinn elskar þig sama hvernig aðrir hafa komið fram við þig.

Hvernig er hægt að lina þjáningar?

16, 17. Hvað er hægt að gera til að halda sér sterkum í trúnni þegar maður glímir við kjarkleysi?

16 Þú getur gert ýmislegt til að takast á við depurð. Það er til dæmis mikilvægt að hafa góðar andlegar venjur. Hugleiddu orð Guðs, sérstaklega þegar þér finnst kjarkleysið vera að buga þig. Sálmaritarinn söng: „Þegar ég hugsaði: ‚Mér skriðnar fótur,‘ þá studdi mig miskunn þín, Drottinn. Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.“ (Sálmur 94:18, 19) Reglulegur biblíulestur fyllir huga þinn hughreystandi orðum og uppbyggilegum hugsunum.

17 Bænin er líka mjög mikilvæg. Jafnvel þótt þú getir ekki lýst tilfinningum þínum til fulls með orðum veit Jehóva hvað þú ert að reyna að segja. (Rómverjabréfið 8:26, 27) Sálmaritarinn fullvissar okkur: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ — Sálmur 55:23.

18. Hvað geta þunglyndir gert til að bæta líðan sína?

18 Hjá sumum stafar depurðin af því að þeir eru haldnir þunglyndi. * Ef það á við um þig skaltu reyna að beina athyglinni að nýjum heimi Guðs og þeim tíma þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Ef þær neikvæðu tilfinningar, sem þú glímir við, virðast alvarlegri en stundlegur dapurleiki gæti verið viturlegt að leita læknishjálpar. (Matteus 9:12) Það er líka mikilvægt að hugsa vel um heilsuna. Heilbrigt mataræði og hæfileg hreyfing getur komið að góðu gagni. Gættu þess að fá næga hvíld. Horfðu ekki á sjónvarp langt fram eftir kvöldi og forðastu afþreyingu sem dregur úr þér allan þrótt, bæði líkamlega og tilfinningalega. Umfram allt skaltu halda áfram að vera virkur í þjónustunni við Guð. Þótt enn sé ekki kominn tími Jehóva til að „þerra hvert tár“ mun hann gefa þér styrk til að standast. — Opinberunarbókin 21:4; 1. Korintubréf 10:13.

Dveljum „undir Guðs voldugu hönd“

19. Hverju lofar Jehóva þeim sem eru þjáðir?

19 Biblían fullvissar okkur um að þótt raunir réttláts manns séu margar muni Jehóva ‚frelsa hann úr þeim öllum‘. (Sálmur 34:20) Hvernig gerir hann það? Þegar Páll postuli bað aftur og aftur um að ‚fleinninn‘, sem hann hafði í holdinu, yrði fjarlægður sagði Jehóva honum að máttur sinn myndi „fullkomnast í veikleika“. (2. Korintubréf 12:7-9) Hverju var Jehóva að lofa Páli og hverju lofar hann þér? Hann var ekki að lofa lækningu þegar í stað heldur styrk til að halda út.

20. Um hvað erum við fullvissuð í 1. Pétursbréfi 5:6, 7?

20 Pétur postuli skrifaði: „Auðmýkið yður . . . undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:6, 7) Jehóva er annt um þig og mun því ekki yfirgefa þig. Hann styður þig þótt þú gangir í gegnum erfiðleika. Hafðu í huga að trúfastir kristnir menn eru „undir Guðs voldugu hönd“. Jehóva gefur okkur styrk til að standast þegar við þjónum honum og ef við erum honum trúföst getur ekkert skaðað trú okkar til langs tíma litið. Við skulum því alltaf vera Jehóva ráðvönd svo að við hljótum eilíft líf í nýjum heimi hans og fáum að sjá þegar hann veitir hinum þjáðu varanlega lausn.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Nafninu hefur verið breytt.

^ gr. 18 Þunglyndi er ekki aðeins kjarkleysi heldur sjúkdómur þar sem depurðin er langvarandi og ristir mjög djúpt. Frekari upplýsingar er að finna í enskri útgáfu Varðturnsins 15. október 1988 bls. 25-29; 15. nóvember 1988 bls. 21-24 og í Varðturninum á íslensku 1. nóvember 1996 bls. 30-31.

Manstu?

• Af hverju hafa erfiðleikar líka áhrif á þjóna Jehóva?

• Hvað getur stuðlað að því að sumir þjónar Guðs verði niðurdregnir?

• Hvernig hjálpar Jehóva okkur að takast á við áhyggjur?

• Í hvaða skilningi erum við „undir Guðs voldugu hönd“?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 8]

Þjónar Jehóva hafa ástæðu til að fagna þrátt fyrir erfiðleika.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Ein leið til að gefa Jehóva sitt besta er að taka þátt í símastarfi.