Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur

Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur

Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur

„Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ — SEFANÍA 1:14.

1, 2. (a) Eftir hvaða degi bíða sannkristnir menn? (b) Hvaða spurninga verðum við að spyrja og hvers vegna?

UNG kona bíður í ofvæni eftir brúðkaupsdeginum. Verðandi móðir hlakkar til að barnið komi í heiminn. Þreyttur verkamaður bíður óþreyjufullur eftir að komast í langþráð frí. Hvað er sameiginlegt með þeim öllum? Þau bíða öll eftir ákveðnum degi — degi sem mun hafa áhrif á líf þeirra. Tilfinningar þeirra eru mjög sterkar þótt ólíkar séu. Dagurinn, sem þau bíða eftir, mun á endanum renna upp og þau vonast til að vera tilbúin þegar þar að kemur.

2 Sannkristnir menn bíða líka með óþreyju eftir ákveðnum degi. Það er hinn mikli „dagur Drottins“ Jehóva. (Jesaja 13:9; Jóel 2:1; 2. Pétursbréf 3:12) Hver er þessi „dagur Drottins“ og hvaða áhrif mun hann hafa á mannkynið? Og hvernig getum við verið viss um að við séum undir það búin að hann renni upp? Það er áríðandi að við leitum svara við þessum spurningum núna því að allt bendir til þess að ‚hinn mikli dagur Drottins sé nálægur, hann sé nálægur og hraði sér mjög‘, eins og Biblían segir. — Sefanía 1:14.

„Hinn mikli dagur Drottins“

3. Hver er „hinn mikli dagur Drottins“?

3 Hver er „hinn mikli dagur Drottins“? Orðasambandið „dagur Drottins“ er notað í Biblíunni um ákveðna tíma þegar Jehóva fullnægði dómi yfir óvinum sínum og upphóf hið mikla nafn sitt. „Dagur Drottins“ kom yfir trúlausa íbúa Júda og Jerúsalem auk kúgaranna í Babýlon og Egyptalandi þegar Jehóva lét dóm sinn ganga yfir þá. (Jesaja 2:1, 10-12; 13:1-6; Jeremía 46:7-10) En mesti „dagur Drottins“ er enn ekki runninn upp. Það er sá „dagur“ þegar dómur hans mun ganga yfir þá sem hafa smánað nafn hans. Hann hefst með eyðingu ‚Babýlonar hinnar miklu‘, heimsveldis falstrúarbragðanna, og nær hámarki þegar þessu illa heimskerfi í heild verður gereytt í stríðinu við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 17:5, 15-17; 19:11-21.

4. Hvers vegna ætti meirihluti manna að óttast dag Jehóva?

4 Meirihluti manna ætti að óttast þennan yfirvofandi dag hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Hvers vegna? Jehóva svarar því fyrir milligöngu spámannsins Sefanía: „Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta.“ Þetta er ógnvekjandi lýsing! Spámaðurinn heldur áfram: „Þá mun ég hræða mennina . . . af því að þeir hafa syndgað gegn Drottni.“ — Sefanía 1:15, 17.

5. Hvernig hugsa milljónir manna um dag Jehóva og hvers vegna?

5 Milljónir manna bíða hins vegar óþreyjufullar eftir að dagur Jehóva komi. Hvers vegna? Vegna þess að þetta verður dagur frelsunar og lausnar fyrir réttlátt fólk, dagur þegar Jehóva verður upphafinn og dýrlegt nafn hans helgað. (Jóel 3:21, 22; Sefanía 3:12-17) Hvort fólk óttast daginn eða væntir hans með tilhlökkun er að miklu leyti undir því komið hvernig það lifir lífinu núna. Hvernig hugsar þú um dag Jehóva? Ertu undir hann búinn? Hefur það áhrif á daglegt líf þitt að þessi dagur er skammt undan?

‚Spottarar munu koma‘

6. Hvernig líta flestir á dag Jehóva og hvers vegna kemur það sannkristnum mönnum ekki á óvart?

6 Þrátt fyrir að mikið liggi við hafa fæstir jarðarbúar áhyggjur af því að dagur Jehóva sé að renna upp. Þeir hæða og spotta þá sem vara við því að dagurinn sé yfirvofandi. Þetta kemur sannkristnum mönnum ekki á óvart. Þeir muna eftir viðvörun Péturs postula: „Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ — 2. Pétursbréf 3:3, 4.

7. Hvað getur hjálpað okkur að viðhalda árvekni okkar?

7 Hvað getur hjálpað okkur að forðast slíkar efasemdir og viðhalda árvekni okkar? Pétur segir: „Ég [hef] reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður. Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.“ (2. Pétursbréf 3:1, 2) Við getum haldið „hinu hreina hugarfari vakandi“ með því að gefa gaum að spádómlegum viðvörunum. Við höfum kannski heyrt þessar áminningar margoft en nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hafa þær skýrt í huga. — Jesaja 34:1-4; Lúkas 21:34-36.

8. Hvers vegna hunsa margir áminningar Biblíunnar?

8 Hvers vegna hunsa sumir þessar áminningar? Pétur heldur áfram og segir: „Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.“ (2. Pétursbréf 3:5, 6) Já, sumir vilja ekki að dagur Jehóva komi. Þeir vilja ekki láta setja daglegt líf sitt úr skorðum. Þeir vilja ekki þurfa að standa Jehóva reikningsskil fyrir eigingjarnt líferni sitt. Þeir láta „stjórnast af eigin girndum“, eins og Pétur sagði.

9. Hvernig hugsaði fólk á dögum Nóa og dögum Lots?

9 Þessir spottarar gleyma því „viljandi“ að Jehóva hefur áður gripið inn í málefni manna. Jesús Kristur og Pétur postuli nefna báðir tvö slík dæmi, daga Nóa og daga Lots. (Lúkas 17:26-30; 2. Pétursbréf 2:5-9) Fólk tók ekki mark á viðvörun Nóa fyrir flóðið. Hið sama var uppi á teningnum fyrir eyðingu Sódómu og Gómorru. „Tengdasynir [Lots] hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu.“— 1. Mósebók 19:14.

10. Hvernig bregst Jehóva við gagnvart þeim sem taka ekki mark á viðvörun hans?

10 Það sama á við um okkar tíma. En tökum eftir hvernig Jehóva bregst við gagnvart þeim sem taka ekki mark á viðvörun hans: „Í þann tíma mun ég . . . vitja þeirra manna, sem liggja á dreggjum sínum, þeirra er segja í hjarta sínu: ‚Drottinn gjörir hvorki gott né illt.‘ Þá munu fjármunir þeirra verða að herfangi og hús þeirra að auðn. Þeir munu byggja hús, en ekki búa í þeim, planta víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur.“ (Sefanía 1:12, 13) Fólk heldur áfram sínu „venjulega“ lífi en það hefur ekki varanlegt gagn af erfiði sínu. Af hverju? Af því að dagur Jehóva kemur skyndilega og efnislegar eigur, sem þeim hefur ef til vill tekist að safna, geta ekki bjargað þeim. — Sefanía 1:18.

„Vænt hennar“

11. Hvaða orð Habakkuks verðum við að hafa í huga?

11 Við megum ekki vera eins og hinn illi heimur umhverfis okkur heldur verðum við að hafa í huga orð Habakkuks spámanns: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Þótt okkur, sem erum ófullkomin, finnist deginum seinka verðum við að muna að Jehóva er ekki seinn á sér. Dagur hans kemur á réttum tíma þegar menn búast ekki við honum. — Markús 13:33; 2. Pétursbréf 3:9, 10.

12. Við hverju varaði Jesús og hvernig er það ólíkt trúföstum fylgjendum hans?

12 Jesús lagði áherslu á hve mikilvægt það væri að vænta dags Jehóva þegar hann varaði við að sumir fylgjenda sinna myndu sofna á verðinum. Hann lýsti því sem myndi gerast: „Ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ‚Húsbónda mínum dvelst,‘ og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki [og] höggva hann.“ (Matteus 24:48-51) Hinn trúi og hyggni þjónshópur hefur hins vegar verið árvakur og kappsamur. Hann hefur haldið vöku sinni og verið reiðubúinn öllum stundum. Jesús hefur sett hann „yfir allar eigur sínar“ hér á jörð. — Matteus 24:42-47.

Brýnt að halda vöku sinni

13. Hvernig lagði Jesús áherslu á að kristnir menn þyrftu að halda vöku sinni?

13 Það var mjög áríðandi að kristnir menn á fyrstu öld héldu vöku sinni. Þeir þurftu að hafa hraðann á og flýja Jerúsalem tafarlaust þegar þeir sæju „herfylkingar umkringja“ borgina. (Lúkas 21:20, 21) Það gerðist árið 66 e.Kr. Tökum eftir hvernig Jesús lagði áherslu á nauðsyn þess að kristnir menn héldu árvekni sinni: „Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.“ (Matteus 24:17, 18) Nú segir mannkynssagan að Jerúsalem hafi staðið í fjögur ár til viðbótar. Hvers vegna lá þá svona mikið á að kristnir menn hlýddu orðum Jesú árið 66?

14, 15. Hvers vegna var það áríðandi að kristnir menn á fyrstu öld forðuðu sér tafarlaust þegar þeir sæju Jerúsalem umkringda herfylkingum?

14 Þótt rómverski herinn hafi ekki eytt Jerúsalem fyrr en árið 70 voru þessi fjögur ár á undan langt frá því að vera friðsöm. Þau einkenndust af ofbeldi og blóðsúthellingum. Sagnfræðingur lýsir ástandinu í Jerúsalem á þessum tíma sem „blóðugu borgarastríði samfara hræðilegum grimmdarverkum“. Ungir menn voru kallaðir til að styrkja varnarvirki borgarinnar, bera vopn og ganga í herinn. Þeir tóku þátt í heræfingum á hverjum degi. Þeir sem studdu ekki öfgastefnu Gyðinga voru álitnir svikarar. Ef kristnir menn hefðu dvalið áfram í borginni hefðu þeir sett sig í mjög hættulega stöðu. — Matteus 26:52; Markús 12:17.

15 Athygli vekur að Jesús sagði að þeir sem væru í Júdeu, en ekki aðeins í Jerúsalem, ættu að flýja. Þetta var áríðandi því að nokkrum mánuðum eftir að rómversku hersveitirnar fóru frá Jerúsalem hófu þær hernaðaraðgerðir á ný. Fyrst lögðu þær undir sig Galíleu árið 67 og árið eftir var Júdea hernumin á kerfisbundinn hátt. Þetta hafði í för með sér miklar hörmungar í sveitum landsins. Það varð líka sífellt erfiðara fyrir Gyðinga að forða sér frá Jerúsalem. Borgarhliðin voru vöktuð og álitið var að hver sem reyndi að flýja væri að ganga Rómverjum á hönd.

16. Hvaða viðhorf urðu kristnir menn á fyrstu öld að hafa til að komast lífs af?

16 Þegar á allt þetta er litið skiljum við hvers vegna Jesús lagði áherslu á að kristnir menn þyrftu að hafa hraðann á. Þeir urðu að vera fúsir til að fórna ýmsu og máttu ekki leyfa efnislegum eigum að verða sér fjötur um fót. Þeir þurftu að vera tilbúnir til að ‚segja skilið við allt sem þeir áttu‘ til að gera eins og Jesús sagði. (Lúkas 14:33) Þeir sem hlýddu tafarlaust og flýðu austur yfir Jórdan voru óhultir.

Viðhöldum árvekninni

17. Hvers vegna er brýnna en nokkru sinni fyrr að halda vöku sinni?

17 Biblíuspádómar gefa til kynna að það sé langt liðið á tíma endalokanna. Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að vera í viðbragðsstöðu. Hermaður finnur ekki fyrir spennu og hættum bardagans á friðartímum. En ef honum finnst ekki nauðsynlegt að halda sér vakandi og er skyndilega kallaður út til að berjast er hann kannski ekki viðbúinn. Það gæti kostað hann lífið. Hið sama á við um andlega hernaðinn. Ef við höldum ekki árvekni okkar verðum við kannski ekki viðbúin að verjast árásum og dagur Jehóva kemur okkur í opna skjöldu. (Lúkas 21:36; 1. Þessaloníkubréf 5:4) Ef einhver hefur ‚gjörst Drottni fráhverfur‘ ætti hann að leita hans aftur þegar stað. — Sefanía 1:3-6; 2. Þessaloníkubréf 1:8, 9.

18, 19. Hvað getur auðveldað okkur að hafa dag Jehóva stöðugt í huga?

18 Það kemur ekki á óvart að Pétur postuli skuli hvetja okkur til að ‚flýta fyrir komu Guðs dags‘. Hvernig getum við gert það? Meðal annars með því „að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni“. (2. Pétursbréf 3:11, 12) Ef við erum upptekin af því eigum við auðveldara með að bíða dags Jehóva með eftirvæntingu. Við getum auðvitað ekki flýtt fyrir að dagurinn komi en við getum haft hann stöðugt í huga. Ef við erum upptekin í þjónustunni við Guð meðan við bíðum eftir deginum mun tíminn hins vegar líða miklu hraðar. — 1. Korintubréf 15:58.

19 Annað sem við getum gert er að hugleiða orð Guðs og ígrunda áminningar Biblíunnar. Það auðveldar okkur að „vænta stöðuglega“ Guðs dags „með eptirlaungun“. (2. Pétursbréf 3:12, The New Testament, í þýðingu Williams Barclays; Biblían 1859) Meðal þessara áminninga er fjöldi spádóma sem segja fyrir um komu dags Jehóva en líka spár um þá óendanlegu blessun sem bíður þeirra sem vænta Jehóva. — Sefanía 3:8.

20. Hvaða hvatningu ættum við að taka til okkar?

20 Nú er rétti tíminn til að taka til okkar hvatninguna sem við fáum fyrir munn Sefanía spámanns: „Áður en hin brennandi reiði Drottins kemur yfir yður, áður en reiðidagur Drottins kemur yfir yður. Leitið Drottins, allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi Drottins.“ — Sefanía 2:2, 3.

21. Hvað er fólk Guðs staðráðið í að gera á árinu 2007?

21 Árstextinn, sem hefur verið valinn fyrir árið 2007, er því mjög viðeigandi: Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur. Fólk Guðs er sannfært um að ‚hann sé nálægur og hraði sér mjög‘. (Sefanía 1:14) Hann kemur „án tafar“. (Habakkuk 2:3, Biblíurit, ný þýðing 1995) Meðan við bíðum skulum við því vera vakandi sem aldrei fyrr því að við vitum að lokauppfylling þessara spádóma er rétt framundan.

Hvert er svarið?

• Hvað er „hinn mikli dagur Drottins“?

• Hvers vegna gefa margir engan gaum að því á hvaða tímum við lifum?

• Hvers vegna urðu kristnir menn á fyrstu öld að hafa hraðann á?

• Hvernig getum við viðhaldið árvekni okkar sem aldrei fyrr?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 29]

Árstextinn 2007 verður: Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur. — Sefanía 1:14.

[Myndir á blaðsíðu 26, 27]

Dagur Jehóva kemur spotturum að óvörum eins og á dögum Nóa.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Kristnir menn urðu að hafa hraðann á þegar þeir sáu „herfylkingar umkringja Jerúsalem“.