Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jólin — hvert stefna þau?

Jólin — hvert stefna þau?

Jólin — hvert stefna þau?

Í DESEMBER fyrir tíu árum birti tímaritið U.S.News & World Report forsíðugrein sem hét „Í leit að jólunum“. Í greininni var rætt um það hvort jólin væru að verða „heilagri og með minni verslunarbrag yfir sér“. Stefna jólin í þá áttina?

Í greininni var bent á hvers vegna við ættum ekki að búast við því. Þar sagði: „Það eru engar heimildir fyrir því að fólk hafi haldið upp á fæðingardag Krists fyrr en á fjórðu öld þegar Konstantínus . . . var keisari í Róm.“ Ástæðan var meðal annars sú að „enginn vissi fyrir víst hvenær Jesús fæddist“. Í greininni er viðurkennt að „guðspjöllin segi ekki hvaða ár hann hafi fæðst og þaðan af síður hvaða mánuð eða dag“. Sagnfræðingur við háskóla í Texas segir að „hinir frumkristnu hafi einfaldlega ekki haft neinn áhuga á að halda upp á fæðingardag Jesú“.

Í greininni, undir millifyrirsögninni „Getgátur“, er fjallað um það „hvernig kirkjan valdi dagsetninguna 25. desember“. Þar er það viðurkennt að „almennt sé talið að með þessum hátíðisdegi hafi kirkjan verið að kristna Satúrnusarhátíðina og aðrar heiðnar hátíðir“. „Með því að hafa jólin í lok desember, þegar fólk var vant hátíðarhöldum, gátu kirkjuleiðtogarnir tryggt að fólk almennt myndi halda upp á fæðingu frelsarans.“ Um miðja 19. öld fóru jólin aðallega að snúast um að kaupa og gefa gjafir. „Þessi nýja hefð að gefa jólagjafir varð strax til þess að verslanir græddu á tá og fingri og kaupmenn og auglýsendur fóru fljótlega að auglýsa hátíðirnar.“

Það er því engin ástæða til að ætla að jólin stefni eitthvað annað en lengra frá sannri kristni. Enda þótt jól nútímans einkennist af „verslunaræði“ er staðreyndin sú að sannkristnum mönnum fannst aldrei að það ætti að halda upp á fæðingu Jesú. Í Biblíunni er öllu heldur lögð áhersla á lausnargjaldið sem Kristur greiddi þegar hann dó og var reistur upp til himna. (Matteus 20:28) Það er það sem mun skipta máli um ókomna framtíð.