Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva gefur þeim „heilagan anda, sem biðja hann“

Jehóva gefur þeim „heilagan anda, sem biðja hann“

Jehóva gefur þeim „heilagan anda, sem biðja hann“

„Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — LÚKAS 11:13.

1. Hvenær þurfum við sérstaklega á hjálp heilags anda að halda?

„ÉG GET ekki tekist á við þetta upp á eigin spýtur. Ég verð að fá hjálp heilags anda til að þrauka.“ Hefur þér einhvern tíma verið þannig innanbrjósts? Flestir kristnir menn þekkja þessa tilfinningu. Kannski leið þér svona þegar þú fékkst að vita að þú værir með alvarlegan sjúkdóm eða þegar þú misstir lífsförunaut þinn í dauðann. Kannski var það þegar þú misstir gleðina og sökkst niður í þunglyndi. Á erfiðum köflum í lífinu líður okkur stundum þannig að við getum ekki haldið út nema heilagur andi veiti okkur „ofurmagn kraftarins“. — 2. Korintubréf 4:7-9; Sálmur 40:2, 3.

2. (a) Hverju standa kristnir menn frammi fyrir? (b) Hvaða spurningar skoðum við í þessari grein?

2 Sannkristnir menn verða fyrir auknu álagi og andstöðu í óguðlegum heimi nútímans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þar að auki gerir Satan djöfullinn beinar árásir á fylgjendur Krists. Hann heyr grimmilegt stríð við þá sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Þess vegna höfum við aldrei haft brýnni þörf en nú fyrir anda Guðs. Hvað getum við gert til að tryggja að við fáum heilagan anda Guðs í ríkum mæli? Og hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva er meira en fús til að veita okkur þann styrk sem við þurfum á að halda á erfiðum tímum? Svörin við þessum spurningum er að finna í tveim dæmisögum Jesú.

Biddu án afláts

3, 4. Hvaða dæmisögu sagði Jesús og hvernig heimfærði hann söguna upp á bænina?

3 Einn af lærisveinum Jesú bað hann einu sinni: „Herra, kenn þú oss að biðja.“ (Lúkas 11:1) Jesús sagði lærisveinunum þá tvær dæmisögur. Fyrri sagan fjallar um mann sem tekur á móti gesti og sú seinni fjallar um föður sem hlustar á son sinn. Við skulum skoða dæmisögurnar tvær.

4 Jesús sagði: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ‚Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.‘ Mundi hinn þá svara inni: ‚Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð‘? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.“ Jesús heimfærði síðan dæmisöguna upp á bænina og sagði: „Ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“ — Lúkas 11:5-10.

5. Hvað lærum við um bænina af dæmisögunni um áleitna manninn?

5 Þessi lýsandi dæmisaga um áleitna manninn sýnir okkur hvaða viðhorf við ættum að hafa til bænarinnar. Jesús segir að maðurinn fái það sem hann vilji sakir „áleitni“ sinnar. (Lúkas 11:8) Orðið „áleitni“ kemur aðeins einu sinni fyrir í Biblíunni. Það er þýðing á grísku orði sem merkir bókstaflega „óskammfeilni“. Óskammfeilni er oft álitin löstur. En þegar óskammfeilni eða áleitni beinist í jákvæða átt getur þetta verið lofsverður eiginleiki. Þannig var það hjá gestgjafanum í dæmisögunni. Hann skammast sín ekki fyrir að þrábiðja um það sem hann vantar. Þar sem Jesús segir að gestgjafinn sé okkur til fyrirmyndar ættum við sömuleiðis að þrábiðja Jehóva um það sem okkur vantar. Jehóva vill að við höldum áfram að biðja, leita og knýja á. Þá gefur hann „þeim heilagan anda, sem biðja hann“.

6. Hvernig var litið á gestrisni á dögum Jesú?

6 Jesús segir ekki aðeins að við eigum að vera áleitin í bænum okkar heldur bendir líka á hvers vegna það er mikilvægt. Til að glöggva okkur á því skulum við kanna hvernig þeir sem hlustuðu á dæmisögu Jesú litu á gestrisni. Víða í Biblíunni má sjá að til forna var gestrisni álitin mjög mikilvæg, sérstaklega meðal þjóna Guðs. (1. Mósebók 18:2-5; Hebreabréfið 13:2) Það var talið skammarlegt að vera ekki gestrisinn. (Lúkas 7:36-38, 44-46) Með þetta í huga skulum við líta aftur á dæmisögu Jesú.

7. Af hverju hikar gestgjafinn í dæmisögu Jesú ekki við að vekja vin sinn?

7 Maðurinn í dæmisögunni fær gest um miðja nótt. Honum finnst sér bera skylda til að gefa gestinum að borða en hefur „ekkert að bera á borð fyrir hann“. Þetta er að hans mati neyðarástand. Hann verður að útvega brauð, hvað sem það kostar. Þess vegna fer hann til vinar síns og hikar ekki við að vekja hann. „Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,“ kallar gestgjafinn. Hann linnir ekki látum fyrr en hann fær brauðið sem hann vantar. Fyrst þá er hann góður gestgjafi.

Biðjum því heitar sem þörfin er brýnni

8. Hvað fær okkur til að biðja án afláts um heilagan anda?

8 Hvað lærum við af dæmisögunni um ástæðuna fyrir því að biðja án afláts? Maðurinn hélt áfram að biðja um brauð því að honum fannst að hann þyrfti að fá brauðið í hendur til að geta verið góður gestgjafi. (Jesaja 58:5-7) Ef hann fengi ekki brauð gæti hann ekki gert skyldu sína. Á sama hátt höldum við stöðugt áfram að biðja um anda Guðs af því að við vitum að hann er bráðnauðsynlegur til að við getum sinnt því starfi sem sannkristnum mönnum hefur verið falið. (Sakaría 4:6) Án anda Guðs getum við ekki gert skyldu okkar. (Matteus 26:41) Sérðu hvaða mikilvæga lærdóm við getum dregið af þessari dæmisögu? Ef við lítum svo á að okkur bráðvanti anda Guðs eru meiri líkur á því að við þrábiðjum um hann.

9, 10. (a) Lýstu með dæmi hvers vegna við þurfum að þrábiðja um anda Guðs. (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur og hvers vegna?

9 Heimfærum þessa dæmisögu upp á nútímann. Segjum sem svo að einhver í fjölskyldunni veikist um miðja nótt. Myndirðu vekja lækni til að biðja um hjálp? Ekki ef veikindin væru minni háttar. En ef um hjartaáfall væri að ræða myndirðu að sjálfsögðu ekki hika við að hringja í lækni. Af hverju? Af því að þetta er neyðartilfelli. Þú veist að það er bráðnauðsynlegt að fá læknishjálp. Ef þú bæðir ekki um hjálp gæti það kostað sjúklinginn lífið. Á sama hátt mætti segja að sannkristnir menn búi við stöðugt neyðarástand. Satan gengur um „sem öskrandi ljón“ og reynir að gleypa okkur. (1. Pétursbréf 5:8) Það er nauðsynlegt að fá hjálp anda Guðs til að halda lífi í andlegum skilningi. Það gæti kostað okkur lífið að biðja Guð ekki um hjálp. Þess vegna biðjum við Guð án afláts um heilagan anda. (Efesusbréfið 3:14-16) Það er eina leiðin til að fá þann styrk sem við þurfum til að vera staðföst „allt til enda“. — Matteus 10:22; 24:13.

10 Þess vegna verðum við að spyrja okkur af og til: „Hversu áleitinn er ég í bænum mínum?“ Mundu að þegar við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum á hjálp Guðs að halda biðjum við af meiri ákafa.

Hvers vegna getum við beðið með trúartrausti?

11. Hvernig heimfærði Jesús dæmisöguna um föðurinn og soninn?

11 Dæmisaga Jesú um áleitna gestgjafann leggur áherslu á afstöðu trúaðs manns sem biður til Guðs. Seinni dæmisagan leggur áherslu á afstöðu Jehóva Guðs sem heyrir bænir. Jesús spurði: „Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg?“ Síðan heimfærði Jesús dæmisöguna og sagði: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — Lúkas 11:11-13.

12. Hvernig leggur dæmisagan um föðurinn og soninn áherslu á að Jehóva vilji bænheyra okkur?

12 Með dæmisögunni um föðurinn og soninn bendir Jesús á hvernig Jehóva lítur á þá sem leita til hans í bæn. (Lúkas 10:22) Fyrst skulum við athuga hvað er ólíkt með dæmisögunum. Jehóva er eins og umhyggjusamur faðir sem vill mjög gjarnan verða við beiðni barnsins síns ólíkt manninum í fyrri dæmisögunni sem var tregur til að verða við beiðni vinar síns. (Sálmur 50:15) Jesús leggur einnig áherslu á fúsleika Jehóva með því að benda á muninn á mennskum föður og Jehóva Guði. Hann segir að þótt mennskur faðir sé ‚vondur‘, í þeim skilningi að hann hafi erft ófullkomleikann, gefi hann syni sínum samt góða gjöf. Hve miklu fremur hlýtur þá ekki faðirinn á himnum, sem er algóður, að gefa tilbiðjendum sínum heilagan anda. — Jakobsbréfið 1:17.

13. Hverju getum við treyst þegar við biðjum til Jehóva?

13 Hvað lærum við af þessu? Við getum verið viss um að þegar við biðjum föður okkar á himnum um heilagan anda er hann meira en fús til að bænheyra okkur. (1. Jóhannesarbréf 5:14) Þegar við leitum aftur og aftur til hans í bæn mun hann aldrei svara: „Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum.“ (Lúkas 11:7) Jesús sagði öllu heldur: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.“ (Lúkas 11:9, 10) Já, Jehóva bænheyrir okkur „er vér hrópum“. — Sálmur 20:10; 145:18.

14. (a) Hvaða ranghugmynd sækir á suma sem verða fyrir prófraunum? (b) Hvers vegna ættum við að biðja með trúartrausti þegar við verðum fyrir erfiðleikum?

14 Dæmisaga Jesú um umhyggjusama föðurinn leggur einnig áherslu á að gæska Jehóva er mun meiri en mennskir foreldrar geta nokkurn tíma sýnt. Við ættum því aldrei að draga þá ályktun að erfiðleikar okkar hljóti að vera merki um vanþóknun Jehóva. Það er erkióvinurinn, Satan, sem vill að við hugsum þannig. (Jobsbók 4:1, 7, 8; Jóhannes 8:44) Það eru engar biblíulegar forsendur fyrir því að dæma sjálfan sig svona hart. Jehóva freistar okkar ekki með „hinu illa“. (Jakobsbréfið 1:13) Hann gefur okkur ekki höggorma eða sporðdreka í mynd prófrauna og þrenginga. Faðirinn á himnum gefur „þeim góðar gjafir, sem biðja hann“. (Matteus 7:11; Lúkas 11:13) Því meira sem við lærum um gæsku Jehóva og hve fús hann er að hjálpa okkur þeim mun sterkari verður löngun okkar til að biðja til hans með trúartrausti. Þá getum við tekið undir orð sálmaritarans sem sagði: „Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.“ — Sálmur 10:17; 66:19.

Hvernig fáum við hjálp heilags anda?

15. (a) Hverju lofaði Jesús varðandi heilagan anda? (b) Hvernig hjálpar heilagur andi okkur?

15 Stuttu fyrir dauða sinn endurtók Jesús loforðið sem var fólgið í dæmisögum hans. Hann sagði við postulana: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu.“ (Jóhannes 14:16) Jesús lofaði því að hjálparinn eða heilagur andi myndi vera með fylgjendum sínum í framtíðinni og þá einnig á okkar dögum. En hvernig styður heilagur andi okkur? Hann hjálpar okkur meðal annars að takast á við prófraunir. Hvernig þá? Páll postuli þurfti að þola prófraunir og hann útskýrði í bréfi til Korintumanna hvernig andi Guðs studdi hann. Við skulum líta á það sem hann skrifaði.

16. Hvernig gætum við verið í svipaðri aðstöðu og Páll?

16 Fyrst sagði Páll trúsystkinum sínum hreinskilnislega að hann hefði ‚flein í holdinu‘ eða ætti við einhvers konar erfiðleika að glíma. Síðan sagði hann: „Þrisvar hef ég beðið Drottin [Jehóva] þess að láta hann fara frá mér.“ (2. Korintubréf 12:7, 8) Þótt Páll sárbændi Guð að taka erfiðleikana frá sér linnti þeim ekki. Kannski ert þú í svipaðri aðstöðu. Þú gætir hafa þrábeðið Guð með trúartrausti að fjarlægja vissa erfiðleika eins og Páll gerði. En þrátt fyrir ítrekaðar bænir þínar er vandinn enn til staðar. Þýðir það að Jehóva hafi ekki bænheyrt þig og andi hans hjálpi þér ekki? Nei, alls ekki. (Sálmur 10:1, 17) Athugum hvað Páll postuli sagði í framhaldinu.

17. Hvernig svaraði Jehóva bænum Páls?

17 Guð svaraði bænum Páls og sagði: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Þess vegna sagði Páll: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér [„tjalda yfir mig,“ NW].“ (2. Korintubréf 12:9; Sálmur 147:5) Páll upplifði það að öflug vernd Guðs, fyrir atbeina Krists, skýldi honum eins og tjald. Jehóva svarar bænum okkar á svipaðan hátt. Hann breiðir vernd sína eins og tjald yfir þá sem þjóna honum.

18. Hvers vegna getum við staðist prófraunir?

18 Tjald kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir regn og vinda en það veitir visst skjól fyrir veðrinu. Verndin sem „kraftur Krists“ veitir kemur ekki heldur í veg fyrir að prófraunir og erfiðleikar verði á vegi okkar. En það veitir okkur andlega vernd gegn skaðlegum öflum þessa heims og árásum Satans sem er höfðingi heimsins. (Opinberunarbókin 7:9, 15, 16) Þótt vandamálin ‚fari ekki frá þér‘ geturðu verið viss um að Jehóva veit af raunum þínum og hann heyrir „þegar þú kallar í neyðinni“. (Jesaja 30:19; 2. Korintubréf 1:3, 4) Páll skrifaði: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ — 1. Korintubréf 10:13; Filippíbréfið 4:6, 7.

19. Hvað ert þú staðráðinn í að gera og hvers vegna?

19 Síðustu dagar þessa óguðlega heims eru vissulega erfiðir. (2. Tímóteusarbréf 3:1) En þrátt fyrir það geta þjónar Guðs staðist. Hvers vegna? Vegna þess að heilagur andi styður þá og verndar og Jehóva gefur þeim fúslega og ríkulega af anda sínum ef þeir þrábiðja um hann með trúartrausti. Verum því staðráðin í að biðja um heilagan anda á hverjum degi. — Sálmur 34:7; 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.

Hvert er svarið?

• Hvað verðum við að gera til að fá heilagan anda Guðs?

• Hvers vegna getum við treyst því að Jehóva bænheyri okkur þegar við biðjum um heilagan anda?

• Hvernig hjálpar heilagur andi okkur að standast prófraunir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Hvað getum við lært af dæmisögu Jesú um áleitna gestgjafann?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Þrábiður þú Guð um að gefa þér heilagan anda?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hvað getum við lært um Jehóva af dæmisögunni um umhyggjusama föðurinn?