Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva mun „rétta hlut sinna útvöldu“

Jehóva mun „rétta hlut sinna útvöldu“

Jehóva mun „rétta hlut sinna útvöldu“

„Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt?“ — LÚKAS 18:7.

1. Hverjir eru þér til hvatningar og hvers vegna?

UM ALLAN heim njóta vottar Jehóva félagsskapar trúsystkina sem hafa þjónað Jehóva dyggilega í áraraðir. Þekkir þú eitthvert þeirra persónulega? Kannski verður þér hugsað til eldri systur sem lét skírast fyrir mörgum árum og lætur sig næstum aldrei vanta á samkomur í ríkissalnum. Þér gæti einnig komið í hug aldraður bróðir sem styður boðunarstarfið trúfastlega í hverri viku og hefur gert það í áratugi. Margir þessara trúföstu bræðra og systra bjuggust við að Harmagedón kæmi miklu fyrr. En þótt þessi óréttláti heimur sé enn við lýði treysta þau eftir sem áður á loforð Jehóva og eru staðráðin í að vera staðföst „allt til enda“. (Matteus 24:13) Sú mikla trú sem þessir dyggu þjónar Jehóva sýna er öllum söfnuðinum til hvatningar. — Sálmur 147:11.

2. Hvað hryggir okkur?

2 En stundum sjáum við hið gagnstæða gerast. Sumir vottar tóku þátt í boðunarstarfinu í mörg ár en trú þeirra á Jehóva dofnaði með tímanum og þeir fjarlægðust kristna söfnuðinn. Það hryggir okkur að sjá fyrrverandi félaga okkar yfirgefa Jehóva og við höfum einlæga löngun til hjálpa hverjum ‚týndum sauði‘ að snúa aftur til hjarðarinnar. (Sálmur 119:176; Rómverjabréfið 15:1) Sú staðreynd að sumir eru trúfastir en aðrir missa trúna vekur þó óneitanlega upp spurningar. Hvað gerir mörgum vottum kleift að varðveita trú sína á loforð Jehóva þegar öðrum tekst það ekki? Hvað getum við hvert og eitt gert til að vera óhagganleg í þeirri sannfærinu að „hinn mikli dagur Drottins“ sé nálægur? (Sefanía 1:14) Við skulum skoða dæmisögu sem er að finna í Lúkasarguðspjalli.

Viðvörun til fólks á endurkomutíma Mannssonarins

3. Til hverra á dæmisagan um ekkjuna og dómarann sérstakt erindi og hvers vegna?

3 Í 18. kafla Lúkasar er að finna dæmisögu Jesú um ekkjuna og dómarann. Hún minnir á dæmisöguna um áleitna gestgjafann sem við fjölluðum um í greininni á undan. (Lúkas 11:5-13) En af samhengi dæmisögunnar um ekkjuna og dómarann má ráða að hún eigi sérstakt erindi til þeirra sem eru uppi þegar Mannssonurinn kemur í ríki sínu, það er að segja frá árinu 1914. — Lúkas 18:8. *

4. Um hvað ræddi Jesús áður en hann sagði dæmisöguna í 18. kafla Lúkasar?

4 Áður en Jesús sagði dæmisöguna benti hann á að sannanirnar fyrir því að hann væri nærverandi sem konungur Guðsríkis yrðu jafn augljósar og „elding, sem . . . lýsir frá einu skauti himins til annars“. (Lúkas 17:24; 21:10, 29-33) Þrátt fyrir það myndu fæstir á endalokatímanum gefa gaum að þessum skýru táknum. (Daníel 12:4) Af hverju? Af sömu ástæðu og fólkið á dögum Nóa og á dögum Lots hunsaði viðvaranir Jehóva. Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu allt til þess dags er þeir tortímdust. (Lúkas 17:26-29) Þeir dóu af því að þeir voru svo uppteknir af daglegu amstri að þeir gáfu ekki gaum að vilja Guðs. (Matteus 24:39) Þetta er eins nú á dögum. Flestir eru svo uppteknir af hversdagslegum hlutum að þeir sjá ekki merkin sem sýna að endir þessa óguðlega heims er nærri. — Lúkas 17:30.

5. (a) Til hverra beindi Jesús viðvörun sinni og hvers vegna? (b) Af hverju hafa sumir misst trúna?

5 Jesús hafði greinilega áhyggjur af því að fylgjendur hans gætu einnig látið heim Satans trufla sig svo mikið að þeir myndu „hverfa aftur“ til þess sem var að baki. (Lúkas 17:22, 31) Og þetta hefur gerst hjá sumum kristnum mönnum. Árum saman þráðu þeir að sjá þann dag þegar Jehóva eyðir þessum illa heimi. En þegar Harmagedón dróst lengur en þeir bjuggust við urðu þeir vonsviknir. Þeir misstu trúna á að dómsdagur Jehóva væri nærri. Þeir slógu slöku við í þjónustunni og smám saman urðu þeir svo uppteknir af hversdagslífinu að lítill tími var eftir til að sinna andlegum málum. (Lúkas 8:11, 13, 14) Með tímanum hurfu þeir aftur til þess sem að baki var. Það er sorglegt.

Nauðsyn þess að biðja stöðugt

6-8. (a) Endursegðu dæmisöguna um ekkjuna og dómarann. (b) Hvernig heimfærði Jesús dæmisöguna?

6 Hvað getum við gert til að vera óhagganleg í þeirri sannfæringu að loforð Jehóva muni rætast? (Hebreabréfið 3:14) Jesús svaraði þessari spurningu strax eftir að hann hafði varað lærisveinana við því að hverfa aftur í heim Satans.

7 Lúkas segir að Jesús hafi sagt þeim „dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast“. Dæmisagan hljóðar svo: „Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ‚Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.‘ Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ‚Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu.‘“

8 Eftir að Jesús hafði sagt dæmisöguna heimfærði hann hana og sagði: „Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ — Lúkas 18:1-8.

„Lát þú mig ná rétti“

9. Hver er kjarni dæmisögunnar um ekkjuna og dómarann?

9 Kjarni þessarar lýsandi dæmisögu kemur skýrt fram. Báðar persónurnar í dæmisögunni nefna kjarnann og Jesús gerir það sömuleiðis. Ekkjan bað: „Lát þú mig ná rétti.“ Dómarinn sagði: „Ég [vil] rétta hlut hennar.“ Jesús spurði: „Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu?“ Og Jesús sagði um Jehóva: „Hann mun skjótt rétta hlut þeirra.“ (Lúkas 18:3, 5, 7, 8) Hvenær mun Guð öðru fremur „rétta hlut sinna útvöldu“?

10. (a) Hvenær var réttlætinu fullnægt á fyrstu öldinni? (b) Hvenær og hvernig mun Guð rétta hlut þjóna sinna nú á dögum?

10 Á fyrstu öldinni var réttlætinu fullnægt þegar „refsingardagar“ komu yfir Jerúsalem og musterið árið 70 og hvoru tveggja var eytt. (Lúkas 21:22) Nú á dögum mun Guð rétta hlut þjóna sinna á ‚hinum mikla degi Drottins‘. (Sefanía 1:14; Matteus 24:21) Þá mun Jehóva ‚endurgjalda þeim þrengingu, sem þrengja‘ að þjónum hans og Jesús Kristur láta „hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-8; Rómverjabréfið 12:19.

11. Í hvaða skilningi verður réttlætinu fullnægt „skjótt“?

11 En hvernig ættum við að skilja loforð Jesú um að Jehóva muni „skjótt“ rétta hlut þjóna sinna? Í Biblíunni kemur fram að þótt Jehóva sé „langlyndur“ muni hann fullnægja réttlætinu tafarlaust þegar það er tímabært. (Lúkas 18:7, 8; 2. Pétursbréf 3:9, 10) Á tímum Nóa var óguðlegum mönnum eytt án tafar þegar flóðið kom. Og á dögum Lots dóu hinir illu þegar eldi rigndi af himnum. Jesús sagði: „Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.“ (Lúkas 17:27-30) Þá mun einnig koma „snögglega tortíming“ yfir hina óguðlegu. (1. Þessaloníkubréf 5:2, 3) Við megum vera viss um að Jehóva lætur heim Satans ekki standa deginum lengur en réttlætið útheimtir.

„Hann mun skjótt rétta hlut þeirra“

12, 13. (a) Hvað lærum við af dæmisögunni um ekkjuna og dómarann? (b) Af hverju getum við verið viss um að Jehóva heyri bænir okkar og rétti hlut þjóna sinna?

12 Í dæmisögu Jesú um ekkjuna og dómarann er lögð áhersla á fleiri mikilvæg sannindi. Þegar Jesús heimfærði dæmisöguna sagði hann: „Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu?“ Með því að bera Jehóva og dómarann saman var Jesús að sjálfsögðu ekki að segja að Jehóva myndi koma fram við þjóna sína eins og dómarinn við ekkjuna. Hann var öllu heldur að kenna fylgjendum sínum ákveðin sannindi um Jehóva með því að leggja áherslu á muninn á honum og dómaranum. Að hvaða leyti voru þeir ólíkir?

13 Dómarinn í dæmisögu Jesú var ranglátur en „Guð er réttlátur dómari“. (Sálmur 7:12; 33:5) Dómaranum stóð algerlega á sama um ekkjuna en Jehóva er annt um hvern einasta mann. (2. Kroníkubók 6:29, 30) Dómarinn var tregur til að hjálpa ekkjunni en Jehóva er meira en fús til að koma þjónum sínum til aðstoðar. (Jesaja 30:18, 19) Hvað lærum við af þessu? Fyrst rangláti dómarinn hlustaði á ekkjuna og varð við beiðni hennar mun þá Jehóva ekki miklu fremur hlýða á bænir þjóna sinna og rétta hlut þeirra? — Orðskviðirnir 15:29.

14. Af hverju ættum við að treysta því fullkomlega að dómsdagur Guðs komi?

14 Það eru alvarleg mistök að hætta að treysta því að dómsdagur Guðs komi. Af hverju? Ef við treystum því ekki að „hinn mikli dagur Drottins“ sé nálægur erum við í rauninni að véfengja að Jehóva sé treystandi til að standa við loforð sín. En enginn getur með réttu dregið trúfesti Guðs í efa. (Jobsbók 9:12) Við ættum hins vegar að spyrja okkur hvort við sjálf munum reynast trúföst. Jesús varpaði einmitt fram þessari spurningu í lok dæmisögunnar um ekkjuna og dómarann.

„Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu?“

15. (a) Hvaða spurningu varpaði Jesús fram og hvers vegna? (b) Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?

15 Jesús varpaði fram athyglisverðri spurningu: „Mun Mannssonurinn finna trúna [„þessa trú,“ NW, neðanmáls] á jörðu, þegar hann kemur?“ (Lúkas 18:8) Orðin „þessa trú“ gefa til kynna að Jesús hafi ekki átt við trú í almennum skilningi heldur trú af sérstöku tagi — trú eins og ekkjan hafði. Jesús svaraði ekki spurningunni heldur varpaði henni fram svo að lærisveinar hans myndu hugleiða hversu sterk trú þeirra væri. Var hún að veikjast og áttu þeir á hættu að hverfa aftur til þess sem þeir höfðu snúið baki við? Eða höfðu þeir sams konar trú og ekkjan? Við ættum líka að spyrja okkur hvers konar trú „Mannssonurinn“ finni í hjarta okkar.

16. Hvers konar trú hafði ekkjan?

16 Ef við viljum vera meðal þeirra sem fá að sjá réttlæti Jehóva verðum við að feta í fótspor ekkjunnar. Hvers konar trú hafði hún? Hún sýndi trú sína með því að fara aftur og aftur til dómarans og segja: „Lát þú mig ná rétti.“ Ekkjan náði fram rétti sínum hjá ranglátum manni með þrautseigju sinni. Á sama hátt geta þjónar Guðs nú á dögum verið vissir um að Jehóva muni láta þá ná rétti sínum — þótt það taki lengri tíma en þeir bjuggust við. Þeir sýna líka traust sitt til þess að Guð standi við loforð sín með því að biðja stöðuglega — já með því að „hrópa til hans dag og nótt“. (Lúkas 18:7) Ef kristinn maður hætti að biðja þess að réttlætið næði fram að ganga sýndi hann að hann treysti ekki lengur að Jehóva kæmi þjónum sínum til aðstoðar.

17. Hvaða ástæður höfum við til að vera staðföst í bæninni og treysta því fullkomlega að dómsdagur Jehóva komi?

17 Aðstæður ekkjunnar sýna okkur að við höfum fleiri ástæður til að vera staðföst í bæninni. Lítum á muninn á stöðu hennar og okkar. Ekkjan hélt áfram að leita til dómarans þótt enginn hafi hvatt hana til þess en orð Guðs hvetur okkur eindregið til að vera ‚staðföst í bæninni‘. (Rómverjabréfið 12:12) Ekkjan hafði enga tryggingu fyrir því að dómarinn myndi verða við beiðni hennar en Jehóva hefur fullvissað okkur um að réttlætið muni ná fram að ganga. Jehóva sagði fyrir munn spámanns síns: „Þótt töf verði á skaltu bíða engu að síður því að þetta rætist vissulega og án tafar.“ (Habakkuk 2:3, Biblíurit, ný þýðing 1995; Sálmur 97:10) Ekkjan átti sér engan málsvara til að tala máli hennar og herða á beiðni hennar en við eigum okkur öflugan málsvara. Þetta er Jesús sem situr „við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss“. (Rómverjabréfið 8:34; Hebreabréfið 7:25) Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hélt ekkjan áfram að biðja dómarann að hjálpa sér í von um að ná rétti sínum. Við höfum enn ríkari ástæðu til að treysta því fullkomlega að dómsdagur Jehóva komi.

18. Hvernig getur bænin styrkt trú okkar og gert okkur kleift að sjá réttlæti Guðs?

18 Dæmisagan um ekkjuna kennir okkur að náið samband er milli bænar og trúar og ef við erum staðföst í bæninni getur það unnið gegn því sem veikir trúna. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að við getum komið í veg fyrir að við missum trúna með því að láta bera sem mest á því að við biðjumst fyrir. (Matteus 6:7, 8) En ef við gerum okkur grein fyrir því að við erum algerlega háð Guði og finnum hjá okkur löngun til að biðja þá styrkir bænin trú okkar og sambandið við Guð. Og þar sem trúin er nauðsynleg til að hljóta hjálpræði er ekki að undra að Jesús hafi talið áríðandi að segja lærisveinunum að „þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast“. (Lúkas 18:1; 2. Þessaloníkubréf 3:13) Að vísu mun „hinn mikli dagur Drottins“ koma óháð því hvort við biðjum um það eða ekki. En hvort við sjáum persónulega réttlæti Guðs og lifum af hinn mikla dag er hins vegar komið undir trú okkar og bænrækni.

19. Hvernig getum við sannað að við treystum því fullkomlega að Guð muni „rétta hlut sinna útvöldu“?

19 Eins og við munum spurði Jesús: „Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ Hvert er svarið við þessari áhugarverðu spurningu? Milljónir dyggra þjóna Jehóva um allan heim sanna með bænum sínum, þolinmæði og þrautseigu að þeir hafi slíka trú. Því er hægt að svara spurningu Jesú játandi. Þetta er okkur mikið gleðiefni. Já, þrátt fyrir óréttlætið, sem við megum þola í heimi Satans, trúum við því staðfastlega að Guð muni „rétta hlut sinna útvöldu“.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Til að skilja að fullu merkingu þessarar dæmisögu skaltu lesa Lúkas 17:22-33. Taktu eftir að „Mannssonurinn“ er nefndur í Lúkasi 17:22, 24, 30 og sömuleiðis í spurningunni í Lúkasi 18:8.

Manstu?

• Hvers vegna hafa sumir kristnir menn misst trúna?

• Af hverju getum við treyst því fullkomlega að dómsdagur Jehóva komi?

• Hvers vegna ættum við að vera staðföst í bæninni?

• Hvernig getur staðfesta í bæninni komið í veg fyrir að við missum trúna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Hver er kjarninn í dæmisögunni um ekkjuna og dómarann?

[Myndir á blaðsíðu 21]

Milljónir manna trúa því staðfastlega að Guð muni „rétta hlut sinna útvöldu“.