Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mál sem snertir þig

Mál sem snertir þig

Mál sem snertir þig

ÁTTU vin eða ættingja sem þér þykir einstaklega vænt um? Hvernig myndi þér líða ef einhver segði að þú héldir í þessa vináttu einungis af eigingjörnum ástæðum? Myndir þú ekki verða sár eða jafnvel reiður? Satan djöfullinn heldur því fram að allir sem eiga náið samband við Jehóva Guð geri það af eigingjörnum hvötum.

Skoðum hvað gerðist þegar Satan tókst að fá fyrstu hjónin, Adam og Evu, til að brjóta lög Guðs og ganga í lið með sér í uppreisninni gegn Guði. Var óhlýðni þeirra merki um að fólk myndi aðeins hlýða Jehóva svo framarlega sem það væri því í hag? (1. Mósebók 3:1-6) Um það bil 2500 árum eftir uppreisn Adams tók Satan þetta mál upp aftur — en þá í tengslum við mann að nafni Job. Við skulum líta nánar á þessa frásögu í Biblíunni þar sem ásakanir Satans tengjast greinilega þessu máli.

‚Ég læt ekki taka frá mér sakleysi mitt‘

Job var „maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar“. En Satan dró heiðarleika Jobs í efa og spurði Jehóva: „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt?“ Síðan rægði hann bæði Guð og Job og sakaði Guð um að hafa keypt hollustu Jobs með því að vernda hann og blessa. Satan ögraði Jehóva og sagði: „Rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 1:8-11.

Til að svara þessum fullyrðingum Satans leyfði Jehóva honum að reyna Job. Djöfullinn lagði hverja ógæfuna á fætur annarri á þennan trúfasta mann til að reyna að fá hann til að hætta að þjóna Guði. Satan sá til þess að Job missti allt búfé sitt, þjónar hans voru myrtir og öll börnin hans dóu. (Jobsbók 1:12-19) En tókst honum ætlunarverk sitt? Nei, síður en svo. Job vissi ekki að það var Satan sem stóð að baki öllum hörmungunum en hann sagði samt: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ — Jobsbók 1:21.

Síðan kom Satan fram fyrir Jehóva og Jehóva sagði við hann: „[Job er] staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka.“ (Jobsbók 2:1-3) Þetta snerist um ráðvendni Jobs, eiginleika sem felur í sér að vera óhagganlegur í hollustunni gagnvart Guði og halda sér fast við réttlætið. Hingað til hafði Job verið staðfastur í ráðvendi sinni. En djöfullinn gafst ekki upp.

Næst kom Satan með alhæfingu sem snertir allt mannkynið. „Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.“ (Jobsbók 2:4, 5) Með því að nota orðið „maðurinn“ í staðinn fyrir nafn Jobs dró Satan í efa ráðvendni allra manna. Hann fullyrti með öðrum orðum: „Menn gera hvað sem er til að bjarga lífi sínu. Ef ég fæ frjálsar hendur get ég snúið hverjum sem er gegn Guði.“ En myndi enginn maður reynast staðfastur og Guði dyggur öllum stundum?

Jehóva leyfði djöflinum að slá Job hræðilegum sjúkdómi. Job kvaldist svo mikið að hann bað um að fá að deyja. (Jobsbók 2:7; 14:13) En hann sagði samt: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ (Jobsbók 27:5) Hann sagði þetta vegna þess að hann elskaði Guð og ekkert gat breytt því. Job hafði haldið sakleysi sínu, það er að segja sannað ráðvendni sína. „Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri,“ segir í Biblíunni. (Jobsbók 42:10-17) Hafa einhverjir aðrir verið eins og Job? Hvað hefur tíminn leitt í ljós?

Hvernig hefur áskorun Satans verið svarað?

Í 11. kafla Hebreabréfsins nefnir Páll postuli ýmsa trúfasta karla og konur fyrir daga kristninnar eins og til dæmis Nóa, Abraham, Söru og Móse. Síðan segir hann: „Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá [öðrum].“ (Hebreabréfið 11:32) Svo margir voru þessir trúföstu þjónar Guðs að Páll sagði: „Vér erum umkringdir slíkum fjölda votta.“ (Hebreabréfið 12:1) Já, í aldanna rás hefur fjöldi fólks notað frjálsan vilja sinn og valið að veita Jehóva Guði hollustu sína. — Jósúabók 24:15.

Endanlegt svar við fullyrðingu Satans, um að hann gæti snúið öllum mönnum frá Jehóva, kom frá Jesú Kristi, syni Guðs. Ekki einu sinni sársaukafullur dauðdagi á kvalastaur gat brotið ráðvendni hans á bak aftur. Þegar Jesús var við það að gefa upp andann kallaði hann hárri röddu: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ — Lúkas 23:46.

Tíminn hefur leitt í ljós að djöflinum hefur ekki tekist að snúa öllum frá því að þjóna hinum sanna Guði. Ótalmargir hafa kynnst Jehóva og lært að ‚elska hann af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga‘. (Matteus 22:37) Staðfesta og hollusta þeirra við Jehóva hefur sannað að Satan hafði rangt fyrir sér. Þú getur líka sannað Satan lygara með því að vera ráðvandur.

Hvað þarft þú að gera?

Það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Hvernig geturðu gert það? Gefðu þér tíma til að rannsaka Biblíuna og fræðast um ‚hinn eina sanna Guð, og þann sem hann sendi, Jesú Krist‘. — Jóhannes 17:3.

Satan dró í efa að menn gætu verið Guði ráðvandir og gaf í skyn að þeir þjónuðu honum ekki af réttum hvötum. Ef þekking á að hafa áhrif á hvatir þínar verður hún að ná til hjartans. Og til að það gerist verðurðu að gera meira en að leita þér eingöngu upplýsinga í Biblíunni. Þú þarft að íhuga það sem þú lærir. (Sálmur 143:5) Þegar við lesum í Biblíunni eða biblíutengdum ritum ættum við að gefa okkur tíma til að hugleiða spurningar eins og: „Hvað læri ég af þessu um Jehóva? Hvaða eiginleikar Guðs koma hérna í ljós? Hvernig get ég heimfært þetta upp á líf mitt? Hvað er velþóknanlegt í augum Guðs og hvað ekki og hvaða áhrif hefur það á hvernig ég lít á Guð?“ Slíkar hugleiðingar auka kærleika þinn og þakklæti til skaparans.

Ráðvendni gagnvart Guði einskorðast ekki við trúarlegar kenningar. (1. Konungabók 9:4) Við verðum líka að vera siðferðilega hrein á öllum sviðum lífsins. En þú ferð ekki á mis við neitt þótt þú sért Guði ráðvandur. Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘ og hann vill að við njótum lífsins. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Við skulum nú leiða hugann að ýmsu sem við verðum að forðast til að vera siðferðilega hrein og lifa hamingjuríku lífi með velþóknun Guðs.

Forðumst kynferðislegt siðleysi

Jehóva setti meginreglur um hjónaband í orði sínu, Biblíunni, þar sem segir: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ (1. Mósebók 2:21-24) Þar sem hjón verða „eitt hold“ heiðra þau hjónabandið, sem er ráðstöfun Guðs, með því að hafa kynmök aðeins við hvort annað. Páll postuli sagði: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Orðið „hjónasængin“ táknar hér kynlíf manns og konu sem eru löglega gift hvort öðru. Ef þau eiga kynmök við einhvern fyrir utan hjónabandið fremja þau því hjúskaparbrot og geta fengið harðan dóm frá Guði. — Malakí 3:5.

En hvað um kynlíf fyrir hjónaband? Það er líka í andstöðu við siðferðisreglur Jehóva. „Það er vilji Guðs . . . að þér haldið yður frá frillulífi,“ segir í Biblíunni. (1. Þessaloníkubréf 4:3) Samkynhneigð, sifjaspell og samræði við dýr eru líka syndir gegn Guði. (3. Mósebók 18:6, 23; Rómverjabréfið 1:26, 27) Þeir sem vilja gleðja Guð og eiga farsæla ævi verða að halda sér frá þessu.

En hvað um kynæsandi efni? Jehóva hefur ekki velþóknun á slíku. (Galatabréfið 5:19) Hugurinn verður að vera laus við siðlausar hugsanir. Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Þetta á líka við um að horfa á klám, hvort sem það er á prenti, í sjónvarpinu eða á Netinu, að lesa kynlífssögur og að hlusta á tvíræða söngtexta. Ef við forðumst slíka hluti gleðjum við Guð og það hefur jákvæð áhrif á líf okkar.

Hvað um daður? Daður hefur verið skilgreint sem léttúð eða ástleitni. Giftur maður eða kona, sem veitir annarri manneskju utan hjónabandsins slíka athygli, hunsar meginreglur Biblíunnar og vanvirðir Jehóva. (Efesusbréfið 5:28-33) Það er ekki heldur viðeigandi fyrir ógift fólk að daðra hvert við annað sér til skemmtunar. Hvað ef tekið er meira mark á slíku daðri en ætlað var? Það gæti valdið miklum tilfinningalegum sársauka. Auk þess getur daður leitt til hjúskaparbrots eða kynferðislegs siðleysis og það er mjög alvarlegt. Þegar við komum hins vegar fram við hitt kynið af hreinleika fáum við aukna sjálfsvirðingu. — 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.

Gleðjum Guð á öðrum sviðum lífsins

Áfengi er aðgengilegt í mörgum löndum. Er rangt að neyta þess? Biblían mælir ekki á móti því að drekka vín, bjór eða annað áfengi í hófi. (Sálmur 104:15; 1. Tímóteusarbréf 5:23) Hins vegar er mikil drykkja og ölvun röng í augum Guðs. (1. Korintubréf 5:11-13) Við viljum örugglega ekki láta ofdrykkju eyðileggja heilsuna og skaða fjölskyldulífið. — Orðskviðirnir 23:20, 21, 29-35.

Jehóva er Guð sannleikans. (2. Samúelsbók 7:28) Í Biblíunni segir að það sé „óhugsandi . . . að hann fari með lygi“. (Hebreabréfið 6:18) Ef við viljum öðlast velþóknun Guðs verðum við að forðast lygar. (Orðskviðirnir 6:16-19; Kólossubréfið 3:9, 10) Kristnir menn fá þessa hvatningu í Biblíunni: „Talið sannleika hver við sinn náunga.“ — Efesusbréfið 4:25.

Víða tíðkast fjárhættuspil. Þó að þau séu vinsæl einkennast þau af græðgi því að þau ganga út á það að hagnast á tapi annarra. Jehóva hefur ekki velþóknun á þeim sem eru „gefnir fyrir ljótan gróða“. (1. Tímóteusarbréf 3:8) Ef þú vilt þóknast Jehóva muntu vilja forðast hvers kyns fjárhættuspil, þar með talin happdrætti, bingó og veðmál. Og þá munt þú líklega hafa meiri peninga milli handanna til að sinna þörfum fjölskyldunnar.

Það er líka merki um græðgi að taka eitthvað sem maður á ekki. „Þú skalt ekki stela,“ segir í Biblíunni. (2. Mósebók 20:15) Það er rangt að kaupa þýfi af ásettu ráði og taka hluti án leyfis. „Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er,“ segir í Biblíunni. (Efesusbréfið 4:28) Og við stelum ekki tíma frá vinnuveitendum okkar heldur skilum fullu dagsverki. Við „viljum í öllum greinum breyta vel“. (Hebreabréfið 13:18) Hrein samviska stuðlar að hugarfriði.

Hvernig lítur Guð á þann sem er skapstór? Biblían varar við: „Legg eigi lag þitt við reiðigjarnan mann og haf eigi umgengni við fauta.“ (Orðskviðirnir 22:24) Stjórnlaus reiði leiðir oft til ofbeldis. (1. Mósebók 4:5-8) Biblían segir um það að hefna sín: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ (Rómverjabréfið 12:17-19) Þegar við fylgjum þessum ráðum verður líf okkar friðsamara — og það mun auka hamingju okkar.

Þú getur breytt rétt

Geturðu verið Guði ráðvandur þrátt fyrir þrýsting til að gera annað? Já, þú getur það. Guði er umhugað um að þú sannir Satan lygara með því að halda áfram að vera ráðvandur. Jehóva segir: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ — Orðskviðirnir 27:11.

Þú getur beðið Jehóva um styrk til að gera það sem er rétt í augum hans. (Filippíbréfið 4:6, 7, 13) Vertu þess vegna staðráðinn í því að auka þekkingu þína á orði Guðs, Biblíunni. Þegar þú hugleiðir með þakklæti það sem þú lærir af Biblíunni verður kærleikur þinn til Jehóva dýpri og þig langar til að gleðja hann. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:3 segir: „Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig við að kynna þér Biblíuna. Þér er velkomið að hafa samband við þá þar sem þú býrð eða skrifa útgefendum þessa blaðs.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Job var trúfastur í prófraunum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Aukin þekking á orði Guðs mun styrkja þig í því að breyta rétt.