Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rómversku vegirnir minnismerki um verkfræði fornaldar

Rómversku vegirnir minnismerki um verkfræði fornaldar

Rómversku vegirnir minnismerki um verkfræði fornaldar

HVERT er merkilegasta stórvirki Rómaveldis? Ef til vill myndirðu nefna hringleikahúsið Kólosseum en það má enn sjá rústir þess í Róm. En ef við ættum að taka mið af því hvaða mannvirki hefur staðið lengst og haft áhrif á gang sögunnar væri sjálfsagt að nefna rómversku vegina.

Það voru ekki bara vörur og hermenn sem fóru um rómversku þjóðvegina. Áletranafræðingurinn Romolo A. Staccioli segir að vegirnir „hafi flutt hugmyndir, listastefnur og heimspekilegar og trúarlegar kenningar“, meðal annars kenningar kristninnar.

Til forna voru rómversku vegirnir álitnir stórvirki. Á nokkrum öldum byggðu Rómverjar upp vel skipulagt vegakerfi sem var meira en 80.000 kílómetrar og teygði sig yfir svæði sem nú tilheyrir að minnsta kosti 30 löndum.

Fyrsti mikilvægi þjóðvegurinn var Appíusarvegur. Hann var talinn vera einn af mikilvægustu vegunum og tengdi Róm við hafnarborgina Brundisium (nú Brindisi) en þaðan ferðaðist fólk til Austurlanda. Appíusarvegur var nefndur eftir Appíusi Kládíusi Kaekusi, rómverskum embættismanni sem hóf lagningu vegarins um 312 f.Kr. Frá Róm lágu líka Saltvegurinn og Flaminíusarvegurinn sem teygðu sig austur að Adríahafinu og opnuðu leiðina að Balkanskaganum og svæðunum meðfram Rín og Dóná. Árelíusarvegur lá í norðurátt að Gallíu og Íberíuskaganum og Ostíuvegur lá í áttina að hafnarborginni Ostíu en þaðan voru farnar tíðar ferðir til Afríku.

Stærsta byggingarverkefni Rómar

Vegasamgöngur voru mjög mikilvægar fyrir Rómarveldi jafnvel áður en farið var að leggja nýja vegi. Borgin byggðist upp í kringum gamla vegi sem lágu allir að eina vaðinu yfir neðri Tíber. Gamlar heimildir herma að Rómverjar hafi notast við aðferðir Karþagómanna til að bæta þá vegi sem fyrir voru. En hinir eiginlegu fyrirrennarar Rómverja í vegagerð voru líklega Etrúskar. Enn er hægt að sjá leifar af vegum þeirra. Fyrir daga Rómverja voru auk þess margir fjölfarnir stígar á þessum slóðum. Þeir voru ef til vill notaðir til að flytja dýr frá einu beitilandi til annars. Erfitt var að ferðast eftir þessum stígum þar sem þeir voru rykugir á þurrkatímanum en þaktir leðju á regntímanum. Rómverjar byggðu vegi sína oft yfir þessa stíga.

Rómversku vegirnir voru vel hannaðir, traustir, nytsamir og fallegir. Reynt var að finna stystu leiðina frá einum stað til annars og það útskýrir hvers vegna margir vegirnir liggja í beinni línu. En oft þurftu vegirnir að fylgja landslaginu. Á hæðóttum og fjöllóttum landsvæðum byggðu Rómverjar vegina sólarmegin í miðri fjallshlíðinni ef það var hægt. Það dró úr óþægindum fyrir vegfarendur þegar illa viðraði.

En hvernig byggðu Rómverjar vegi sína? Þeir notuðu ýmsar aðferðir. En lítum á hvað fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós.

Fyrst var ákveðið hvar vegurinn átti að vera staðsettur. Landmælingamenn þess tíma sinntu því verkefni. Síðan voru hermenn, verkamenn eða þrælar látnir sjá um moksturinn sem gat verið býsna erfitt verk. Grafnir voru tveir samsíða skurðir. Fjarlægðin á milli þeirra var oftast um fjórir metrar og í beygjum jafnvel enn meiri en lágmarksfjarlægðin var 2,4 metrar. Tilbúnir vegir gátu verið allt að tíu metrar á breidd að meðtöldum göngustígum báðum megin. Á milli skurðanna tveggja var grafinn einn breiður skurður niður á fastan grunn. Hann var síðan fylltur með þremur eða fjórum lögum af mismunandi efni. Neðsta lagið var ef til vill stórir steinar eða grjót. Síðan komu smásteinar eða steinvölur sem var stundum haldið saman með steypu. Á þetta var svo lögð samþjöppuð möl eða grjótmulningur.

Á sumum rómverskum vegum var efsta lagið ekkert annað en samþjöppuð möl. En það voru hins vegar hellulögðu vegirnir sem þjóðir fornaldar dáðust að. Efsta lagið á þessum vegum var gert úr stórum steinhellum sem komu oft úr klettum á staðnum. Vegirnir voru kúptir þannig að vatnið rann auðveldlega af þeim frá miðju götunnar út í ræsin sitt hvoru megin. Þessi hönnun stuðlaði að því að vegirnir stóðust tímans tönn og sumir jafnvel allt til okkar daga.

Býsanski sagnfræðingurinn Procopius lýsti Appíusarveginum 900 árum eftir að hann var byggður og sagði að hann væri „stórkostlegur“. Hann skrifaði um steinhellurnar sem mynduðu yfirborðið: „Þrátt fyrir allan þann tíma sem hefur liðið og alla þá vagna sem hafa ekið á þeim dag eftir dag, hafa þær ekki haggast og eru enn þá rennisléttar.“

Hvernig var hægt að leggja þessa vegi yfir hindranir í náttúrunni, eins og ár og fljót? Ein leiðin var að byggja brýr og sumar þeirra standa enn og eru til merkis um einstaka tæknikunnáttu Rómverja til forna. Jarðgöngin í rómverska vegakerfinu eru kannski ekki eins vel þekkt en gerð þeirra var jafnvel enn flóknari miðað við tækni þess tíma. Í einni heimild segir: „Í aldaraðir var ekkert sem jafnaðist á við árangur rómverskra verkfræðinga.“ Dæmi um það eru göngin við Furlo skarð á Flaminíusarvegi. Eftir mikinn undirbúning verkfræðinga var hafist handa við að höggva göng úr gegnheilu bergi sem voru 40 metra löng, 5 metra breið og 5 metra há. Þetta var árið 78 e.Kr. og sannarlega mikið afrek miðað við tæki og tól þess tíma. Uppbygging þessa vegakerfis var eitt merkilegasta framtak í mannkynssögunni.

Ferðalangar og útbreiðsla hugmynda

Hermenn og kaupmenn, prédikarar og ferðamenn, leikarar og skylmingaþrælar ferðuðust allir um þessa vegi. Þeir sem voru fótgangandi gátu ferðast um 25 til 30 kílómetra á dag. Ferðalangar gátu fengið upplýsingar um vegalengdir með því að fylgjast með mílusteinum. Þessir steinar voru mismunandi í laginu en þó oftast sívalir og þeim var komið fyrir með 1480 metra millibili — en það var ein rómversk míla. Á leiðinni voru líka hvíldarstaðir þar sem ferðafólk gat skipt um hesta, keypt sér eitthvað í svanginn og stundum fengið gistingu. Sumir þessara staða þróuðust með tímanum í litla bæi.

Skömmu eftir fæðingu Krists kom Ágústus keisari af stað áætlun um viðhald á vegakerfinu. Hann útnefndi embættismenn til að sjá um einn eða fleiri vegi. Hann lét reisa gullna mílusteininn, miliarium aureum, á Rómartorgi. Það var viðeigandi að allir rómverskir vegir á Ítalíu skyldu enda hjá þessari steinsúlu sem var með gylltum stöfum. Af þessu er dreginn málshátturinn: „Allar leiðir liggja til Rómar.“ Ágústus lét einnig hengja upp kort af vegakerfi keisaradæmisins til sýnis fyrir alla. Þetta kerfi virðist hafa uppfyllt allar þarfir og kröfur þess tíma.

Sumir ferðamenn til forna notuðu jafnvel skriflegar ferðalýsingar eða ferðaáætlanir til að auðvelda sér ferðina. Í þessum ferðalýsingum var að finna upplýsingar um vegalengdir á milli áfangastaða og hvaða þjónusta væri í boði á hverjum stað. Þær voru hins vegar dýrar og þess vegna ekki fyrir alla.

Engu að síður skipulögðu kristnir trúboðar margar slíkar langferðir. Þegar Páll postuli hélt í austurátt ferðaðist hann oft sjóleiðis líkt og samtímamenn sínir og notfærði sér þannig ráðandi vindáttir. (Postulasagan 14:25, 26; 20:3; 21:1-3) Við Miðjarðarhafið blása vindar í vestur yfir sumarið. Þegar Páll ferðaðist í vesturátt fór hann hins vegar oft landleiðina og notaði rómverska vegakerfið. Þannig ferðaðist hann í annarri og þriðju trúboðsferð sinni. (Postulasagan 15:36-41; 16:6-8; 17:1, 10; 18:22, 23; 19:1) * Um árið 59 ferðaðist Páll eftir Appíusarvegi á leið sinni til Rómar. Hann hitti trúbræður sína á Appíusartorgi sem var fjölfarið markaðstorg um 74 kílómetra suðaustur af Róm. Aðrir biðu hans við hvíldarstaðinn Þríbúðir sem var 14 kílómetrum nær Róm. (Postulasagan 28:13-15) Um árið 60 gat Páll sagt að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „í öllum heiminum“ eins og hann þekktist þá. (Kólossubréfið 1:6, 23) Vegakerfið átti sinn þátt í því að gera þetta mögulegt.

Rómversku vegirnir eru sannarlega einstök mannvirki sem hafa staðist tímans tönn og stuðlað að útbreiðslu fagnaðarerindisins um Guðsríki. — Matteus 24:14.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Skoðaðu kortið á bls. 33 í bæklingnum „See the Good Land“, gefinn út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Rómverskur mílusteinn

[Mynd á blaðsíðu 23]

Appíusarvegur við útjaðar Rómaborgar.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Vegur í hinni fornu borg Ostíu á Ítalíu.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Forn hjólför eftir hestvagna í Austurríki.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hluti af rómverskum vegi og mílusteinar í Jórdaníu.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Rústir af grafhýsi á Appíusarvegi fyrir utan Róm.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Furlogöngin á Flaminíusarvegi í Marchehéraði.

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Brú yfir Tíberfljót á Emilíuvegi á Rímíní á Ítalíu.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Páll hitti trúsystkini sín á hinu fjölfarna Appíusartorgi.

[Mynd credit line á blaðsíðu 23]

Lengst til vinstri, Ostía: ©danilo donadoni/Marka/age fotostock. Lengst til hægri, vegur með mílusteinum: Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.