Þú getur staðið af þér storminn
Þú getur staðið af þér storminn
MARGIR verða fyrir áföllum af ýmsu tagi á þeim erfiðu tímum sem við lifum. En kristnir menn geta staðist storma og illviðri lífsins með því að elska Guð og halda meginreglur hans dyggilega. Þetta kemur vel fram í einni af dæmisögum Jesú Krists. Hann sagði að hlýðnir lærisveinar sínir væru líkir „hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi“ og bætti svo við: „Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.“ — Matteus 7:24, 25.
Við tökum eftir að enda þótt maðurinn í dæmisögunni væri hygginn mátti hann engu að síður þola mótlæti sem táknað er með steypiregni, flóðum og stormum. Jesús var sem sagt ekki að gefa í skyn að lærisveinar sínir gætu umflúið alla erfiðleika og búið við stöðugan frið og ró. (Sálmur 34:20; Jakobsbréfið 4:13-15) Hann sagði hins vegar að dyggir þjónar Guðs gætu búið sig undir áföll og erfiðleika og staðið þá af sér.
Jesús byrjaði dæmisöguna þannig: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.“ Jesús var auðvitað ekki að tala um bókstaflega húsbyggingu heldur lífið sjálft. Þeir sem fara eftir orðum Krists sýna góða dómgreind og skynsemi. Þeir byggja verk sín og áhugahvatir á bjargi með því að fylgja kenningum hans. Athyglisvert er að þetta táknræna bjarg stendur ekki upp úr jörðu heldur þarf maðurinn í dæmisögunni að ‚grafa djúpt‘ til að komast niður á það. (Lúkas 6:48) Lærisveinar Jesú leggja sömuleiðis hart að sér til að temja sér eiginleika sem þeir búa að alla tíð. Og þessir eiginleikar styrkja samband þeirra við Guð. — Matteus 5:5-7; 6:33.
Hvað gerist þegar erfiðleikar skella á eins og óveður og á það reynir hvort fylgjendur Jesú standa traustum fótum á grunni kristninnar? Ef þeir hlýða fúslega kenningum Krists og sýna af sér kristna eiginleika búa þeir yfir styrk til að standa af sér erfiðleikana og sömuleiðis komast heilu og höldnu gegnum Harmagedón sem er nú í aðsigi. (Matteus 5:10-12; Opinberunarbókin 16:15, 16) Já, með því að fylgja kenningum Krists tekst mörgum að standa af sér stormasamar prófraunir lífsins. Þú ert líka fær um það. — 1. Pétursbréf 2:21-23.