Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þiggjum alltaf ögun Jehóva

Þiggjum alltaf ögun Jehóva

„Lítilsvirð eigi ögun Drottins.“ − ORÐSKVIÐIRNIR 3:11.

1. Af hverju ættum við að þiggja ögun Jehóva?

SALÓMON konungur í Ísrael til forna nefndi góða ástæðu fyrir okkur öll til að þiggja ögun Jehóva. „Son minn,“ sagði hann, „lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans, því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.“ (Orðskviðirnir 3:11, 12) Já, faðirinn á himnum agar þig af því að hann elskar þig.

2. Hvað er „ögun“ og á hvaða hátt getum við fengið hana?

2 „Ögun“ getur falist í ofanígjöf, leiðréttingu, tilsögn og fræðslu. Páll postuli skrifaði: „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ (Hebreabréfið 12:11) Ögunin getur hjálpað þér að breyta rétt og fært þig nær Jehóva, hinum heilaga Guði, ef þú þiggur hana og breytir í samræmi við hana. (Sálmur 99:5) Þú getur fengið leiðréttingu á safnaðarsamkomum, frá trúsystkinum og þegar þú lest orð Guðs og rit hins ‚trúa ráðsmanns‘. (Lúkas 12:42-44) Þú mátt vera innilega þakklátur ef þér er bent á eitthvað sem þú þarft að leiðrétta. En hvaða ögun getur verið nauðsynleg ef um alvarlega synd er að ræða?

Hvers vegna er sumum vikið úr söfnuðinum?

3. Undir hvaða kringumstæðum er fólki vikið úr söfnuðinum?

3 Þjónar Guðs rannsaka Biblíuna og biblíutengd rit og meginreglur Guðs eru ræddar á safnaðarsamkomum og mótum. Kristnir menn ættu þar af leiðandi að vita vel hvaða kröfur Jehóva gerir til þeirra. Fólki er því aðeins vikið úr söfnuðinum að það syndgi alvarlega en iðrist ekki.

4, 5. Hvaða dæmi er nefnt í Biblíunni um mann sem var vikið úr söfnuðinum og af hverju var söfnuðurinn hvattur til að taka hann inn aftur?

4 Lítum á dæmi úr Biblíunni um mann sem var vikið úr söfnuðinum. Þar segir frá því að söfnuðurinn í Korintu hafi umborið ‚slíkan saurlifnað sem jafnvel gerðist ekki meðal heiðingja, að maður hélt við konu föður síns‘. Páll hvatti söfnuðinn til að „selja slíkan mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða“. (1. Korintubréf 5:1-5) Þegar syndaranum var vikið úr söfnuðinum var hann seldur Satan á vald og þar með tilheyrði hann aftur heimi Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Með þessari aðgerð var illum ‚holdlegum‘ áhrifum útrýmt úr söfnuðinum svo að „andinn“ í söfnuðinum héldist hreinn og Guði að skapi. − 2. Tímóteusarbréf 4:22; 1. Korintubréf 5:11-13.

5 Áður en langt um leið hvatti Páll kristna menn í Korintu til að taka syndarann inn í söfnuðinn á ný. Þá yrðu þeir ekki „vélaðir af Satan“ eins og postulinn komst að orði. Syndarinn hafði greinilega iðrast og lifði nú hreinu lífi. (2. Korintubréf 2:8-11) Ef Korintumenn hefðu ekki viljað taka við þessum iðrandi manni á ný hefði Satan tekist að véla þá vegna þess að þeir hefðu þá verið tilfinningalausir og miskunnarlausir eins og Satan vildi. Að öllum líkindum hafa þeir fljótlega fyrirgefið þessum iðrandi manni og huggað hann. − 2. Korintubréf 2:5-7.

6. Hvað ávinnst með því að víkja iðrunarlausum syndara úr söfnuðinum?

6 Hvað ávinnst með því að víkja einhverjum úr söfnuðinum? Þannig er komið í veg fyrir að blettur falli á nafn Jehóva og góðum orðstír safnaðarins er borgið. (1. Pétursbréf 1:14-16) Með því að víkja iðrunarlausum syndara úr söfnuðinum er meginreglum Guðs haldið á lofti og hreinleiki safnaðarins varðveittur. Það getur jafnframt komið vitinu fyrir iðrunarlausan syndara.

Iðrun skiptir sköpum

7. Hvaða áhrif hafði það á Davíð að játa ekki afbrot sín?

7 Flestir sem syndga alvarlega iðrast í einlægni og þeim er þá ekki vikið úr söfnuðinum. En vissulega getur iðrunarferlið reynt á. Tökum Davíð Ísraelskonung sem dæmi en hann orti Sálm 32. Þar kemur fram að nokkur tími leið áður en Davíð játaði alvarlegar syndir sínar, trúlega syndir sem hann framdi í tengslum við Batsebu. Sálarkvölin, sem hann upplifði í kjölfarið, dró úr honum mátt, rétt eins og tré skrælnar í sumarhitanum. Davíð leið á líkama og sál en Jehóva fyrirgaf honum þegar hann játaði afbrot sín. (Sálmur 32:3-5) Þá söng Davíð: „Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð.“ (Sálmur 32:1, 2) Miskunn Guðs snart hann djúpt.

8, 9. Hvernig birtist iðrun og hve mikilvæg er hún þegar einhver óskar eftir að verða tekinn aftur inn í söfnuðinn?

8 Ljóst er því að syndari verður að iðrast til að hljóta miskunn. En iðrun er annað og meira en skömm eða ótti við að upp um mann komist. Að iðrast merkir að sjá eftir því að hafa gert rangt og breyta hugarfari sínu. Iðrandi maður er með „sundurmarið og sundurkramið hjarta“ og vill bæta skaðann ef mögulegt er. − Sálmur 51:19; 2. Korintubréf 7:11.

9 Iðrun er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að taka mann inn í söfnuðinn á ný. Sá sem vikið er úr söfnuðinum er ekki tekinn sjálfkrafa inn aftur að ákveðnum tíma liðnum. Áður en hægt er að taka hann inn þarf hjartalag hans að breytast mikið. Hann verður að gera sér grein fyrir því hve alvarleg synd hans var og hvernig hann hefur kastað rýrð á Jehóva og söfnuðinn. Syndarinn þarf að iðrast, biðja Jehóva innilega um fyrirgefningu og laga sig að réttlátum kröfum hans. Þegar hann óskar eftir að fá inngöngu í söfnuðinn ætti hann að geta sýnt fram á að hann iðrist og vinni „verk samboðin iðruninni“. − Postulasagan 26:20.

Af hverju ætti að játa ranga breytni?

10, 11. Af hverju ættum við ekki að reyna að leyna því ef við syndgum?

10 Sá sem hefur syndgað gæti hugsað með sér: „Ef ég segi frá syndinni gæti ég þurft að svara óþægilegum spurningum og kannski verður mér vikið úr söfnuðinum. En ef ég þegi yfir þessu kemst ég hjá því og enginn í söfnuðinum fær nokkurn tíma að vita hvað gerðist.“ Sá sem hugsar þannig gleymir nokkrum mikilvægum atriðum. Hver eru þau?

11 Jehóva er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir“. Engu að síður leiðréttir hann þjóna sína „í hófi“. (2. Mósebók 34:6, 7; Jeremía 30:11) Hvernig gætirðu hlotið miskunn Guðs ef þú syndgaðir alvarlega en reyndir að leyna því? Jehóva veit af syndinni og hann horfir ekki bara fram hjá henni. − Orðskviðirnir 15:3; Habakkuk 1:13.

12, 13. Hvaða afleiðingar getur það haft að reyna að leyna syndum sínum?

12 Ef þú hefur drýgt alvarlega synd getur játning hjálpað þér að endurheimta góða samvisku. (1. Tímóteusarbréf 1:18-20) Ef þú játar ekki gætirðu hins vegar sljóvgað samviskuna og það gæti orðið til þess að þú leiddist enn lengra út í syndina. Mundu að þú ert ekki bara að syndga gegn annarri manneskju eða söfnuðinum heldur gegn Guði. Sálmaskáldið söng: „Hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina. Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega.“ − Sálmur 11:4, 5.

13 Jehóva blessar engan sem dylur alvarlega synd og reynir að vera áfram í hreinum söfnuði hans. (Jakobsbréfið 4:6) Ef þér hefur orðið á að syndga en vilt breyta rétt skaltu ekki hika við að játa brot þitt hreinskilnislega. Að öðrum kosti mun samviskan naga þig, ekki síst þegar þú lest eða heyrir áminningar varðandi alvarlegar syndir af því tagi. Hvernig værirðu á vegi staddur ef Jehóva tæki anda sinn frá þér eins og hann tók hann frá Sál konungi? (1. Samúelsbók 16:14) Ef þú hefðir ekki anda Guðs gætirðu leiðst út í enn alvarlegri syndir.

Treystu dyggum bræðrum þínum

14. Hvers vegna ætti sá sem syndgar að fylgja ráðunum í Jakobsbréfinu 5:14, 15?

14 Hvað ætti iðrandi syndari þá að gera? „Hann [kalli] til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur.“ (Jakobsbréfið 5:14, 15) Ein leið til að bera „ávöxt samboðinn iðruninni“ er sú að leita til öldunganna. (Matteus 3:8) Dyggir og umhyggjusamir öldungar munu „smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum“. Biblíulegar ráðleggingar þeirra eru eins og mýkjandi olía − þær hugga og styrkja hvern þann sem iðrast í einlægni. − Jeremía 8:22.

15, 16. Hvernig líkja öldungar safnaðarins eftir dæmi Guðs sem lýst er í Esekíel 34:15, 16?

15 Jehóva, hirðirinn mikli, gaf fagurt fordæmi þegar hann frelsaði Gyðinga úr útlegð í Babýlon árið 537 f.Kr. og þegar hann leysti hinn andlega Ísrael úr ánauð Babýlonar hinnar miklu árið 1919. (Opinberunarbókin 17:3-5; Galatabréfið 6:16) Þannig efndi hann eftirfarandi loforð: „Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá. . . . Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika.“ − Esekíel 34:15, 16.

16 Jehóva hélt táknrænum sauðum sínum til haga, verndaði þá og leitaði að hinum týndu. Umsjónarmenn safnaðarins gæta þess sömuleiðis að hjörð Guðs sé örugg og vel nærð andlega. Öldungarnir leita að sauðum sem villast frá söfnuðinum. Líkt og Guð ‚batt um hið limlesta‘ hlúa þeir að þeim sem hafa særst vegna orða annarra eða eigin verka. Og öldungarnir hjálpa þeim sem eru orðnir veikir í trúnni, ef til vill vegna eigin misgerða, ekki ósvipað og Guð ‚kom þrótti í hið veika‘.

Hirðar hjarðarinnar veita aðstoð

17. Af hverju ættum við ekki að hika við að leita hjálpar öldunganna?

17 Öldungarnir gæta þess að „vera mildir . . . með ótta“ eins og þeir eru hvattir til. (Júdasarbréfið 23) Fyrir kemur að safnaðarmaður syndgar alvarlega með því að gerast sekur um kynferðislegt siðleysi. En ef hann iðrast í einlægni getur hann treyst að öldungarnir sýni honum kærleika og miskunn og vilji umfram allt hjálpa honum að bæta sambandið við Guð. Páll sagði um sjálfan sig og aðra umsjónarmenn: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar.“ (2. Korintubréf 1:24) Hikaðu því aldrei við að leita hjálpar þeirra.

18. Hvernig koma öldungar fram við trúsystkini sem hefur orðið eitthvað á?

18 Hvers vegna geturðu treyst á hjálp öldunganna ef þú hefur drýgt alvarlega synd? Vegna þess að þeir eru hirðar hjarðar Guðs. (1. Pétursbréf 5:1-4) Umhyggjusamur fjárhirðir lemur ekki lítið lamb sem hefur meitt sig. Í samskiptum við trúsystkini, sem hefur orðið eitthvað á, líta öldungarnir ekki á málið eins og glæp sem þarf að refsa fyrir heldur leggja þeir áherslu á að reisa hinn brotlega á fætur ef mögulegt er. (Jakobsbréfið 5:13-20) Öldungar verða að dæma með réttlæti og koma mildilega fram við hjörðina. (Postulasagan 20:29, 30; Jesaja 32:1, 2) Þeir eiga að „gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði“, rétt eins og allir aðrir kristnir menn. (Míka 6:8) Það er ákaflega mikilvægt þegar taka þarf ákvarðanir sem varða líf og heilaga þjónustu ‚gæsluhjarðar‘ Guðs. − Sálmur 100:3.

Safnaðaröldungar „binda um“ særða sauði Guðs eins og fjárhirðar fortíðar.

19. Með hvaða hugarfari reyna öldungar að leiðrétta brotlega?

19 Umsjónarmenn safnaðarins eru útnefndir af heilögum anda og leitast við að fylgja handleiðslu hans. „Ef einhver misgjörð kann að henda mann“ reyna andlega þroskaðir öldungar að leiðrétta „þann mann með hógværð“. (Galatabréfið 6:1; Postulasagan 20:28) Öldungarnir reyna að leiðrétta hugsunarhátt hans mildilega en þó án þess að víkja frá kröfum Guðs, ekki ósvipað lækni sem setur saman brotið bein en gerir það með nærgætni til þess að valda hinum slasaða ekki óþarfa sársauka. (Kólossubréfið 3:12) Þar sem hinum brotlega er miskunnað með hliðsjón af Biblíunni og að undangenginni bæn endurspeglar ákvörðun öldunganna sjónarmið Guðs. − Matteus 18:18.

20. Undir hvaða kringumstæðum getur verið nauðsynlegt að tilkynna söfnuðinum að ákveðin manneskja hafi fengið áminningu?

20 Ef synd einhvers er á margra vitorði eða verður það að öllum líkindum er sennilega viðeigandi að lesa upp tilkynningu í söfnuðinum. Þannig má vernda orðstír safnaðarins. Tilkynning er einnig lesin ef nauðsynlegt er að upplýsa söfnuðinn um málið. Meðan sá sem hefur verið áminntur af dómnefnd er að ná sér í trúnni má líkja honum við mann sem er að ná sér eftir meiðsli sem tálma honum um tíma. Eflaust er heppilegast að hinn iðrandi svari ekki á samkomum um sinn heldur hlusti aðeins. Hugsanlegt er að öldungarnir feli einhverjum að fara yfir biblíulegt námsefni með honum til að styrkja hann á þeim sviðum þar sem hann er veikur fyrir, svo að hann verði ‚heilbrigður í trúnni‘ á nýjan leik. (Títusarbréfið 2:2) Allt er þetta gert í kærleika en ekki til að refsa hinum brotlega.

21. Hvernig má stundum taka á málum?

21 Öldungar geta styrkt fólk í trúnni með ýmsum hætti. Segjum til dæmis að bróðir hafi einhvern tíma átt við áfengisvandamál að stríða og hann drekki of mikið einu sinni eða tvisvar þegar hann er einn heima. Eða segjum að fyrrverandi reykingamaður reyki í laumi einu sinni eða tvisvar í augnabliksveikleika. Hann hefur beðið til Guðs og treystir að Guð hafi fyrirgefið sér en hann ætti engu að síður að leita hjálpar öldunganna til að syndin verði ekki að vana. Einn eða tveir öldungar geta tekið á málinu. Hins vegar ætti að gera öldungi í forsæti viðvart vegna þess að fleiri hliðar gætu verið á málinu.

Haltu áfram að þiggja ögun Guðs

22, 23. Af hverju ættirðu að halda áfram að þiggja ögun Guðs?

22 Til að njóta velþóknunar Guðs þarf sérhver kristinn maður að vera vakandi fyrir ögun hans. (1. Tímóteusarbréf 5:20) Taktu því til þín þær leiðréttingar sem þú færð þegar þú lest í Biblíunni og biblíutengdum ritum og þegar þú hlýðir á ráðleggingar sem gefnar eru á safnaðarsamkomum og mótum votta Jehóva. Vertu staðráðinn í að gera vilja Guðs. Þá mun ögun hans hjálpa þér að halda uppi sterkum vörnum gegn syndinni.

23 Þú getur varðveitt sjálfan þig í kærleika Guðs ef þú þiggur ögun hans. Sumum hefur að vísu verið vikið úr söfnuðinum en það þarf ekki að henda þig ef þú ‚varðveitir hjarta þitt‘ og breytir viturlega. (Orðskviðirnir 4:23; Efesusbréfið 5:15) En ef þér hefur verið vikið úr söfnuðinum væri þá ekki ráð að vinna að því að snúa til baka? Guð vill að allir sem eru vígðir honum þjóni honum dyggilega „með gleði og fúsu geði“. (5. Mósebók 28:47) Þú getur gert það að eilífu ef þú þiggur alltaf ögun Jehóva. − Sálmur 100:2.