Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Berum virðingu fyrir helgum samkomum

Berum virðingu fyrir helgum samkomum

Berum virðingu fyrir helgum samkomum

„Þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu.“ — JESAJA 56:7.

1. Hvaða biblíulegu ástæður höfum við til að sýna viðeigandi virðingu fyrir samkomum?

JEHÓVA hefur safnað fólki sínu saman, bæði andasmurðum kristnum mönnum og félögum þeirra, til að tilbiðja sig á ‚helgu fjalli‘ sínu. Hann gleður þá í „bænahúsi“ sínu, andlega musterinu, sem er „bænahús fyrir allar þjóðir“. (Jesaja 56:7; Markús 11:17) Þessi framvinda gefur til kynna að tilbeiðslan á Jehóva sé heilög, hrein og upphafin. Við sýnum að við höfum sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt með því að bera viðeigandi virðingu fyrir samkomum þar sem við stundum biblíunám og tilbeiðslu.

2. Hvernig sjáum við að Jehóva áleit tilbeiðslustað sinn heilagan og hvernig sýndi Jesús sama viðhorf?

2 Í Forn-Ísrael átti tilbeiðslustaðurinn, sem Jehóva valdi, að vera heilagur. Tjaldbúðina, áhöldin og allt annað sem var innan tjaldbúðarinnar átti að smyrja og vígja ‚svo að það yrði háheilagt‘. (2. Mósebók 30:26-29) Helgidóminum var skipt í tvo hluta sem kölluðust „hið heilaga“ og „hið allrahelgasta“. (Hebreabréfið 9:2, 3) Síðar kom musterið í Jerúsalem í stað tjaldbúðarinnar. Jerúsalem var miðstöð tilbeiðslunnar á Jehóva og því kölluð ‚borgin helga‘. (Nehemíabók 11:1; Matteus 27:53) Þegar Jesús var hér á jörð bar hann viðeigandi virðingu fyrir musterinu. Hann reiddist fólkinu fyrir að sýna þá vanvirðingu að nota musterissvæðið í viðskiptalegum tilgangi eða til að stytta sér leið. — Markús 11:15, 16.

3. Hvernig sjáum við að hátíðirnar í Ísrael voru heilagar?

3 Ísraelsmenn komu reglulega saman til að tilbiðja Jehóva og hlýða á upplestur úr lögmálinu. Á hátíðum þeirra voru vissir dagar kallaðir helgar samkomur eða hátíðafundir sem gefur til kynna að þessar stundir hafi verið heilagar. (3. Mósebók 23:2, 3, 36, 37) Á dögum Esra og Nehemía var haldin opinber samkoma þar sem levítarnir „skýrðu lögmálið fyrir lýðnum“. „Allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins“ en levítarnir sefuðu lýðinn og sögðu: „Verið hljóðir, því að þessi dagur er heilagur.“ Í kjölfarið héldu Ísraelsmenn hina vikulöngu laufskálahátíð með ‚mikilli gleði‘. Auk þess „var lesið upp úr lögmálsbók Guðs á degi hverjum, frá fyrsta degi til hins síðasta dags. Og þeir héldu hátíð í sjö daga, og áttunda daginn var hátíðasamkoma, eins og fyrirskipað var.“ (Nehemíabók 8:7-11, 17, 18) Þetta voru vissulega heilagar stundir og þeir sem voru viðstaddir þurftu að fylgjast vandlega með og sýna viðeigandi virðingu.

Heilagar samkomur

4, 5. Hvað sýnir okkur að samkomurnar eru heilagar?

4 Núna á Jehóva enga heilaga borg hér á jörð með musteri sem er helgað tilbeiðslunni á honum. Við ættum samt að muna að samkomurnar eru helgar tilbeiðslustundir. Við hittumst þrisvar í viku til að lesa og rannsaka Ritninguna. Eins og á dögum Nehemía er orð Jehóva ‚útskýrt svo að menn skilji hið upplesna‘. (Nehemíabók 8:8) Farið er með bæn í upphafi og við lok hverrar samkomu og á flestum þeirra syngjum við Jehóva lof. (Sálmur 26:12) Safnaðarsamkomurnar eru hluti af tilbeiðslu okkar og því þurfum við að sýna guðsótta og virðingu.

5 Jehóva blessar þjóna sína þegar þeir koma saman til að tilbiðja hann, lesa og rannsaka orð hans og til að eiga uppbyggilegar stundir saman. Við getum verið viss um að það er á samkomunum sem Jehóva ‚býður út blessun‘. (Sálmur 133:1, 3) Við njótum góðs af þessari blessun ef við erum viðstödd og fylgjumst vandlega með dagskránni. Auk þess sagði Jesús: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ Af samhenginu má sjá að þetta á við um safnaðaröldunga sem koma saman til að taka á alvarlegum ágreiningsmálum milli trúsystkina en þetta má einnig heimfæra á samkomurnar. (Matteus 18:20) Þegar kristnir menn koma saman í nafni Jesú er hann nærverandi fyrir milligöngu heilags anda. Ættu samkomurnar þá ekki að teljast heilagar?

6. Hvað er hægt að segja um samkomustaði okkar, smáa sem stóra?

6 Að sjálfsögðu býr Jehóva ekki í musterum gerðum af mönnum. Samt sem áður eru ríkissalirnir okkar tilbeiðslustaðir. (Postulasagan 7:48; 17:24) Þar hittumst við til að lesa og rannsaka orð Jehóva, biðja til að hans og syngja honum lof. Hið sama er að segja um mótshallirnar okkar. Stærra húsnæði eins og fundar- og sýningarsalir eða íþróttaleikvangar, sem tekið er á leigu, verður einnig tilbeiðslustaður þegar við notum það til að halda helgar samkomur. Við ættum að bera virðingu fyrir þessum samkomum, hvort sem þær eru fámennar eða fjölmennar, og sú virðing endurspeglast í viðhorfum okkar og framkomu.

Hvernig sýnum við virðingu fyrir helgum samkomum?

7. Hvernig getum við sýnt virðingu fyrir samkomum okkar?

7 Við getum á margan hátt sýnt virðingu fyrir samkomum okkar. Ein leið til þess er að vera viðstödd þegar ríkissöngvarnir eru sungnir. Margir þeirra hljóma eins og bænir og ættu því að vera sungnir af lotningu. Páll postuli heimfærir orðin í 22. sálminum upp á Jesú og segir að hann hafi sagt: „Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.“ (Hebreabréfið 2:12) Við ættum því að leggja okkur fram um að vera komin í sætin áður en kynnirinn segir hvaða söngur skuli sunginn og hugsa um merkingu söngtextans á meðan við syngjum. Söngur okkar ætti að endurspegla tilfinningar sálmaritans sem orti: „Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.“ (Sálmur 111:1) Já, lofsöngvarnir, sem við syngjum Jehóva, gefa okkur góða ástæðu til að mæta snemma á samkomurnar og vera viðstödd þar til þeim lýkur.

8. Hvaða fordæmi í Biblíunni gefur til kynna að bænir á samkomum verðskuldi fulla athygli okkar?

8 Annað sem auðgar samkomurnar eru bænir sem bornar eru fram fyrir hönd allra viðstaddra. Frumkristnir menn í Jerúsalem komu eitt sinn saman og „hófu . . . einum huga raust sína til Guðs“ í innilegri bæn. Fyrir vikið héldu þeir ótrauðir áfram þrátt fyrir ofsóknir „og töluðu orð Guðs af djörfung“. (Postulasagan 4:24-31) Ætli einhverjir þeirra hafi látið hugann reika í bæninni? Nei, þeir báðu „einum huga“. Bænir, sem fluttar eru á samkomum, tjá hug allra viðstaddra. Þær verðskulda fulla athygli okkar.

9. Hvernig getum við sýnt með klæðaburði okkar og hegðun að við virðum heilagar samkomur?

9 Við getum einnig sýnt að við virðum heilagleika samkomnanna með klæðaburði okkar. Útlit okkar, þar á meðal fatnaður og hárgreiðsla, getur stuðlað að virðulegum samkomum. Páll postuli veitti eftirfarandi ráðleggingar: „Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu. Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, heldur . . . eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.“ (1. Tímóteusarbréf 2:8-10) Þegar við erum viðstödd stórmót á útileikvangi getum við verið virðuleg til fara þótt við klæðum okkur eftir veðri. Við sýnum einnig virðingu fyrir mótunum með því að borða ekki eða tyggja tyggigúmmí meðan á dagskránni stendur. Með viðeigandi klæðaburði og hegðun á samkomum upphefjum við Jehóva Guð og tilbeiðsluna á honum og heiðrum trúsystkini okkar.

Viðeigandi hegðun í húsi Guðs

10. Hvernig benti Páll á mikilvægi þess að hegða sér vel á safnaðarsamkomum?

10 Í 14. kafla 1. Kointubréfs er að finna viturlegar leiðbeiningar Páls postula um það hvernig safnaðarsamkomur eigi að fara fram. Hann sagði í lokin: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Korintubréf 14:40) Samkomurnar eru mikilvægur þáttur í starfi kristna safnaðarins og því verðum við að hegða okkur á þann hátt sem hæfir húsi Guðs.

11, 12. (a) Hvað þarf að kenna börnum um samkomurnar? (b) Hvernig geta börn tjáð trú sína á samkomum?

11 Það er sérstaklega mikilvægt að börnum sé kennt hvernig þau eigi að hegða sér á samkomum. Kristnir foreldrar ættu að útskýra fyrir þeim að þau eigi ekki að leika sér í ríkissalnum eða þar sem safnaðarbóknámið er haldið. Á þessum stöðum tilbiðjum við Jehóva og hlýðum á orð hans. Salómon konungur skrifaði: „Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra.“ (Prédikarinn 4:17) Móse benti Ísraelsmönnum á að safna saman fullorðnum og „börnum“. Hann sagði: „Safna þú saman lýðnum . . . til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin.“ — 5. Mósebók 31:12, 13.

12 Það er eins nú á dögum. Börn sækja samkomur með foreldrum sínum aðallega til þess að hlýða á og læra. Þegar þau eru fær um að fylgjast með og skilja grundvallarsannindi Biblíunnar geta þau einnig tjáð trú sína opinberlega með því að gefa stutt svör. (Rómverjabréfið 10:10) Ung börn gætu byrjað á því að svara einfaldri spurningu með nokkrum orðum. Í fyrstu gætu þau þurft að lesa svarið en með tímanum reyna þau að tjá sig með eigin orðum. Þetta er bæði gagnlegt og ánægjulegt fyrir börnin og einlæg svör þeirra gleðja hjörtu hinna fullorðnu. Að sjálfsögðu setja foreldrarnir gott fordæmi með því að svara sjálfir. Ef það er mögulegt væri gott fyrir börnin að hafa meðferðis eigin biblíu, söngbók og þau rit sem verið er að fara yfir. Þau ættu að læra að bera viðeigandi virðingu fyrir þessum ritum. Allt þetta minnir börnin á að samkomurnar eru heilagar.

13. Hvaða áhrif viljum við að samkomurnar hafi á þá sem sækja þær í fyrsta sinn?

13 Við viljum auðvitað ekki að samkomur okkar líkist messum kristna heimsins sem geta annaðhvort verið kuldalegar og yfirborðskenndar eða hávaðasamar eins og rokktónleikar. Samkomurnar í ríkissalnum ættu að vera hlýlegar og vinalegar án þess þó að vera of óformlegar. Við komum saman til að tilbiðja Jehóva og því ættu þessar stundir alltaf að vera virðulegar. Þegar þeir sem koma á samkomu í fyrsta sinn hafa hlustað á dagskrána og séð framkomu okkar og barnanna viljum við að þeir geti sagt: „Guð er sannarlega hjá yður.“ — 1. Korintubréf 14:25.

Fastur liður í tilbeiðslu okkar

14, 15. (a) Hvað verðum við að gera til að vanrækja ekki musteri Guðs? (b) Hvernig er Jesaja 66:23 að uppfyllast núna?

14 Eins og áður sagði safnar Jehóva fólki sínu saman og gleður það í „bænahúsi“ sínu, andlega musterinu. (Jesaja 56:7) Hinn trúfasti Nehemía minnti samlanda sína á að þeir ættu að bera virðingu fyrir hinu bókstaflega musteri með því að styðja það fjárhagslega. Hann sagði: „Eigi viljum vér yfirgefa [„vanrækja,“ NW] musteri Guðs vors.“ (Nehemíabók 10:39) Við ættum ekki heldur að virða að vettugi boð Jehóva um að tilbiðja hann í „bænahúsi“ hans.

15 Í spádómi benti Jesaja á nauðsyn þess að koma saman að staðaldri til að tilbiðja Jehóva. Þar segir: „Á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér — segir Drottinn.“ (Jesaja 66:23) Þetta á sér stað núna. Sannkristnir menn koma saman til að tilbiðja Jehóva í hverri viku hvers mánaðar. Þeir gera það meðal annars með því að sækja safnaðarsamkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Ert þú meðal þeirra sem koma reglulega saman og „falla fram“ fyrir Guði?

16. Af hverju ætti regluleg samkomusókn að vera fastur liður í lífi okkar núna?

16Jesaja 66:23 á líka við um lífið í hinum fyrirheitna nýja heimi. Þá mun „allt hold“ í bókstaflegum skilningi „koma til þess að falla fram“ fyrir Jehóva, eða tilbiðja hann, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð um alla eilífð. Í nýja heiminum verður það fastur liður í trúarlífi okkar að safnast saman til að tilbiðja Jehóva. Ætti regluleg samkomusókn þá ekki einnig að vera fastur liður í lífi okkar núna?

17. Af hverju þurfum við að mæta á samkomur „því fremur sem [við sjáum] að dagurinn færist nær“?

17 Núna, þegar endirinn nálgast, ættum við að vera staðráðnari en nokkru sinni fyrr að koma saman til að tilbiðja Jehóva á samkomum. Þar sem við berum virðingu fyrir heilagleika samkomnanna leyfum við ekki að vinna, heimalærdómur eða kvöldnámskeið verði til þess að við missum að staðaldri af samkomum með trúsystkinum okkar. Við þurfum á þeim styrk að halda sem félagsskapur við bræður og systur veitir. Safnaðarsamkomur gefa okkur tækifæri til að kynnast betur, gefa gætur hvert að öðru og hvetja hvert annað „til kærleika og góðra verka“. Við þurfum að gera þetta „því fremur sem [við sjáum] að dagurinn færist nær“. (Hebreabréfið 10:24, 25) Við skulum því alltaf bera viðeigandi virðingu fyrir helgum samkomum með því að mæta reglulega, hegða okkur á réttan hátt og vera viðeigandi til fara. Þannig sýnum við að við höfum sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt.

Til upprifjunar

• Hvað sýnir að okkur ber að líta á samkomur þjóna Jehóva sem heilagar?

• Hvaða dagskrárliðir á samkomum vitna um heilagleika þeirra?

• Hvernig geta börnin sýnt að þau virða heilagleika samkomnanna?

• Af hverju ætti regluleg samkomusókn að vera fastur liður í lífi okkar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 14]

Á samkomum tilbiðjum við Jehóva og þær eru heilagar, hvar sem þær eru haldnar.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Börnin okkar á meðal koma á samkomur til að hlýða á og læra.