Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefur þú sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt?

Hefur þú sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt?

Hefur þú sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt?

„Hafið gát á . . . að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:15, 16.

1. Hvaða algenga viðhorf tileinka þjónar Jehóva sér ekki?

Í HEIMINUM er lögð sífellt minni áhersla á það sem er heilagt. Franskur félagsfræðingur að nafni Edgar Morin sagði: „Allar undirstöður góðs siðferðis eru nú véfengdar — Guð, náttúran, föðurlandið, mannkynssagan og rökhugsun. . . . Fólk velur og hafnar hvaða siðferðisgildum það vill fylgja.“ Þetta endurspeglar „anda heimsins“ eða „anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa“. (1. Korintubréf 2:12; Efesusbréfið 2:2) Þeir sem hafa vígt sig Jehóva og lúta fúslega drottinvaldi hans sýna ekki slíkt virðingarleysi. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Þjónar Guðs gera sér öllu heldur grein fyrir því hve mikilvægt er að virða það sem er heilagt í tilbeiðslunni á Jehóva. Hvað ætti að vera heilagt í lífi okkar? Í þessari grein verður rætt um fimm atriði sem eru heilög í augum allra þjóna Guðs. Í næstu grein verður fjallað um safnaðarsamkomur og heilagleika þeirra. En hvað þýðir orðið „heilagur“?

2, 3. (a) Hvernig er lögð áhersla á heilagleika Jehóva í Biblíunni? (b) Hvernig sýnum við að við lítum á nafn Jehóva sem heilagt?

2 Í biblíulegri hebresku merkir orðið „heilagur“ það sem er aðgreint. Í tengslum við tilbeiðslu er orðið „heilagur“ notað um það sem er aðgreint frá almennri notkun eða helgað. Jehóva er heilagur í æðsta skilningi. Hann er kallaður ‚Hinn heilagi‘. (Orðskviðirnir 9:10; 30:3) Á vefjarhetti æðsta prestsins í Forn-Ísrael var gullspöng með áletruninni: „Heilagleiki tilheyrir Jehóva“. (2. Mósebók 28:36, 37, NW) Á himnum standa kerúbar og serafar frammi fyrir hásæti Jehóva og í Biblíunni er sagt að þeir hrópi: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn.“ (Jesaja 6:2, 3; Opinberunarbókin 4:6-8) Með þessari endurtekningu er lögð áhersla á að Jehóva er heilagur, hreinn og tær í æðsta skilningi. Hann er uppspretta heilagleikans.

3 Nafn Jehóva er heilagt. Sálmaritarinn söng: „Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!“ (Sálmur 99:3) Jesús kenndi okkur að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) María, móðir Jesú, sagði: „Önd mín miklar Drottin. . . . Mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.“ (Lúkas 1:46, 49) Þar sem við erum þjónar Jehóva lítum við á nafn hans sem heilagt og forðumst að gera nokkuð sem gæti sett smánarblett á það. Auk þess höfum við sama viðhof til heilagleika og Jehóva — við álítum það heilagt sem hann álítur heilagt. — Amos 5:14, 15.

Af hverju berum við djúpa virðingu fyrir Jesú?

4. Hvers vegna er Jesús kallaður „hinn heilagi“ í Biblíunni?

4 Þar sem Jesús er eingetinn sonur hins heilaga Guðs, Jehóva, var hann skapaður heilagur. (Jóhannes 1:14; Kólossubréfið 1:15; Hebreabréfið 1:1-3) Þess vegna er hann kallaður „hinn heilagi Guðs“. (Jóhannes 6:69) Hann hélt heilagleika sínum þegar líf hans var flutt af himnum niður til jarðar, því að það var í krafti heilags anda sem María ól hann. Engill hafði sagt við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig . . . og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.“ (Lúkas 1:35) Í bæn einni kölluðu kristnir menn í Jerúsalem Jesú tvívegis heilagan þjón Jehóva. — Postulasagan 4:27, 30.

5. Hvaða helga verkefni átti Jesús að sinna á jörðinni og hvers vegna er blóð hans dýrmætt?

5 Jesús var sendur til jarðar til að sinna helgu verkefni. Þegar hann lét skírast árið 29 var hann smurður til starfa sem æðsti prestur í hinu mikla andlega musteri Jehóva. (Lúkas 3:21, 22; Hebreabréfið 7:26; 8:1, 2) Auk þess átti hann að deyja fórnardauða. Úthellt blóð hans yrði lausnargjald til björgunar ófullkomnum mönnum. (Matteus 20:28; Hebreabréfið 9:14) Þess vegna lítum við á blóð Jesú sem heilagt eða ‚dýrmætt‘. — 1. Pétursbréf 1:19.

6. Hvernig lítum við á Jesú Krist og hvers vegna?

6 Við metum mikils konung okkar og æðsta prest, Jesú Krist, eins og Páll postuli benti á þegar hann skrifaði: „Guð [hefur] hátt upp hafið [son sinn] og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ (Filippíbréfið 2:9-11) Við sýnum að við höfum sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt með því að lúta fúslega leiðtoga okkar og ríkjandi konungi, Jesú Kristi, sem er höfuð kristna safnaðarins. — Matteus 23:10; Kólossubréfið 1:18.

7. Hvernig sýnum við Kristi undirgefni?

7 Undirgefni við Krist felur einnig í sér að sýna þeim mönnum viðeigandi virðingu sem hann notar til að leiða starfið sem hann stýrir. Við ættum að líta svo á að andasmurðu bræðurnir í hinu stjórnandi ráði sinni heilögu ábyrgðarverkefni og sömuleiðis umsjónarmennirnir sem þeir skipa til starfa á deildarskrifstofum, á umdæmis- og farandsvæðum og í söfnuðunum. Þess vegna þurfum við að bera djúpa virðingu fyrir þessu fyrirkomulagi og lúta því. — Hebreabréfið 13:7, 17.

Heilög þjóð

8, 9. (a) Í hvaða skilningi var Ísraelsþjóðin heilög? (b) Hvernig lagði Jehóva áherslu á mikilvægi þess að virða það sem heilagt er?

8 Jehóva gerði sáttmála við Ísraelsmenn og við það hlutu þeir sérstaka stöðu. Þessi nýja þjóð var helguð eða aðgreind frá öðrum. Jehóva sagði: „Þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir.“ — 3. Mósebók 19:2; 20:26.

9 Um leið og Ísraelsþjóðin var stofnuð lagði Jehóva áherslu á hve mikilvægt væri að virða það sem heilagt er. Það lá jafnvel dauðarefsing við því að snerta fjallið þar sem þeir fengu boðorðin tíu. Í vissum skilningi var Sínaífjall því álitið heilagt. (2. Mósebók 19:12, 23) Prestastéttin, tjaldbúðin og allt sem var innan hennar var líka heilagt. (2. Mósebók 30:26-30) En hvernig er þetta innan kristna safnaðarins?

10, 11. Hvers vegna má segja að kristinn söfnuður hinna andasmurðu sé heilagur og hvaða áhrif hefur það á ‚aðra sauði‘?

10 Kristinn söfnuður hinna andasmurðu er heilagur í augum Jehóva. (1. Korintubréf 1:2) Öllum andasmurðum kristnum mönnum á jörðinni, á hvaða tíma sem er, er líkt við heilagt musteri og Jehóva dvelur hjá þeim í þessu musteri fyrir milligöngu heilags anda síns. Þeir mynda hins vegar ekki hið mikla andlega musteri Jehóva. Páll postuli skrifaði: „Í [Jesú Kristi] er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni. Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.“ — Efesusbréfið 2:21, 22; 1. Pétursbréf 2:5, 9.

11 Páll skrifaði andasmurðum kristnum mönnum einnig: „Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? . . . Musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.“ (1. Korintubréf 3:16, 17) Fyrir milligöngu anda síns ‚býr‘ Jehóva hjá þeim og ‚gengur um meðal þeirra‘. (2. Korintubréf 6:16) Hann leiðir ávallt trúan ‚þjón‘ sinn. (Matteus 24:45-47) ‚Aðrir sauðir‘ meta mikils þann heiður að fá að vera í félagsskap hinna andasmurðu. — Jóhannes 10:16; Matteus 25:37-40.

Það sem er heilagt í lífi kristinna manna

12. Hvað er heilagt í lífi okkar og hvers vegna?

12 Það kemur ekki á óvart að margt sé heilagt í lífi andasmurðra kristinna manna og félaga þeirra. Samband okkar við Jehóva er heilagt. (1. Kroníkubók 28:9; Sálmur 36:8) Það er svo dýrmætt í augum okkar að við látum ekkert koma upp á milli okkar og Jehóva Guðs. (2. Kroníkubók 15:2; Jakobsbréfið 4:7, 8) Bænin gerir okkur kleift að viðhalda nánu sambandi við Jehóva. Daníel spámaður áleit bænina svo heilaga að hann hélt trúfastlega áfram að biðja til Jehóva eins og hann var vanur, jafnvel þótt það hefði getað kostað hann lífið. (Daníel 6:7-11) ‚Bænum hinna heilögu‘, það er að segja hinna andasmurðu, er líkt við reykelsi sem voru notuð til tilbeiðslu í musterinu. (Opinberunarbókin 5:8; 8:3, 4; 3. Mósebók 16:12, 13) Þessi líking leggur áherslu á heilagleika bænarinnar. Það er einstakur heiður að geta átt samskipti við alheimsdrottin. Því er ekki að undra að bænin sé heilög í lífi okkar.

13. Hvaða kraftur er heilagur og hvernig leyfum við honum að starfa í lífi okkar?

13 Annað sem er heilagt í lífi andasmurðra kristinna manna og félaga þeirra er heilagur andi. Þessi andi er starfskraftur Jehóva og þar sem hann starfar alltaf í samræmi við vilja hins heilaga Guðs er viðeigandi að hann skuli kallaður „andinn heilagi“ og ‚andi heilagleikans‘. (Jóhannes 14:26; Rómverjabréfið 1:4) Fyrir milligöngu heilags anda veitir Jehóva þjónum sínum kraft til að boða fagnaðarerindið. (Postulasagan 1:8; 4:31) Hann veitir þeim anda sinn „er honum hlýða“ og lifa „í andanum“ en láta ekki stjórnast af girnd holdsins. (Postulasagan 5:32; Galatabréfið 5:16, 25; Rómverjabréfið 8:5-8) Þessi öflugi kraftur gerir kristnum mönnum kleift að þroska með sér ‚ávöxt andans‘ — eða góða eiginleika — og sýna ‚heilaga breytni og guðrækni‘. (Galatabréfið 5:22, 23; 2. Pétursbréf 3:11) Ef við lítum svo á að andi Guðs sé heilagur forðumst við að gera hvaðeina sem gæti hryggt hann eða komið í veg fyrir að hann starfi í lífi okkar. — Efesusbréfið 4:30.

14. Hvaða heiðurs njóta hinir andasmurðu og aðrir sauðir sömuleiðis?

14 Við höfum þann heiður að bera nafn hins heilaga Guðs, Jehóva og vera vottar hans og það teljum við einnig heilagt. (Jesaja 43:10-12, 15) Jehóva hefur gert andasmurða kristna menn „hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála“. (2. Korintubréf 3:5, 6) Þeir hafa fengið það verkefni að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ og gera „allar þjóðir að lærisveinum“. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þeir sinna þessu verkefni trúfastlega. Milljónir auðmjúkra manna taka við fagnaðarerindinu og segja í táknrænum skilningi við hina andasmurðu: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sakaría 8:23) Aðrir sauðir þjóna fúslega sem „akurmenn“ og „víngarðsmenn“ fyrir hina andasmurðu þjóna Guðs og aðstoða þá dyggilega við að sinna boðunarstarfinu um allan heim. — Jesaja 61:5, 6.

15. Hvaða starf áleit Páll postuli heilagt og hvers vegna erum við sama sinnis?

15 Páll postuli áleit boðunarstarfið heilagt. Hann sagðist vera „helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum og inna af hendi prestþjónustu [„heilagt starf,“ NW] við fagnaðarerindi Guðs“. (Rómverjabréfið 15:16) Þegar hann skrifaði kristnum mönnum í Korintu talaði hann um þjónustu sína sem „fjársjóð“. (2. Korintubréf 4:1, 7) Í boðunarstarfinu kynnum við „Guðs orð“ sem er heilagt. (1. Pétursbréf 4:11) Hvort sem við erum andasmurð eða tilheyrum hópi annarra sauða lítum við á þetta starf sem heilagt verkefni.

„Fullkomnum helgun vora í guðsótta“

16. Hvernig getum við forðast að verða ‚vanheilög‘?

16 Páll postuli sagði trúsystkinum sínum að gæta þess að verða ekki ‚vanheilög‘. Hann hvatti þau til að ‚stunda helgun‘ og sagði: „Hafið gát á . . . að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af.“ (Hebreabréfið 12:14-16) Orðið „beiskjurót“ vísar til þeirra fáu innan safnaðarins sem gætu fundið að því hvernig tekið er á ýmsum málum. Þeir gætu til dæmis verið ósammála viðhorfi Guðs til heilagleika hjónabandsins eða siðferðilegs hreinleika. (1. Þessaloníkubréf 4:3-7; Hebreabréfið 13:4) Þeir gætu einnig tekið undir fráhvarfshugmyndir eða ‚vanheilagar hégómaræður‘ þeirra sem „hafa villst frá sannleikanum“. — 2. Tímóteusarbréf 2:16-18.

17. Hvers vegna þurfa hinir andasmurðu að leggja sig fram um að sýna sama viðhorf og Jehóva til heilagleika?

17 Páll skrifaði andasmurðum bræðrum sínum: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Þessi orð segja okkur að andasmurðir kristnir menn, „hluttakar himneskrar köllunar“, verði að leggja sig fram um að sýna, á öllum sviðum lífsins, að þeir hafi sama viðhorf og Jehóva til heilagleika. (Hebreabréfið 3:1) Sömuleiðis hvatti Pétur postuli andasmurða bræður sína: „Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar. Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.“ — 1. Pétursbréf 1:14, 15.

18, 19. (a) Hvernig sýna þeir sem tilheyra hinum ‚mikla múgi‘ að þeir hafa sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

18 En hvað um þá sem tilheyra hinum ‚mikla múgi‘ og munu lifa af ‚þrenginguna miklu‘? Þeir verða líka að sanna að þeir hafi sama viðhorf og Jehóva til þess sem er heilagt. Í Opinberunarbókinni er sagt að þeir veiti Jehóva „heilaga þjónustu“ (NW) í jarðneskum forgörðum hins andlega musteris. Þeir iðka trú á lausnarfórn Krists og hafa í táknrænum skilningi „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“. (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15) Þess vegna standa þeir hreinir frammi fyrir Jehóva og það leggur þeim þá skyldu á herðar að ‚hreinsa sig af allri saurgun á líkama og sál og fullkomna helgun sína í guðsótta‘.

19 Mikilvægur þáttur í lífi andasmurðra kristinna manna og félaga þeirra er að hittast reglulega til að tilbiðja Jehóva og rannsaka orð hans. Jehóva lítur svo á að samkomur þjóna sinna séu heilagar. Í næstu grein verður fjallað um það hvernig og hvers vegna við tileinkum okkur sama viðhorf og Jehóva til samkomna.

Til upprifjunar

• Hvaða veraldlega viðhof tileinka þjónar Jehóva sér ekki?

• Hvers vegna er Jehóva uppspretta alls þess sem er heilagt?

• Hvernig sýnum við að við virðum heilagleika Krists?

• Hvað ætti að vera heilagt í lífi okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Í Forn-Ísrael var prestastéttin, tjaldbúðin og allt sem var innan hennar heilagt.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Andasmurðir kristnir menn á jörðinni mynda heilagt musteri.

[Myndir á blaðsíðu 11]

Bænin og boðunarstarfið er heilagt.