Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getur þú notið velgengni?

Hvernig getur þú notið velgengni?

Hvernig getur þú notið velgengni?

FORELDRAR láta sér annt um börnin sín og vilja að þeim farnist vel í lífinu. Faðir okkar á himnum lætur sér sömuleiðis annt um okkur og vill að við séum farsæl. Hann sýnir umhyggju sína með því að segja okkur hvað stuðlar að velgengni og hvað ekki. Í Biblíunni er jafnvel fullyrt um þann sem gefur gaum að fyrirmælum Guðs: „Allt er hann gjörir lánast honum.“ — Sálmur 1:3.

En hvers vegna hefur mörgum gengið illa að lifa farsælu, hamingjusömu og tilgangsríku lífi? Með því að skoða nánar sálminn, sem vitnað er í hér á undan, getum við fundið svar við þeirri spurningu og komist að raun um hvernig við getum orðið farsæl.

Ráð hinna vondu

Sálmaritarinn varar við þeirri hættu að fara að „ráðum óguðlegra [„hinna vondu“, NW]“. (Sálmur 1:1) Satan djöfullinn er kallaður ‚hinn vondi‘. (Matteus 6:13, neðanmáls) Biblían segir okkur að hann sé „höfðingi þessa heims“ og að „allur heimurinn [sé] á valdi hins vonda.“ (Jóhannes 16:11; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er því engin furða að mörg þeirra ráða, sem heimurinn gefur, skuli endurspegla viðhorf hins vonda.

Hvers konar ráð veita vondir menn? Á heildina litið sýna þeir Guði fyrirlitningu. (Sálmur 10:13) Ráð þeirra bera vott um að þeir hunsi eða fyrirlíti Guð og þessi ráð eru mjög útbreidd. Samfélag nútímans elur á „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti“. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Fjölmiðlar ýta undir efnishyggju með því að hamra á því veraldlega viðhorfi að fá sem mest út úr lífinu. Um heim allan eyða fyrirtæki meira en 35 þúsund milljörðum íslenskra króna í að auglýsa vörur sínar til að telja neytendur á að kaupa þær — hvort sem þeir þarfnast þeirra eða ekki. Og þetta auglýsingaflóð hefur ekki aðeins breytt kaupvenjum fólks heldur einnig brenglað gildismat þess.

Þetta hefur haft þær afleiðingar að margir vilja sífellt eignast meira og meira, jafnvel þótt þeir eigi hluti sem fólk gat aðeins látið sig dreyma um hér áður fyrr. Þeim finnst eins og þeir verði að eiga þessa hluti til að geta verið hamingjusamir. Slíkur hugsunarháttur byggist á lygi og „er ekki frá föðurnum, heldur er [hann] frá heiminum“. — 1. Jóhannesarbréf 2:16.

Skapari okkar veit hvað getur veitt okkur sanna hamingju. Ráð hans eru gerólík ráðum hinna vondu. Það mætti segja að þeir sem reyna að hljóta velþóknun Guðs en fylgja jafnframt efnishyggju heimsins séu að reyna að ganga á tveimur stígum samtímis. Það er einfaldlega ekki hægt. Það er því alveg skiljanlegt að Biblían skuli ráðleggja: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari.“ — Rómverjabréfið 12:2.

Láttu ekki heiminn móta þig

Heimurinn, sem er undir áhrifum Satans, reynir að láta sem hann beri velferð okkar fyrir brjósti. En við þurfum að vera á varðbergi. Við megum ekki gleyma því að Satan blekkti Evu, fyrstu konuna, í eigingjörnum tilgangi. Síðan notaði hann hana til að fá Adam til að syndga. Satan notar einnig menn nú á dögum til að koma illum ráðum sínum á framfæri.

Til dæmis þurfti David, sem nefndur var í greininni á undan, oft að vinna yfirvinnu og fara í viðskiptaferðir. „Ég lagði af stað snemma á mánudagsmorgnum og kom til baka á fimmtudagskvöldum,“ sagði hann. Fjölskyldan, velviljaðir vinir, og vinnufélagar vissu að til að ná starfsframa væri nauðsynlegt að færa fórnir. Þau hvöttu David til að halda sínu striki „fjölskyldunnar vegna“ og sögðu að þessi stífa dagskrá væri nauðsynleg í fáein ár á meðan hann væri að koma undir sig fótunum. David sagði: „Þau sögðu að þetta væri það besta sem ég gæti gert fyrir fjölskyldu mína af því að með þessu móti gæti ég þénað meiri pening fyrir hana — verið farsælli en ella. Vinir mínir sannfærðu mig um að ég væri í rauninni að gera meira fyrir fjölskylduna þótt ég væri ekki hjá henni.“ Margir hafa hlustað á slík ráð og unnið baki brotnu eins og David til að geta veitt fjölskyldu sinni allt sem hún virðist þurfa á að halda. En færir það hamingju að fylgja slíkum ráðum? Hvers þarfnast fjölskyldur í raun og veru?

David komst að raun um það þegar hann var í viðskiptaferð. „Ég var að tala við Angelicu, dóttur mína, í símanum og þá sagði hún: ,Pabbi, af hverju langar þig ekki til að vera heima með okkur?‘ Þetta fékk mjög á mig,“ sagði hann. Það sem hún sagði styrkti löngun hans til að segja upp starfi sínu. David ákvað að veita fjölskyldunni það sem hún raunverulega þarfnaðist — meiri tíma með honum.

Að fylgja ráðum Guðs er til farsældar

Hvernig geturðu staðið gegn útbreiddum og villandi ráðum heimsins? Sálmaritarinn bendir á að farsæll og hamingjusamur maður sé sá sem „hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt“. — Sálmur 1:2.

Þegar Guð skipaði Jósúa leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar fékk hann þau fyrirmæli að ‚hugleiða orð Guðs um daga og nætur‘. Já, að lesa og hugleiða Ritninguna var nauðsynlegt. En Jósúa þurfti líka að ‚gæta þess að gera allt það sem í orði Guðs var skrifað‘. Maður verður að sjálfsögðu ekki farsæll með því einu að lesa í Biblíunni. Það er líka mikilvægt að fara eftir því sem maður les. Jósúa var lofað: „Þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ — Jósúabók 1:8.

Ímyndaðu þér brosandi barn sitja í kjöltu ástríks foreldris og hlusta á uppáhaldssöguna sína. Þau kunna virkilega að meta þessar samverustundir sama hve oft þau hafa lesið söguna. Eins finnst þeim manni, sem elskar Guð, mjög ánægjulegt að lesa daglega í Biblíunni og verja þannig tíma með himneskum föður sínum. Með því að fylgja ráðum og leiðsögn Jehóva verður slíkur maður „sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ — Sálmur 1:3.

Tréð, sem sálmaritarinn lýsir, vex ekki af tilviljun. Bóndinn kemur því haganlega fyrir hjá uppsprettulind og annast það. Á svipaðan hátt leiðréttir faðirinn á himnum viðhorf okkar með því að veita okkur ráð frá Ritningunni. Þannig döfnum við og þroskum með okkur eiginleika Guði að skapi.

En „svo fer eigi hinum óguðlega“. Það má vel vera að hinum óguðlega virðist vegna vel um tíma en á endanum fer illa fyrir honum. Hann mun „eigi standast í dóminum“ því „vegur óguðlegra endar í vegleysu“. — Sálmur 1:4-6.

Þú skalt því ekki láta heiminn móta lífsgildi þín og markmið. Þótt þú sért hæfileikaríkur og hafir ef til vill mikla möguleika á að ná langt í þessum heimi skaltu gæta að því hvernig þú notar hæfileika þína eða hvernig þú leyfir heiminum að nota þá. Tilgangslaus ásókn í efnisleg gæði getur valdið því að við ‚visnum‘ í andlegum skilningi. En gott samband við Guð færir okkur aftur á móti farsæld og sanna hamingju.

Hvernig getur þér farnast vel?

Hvernig stendur á því að allt lánast þeim manni sem fylgir ráðum Guðs? Sálmaritarinn var ekki að tala um veraldlega farsæld í þessu sambandi. Þjónar Guðs eru lánsamir af því að þeir gera vilja hans — og það leiðir alltaf til góðs. Lítum á hvernig meginreglur Biblíunnar stuðla að farsælu lífi.

Fjölskyldan: Biblían hvetur eiginmenn til að „elska konur sínar eins og eigin líkami“ og kristnum eiginkonum er sagt að bera djúpa virðingu fyrir mönnum sínum. (Efesusbréfið 5:28, 33) Foreldrar eru hvattir til þess að verja tíma með börnum sínum, hlæja með þeim og kenna þeim það sem skiptir máli í lífinu. (5. Mósebók 6:6, 7; Prédikarinn 3:4) Orð Guðs ráðleggur einnig foreldrum: „Reitið ekki börn yðar til reiði.“ Þegar foreldrar fylgja þessu ráði er auðveldara fyrir börnin að ‚hlýða foreldrum sínum‘ og ‚heiðra föður sinn og móður‘. (Efesusbréfið 6:1-4) Það stuðlar að farsælu fjölskyldulífi að fylgja þessum ráðum Guðs.

Vinir: Flestir vilja eiga vini. Við erum þannig úr garði gerð að geta sýnt og þegið ástúð. Jesús sagði við fylgjendur sína að þeir ættu að „elska hver annan“. (Jóhannes 13:34, 35) Meðal fylgjenda hans getum við fundið vini sem við elskum og treystum — jafnvel fyrir okkar innstu tilfinningum og hugsunum. (Orðskviðirnir 18:24) Umfram allt getum við ‚nálægt okkur Guði‘ og jafnvel verið kölluð vinir hans þegar við fylgjum meginreglum Biblíunnar. — Jakobsbréfið 2:23; 4:8.

Tilgangur í lífinu: Fólk, sem er raunverulega farsælt, lifir ekki aðeins innantómu hversdagslífi heldur hefur það fundið tilgang í lífinu. Það byggir ekki líf sitt á þessum óstöðuga heimi. Markmið þess snúast um hinn raunverulega tilgang lífsins og leiða því til sannrar og varanlegrar hamingju. Hvað er það sem gefur lífinu tilgang? „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.

Von: Við höfum framtíðarvon ef við eigum Guð að vini. Páll postuli hvatti kristna menn til að vona ekki á ‚fallvaltan auð, heldur Guð‘. Og hann bætti við: „Með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ (1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Hið sanna líf verður brátt að veruleika þegar himneskt ríki Guðs endurreisir paradís á jörð. — Lúkas 23:43, NW.

Enda þótt þú farir eftir meginreglum Biblíunnar þýðir það ekki að þú sért laus við öll vandamál. En þér verður hlíft við mörgum af þeim hörmungum og þjáningum sem óguðlegir menn skapa sér sjálfir. David og milljónir annarra hafa kynnst af eigin raun mikilvægi þess að fylgja meginreglum Biblíunnar. Eftir að hafa fundið starf með hentugri vinnutíma sagði David: „Ég met mikils að eiga gott samband við konu mína og börn og að geta þjónað Jehóva Guði sem safnaðaröldungur.“ Það er því engin furða að sálmaritarinn skuli segja um þann sem fylgir ráðum Guðs: „Allt er hann gjörir lánast honum.“

[Rammi á blaðsíðu 6]

FIMM SKREF Í ÁTT AÐ VELGENGNI

1 Láttu ekki gildismat heimsins móta þig.

Sálmur 1:1; Rómverjabréfið 12:2

2 Lestu daglega í orði Guðs og hugleiddu það sem þú lest.

Sálmur 1:2, 3

3 Fylgdu ráðum Biblíunnar.

Jósúabók 1: 7-9

4 Ræktaðu vináttu við Guð.

Jakobsbréfið 2:23; 4:8.

5 Óttastu hinn sanna Guð og haltu boðorð hans.

Prédikarinn 12:13

[Myndir á blaðsíðu 7]

Gerir þú það sem þarf til að vera farsæll?