Hvernig meturðu velgengni?
Hvernig meturðu velgengni?
SUMIR álíta hann einn snjallasta verðbréfasala á Wall Street sem uppi hefur verið. Hann var þekktur fyrir að taka viturlegar ákvarðanir í viðskiptum og varð þar af leiðandi vellauðugur. Hann klæddist sérsaumuðum jakkafötum, bjó í 29 herbergja villu, átti svartan Rolls Royce og var með einkabílstóra. Maðurinn sem hér um ræðir var Jesse Livermore.
David * var á svipaðri braut í lífinu. Hann starfaði sem aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri hjá stóru fyrirtæki sem sá um grafíska hönnun og átti góða möguleika á að verða forstjóri dótturfélags fyrirtækisins. Auður og heiður hafði vissulega mikið aðdráttarafl. En David tók persónulega ákvörðun sem varð til þess að hann sagði upp vinnunni. „Ég veit að ég mun aldrei aftur fara út á þessa framabraut,“ sagði hann. Voru þetta mistök? Hvað finnst þér?
Margir líta svo á að velgengni sé fólgin í auði, vinsældum og frama. En þeir sem búa við efnislega velmegun geta samt sem áður fundið fyrir tómleika og skort tilgang í lífinu. Þannig var það hjá Jesse Livermore. Þrátt fyrir mikil auðæfi einkenndist líf hans af sorg og miklum þjáningum. Hann var þunglyndur, átti að baki misheppnuð hjónabönd og
sambandið við syni hans var ekki gott. Dag einn, eftir að hafa glatað næstum öllum auðæfum sínum, sat hann sorgmæddur á bar á lúxushóteli. Hann pantaði sér vínglas, dró fram leðurklædda minnisbók og skrifaði kveðjubréf til eiginkonu sinnar. Þegar hann hafði klárað úr glasinu fór hann í myrkt fatahengi og svipti sig lífi.Enda þótt orsakir sjálfsvígs séu vissulega margbreytilegar staðfestir þessi frásaga sannleikann í orðum Biblíunnar: „Þeir, sem ríkir vilja verða, . . . [valda] sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.
Gæti verið að þeir sem meta velgengni út frá auði, stöðu eða frama noti rangan mælikvarða? Finnst þér þú eiga velgengni að fagna? Hvers vegna segirðu það? Við hvað miðarðu? Hvað mótar gildismat þitt? Greinin á eftir fjallar um áreiðanleg ráð sem hafa gert milljónum kleift að njóta velgengni. Skoðum hvernig þú getur einnig notið velgengni.
[Neðanmáls]
^ gr. 3 Nafninu hefur verið breytt.