Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitið ykkur í kærleika Guðs

Varðveitið ykkur í kærleika Guðs

Varðveitið ykkur í kærleika Guðs

„Þér, elskaðir . . . varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs . . . til eilífs lífs.“ — JÚDASARBRÉFIÐ 20, 21.

1, 2. Hvernig geturðu varðveitt sjálfan þig í kærleika Guðs?

JEHÓVA elskar mannheiminn svo heitt að hann gaf eingetinn son sinn til að þeir sem trúa á hann hljóti eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Er ekki yndislegt að finna fyrir slíkum kærleika? Ef þú ert þjónn Jehóva viltu örugglega fá að njóta kærleika hans að eilífu.

2 Lærisveinninn Júdas varpar ljósi á hvernig þú getur varðveitt sjálfan þig í kærleika Guðs. „Byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú,“ skrifaði hann. „Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ (Júdasarbréfið 20, 21) Með því að nema orð Guðs og boða fagnaðarerindið byggjum við okkur upp í okkar „helgustu trú“ eða kenningum kristninnar. Til að varðveita þig í kærleika Guðs þarftu að biðja „í heilögum anda“, það er að segja undir áhrifum hans. Viljir þú hljóta eilíft líf þarftu einnig að trúa á lausnarfórn Jesú Krists. — 1. Jóhannesarbréf 4:10.

3. Hvers vegna eru sumir ekki lengur vottar Jehóva?

3 Sumir sem voru einu sinni í trúnni varðveittu sig ekki í kærleika Guðs. Þeir völdu óguðlega lífsstefnu og eru því ekki vottar Jehóva lengur. Hvernig geturðu komið í veg fyrir að það hendi þig? Við hvetjum þig til að íhuga það sem hér fer á eftir. Það getur hjálpað þér að forðast syndina og varðveita sjálfan þig í kærleika Guðs.

Sýndu að þú elskir Guð

4. Hve mikilvægt er að hlýða Guði?

4 Sýndu að þú elskir Guð með því að hlýða honum. (Matteus 22:37) „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Ef þú temur þér að hlýða Guði áttu auðveldara með að standast freistingar og hlýðnin veitir þér gleði. Sálmaskáldið sagði: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra . . . heldur hefir yndi af lögmáli Drottins.“ — Sálmur 1:1, 2.

5. Hvað knýr kærleikurinn til Guðs þig til að gera?

5 Ef þú elskar Jehóva hefurðu sterka hvöt til að forðast alvarlega synd sem myndi setja blett á nafn hans. „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi,“ bað Agúr, „en veit mér minn deildan verð. Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: ‚Hver er Drottinn?‘ eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.“ (Orðskviðirnir 30:1, 8, 9) Vertu staðráðinn í að misbjóða ekki nafni Guðs með því að kasta rýrð á það. Reyndu heldur alltaf að gera rétt og vera Guði til heiðurs. — Sálmur 86:12.

6. Hvað gæti gerst ef þú færir að syndga að yfirlögðu ráði?

6 Biddu föðurinn á himnum reglulega að hjálpa þér að standast freistingar. (Matteus 6:13; Rómverjabréfið 12:12) Fylgdu leiðbeiningum hans stöðuglega þannig að bænir þínar hindrist ekki. (1. Pétursbréf 3:7) Það gæti haft skelfilegar afleiðingar ef þú færir að syndga af ásettu ráði því að Jehóva hylur sig táknrænt í skýi fyrir hinum uppreisnargjörnu svo að bænir þeirra berist ekki til hans. (Harmljóðin 3:42-44) Vertu því auðmjúkur og biddu hann að hjálpa þér svo að þú gerir ekkert sem gæti hindrað að hann heyri bænir þínar. — 2. Korintubréf 13:7.

Sýndu að þú elskir son Guðs

7, 8. Hvernig geta ráðleggingar Jesú hjálpað okkur að forðast syndina?

7 Sýndu að þú elskir Jesú Krist með því að hlýða boðorðum hans. Það hjálpar þér forðast syndina. „Ef þér haldið boðorð mín,“ sagði Jesús, „verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ (Jóhannes 15:10) Hvernig geta orð Jesú hjálpað þér að varðveita sjálfan þig í kærleika Guðs?

8 Orð Jesú geta hjálpað þér að halda siðferðisreglur Guðs. „Þú skalt ekki drýgja hór,“ stóð í lögmálinu sem Guð gaf Ísrael. (2. Mósebók 20:14) Jesús dró hins vegar fram meginregluna að baki þessu boðorði og sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:27, 28) Pétur postuli benti á að sumir í söfnuðinum á fyrstu öld hefðu „augu . . . full hórdóms“ og ‚flekuðu óstyrkar sálir‘. (2. Pétursbréf 2:14) Þú getur hins vegar forðast syndir af kynferðislegu tagi með því að elska Guð og Krist, hlýða þeim og vera staðráðinn í að varðveita sambandið við þá.

Láttu anda Jehóva leiða þig

9. Hvað gæti gerst ef við tækjum að iðka synd?

9 Biddu Jehóva að gefa þér heilagan anda sinn og láttu hann leiða þig. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:19-25) Ef þú tækir að iðka synd gæti Guð tekið anda sinn frá þér. Eftir að Davíð hafði syndgað með Batsebu sárbændi hann Guð: „Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.“ (Sálmur 51:13) Sál konungur glataði hins vegar anda Guðs vegna þess að hann iðraðist ekki synda sinna. Sál syndgaði með því að færa brennifórn og með því að þyrma konungi Amalekíta, sauðum þeirra og nautum. Eftir það tók Jehóva heilagan anda sinn frá Sál. — 1. Samúelsbók 13:1-14; 15:1-35; 16:14-23.

10. Af hverju ættirðu að ýta frá þér tilhugsuninni um að drýgja synd?

10 Ýttu jafnvel frá þér tilhugsuninni um að drýgja synd. Páll postuli skrifaði: „Ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar.“ (Hebreabréfið 10:26-31) Það væri ákaflega dapurlegt ef þú færir að iðka synd af ásettu ráði.

Sýndu öðrum einlægan kærleika

11, 12. Hvernig getur kærleikur og virðing forðað manni frá því að drýgja synd af kynferðislegu tagi?

11 Kærleikur til náungans ætti að aftra þér frá að drýgja synd af kynferðislegu tagi. (Matteus 22:39) Náungakærleikurinn knýr þig til að varðveita hjartað svo að það tæli þig ekki til að „stela“ ást giftrar manneskju. Það gæti orðið undanfari hjúskaparbrots. (Orðskviðirnir 4:23; Jeremía 4:14; 17:9, 10) Líktu eftir hinum ráðvanda Job. Hann leyfði sér ekki að „líta til“ nokkurrar konu nema en sinnar eigin. — Jobsbók 31:1.

12 Virðing fyrir heilagleika hjónabandsins getur komið í veg fyrir að þú drýgir alvarlega synd. Samkvæmt fyrirætlun Guðs voru heiðvirt hjónaband og kynmök leiðin til að fjölga mannkyninu. (1. Mósebók 1:26-28) Höfum hugfast að kynfærin hafa það hlutverk að mynda nýtt líf og lífið er heilagt. Þeir sem drýgja hór og fremja hjúskaparbrot óhlýðnast Guði, auvirða kynlífið, vanvirða heilagleika hjónbandsins og syndga gegn eigin líkama. (1. Korintubréf 6:18) En sá sem elskar Guð og náungann og temur sér að hlýða Guði gerir ekkert sem gæti orðið þess valdandi að honum yrði vikið úr söfnuðinum.

13. Í hvaða skilningi glatar siðlaus manneskja „eigum sínum“?

13 Við þurfum að bæla niður syndugar hugsanir þannig að við særum ekki ástvini okkar. „Sá sem leggur lag sitt við skækjur, glatar eigum sínum,“ segir í Orðskviðunum 29:3. Eiginmaður, sem fremur hjúskaparbrot en iðrast ekki, spillir sambandi sínu við Guð og skaðar fjölskylduna. Konan hans hefur fullgilda ástæðu til að skilja við hann. (Matteus 19:9) Hvort sem það er eiginmaðurinn eða eiginkonan sem gerist brotleg getur hjónaskilnaður valdið saklausa makanum, börnunum og öðrum miklum sársauka. Ætti ekki vitneskjan um það hvílíkt tjón er hægt að vinna með siðlausu hátterni að vera okkur sterk hvöt til að forðast freistinguna?

14. Hvað lærdóm má draga af Orðskviðunum 6:30-35 um syndsamlegt athæfi?

14 Þar sem ekki er hægt að bæta fyrir hjúskaparbrot ætti það að vera manni sterk hvöt til að forðast þennan mjög svo eigingjarna verknað. Í Orðskviðunum 6:30-35 kemur fram að fólk getur haft samúð með þjófi sem stelur til að seðja hungur sitt en það fyrirlítur hórdómsmanninn vegna þess að hvatir hans eru illar. Hann ‚tortímir sjálfum sér‘. Meðan Móselögin voru í gildi voru slíkir menn teknir af lífi. (3. Mósebók 20:10) Sá sem fremur hjúskaparbrot veldur öðrum sársauka til þess eins að fullnægja girndum sínum. Hórdómsmaður, sem iðrast ekki, varðveitir sig ekki í kærleika Guðs og er því vikið úr hreinum söfnuði Guðs.

Varðveittu hreina samvisku

15. Hvernig er komið fyrir samvisku sem er brennimerkt?

15 Ef við viljum varðveita okkur í kærleika Guðs megum við ekki láta samviskuna verða ónæma fyrir syndinni. Við megum auðvitað ekki tileinka okkur hrakandi siðferði heimsins heldur verðum við að vera vandfýsin á félagsskap, lesefni og afþreyingu. Páll segir að „á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni“. (1. Tímóteusarbréf 4:1, 2) Brennimerkt samviska er eins og tilfinningalaust hold sem er þakið örvef eftir bruna. Slík samviska segir manni ekki að forðast fráhvarfsmenn eða aðstæður sem gætu orðið þess valdandi að maður félli frá trúnni.

16. Af hverju er afar mikilvægt að hafa hreina samvisku?

16 Hjálpræði okkar er undir því komið að við höfum hreina samvisku. (1. Pétursbréf 3:21) Með því að trúa á úthellt blóð Jesú höfum við hreinsað samviskuna af dauðum verkum „til að þjóna Guði lifanda“. (Hebreabréfið 9:13, 14) Ef við syndguðum af ásettu ráði myndum við saurga samviskuna og værum ekki lengur hrein og hæf til að þjóna Guði. (Títusarbréfið 1:15) Með hjálp Jehóva getum við hins vegar haft hreina samvisku.

Fleiri leiðir til að forðast ranga breytni

17. Hvers vegna er það til góðs að fylgja Jehóva dyggilega?

17 ‚Fylgdu Drottni trúlega‘ eins og Kaleb gerði forðum daga. (5. Mósebók 1:34-36) Gerðu það sem Guð krefst af þér og láttu þér ekki til hugar koma að taka þátt í „borðhaldi illra anda“. (1. Korintubréf 10:21) Hafnaðu fráhvarfshugmyndum. Þiggðu þakklátur andlegu fæðuna sem er aðeins fáanleg á borði Jehóva. Þá læturðu hvorki falskennara né illa anda leiða þig afvega. (Efesusbréfið 6:12; Júdasarbréfið 3, 4) Einbeittu þér að andlegum málum svo sem biblíunámi, samkomum og boðunarstarfi. Það veitir þér hamingju að fylgja Jehóva dyggilega og vera önnum kafinn í starfi Drottins. — 1. Korintubréf 15:58.

18. Hvaða áhrif getur guðsótti haft á breytni þína?

18 Vertu staðráðinn í að „þjóna Guði . . . með lotningu og ótta“. (Hebreabréfið 12:28) Ef þú berð óttablandna virðingu fyrir Jehóva hefurðu sterka hvöt til að forðast ranga breytni í sérhverri mynd. Það hjálpar þér að fara eftir ráðum Péturs til andasmurðra samþjóna sinna: „Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.“ — 1. Pétursbréf 1:17.

19. Af hverju ættirðu að fara dag hvern eftir því sem þú lærir af orði Guðs?

19 Farðu daglega eftir því sem þú lærir af orði Guðs. Það hjálpar þér að forðast alvarlega synd vegna þess að þá ertu ‚jafnt og þétt að temja skilningarvitin til að greina gott frá illu‘. (Hebreabréfið 5:14) Vertu ekki kærulaus í orðum eða verkum. Vertu heldur árvakur þannig að þú breytir viturlega og ‚notir hverja stund því að dagarnir eru vondir. Reyndu að skilja hver sé vilji Drottins‘ og gerðu hann staðfastlega. — Efesusbréfið 5:15-17; 2. Pétursbréf 3:17.

20. Af hverju ættum við að forðast ágirnd?

20 Forðastu ágirnd með öllu og girnstu ekki það sem tilheyrir öðrum. Í einu af boðorðunum tíu segir: „Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ (2. Mósebók 20:17) Þetta lagaboð verndaði hús manns, konu hans, þjóna, búpening og annað sem hann átti. Það er þó enn mikilvægara að forðast ágirnd vegna þess að hún saurgar manninn eins og Jesús sagði. — Markús 7:20-23.

21, 22. Hvaða fyrirbyggjandi ráðstafanir gæti kristinn maður gert til að forðast syndina?

21 Gerðu fyrirbyggjandi ráðstafanir til þess að girnd leiði ekki til syndar. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ (Jakobsbréfið 1:14, 15) Segjum til dæmis að maður hafi átt við áfengisvandamál að stríða. Þá ákveður hann ef til vill að eiga ekki áfengi á heimilinu. Kristinn maður getur einnig þurft að færa sig um set á vinnustað eða skipta um vinnu til að forðast freistingar af kynferðislegu tagi. — Orðskviðirnir 6:23-28.

22 Stígðu aldrei fyrsta skrefið í átt til syndar. Það að daðra og gæla við siðlausar hugsanir getur leitt til hórdóms eða hjúskaparbrots. Smávægilegar lygar gætu ýtt undir stærri lygar og orðið til þess að menn fari að temja sér að ljúga. Smáhnupl getur sljóvgað samvisku manns þannig að hann fari að stela í stærri stíl. Ef við umberum fráhvarfshugmyndir að einhverju leyti gæti það verið undanfari þess að við gerum algert fráhvarf frá trúnni. — Orðskviðirnir 11:9; Opinberunarbókin 21:8.

Hvað áttu að gera ef þú hefur syndgað?

23, 24. Hvaða hughreystingu er að finna í 2. Kroníkubók 6:29, 30 og Orðskviðunum 28:13?

23 Allir menn eru ófullkomnir. (Prédikarinn 7:20) En ef þú hefur drýgt alvarlega synd getur bæn Salómons konungs við vígslu musterisins verið þér til hughreystingar. Salómon bað til Guðs: „Ef þá einhver maður af öllum lýð þínum Ísrael ber fram einhverja bæn eða grátbeiðni, af því að hann finnur til angurs og sársauka og fórnar höndum til þessa húss, þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans — því að þú einn þekkir hjörtu manna.“ — 2. Kroníkubók 6:29, 30.

24 Já, Jehóva þekkir hjörtu okkar og hann er fús til að fyrirgefa. Í Orðskviðunum 28:13 stendur: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.“ Við getum hlotið miskunn Guðs ef við iðrumst synda okkar, játum þær og látum af þeim. En hvað annað getur hjálpað þér að varðveita sjálfan þig í kærleika Guðs ef þér finnst sambandið við hann ekki nógu sterkt?

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við varðveitt okkur í kærleika Guðs?

• Hvernig getur kærleikur til Guðs og Krists hjálpað okkur að forðast syndina?

• Af hverju er einlægur náungakærleikur hjálp til að forðast synd af kynferðislegu tagi?

• Nefndu nokkrar leiðir til að forðast ranga breytni.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 22]

Júdas varpar ljósi á það hvernig við getum varðveitt okkur í kærleika Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hjónaskilnaður getur valdið saklausa makanum og börnunum miklum sársauka.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Ertu staðráðinn í að fylgja Jehóva dyggilega eins og Kaleb?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Biddu oft um hjálp til að standast freistingar.