Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar ástvinur snýr baki við Jehóva

Þegar ástvinur snýr baki við Jehóva

Þegar ástvinur snýr baki við Jehóva

MARK og Louise eru vottar Jehóva. * Þau fræddu börnin sín um Biblíuna með ást og umhyggju eins og Biblían hvetur foreldra til að gera. (Orðskviðirnir 22:6; 2. Tímóteusarbréf 3:15) En því miður héldu ekki öll börnin áfram að þjóna Jehóva þegar þau uxu úr grasi. „Ég fæ sting í hjartað þegar ég hugsa til barnanna minna sem hafa farið frá,“ segir Louise. „Hvernig get ég látið sem ég finni ekki til á hverjum einasta degi? Þegar aðrir tala um syni sína fæ ég kökk í hálsinn og þarf að halda aftur af tárunum.“

Já, þegar ættingi ákveður að hætta að þjóna Jehóva og snúa baki við þeirri lífsstefnu, sem Biblían mælir með, upplifa trúfastir fjölskyldumeðlimir mikla sálarkvöl. „Ég elska systur mína afar mikið,“ segir Irene. „Ég myndi gera allt til að fá hana til að þjóna Jehóva aftur!“ María á bróður sem sneri baki við Jehóva og fór að lifa siðlausu lífi. Hún segir: „Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir mig vegna þess að hann hefur reynst mér mjög góður bróðir að öllu öðru leyti. Ég sakna hans ekki síst í fjölmennum fjölskylduboðum.“

Hvers vegna er þetta svona þungbært?

Hvers vegna er það svona sárt að missa barn eða annan ástvin út af vegi sannleikans? Vegna þess að kristnir menn vita að Biblían lofar þeim sem eru Jehóva trúfastir eilífu lífi í paradís hér á jörð. (Sálmur 37:29; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3-5) Þeir hlakka til að njóta þessarar blessunar með maka sínum, börnum, foreldrum, systkinum og barnabörnum. Það veldur þeim miklum sársauka að hugsa til þess að ástvinir þeirra, sem hafa hætt að þjóna Jehóva, verði ekki með þeim þegar þar að kemur. Auk þess vita kristnir menn að lög og meginreglur Jehóva stuðla að betra lífi núna. Þeir verða því mjög sorgbitnir þegar þeir sjá að ástvinir þeirra eiga eftir að uppskera erfiðleika með líferni sínu. — Jesaja 48:17, 18; Galatabréfið 6:7, 8.

Það er ef til vill erfitt fyrir þá sem hafa aldrei upplifað slíkan missi að skilja hvað þetta getur verið sárt. Þetta hefur áhrif á nánast öll svið lífsins. „Mér finnst erfiðara og erfiðara að sitja á safnaðarsamkomum og sjá foreldra hlæja og tala við börnin sín,“ segir Louise. „Fjarvera ástvinar veldur tómleika og skyggir á annars ánægjulegar stundir.“ Kristinn safnaðaröldungur rifjar upp þau fjögur ár sem stjúpdóttir hans sleit sambandinu við þau hjónin. Hann segir: „Oft voru ‚góðu stundirnar‘ mjög erfiðar. Ef ég gaf konunni minni gjöf eða bauð henni í skemmtilega helgarferð brotnaði hún niður og fór að gráta þegar hún hugsaði til þess að dóttir hennar var ekki með okkur til að taka þátt í gleði okkar.“

Eru þetta óeðlileg viðbrögð? Svo þarf ekki að vera. Þetta fólk er í raun að endurspegla eiginleika Jehóva að vissu marki, enda erum við sköpuð í hans mynd. (1. Mósebók 1:26, 27) Hvernig þá? Skoðum málið. Hvernig leið Jehóva þegar Ísraelsþjóðin gerði uppreisn gegn honum? Í Sálmi 78:38-41 sjáum við að Jehóva sárnaði. Engu að síður varaði hann þá við, agaði þá af þolinmæði og fyrirgaf þeim aftur og aftur þegar þeir iðruðust. Það er greinilegt að Jehóva þykir vænt um okkur öll sem erum ‚verk handa hans‘, og gefst ekki auðveldlega upp á okkur. (Jobsbók 14:15; Jónas 4:10, 11) Jehóva skapaði okkur með hæfileikann til að sýna hollustu af þessu tagi og fjölskyldubönd geta verið mjög sterk. Það er því engin furða að við finnum fyrir mikilli sorg þegar ættingi, sem er okkur kær, snýr baki við Jehóva.

Að missa ástvin úr söfnuðinum er ein erfiðasta prófraun sem trúfastir tilbiðjendur Jehóva geta orðið fyrir. (Postulasagan 14:22) Jesús sagði að þeir sem tækju við boðskapnum gætu upplifað sundrung innan fjölskyldunnar. (Matteus 10:34-38) Það var ekki vegna þess að sjálfur boðskapur Biblíunnar myndi valda sundrung. Ástæðan var öllu heldur sú að fjölskyldumeðlimir, sem tækju ekki við boðskapnum, myndu valda sundrung með því að hafna kristnum lífsreglum, segja skilið við þær eða jafnvel vera á móti þeim. Við getum verið Jehóva þakklát fyrir að benda trúföstum þjónum sínum á hvernig þeir geti tekist á við þær prófraunir sem mæta þeim. Hefurðu orðið fyrir því nýlega að ástvinur hætti að þjóna Jehóva? Hvaða meginreglur Biblíunnar geta hjálpað þér að takast á við sorgina og endurheimta gleði og ánægju að vissu marki?

Hvað getur hjálpað?

„Byggið yður sjálfa upp. . . . Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs.“ (Júdasarbréfið 20, 21) Aðstæður geta verið misjafnar en ef til vill getur þú ekkert gert í augnablikinu til að hjálpa ættingja sem hefur hætt að þjóna Jehóva. Engu að síður geturðu og ættirðu að byggja upp sjálfan þig og aðra í fjölskyldunni sem þjóna Jehóva. Tveir af þremur sonum Veronicu yfirgáfu sannleikann. Hún segir: „Við hjónin vorum minnt á að ef við höldum okkur andlega sterkum verðum við í betri aðstöðu til að taka vel á móti sonum okkar þegar þeir koma aftur. Hvað hefði orðið um týnda soninn ef faðir hans hefði ekki verið í nógu góðu ástandi til að taka á móti honum?“

Vertu andlega sterkur og virkur í trúnni. Það felur til dæmis í sér að taka sér reglulega tíma til ítarlegs biblíunáms og sækja safnaðarsamkomur. Gefðu kost á þér til að hjálpa öðrum í söfnuðinum að því marki sem aðstæður þínar leyfa. Þetta getur að vísu verið erfitt í fyrstu. Veronica segir: „Fyrstu viðbrögð mín voru að einangra mig eins og sært dýr. En maðurinn minn gaf ekki eftir og vildi að við hefðum góðar andlegar venjur. Hann sá til þess að við sæktum safnaðarsamkomur. Þegar kom að því að fara á mót þurfti ég að telja í mig kjark til að fara og hitta fólk. En dagskráin dró okkur nær Jehóva. Sonur okkar, sem hafði varðveitt trúfesti sína, fékk sérstaka uppörvun á þessu móti.“

Maríu, sem minnst var á áðan, finnst mikil hjálp í því að vera upptekin í boðunarstarfinu og aðstoðar nú fjóra einstaklinga við að fræðast um Biblíuna. Laura segir líka: „Ég hef ekki haft sama árangur við barnauppeldi og sumir foreldrar og ég græt enn á hverjum degi. En ég þakka Jehóva samt fyrir að ég hef kynnst fullkomnum boðskap Biblíunnar sem getur hjálpað fjölskyldum á þessum síðustu dögum.“ Börn Kens og Eleanor yfirgáfu söfnuðinn á fullorðinsárum. Þau hjónin ákváðu þá að gera ýmsar breytingar á aðstæðum sínum og fluttu á svæði þar sem þörf var á fleiri boðberum Guðsríkis og gerðust boðberar í fullu starfi. Þetta hefur hjálpað þeim að sjá hlutina í réttu ljósi og komið í veg fyrir að sorgin yfirbugi þau.

Gefðu ekki upp alla von. Kærleikurinn „vonar allt“. (1. Korintubréf 13:7) Áðurnefndur Ken segir: „Þegar börnin okkar yfirgáfu sannleikann fannst mér eins og þau hefðu dáið. En þegar systir mín dó breyttist viðhorf mitt. Ég er mjög þakklátur fyrir að börnin mín eru ekki bókstaflega dáin og að Jehóva heldur áfram að halda leiðinni opinni fyrir þau að snúa aftur til hans.“ Og reynslan hefur sýnt að margir sem fara frá sannleikanum koma á endanum til baka. — Lúkas 15:11-24.

Ásakaðu ekki sjálfan þig. Foreldrum hættir mjög til þess að horfa til baka og sjá eftir að hafa ekki tekið öðruvísi á ákveðnum málum en þeir gerðu. En meginhugmyndin, sem kemur fram í Esekíel 18:20, er að syndarinn, en ekki foreldrarnir, er ábyrgur gagnvart Jehóva fyrir rangri ákvörðun sinni. Það er athyglisvert að þótt Orðskviðirnir minnist oft á þá skyldu foreldra að veita börnunum gott uppeldi eru fjórfalt fleiri ábendingar til barna um að hlusta á foreldrana og hlýða þeim. Já, börnin hafa þá ábyrgð að taka við biblíulegri kennslu ófullkominna foreldra sinna. Þú sem foreldri hefur líklega tekið á málum eins vel og þú gast á þeim tíma. En jafnvel þótt þér finnist að þú hafir gert ákveðin mistök, og þau séu greinilega þér að kenna, þýðir það ekki endilega að það hafi verið þessi mistök sem urðu til þess að ástvinur þinn yfirgaf sannleikann. Að minnsta kosti ávinnst ekkert með því velta sér endalaust upp úr því sem betur hefði mátt fara. Lærðu af mistökum þínum, vertu staðráðinn í að endurtaka þau ekki og biddu til Jehóva um fyrirgefningu. (Sálmur 103:8-14; Jesaja 55:7) Síðan skaltu horfa til framtíðar en ekki fortíðar.

Sýndu öðrum þolinmæði. Það getur verið að sumir viti ekki hvernig þeir eigi að uppörva þig eða hugga, ekki síst ef þeir hafa aldrei lent í svipuðum aðstæðum. Auk þess er misjafnt hvað fólki finnst vera uppörvandi og huggandi. Ef einhver segir eitthvað sem særir þig skaltu því fara eftir ráðum Páls postula í Kólossubréfinu 3:13: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“

Virtu ögun Jehóva. Ef ættingi þinn hefur fengið ögun frá söfnuðinum er gott að hafa í huga að þetta er hluti af fyrirkomulagi Jehóva og er öllum fyrir bestu, líka hinum brotlega. (Hebreabréfið 12:11) Forðastu því að finna að öldungunum sem tóku á málinu eða ákvörðunum þeirra. Það er gott að hafa í huga að það skilar alltaf bestum árangri að fylgja vilja Jehóva. Það leiðir aðeins til enn frekari erfiðleika ef við stöndum gegn vilja hans.

Eftir frelsun Ísraelsþjóðarinnar frá Egyptalandi sinnti Móse reglulega starfi dómara. (2. Mósebók 18:13-16) Það er ekki erfitt að ímynda sér að sumir hafi verið óánægðir með ákvarðanir hans þar sem hann þurfti stundum að úrskurða einum í hag en öðrum í óhag. Með því að finna að dómum hans voru menn ef til vill að koma af stað uppreisn gegn forystu hans. En Jehóva notaði Móse til að leiða fólk sitt og hann refsaði ekki Móse heldur uppreisnarmönnunum og fjölskyldunum sem studdu þá. (4. Mósebók 16:31-35) Við ættum þess vegna að leggja okkur fram um að virða ákvarðanir þeirra sem fara með ábyrgð í söfnuðinum og vera samvinnuþýð við þá.

Delores rifjar upp hve erfitt það var fyrir hana að hafa rétt viðhorf þegar dóttir hennar fékk ögun frá söfnuðinum. Hún segir: „Það sem hjálpaði mér var að lesa aftur og aftur greinar sem fjölluðu um að ráðstafanir Jehóva séu sanngjarnar. Ég hafði sérstaka minnisbók til að skrifa niður punkta úr ræðum og greinum sem gætu hjálpað mér að þrauka og halda áfram að þjóna Jehóva.“ Þetta leiðir okkur að öðru atriði sem getur hjálpað.

Tjáðu tilfinningar þínar. Þér gæti reynst hjálp í því að tala í trúnaði við einn eða tvo skilningsríka vini sem þú treystir. Þegar þú gerir það skaltu tala við vini sem hjálpa þér að hafa jákvætt viðhorf. Einhver besta hjálpin, sem við getum fengið, er að ‚úthella hjörtum okkar‘ í bæn til Jehóva. * (Sálmur 62:8, 9) Hvers vegna? Vegna þess að hann skilur til fulls hvernig þér líður. Þér gæti til dæmis fundist óréttlátt að þurfa að upplifa svona mikla tilfinningakvöl. Þegar öllu er á botninn hvolft þá varst það ekki þú sem fórst frá Jehóva. Tjáðu Jehóva hvernig þér líður og biddu hann um að hjálpa þér að draga úr sársaukanum. — Sálmur 37:5.

Með tímanum verður líklega auðveldara fyrir þig að hafa stjórn á tilfinningum þínum. En þangað til skaltu ekki gefast upp í viðleitni þinni til að þóknast himneskum föður þínum og aldrei hugsa sem svo að það sé til einskis. (Galatabréfið 6:9) Höfum hugfast að ef við snúum baki við Jehóva munum við eftir sem áður búa við vandamál. Ef við hins vegar sýnum honum hollustu getum við fengið hjálp frá honum þegar við lendum í prófraunum. Þú getur verið viss um að Jehóva skilur aðstæður þínar og mun halda áfram að veita þér styrk á réttum tíma. — 2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:13; Hebreabréfið 4:16.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 19 Í Varðturninum 1. mars 2002, bls. 30-31, er fjallað um hvort viðeigandi sé að biðja fyrir ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum.

[Rammi á blaðsíðu 11]

Hvað geturðu gert?

◆ „Byggið yður sjálfa upp. . . . Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs.“ — Júdasarbréfið 20, 21.

◆ Gefðu ekki upp alla von. — 1. Korintubréf 13:7.

◆ Ásakaðu ekki sjálfan þig. — Esekíel 18:20.

◆ Sýndu öðrum þolinmæði. — Kólossubréfið 3:13.

◆ Virtu ögun Jehóva. — Hebreabréfið 12:11.

◆ Tjáðu tilfinningar þínar. — Sálmur 62:8, 9.

[Rammi á blaðsíðu 12]

Hefur þú hætt að þjóna Jehóva?

Ef svo er þá er samband þitt við Jehóva og eilíft líf í hættu, sama hver ástæðan var fyrir því að þú fórst frá sannleikanum. Kannski ætlarðu að snúa aftur til Jehóva. Vinnurðu markvisst að því núna? Eða ertu að bíða eftir „rétta tímanum“? Við megum ekki gleyma því að Harmagedón nálgast óðfluga. Auk þess er lífið í þessu heimskerfi stutt og óöruggt. Þú veist ekki fyrir víst hvort þú verðir á lífi á morgun. (Sálmur 102:4; Jakobsbréfið 4:13, 14) Maður einn, sem greindist með banvænan sjúkdóm, sagði: „Þegar ég veiktist þjónaði ég Jehóva í fullu starfi og hafði ekkert að fela sem ég þurfti að skammast mín fyrir. Og það veitir mér huggun núna.“ Hvað nú ef hann hefði verið hættur að þjóna Jehóva og ætlað sér að snúa til baka einhvern daginn og verið þannig þenkjandi þegar hann greindist með sjúkdóminn? Hvernig ætli honum hefði verið innanbrjósts þá? Ef þú hefur hætt að þjóna Jehóva er besti tíminn til að snúa aftur til hans núna.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Vertu virkur í trúnni. Það hjálpar þér að sjá hlutina í réttu ljósi.