Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Elskaðu Guð því að hann elskar þig

Elskaðu Guð því að hann elskar þig

Elskaðu Guð því að hann elskar þig

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ — MATTEUS 22:37.

1, 2. Hvað gæti hafa legið að baki spurningunni um æðsta boðorðið?

ÁKVÆÐI Móselaganna voru rúmlega 600 talsins. Hvert þeirra var mikilvægast? Þessi spurning var greinilega mjög umdeild meðal faríseanna á dögum Jesú. Snerist æðsta lagaákvæðið um fórnir? Fórnir voru mjög mikilvægar því að þær voru bæði færðar til að fá fyrirgefningu synda og til að færa Guði þakkir. Eða fjallaði æðsta boðorðið um umskurnina? Hún var ekki síður mikilvæg þar sem hún táknaði sáttmálann sem Jehóva gerði við Abraham. — 1. Mósebók 17:9-13.

2 Á hinn bóginn héldu íhaldssamir Gyðingar því fram að þar sem öll lög Guðs voru mikilvæg — jafnvel þótt sum hafi virst lítilvægari en önnur — væri rangt að hefja eitt boðorðið upp yfir hin. Farísearnir ákváðu að leggja þessa umdeildu spurningu fyrir Jesú. Hann myndi ef til vill segja eitthvað sem drægi úr trúverðugleika hans. Einn þeirra kom að máli við hann og spurði: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ — Matteus 22:34-36.

3. Hvert sagði Jesús vera æðsta boðorðið?

3 Svar Jesú hefur mikla þýðingu fyrir okkur nú á dögum. Hann undirstrikaði það sem hefur alltaf verið og mun alltaf verða kjarni sannrar tilbeiðslu. Hann vitnaði í 5. Mósebók 6:5 og sagði: „‚Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“ Þó að faríseinn hafi aðeins spurt um eitt boðorð nefndi Jesús annað til viðbótar. Hann vitnaði í 3. Mósebók 19:18 og sagði: „Annað er þessu líkt: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ Síðan benti Jesús á að þessi tvö boðorð væru undirstaða sannrar tilbeiðslu. Til að koma í veg fyrir að einhver myndi reyna að fá hann til að raða hinum lögunum eftir mikilvægi sagði hann að lokum: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 22:37-40) Í þessari grein fjöllum við um æðra boðorðið af þessum tveimur. Hvers vegna ættum við að elska Guð? Hvernig sýnum við að við elskum hann? Og hvernig getum við styrkt kærleikann til hans? Það er áríðandi að fá svör við þessum spurningum því að til að þóknast Jehóva verðum við að elska hann af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga.

Mikilvægi kærleikans

4, 5. (a) Hvers vegna var faríseinn ekki hissa á svari Jesú? (b) Hvað er verðmætara í augum Guðs en fórnir?

4 Faríseinn, sem kom að máli við Jesú, virðist hvorki hafa verið hissa né hneykslaður á svarinu sem hann fékk. Hann vissi að kærleikur til Guðs var mikilvægur þáttur í sannri tilbeiðslu þótt fáir hafi sýnt þennan kærleika. Í samkunduhúsunum var venja að fara með trúarjátningu sem kallaðist shema og í henni var að finna orðin sem Jesús vitnaði í í 5. Mósebók 6:4-9. Samkvæmt hliðstæðri frásögu í Markúsarguðspjalli sagði faríseinn síðan við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“ — Markús 12:32, 33.

5 Þótt Móselögin hafi kveðið á um brennifórnir og ýmsar aðrar fórnir var það hjartalag þjóna Guðs sem skipti hann mestu máli. Þegar einum spörfugli var fórnað og kærleikur og hollusta bjó að baki var slík fórn meira virði í augum Guðs en þúsundir hrúta sem fórnað var af röngum hvötum. (Míka 6:6-8) Við munum eflaust eftir frásögunni af fátæku ekkjunni sem Jesús tók eftir í musterinu í Jerúsalem. Smápeningarnir tveir, sem hún lagði í fjárhirsluna, nægðu ekki einu sinni til að kaupa einn spörfugl. En það var kærleikur til Jehóva sem bjó að baki framlagi hennar og þess vegna var það dýrmætara í augum hans en framlögin sem hinir ríku gáfu af allsnægtum sínum. (Markús 12:41-44) Það er sannarlega uppörvandi að vita að Jehóva metur mest það sem við getum öll gefið óháð aðstæðum — kærleika okkar til hans.

6. Hvað sagði Páll um mikilvægi kærleikans?

6 Páll postuli lagði áherslu á mikilvægi kærleikans í sannri tilbeiðslu þegar hann sagði: „Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.“ (1. Korintubréf 13:1-3) Það er augljóst að við verðum að sýna kærleika til að tilbeiðsla okkar sé Guði velþóknanleg. En hvernig sýnum við að við elskum Jehóva?

Hvernig sýnum við að við elskum Jehóva?

7, 8. Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva?

7 Margir segja að ást sé tilfinning sem við eigum erfitt með að stjórna og fólk talar um að verða ástfangið. En sannur kærleikur er ekki bara tilfinning. Hann birtist í verkum en einkennist ekki bara af tilfinningasemi. Í Biblíunni er talað um kærleika sem „miklu ágætari leið“ og eitthvað sem við ‚keppum eftir‘. (1. Korintubréf 12:31; 14:1) Kristnir menn eru hvattir til að elska ekki aðeins „með tómum orðum, heldur í verki og sannleika“. — 1. Jóhannesarbréf 3:18.

8 Þegar við elskum Guð fær það okkur til að gera það sem honum er þóknanlegt og verja og styðja drottinvald hans í orði og verki. Þessi kærleikur kemur í veg fyrir að við elskum þennan óguðlega heim. (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Þeir sem elska Guð hata hið illa. (Sálmur 97:10) Kærleikur okkar til Guðs felur líka í sér að elska náungann og um það verður rætt í næstu grein. Auk þess kallar kærleikurinn til Guðs á hlýðni. Biblían segir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

9. Hvernig sýndi Jesús kærleika sinn til Guðs?

9 Jesús sýndi í einu og öllu hvað felst í því að elska Guð. Kærleikurinn knúði hann til að yfirgefa stöðu sína á himnum og búa á jörðinni sem maður. Það var kærleikurinn sem fékk hann til að vegsama föður sinn með verkum sínum og kennslu. Og vegna kærleikans gat hann verið „hlýðinn allt til dauða“. (Filippíbréfið 2:8) Hlýðni hans, sem byggðist á kærleika, veitti trúföstum mönnum tækifæri til að verða réttlættir frammi fyrir Guði. Páll skrifaði: „Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns [Adams], þannig mun hlýðni hins eina [Jesú Krists] réttlæta hina mörgu.“ — Rómverjabréfið 5:19.

10. Hvernig helst hlýðni og kærleikur til Guðs í hendur?

10 Eins og Jesús sýnum við kærleika okkar með því að hlýða Guði. „Í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans,“ skrifaði Jóhannes postuli sem var Jesú svo kær. (2. Jóhannesarbréf 6) Þeir sem elska Jehóva einlæglega þrá leiðsögn hans. Þeir gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki stýrt skrefum sínum svo vel fari heldur treysta á visku Guðs og lúta kærleiksríkri forystu hans. (Jeremía 10:23) Þeir eru eins og hinir veglyndu í Beroju til forna sem tóku við boðskap Guðs „með allri góðfýsi“ og höfðu einlæga löngun til að gera vilja hans. (Postulasagan 17:11) Þeir rannsökuðu vandlega Ritninguna til að fá dýpri skilning á vilja Guðs. Það hjálpaði þeim að sýna honum kærleika sinn með því að hlýða fyrirmælum hans enn betur.

11. Hvað merkir það að elska Guð af öllu hjarta okkar, öllum huga, allri sálu og öllum mætti?

11 Eins og Jesús sagði verðum við að elska Guð af öllu hjarta, öllum huga, allri sálu og öllum mætti. (Markús 12:30) Slíkur kærleikur á upptök sín í hjartanu — snertir tilfinningar okkar, langanir og innstu hugsanir — og okkur langar innilega til að þóknast Jehóva. Kærleikurinn hefur líka áhrif á hugann. Hollusta okkar er ekki blind. Við höfum kynnst Jehóva — eiginleikum hans, mælikvarða og fyrirætlunum. Við notum sál okkar, það er að segja tilveru okkar og líf, til að þjóna honum og lofa hann. Og við notum einnig krafta okkar í sama tilgangi.

Hvers vegna ættum við að elska Jehóva?

12. Hvers vegna ætlast Guð til þess að við elskum hann?

12 Ein ástæðan fyrir því að við ættum að elska Jehóva er sú að hann ætlast til þess að við endurspeglum eiginleika hans. Guð er bæði uppspretta kærleikans og hið fullkomna dæmi um kærleika. „Guð er kærleikur,“ skrifaði Jóhannes postuli undir innblæstri. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Mennirnir voru skapaðir í Guðs mynd — okkur var áskapað að elska. Drottinvald Jehóva er meira að segja byggt á kærleika. Hann vill að þegnar sínir þjóni sér vegna þess að þeir elska réttláta stjórnarhætti hans og vilja fylgja þeim. Kærleikurinn er nauðsynlegur til þess að friður og eining ríki meðal allra sköpunarvera.

13. (a) Af hverju var Ísraelsmönnum sagt að elska Jehóva Guð sinn? (b) Af hverju er sanngjarnt að Jehóva ætlist til þess að við elskum hann?

13 Önnur ástæðan fyrir því að við elskum Jehóva er sú að við erum þakklát fyrir það sem hann hefur gert fyrir okkur. Mundu að Jesús sagði við Gyðingana: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn.“ Þeir áttu ekki að elska guðlega veru sem var fjarlæg og þeir þekktu ekki. Þeir áttu að elska persónuna sem hafði birt þeim kærleika sinn. Jehóva var Guð þeirra. Hann var sá sem leiddi þá út af Egyptalandi og inn í fyrirheitna landið, sá sem verndaði þá, sá fyrir þeim og annaðist þá og sá sem agaði þá af kærleika. Nú á dögum er hann Guð okkar, sá sem gaf son sinn sem lausnargjald svo að við gætum hlotið eilíft líf. Það er því sanngjarnt að Jehóva ætlist til þess að við endurgjöldum ást hans. Kærleikur okkar er svar við kærleika hans, við erum beðin um að elska Guð því að hann elskar okkur. Við elskum þann sem „elskaði oss að fyrra bragði“. — 1. Jóhannesarbréf 4:19.

14. Hvernig er kærleikur Jehóva eins og kærleikur foreldra?

14 Kærleikur Jehóva til mannanna er eins og kærleikur foreldra til barna sinna. Þrátt fyrir ófullkomleikann leggja foreldrar sig alla fram árum saman til að annast börnin sín og fórna miklu til þess. Foreldrar kenna börnunum, hvetja þau, styðja og aga vegna þess að þeir vilja að þau séu hamingjusöm og dafni vel. Hvers vænta þeir í staðinn? Þeir vilja að börnin elski sig og fari eftir því sem þeir hafa kennt þeim og er þeim fyrir bestu. Er ekki sanngjarnt að fullkominn faðir okkar á himnum vænti þess að við sýnum innilegt þakklæti fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur?

Styrkjum kærleikann til Guðs

15. Hvað þurfum við að gera til að styrkja kærleikann til Guðs?

15 Við höfum hvorki séð Guð né heyrt rödd hans. (Jóhannes 1:18) Hann býður okkur samt sem áður að eignast náið vináttusamband við sig. (Jakobsbréfið 4:8) Hvernig getum við gert það? Til að elska aðra manneskju verðum við fyrst að kynnast henni því það er erfitt að vera innilega annt um einhvern sem við þekkjum ekki. Jehóva hefur gefið okkur orð sitt, Biblíuna, til að við getum kynnst honum. Þess vegna hvetur hann okkur fyrir milligöngu safnaðarins til að lesa að staðaldri í Biblíunni. Við fræðumst um Guð í Biblíunni, kynnumst eiginleikum hans og persónuleika og sjáum hvernig hann hefur komið fram við fólk í gegnum tíðina. Þegar við hugleiðum slíkar frásögur dýpkar þakklæti okkar og kærleikur í hans garð. — Rómverjabréfið 15:4.

16. Hvernig styrkist kærleikurinn til Guðs þegar við lesum um þjónustu Jesú?

16 Ein besta leiðin til að styrkja kærleikann til Jehóva er að lesa um ævi og þjónustu Jesú. Hann endurspeglaði föður sinn svo fullkomlega að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Hefur það ekki áhrif á þig að lesa um þá samúð sem Jesús sýndi ekkju nokkurri þegar hann reisti upp einkason hennar? (Lúkas 7:11-15) Snertir það þig ekki að hugsa til þess að Jesús — sonur Guðs og mesta mikilmenni sem lifað hefur — hafi sýnt þá auðmýkt að þvo fætur lærisveinanna? (Jóhannes 13:3-5) Finnst þér ekki hjartnæmt að vita að þótt hann hafi verið meiri og vitrari en nokkur annar maður fannst öllum auðvelt að nálgast hann, þar á meðal börnum? (Markús 10:13, 14) Þegar við hugleiðum þessa hluti með þakklæti eiga orð Péturs einnig við um okkur: „Þér hafið ekki séð [Jesú], en elskið hann þó.“ (1. Pétursbréf 1:8) Þegar kærleikur okkar til Jesú verður dýpri styrkist einnig kærleikurinn til Jehóva.

17, 18. Hvað þurfum við að hugleiða til að efla kærleika okkar til Jehóva?

17 Önnur leið til að styrkja kærleikann til Guðs er að hugsa um allt það sem hann hefur gefið okkur til að njóta lífsins — fegurðina í sköpunarverkinu, endalaust úrval af gómsætum mat, innilegan félagsskap góðra vina, auk ótal annars sem veitir okkur gleði og ánægju. (Postulasagan 14:17) Því meira sem við lærum um Guð þeim mun fleiri ástæður höfum við til að þakka honum fyrir óþrjótandi gæsku hans og örlæti. Leiddu hugann að öllu því sem Jehóva hefur gert fyrir þig persónulega. Ertu ekki sammála því að hann verðskuldi ást þína?

18 Ein af mörgum gjöfum Guðs er að fá að nálgast hann í bæn hvenær sem er vitandi að hann er sá „sem heyrir bænir“. (Sálmur 65:3) Jehóva hefur veitt ástkærum syni sínum umboð til að stjórna og dæma. Hins vegar felur hann engum öðrum að hlusta á bænir, ekki einu sinni syni sínum. Jehóva hlýðir sjálfur á bænir okkar. Þessi persónulega umhyggja hans í okkar garð færir okkur nær honum.

19. Hvaða loforð Jehóva laða okkur að honum?

19 Við löðumst einnig að Jehóva þegar við hugsum um þá framtíðarvon sem hann hefur veitt mönnunum. Hann hefur lofað að binda enda á sjúkdóma, sorgir og dauða. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þegar mannkynið hlýtur fullkomleika þarf enginn að kljást við þunglyndi eða kjarkleysi og enginn verður fyrir ógæfu. Hungur, fátækt og stríð heyra sögunni til. (Sálmur 46:10; 72:16) Jörðinni verður breytt í paradís. (Lúkas 23:43) Jehóva mun veita okkur þessar blessanir, ekki vegna þess að honum beri skylda til þess heldur vegna þess að hann elskar okkur.

20. Hvað sagði Móse um blessunina sem fylgir því að elska Jehóva?

20 Við höfum því ríka ástæðu til að elska Guð og glæða kærleikann til hans. Ætlar þú að halda áfram að styrkja kærleikann til Guðs og leyfa honum að stýra skrefum þínum? Þitt er valið. Móse skildi að mikil blessun hlýst af því að efla og varðveita kærleikann til Jehóva. Hann sagði við Ísraelsmenn til forna: „Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn.“ — 5. Mósebók 30:19, 20.

Manstu?

• Hvers vegna er mikilvægt að elska Jehóva?

• Hvernig getum við sýnt að við elskum Guð?

• Hvaða ástæður höfum við til að elska Jehóva?

• Hvernig getum við styrkt kærleikann til Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Við getum öll elskað Jehóva og það er gjöf sem hann metur mikils.

[Myndir á blaðsíðu 16]

„Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ — Jóhannes 14:9.