Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað felst í því að elska náungann?

Hvað felst í því að elska náungann?

Hvað felst í því að elska náungann?

„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — MATTEUS 22:39.

1. Hvernig sýnum við að við elskum Guð?

HVERS væntir Jehóva af tilbiðjendum sínum? Jesús svaraði þessari spurningu með fáum en þýðingarmiklum orðum. Hann sagði að æðsta boðorðið væri að elska Jehóva af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti. (Matteus 22:37; Markús 12:30) Eins og við sáum í greininni á undan sýnum við kærleika til Guðs með því að hlýða honum og halda boðorð hans. Þannig endurgjöldum við kærleikann sem hann hefur sýnt okkur. Þeim sem elska Guð finnst ekki íþyngjandi að gera vilja hans heldur hafa þeir yndi af því. — Sálmur 40:9; 1. Jóhannesarbréf 5:2, 3.

2, 3. Af hverju ættum við að gefa gaum að boðorðinu um að elska náungann og hvaða spurningar vakna?

2 Jesús sagði að annað mikilvægasta boðorðið væri tengt hinu fyrsta: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:39) Við ætlum að skoða þetta boðorð nánar og ekki að ástæðulausu. Við lifum á tímum sem einkennast af eigingjörnum og afbökuðum kærleika. Þegar Páll postuli lýsti hinum „síðustu dögum“ í innblásnu bréfi sagði hann að menn myndu ekki elska hver annan heldur sjálfa sig, peninga og munaðarlífið. Margir yrðu „kærleikslausir“ eða eins og önnur biblíuþýðing segir myndi verða ‚skortur á eðlilegri ástúð innan fjölskyldunnar‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Jesús Kristur spáði: „Margir munu . . . framselja hver annan og hata. . . . Kærleikur flestra [mun] kólna.“ — Matteus 24:10, 12.

3 Tökum eftir að Jesús sagði ekki að kærleikur allra myndi kólna. Það hafa alltaf verið til og munu alltaf vera til menn sem sýna þess konar kærleika sem Jehóva vill fá og á skilið. Þeir sem elska Jehóva einlæglega leggja sig fram um að hafa sama viðhorf til fólks og hann. En hver er náungi okkar sem við eigum að elska? Og hvernig sýnum við náunganum kærleika? Við getum fengið svör við þessum mikilvægu spurningum í Biblíunni.

Hver er náungi minn?

4. Hverjum áttu Gyðingar að sýna kærleika samkvæmt 19. kafla 3. Mósebókar?

4 Þegar Jesús sagði faríseanum að annað mikilvægasta boðorðið væri að elska náungann eins og sjálfan sig var hann að vísa í ákveðið lagaboð sem Ísraelsmenn höfðu fengið. Það er skráð í 3. Mósebók 19:18. Í sama kafla var Gyðingum sagt að þeir ættu ekki aðeins að líta á samlanda sem náunga sína. Í 34. versi segir: „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“ Þeir áttu því að sýna útlendingum kærleika og ekki síst trúskiptingum.

5. Hvernig litu Gyðingar á lögin um náungakærleikann?

5 Trúarleiðtogar Gyðinga á dögum Jesú voru á öðru máli. Sumir kenndu að orðin „vinur“ og „náungi“ ættu aðeins við um Gyðinga — það átti að hata útlendinga. Þessir kennarar héldu því fram að guðræknir menn ættu að fyrirlíta óguðlega. „Í þessu umhverfi hlaut hatrið að vaxa og dafna. Það hafði feikinóg til að nærast á,“ segir í heimildarriti.

6. Hvaða tvö atriði benti Jesús á þegar hann talaði um náungakærleikann?

6 Jesús tók þetta mál fyrir í fjallræðunni og varpaði ljósi á það hverjum ætti að sýna kærleika. Hann sagði: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.‘ En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:43-45) Jesús benti hér á tvö atriði. Í fyrsta lagi er Jehóva örlátur og gæskuríkur við góða jafnt sem slæma. Í öðru lagi ættum við að fylgja fordæmi hans.

7. Hvað lærum við af dæmisögunni um miskunnsama Samverjann?

7 Við annað tækifæri kom lögfróður Gyðingur að máli við Jesú og spurði: „Hver er þá náungi minn?“ Jesús svaraði með því að segja dæmisögu af Samverja og Gyðingi. Gyðingurinn hafði orðið fyrir árás ræningja og glatað eigum sínum. Þótt Gyðingar hafi almennt fyrirlitið Samverja batt Samverjinn um sár mannsins og kom honum í öruggt skjól á gistihúsi þar sem hann gat jafnað sig. Hver er lærdómurinn? Náungakærleikurinn ætti ekki aðeins að ná til fólks sem er sömu trúar og við eða af sama kynþætti og þjóðerni. — Lúkas 10:25, 29, 30, 33-37.

Hvað merkir það að elska náungann?

8. Hvað má læra um kærleika af 19. kafla 3. Mósebókar?

8 Náungakærleikurinn er ekki bara tilfinning heldur birtist í verkum eins og kærleikurinn til Guðs. Það er gott að skoða nánar samhengið í 19. kafla 3. Mósebókar þar sem þjóð Guðs var hvött til að elska náungann eins og sjálfa sig. Þar sjáum við að Ísraelsmenn áttu að leyfa fátækum og útlendingum að fá hluta af uppskerunni. Menn máttu ekki stela, svíkja né ljúga hver að öðrum. Ísraelsmenn áttu ekki að sýna hlutdrægni í dómsmálum. Þótt þeir ættu að ávíta þegar þess þurfti var þeim sagt: „Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu.“ Þessi fyrirmæli og mörg önnur voru dregin saman í orðunum: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — 3. Mósebók 19:9-11, 15, 17, 18.

9. Hvers vegna fyrirskipaði Jehóva Ísraelsmönnum að halda sér aðgreindum frá öðrum þjóðum?

9 Þótt Ísraelsmenn hafi átt að sýna náungakærleika áttu þeir líka að halda sér aðgreindum frá þeim sem tilbáðu falsguði. Jehóva varaði við hættunni sem fylgir slæmum félagsskap. Hann sagði til dæmis um þjóðirnar sem Ísraelsmenn áttu að hrekja burt úr landinu: „Eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum. Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði Drottins þá upptendrast í gegn yður.“ — 5. Mósebók 7:3, 4.

10. Hvað þurfum við að varast?

10 Kristnir menn forðast einnig að stofna til vináttu við þá sem gætu veikt trú þeirra. (1. Korintubréf 15:33) Í Biblíunni fáum við eftirfarandi áminningu: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum,“ það er að segja þeim sem tilheyra ekki kristna söfnuðinum. (2. Korintubréf 6:14) Enn fremur er kristnum mönnum sagt að giftast aðeins „í Drottni.“ (1. Korintubréf 7:39) En við ættum samt aldrei að líta niður á þá sem tilbiðja ekki Jehóva. Kristur dó fyrir syndara og margir, sem áður lögðu stund á hið illa, hafa breytt lífi sínu og látið sættast við Guð. — Rómverjabréfið 5:8; 1. Korintubréf 6:9-11.

11. Hver er besta leiðin til að sýna þeim kærleika sem þjóna ekki Guði og hvers vegna?

11 Besta leiðin til að sýna þeim kærleika, sem þjóna ekki Guði, er að líkja eftir Guði sjálfum. Þótt hann hati illsku sýnir hann öllum ástúðlega umhyggju með því að gefa þeim tækifæri til að hverfa frá illri breytni og hljóta eilíft líf. (Esekíel 18:23) Jehóva vill „að allir komist til iðrunar“. (2. Pétursbréf 3:9) Hann „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Þess vegna fól Jesús fylgjendum sínum að prédika og kenna og gera „allar þjóðir að lærisveinum“. (Matteus 28:19, 20) Með því að taka þátt í þessu starfi sýnum við bæði Guði og náunganum kærleika, jafnvel óvinum okkar.

Elskum trúsystkini okkar

12. Hvað skrifaði Jóhannes postuli um kærleikann milli trúsystkina?

12 Páll postuli hvatti okkur til að gera „öllum gott og einkum trúbræðrum vorum“. (Galatabréfið 6:10) Kristnum mönnum ber skylda til að elska trúsystkini sín. Hve mikilvægur er þessi kærleikur? Jóhannes postuli veitti kröftuga kennslu þegar hann sagði: „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari. . . . Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 3:15; 4:20) Þetta eru stór orð. Jesús Kristur notaði orðin „manndrápari“ og „lygari“ um Satan djöfulinn. (Jóhannes 8:44) Við myndum aldrei vilja að þessi orð yrðu notuð um okkur.

13. Hvernig getum við sýnt að við elskum trúsystkini okkar?

13 Guð kennir sannkristnum mönnum „að elska hver annan“. (1. Þessaloníkubréf 4:9) Við eigum ekki að elska „með tómum orðum, heldur í verki og sannleika“. (1. Jóhannesarbréf 3:18) Kærleikur okkar ætti að vera ‚hræsnislaus‘. (1. Pétursbréf 1:22) Hann fær okkur til að vera vingjarnleg, samúðarfull, fús til að fyrirgefa og langlynd og kemur í veg fyrir að við séum öfundsjúk, montin, hrokafull eða eigingjörn. (1. Korintubréf 13:4, 5; Efesusbréfið 4:32) Kærleikurinn knýr okkur til að ‚þjóna hver öðrum‘. (Galatabréfið 5:13) Jesús sagði lærisveinunum að elska hver annan eins og hann elskaði þá. (Jóhannes 13:34) Kristinn maður ætti að vera fús til að fórna lífi sínu í þágu trúsystkina sinna ef þörf krefði.

14. Hvernig getum við sýnt kærleika innan fjölskyldunnar?

14 Það er sérstaklega mikilvægt að sýna kærleika innan fjölskyldunnar, ekki síst í hjónabandinu. Páll lýsti því hve náin hjón ættu að vera þegar hann sagði: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami.“ Hann bætti við: „Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.“ (Efesusbréfið 5:28) Páll endurtók þessar leiðbeiningar fimm versum síðar. Eiginmaður, sem elskar konu sína, líkir ekki eftir Ísraelsmönnum á dögum Malakís sem brugðu trúnaði við eiginkonur sínar. (Malakí 2:14) Hann mun elska hana og annast eins og Kristur elskaði söfnuðinn. Kærleikurinn fær eiginkonu sömuleiðis til að bera virðingu fyrir manni sínum. — Efesusbréfið 5:25, 29-33.

15. Hvað sögðu sumir þegar þeir sáu bróðurkærleika í verki og hvað gerðu þeir í kjölfarið?

15 Þessi kærleikur á greinilega að einkenna sannkristna menn. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Kærleikurinn á meðal okkar laðar fólk að þeim Guði sem við elskum og erum fulltrúar fyrir. Tökum sem dæmi frásögu af vottafjölskyldu í Mósambík. „Við höfðum aldrei séð neitt þessu líkt. Seinni part dags fór að hvessa og í kjölfarið skall á hellidemba og haglél. Reyrhúsið okkar eyðilagðist í óveðrinu og þakplöturnar fuku í burtu. Þegar trúbræður úr nágrannasöfnuðum komu til að hjálpa okkur að endurbyggja húsið urðu nágrannarnir furðu lostnir og sögðu: ‚Trúfélagið ykkar er einstakt. Við höfum aldrei fengið svona hjálp frá kirkjunni okkar.‘ Við tókum fram Biblíuna og sýndum þeim Jóhannes 13:34, 35. Margir nágrannar okkar eru nú að lesa Biblíuna með vottum Jehóva.“

Elskum hvern einstakling

16. Hver er munurinn á því að elska fólk almennt og elska einstaklinga?

16 Það er ekki erfitt að elska fólk almennt sem hóp. En það getur reynst þrautin þyngri að elska hvern einstakling. Hjá sumum felst náungakærleikurinn í því einu að styrkja góðgerðamálefni. Já, það er miklu auðveldara að segjast elska náungann en að elska andstyggilega manneskju í næsta húsi, vinnufélaga sem virðist standa á sama um okkur eða vin sem veldur okkur vonbrigðum.

17, 18. Hvernig sýndi Jesús einstaklingum kærleika og hvaða hvöt bjó að baki?

17 Við lærum af fordæmi Jesú að elska hvern einstakling því að hann endurspeglaði fullkomlega eiginleika Guðs. Þótt hann hefði komið til jarðar til að bera synd heimsins, elskaði hann einstaklinga eins og til dæmis veikburða konu, líkþráan mann og lítið barn. (Matteus 9:20-22; Markús 1:40-42; 7:26, 29, 30; Jóhannes 1:29) Náungakærleikur okkur ætti einnig að birtast í því hvernig við komum fram við þá sem við hittum dagsdaglega.

18 Við ættum aldrei að gleyma því að náungakærleikurinn tengist kærleikanum til Guðs. Þótt Jesús hafi hjálpað fátækum, læknað sjúka, mettað hungraða og þar að auki kennt fjöldanum, gerði hann allt þetta til að hjálpa fólki að sættast við Jehóva. (2. Korintubréf 5:19) Jesús gerði allt Guði til dýrðar og hafði hugfast að hann var fulltrúi og spegilmynd þess Guðs sem hann elskaði. (1. Korintubréf 10:31) Með því að líkja eftir fordæmi Jesú getum við líka sýnt einlægan náungakærleika án þess þó að verða hluti af þessum illa heimi.

Hvernig elskum við náungann eins og sjálf okkur?

19, 20. Hvað er fólgið í því að elska náungann eins og sjálf okkur?

19 Jesús sagði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Það er eðlilegt að þykja vænt um sjálfan sig og hafa heilbrigt sjálfsmat. Ef svo væri ekki hefði þetta boðorð litla þýðingu. Slíkt sjálfsmat er ekki það sama og eigingirnin og sjálfselskan sem Páll postuli talar um í 2. Tímóteusarbréfi 3:2. Hér er um að ræða eðlilega sjálfsvirðingu. Biblíufræðingur lýsir þessu sem „öfgalausri ást á sjálfum sér sem felst hvorki í því að dýrka sjálfan sig og segja: ‚Ég er guðdómlegur‘ né fyrirlíta sjálfan sig og segja: ‚Ég auvirðilegur.‘“

20 Til að elska aðra eins og við elskum sjálf okkur verðum við að líta á aðra eins og við viljum að þeir líti á okkur og koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur. Jesús sagði: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Jesús sagði ekki að við ættum að velta okkur upp úr því sem aðrir hafa gert okkur og gjalda í sömu mynt. Við ættum öllu heldur að hugleiða hvernig við viljum að aðrir komi fram við okkur og hegða okkur í samræmi við það. Taktu líka eftir að orð Jesú einskorðuðust ekki við vini og trúsystkini heldur notaði hann orðið „menn“. Það var kannski til að undirstrika að við ættum að koma svona fram við alla sem verða á vegi okkar.

21. Hvað sýnum við með því að elska náungann?

21 Náungakærleikurinn forðar okkur frá því að gera það sem er slæmt. Páll postuli skrifaði: „Boðorðin: ‚Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,‘ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein.“ (Rómverjabréfið 13:9, 10) Kærleikurinn fær okkur til að leitast við að gera öðrum gott. Með því að elska náungann sýnum við að við elskum Jehóva Guð sem skapaði manninn í sinni mynd. — 1. Mósebók 1:26.

Hvert er svarið?

• Hverja eigum við að elska og hvers vegna?

• Hvernig getum við sýnt þeim kærleika sem þjóna ekki Jehóva?

• Hvernig lýsir Biblían kærleikanum sem á að ríkja milli trúsystkina?

• Hvað er fólgið í því að elska náungann eins og sjálfan sig?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

„Hver er þá náungi minn?“

[Mynd á blaðsíðu 22]

Jesús elskar hvern einstakling.