Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Maðurinn og konan hafa bæði göfugt hlutverk

Maðurinn og konan hafa bæði göfugt hlutverk

Maðurinn og konan hafa bæði göfugt hlutverk

JEHÓVA GUÐ skapaði Adam fyrst, síðan Evu. Áður en Eva var sköpuð öðlaðist Adam vissa reynslu. Jehóva gaf honum líka ákveðin fyrirmæli á þessu tímabili. (1. Mósebók 2:15-20) Adam var talsmaður Guðs og átti að segja konu sinni frá þessum fyrirmælum. Því var rökrétt að hann færi með forystu í öllum málum sem vörðuðu tilbeiðslu.

Sambærilegt fyrirkomulag er að finna í kristna söfnuðinum. Það getur verið gagnlegt fyrir okkur að athuga það nánar. Páll postuli skrifaði: „Ekki leyfi ég konu að . . . taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva.“ (1. Tímóteusarbréf 2:12, 13) Þetta merkir ekki að konan eigi að vera þögul á safnaðarsamkomum. Hún á að vera kyrrlát í þeim skilningi að deila ekki við karla. Hún á hvorki að gera lítið úr hlutverki þeirra innan safnaðarins né reyna að kenna söfnuðinum. Karlar hafa fengið það hlutverk að fara með forystu í söfnuðinum og kenna honum, en konur leggja mikið af mörkum með því að taka þátt í safnaðarsamkomum á ýmsa vegu.

Páll Postuli skrifaði eftirfarandi til að veita okkur innsýn í þau hlutverk sem Guð hefur ætlað körlum og konum: „Ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum. . . . Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin, því að eins og konan er komin af manninum, svo er og maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði.“ — 1. Korintubréf 11:8-12.

Konum mikill sómi sýndur

Samkvæmt lögunum, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, höfðu konur mikilvægum störfum að gegna og þeim var frjálst að sýna frumkvæði. Til dæmis fjalla Orðskviðirnir 31:10-31 um „væna konu“ sem kaupir vönduð efni og saumar falleg föt fyrir heimilisfólk sitt. „Hún býr til skyrtur og selur þær.“ (Vers 13, 21-24) Þessi fyrirmyndarkona „er eins og kaupförin“ og útvegar úrvalsmat þótt hún þurfi að sækja björgina langt að. (Vers 14) „Hún hefir augastað á akri og kaupir hann,“ auk þess „plantar hún víngarð“. (Vers 16) „Hún finnur, að atvinna hennar er arðsöm.“ (Vers 18) Auk þess sem „hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar,“ þá er þessi duglega, guðhrædda kona óeigingjörn og hjálpfús. (Vers 20, 27) Það er því engin furða að hún skuli fá hrós. —  Vers 31.

Lögin, sem Jehóva gaf fyrir milligöngu Móse, veittu konum ríkuleg tækifæri til að styrkja samband sitt við Guð. Við getum til dæmis lesið í Jósúabók 8:35: „Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.“ Biblían segir um Esra prest: „Þá kom [hann] með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar. Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina.“ (Nehemíabók 8:2, 3) Konur höfðu gagn af slíkum upplestri úr lögmálinu. Þær héldu líka trúarhátíðir. (5. Mósebók 12:12, 18; 16:11, 14) Það sem mestu máli skipti var þó að konur í Ísrael til forna gátu haft persónulegt samband við Jehóva Guð og beðið til hans hver fyrir sig. — 1. Samúelsbók 1:10.

Á fyrstu öldinni fengu guðræknar konur að þjóna Jesú. (Lúkas 8:1-3) Kona smurði höfuð hans og fætur í kvöldverðarboði í Betaníu. (Matteus 26:6-13; Jóhannes 12:1-7) Konur voru í hópi þeirra sem Jesús birtist eftir upprisu sína. (Matteus 28:1-10; Jóhannes 20:1-18) Eftir að hann steig upp til himna söfnuðust um 120 manns saman og í hópi þeirra voru ‚konur og María, móðir Jesú‘. (Postulasagan 1:3-15) Flestar þessara kvenna, ef ekki allar, hafa vafalaust verið í loftstofunni í Jerúsalem á hvítasunnunni árið 33 þegar heilagur andi steig niður og lærisveinar Jesú töluðu með yfirnáttúrulegum hætti ýmis tungumál. — Postulasagan 2:1-12.

Bæði karlar og konur voru meðal þeirra sem spádómurinn í Jóel 3:1, 2 rættist á og Pétur postuli vitnaði í á hvítasunnunni: „Ég [Jehóva] mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá. . . . Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.“ (Postulasagan 2:13-18) Eftir hvítasunnuna árið 33 fengu kristnar konur gjöf andans um tíma. Þær töluðu erlend tungumál og spáðu. Þetta þarf ekki að merkja að þær hafi borið fram spádóma heldur sögðu þær frá sannleika Biblíunnar.

Páll postuli talar hlýlega um „Föbe, systur vora,“ í bréfi sínu til kristinna manna í Róm og gefur henni góð meðmæli. Hann minnist einnig á Trýfænu og Trýfósu og segir að þær hafi „lagt hart á sig fyrir Drottin“. (Rómverjabréfið 16:1, 2, 12) Enda þótt þessar konur hafi ekki verið útnefndar til umsjónarstarfa í kristna söfnuðinum nutu þær ásamt öðrum konum þeirrar blessunar að vera útvaldar af Guði til að ríkja með Jesú Kristi í himnesku ríki hans. — Rómverjabréfið 8:16, 17; Galatabréfið 3:28, 29.

Guðræknar konur njóta einstakrar blessunar nú á dögum. „Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her,“ segir í Sálmi 68:12. Þessar konur verðskulda hrós. Til dæmis hefur góð kennsla þeirra á biblíunámskeiðum í heimahúsum orðið til þess að fjöldi fólks hefur tileinkað sér hinar sönnu kenningar sem Guð hefur velþóknun á. Kristnar eiginkonur eiga líka hrós skilið fyrir að hjálpa börnum sínum að taka trú og styðja eiginmenn sína sem gegna fjölmörgum skyldum innan safnaðarins. (Orðskviðirnir 31:10-12, 28) Ógiftar konur gegna líka göfugu hlutverki í söfnuði Guðs og kristnir karlar eru hvattir til að koma fram við „aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika“. — 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.

Margvísleg verkefni karla

Guð hefur veitt kristnum körlum ákveðið hlutverk sem vænst er að þeir gegni. Páll sagði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Maðurinn á sér líka höfuð — Krist. Karlmenn þurfa því að standa Kristi reiknisskap gerða sinna og að lokum Guði. Guð ætlast líka til þess að karlar gegni forystuhlutverki sínu á kærleiksríkan hátt. (Efesusbréfið 5:25) Þannig hefur þetta verið allt frá því að fyrstu mennirnir voru skapaðir.

Biblían sýnir að Guð gaf karlmönnum verkefni í samræmi við forystuhlutverk þeirra. Jehóva lét til dæmis Nóa smíða örk til björgunar lifandi verum í flóðinu. (1. Mósebók 6:9–7:24) Abraham var heitið að af afkvæmi hans myndu allar ættkvíslir og þjóðir jarðar blessun hljóta. Og þetta afkvæmi var fyrst og fremst Jesús Kristur. (1. Mósebók 12:3; 22:18; Galatabréfið 3:8-16) Guð útnefndi Móse til að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. (2. Mósebók 3:9, 10, 12, 18) Fyrir milligöngu Móse gaf Jehóva þjóðinni lagasáttmála sem er líka kallaður lögmálið eða Móselögin. (2. Mósebók 24:1-18) Biblíuritararnir voru undantekningarlaust karlmenn.

Jesú er höfuð kristna safnaðarins og gaf söfnuðinum gjafir í mönnum. (Efesusbréfið 1:22; 4:7-13) Þegar Páll postuli telur upp eiginleika umsjónarmanna á hann greinilega við karlmenn. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Þess vegna eru karlmenn útnefndir í söfnuði Votta Jehóva annars vegar sem umsjónarmenn eða öldungar og hins vegar sem safnaðarþjónar. (Filippíbréfið 1:1, 2; 1. Tímóteusarbréf 3:8-10, 12) Í kristna söfnuðinum gegna eingöngu karlmenn starfi hirða. (1. Pétursbréf 5:1-4) Guð hefur engu að síður veitt konum ýmis göfug verkefni.

Ánægð með hlutverk sitt

Það veitir konum jafnt sem körlum ánægju að gegna því hlutverki sem Guð hefur veitt þeim. Þegar eiginmenn og eiginkonur líkja eftir fordæmi Krists og safnaðarins verður hjónabandið farsælt. Páll postuli skrifaði: „Þér menn, elskið konur yðar, að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann . . . Þá skuluð þér hver um sig elska eiginkonu sína, að sínu leyti eins og sjálfan sig.“ (Efesusbréfið 5:25-33, Biblían 1912) Eiginmenn eiga sem sagt að fara með forystuna af kærleika en ekki eigingirni. Söfnuður Krists samanstendur ekki af fullkomnu fólki. Samt sem áður elskar Jesús söfnuðinn og annast hann. Á sama hátt á kristinn eiginmaður að elska og annast eiginkonu sína.

Kristin eiginkona á að bera djúpa virðingu fyrir manni sínum. (Efesusbréfið 5:33) Hún getur tekið söfnuðinn sér til fyrirmyndar í þessum efnum. Efesusbréfið 5:21-24 segir: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, að sínu leyti eins og Kristur er höfuð safnaðarins, hann sem er frelsari líkama síns. En eins og söfnuðurinn er undirgefinn Kristi, svo og konurnar mönnum sínum í öllu.“ (Biblían 1912) Enda þótt einginkonu geti stundum fundist erfitt að vera undirgefin eiginmanni sínum þá „sómir [það] þeim, er Drottni heyra til“. (Kólossubréfið 3:18) Það verður auðveldara fyrir hana að vera eiginmanni sínum undirgefin ef hún hefur í huga að það er Drottni Jesú Kristi velþóknanlegt.

Kristinni eiginkonu ber að fylgja forystu eiginmanns síns jafnvel þótt hann sé ekki sömu trúar og hún. Pétur postuli segir: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ (1. Pétursbréf 3:1, 2) Sara bar virðingu fyrir Abraham, eiginmanni sínum, og naut þeirrar blessunar að eignast Ísak og verða formóðir Jesú Krists. (Hebreabréfið 11:11, 12; 1. Pétursbréf 3:5, 6) Guð mun vissulega blessa eiginkonur sem líkja eftir Söru.

Þegar konur og karlar gegna því hlutverki, sem Guð hefur gefið þeim, ríkir friður og samlyndi og það veitir þeim gleði og ánægju. Þegar þau fara eftir orðum Biblíunnar veitist þeim enn fremur sú sæmd sem fylgir göfugu hlutverki beggja samkvæmt vilja Guðs.

[Rammi á blaðsíðu 7]

Hvað finnst þeim um hlutverk sitt?

„Maðurinn minn fer ástúðlega og hlýlega með forystuhlutverk sitt,“ segir Susan. „Við ræðum yfirleitt saman um það sem þarf að ákveða og þegar hann ákveður síðan hvað skuli gert eða látið ógert þá veit ég að það er okkur fyrir bestu. Mér finnst ánægjulegt að gegna því hlutverki sem Jehóva hefur gefið kristnum eiginkonum og það styrkir hjónaband okkar. Við erum samrýmd og vinnum saman að andlegum markmiðum.“

Kona, sem heitir Mindy, segir: „Það hlutverk, sem Jehóva hefur ætlað konum sem þjóna honum, sýnir að honum þykir vænt um þær. Með því að virða eiginmann minn og styðja hann þegar hann gegnir safnaðarskyldum sínum get ég sýnt Jehóva að ég kann að meta fyrirkomulag hans.“

[Myndir á blaðsíðu 5]

Guð gaf Nóa, Abraham og Móse margs konar verkefni í samræmi við forystuhlutverk karlmannsins.

[Myndir á blaðsíðu 7]

„Konurnar sem sigur boða eru mikill her “