Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrri upprisan er hafin!

Fyrri upprisan er hafin!

Fyrri upprisan er hafin!

„Þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 4:16.

1, 2. (a) Hvaða von er fyrir þá sem hafa dáið? (b) Á hvaða grundvelli trúir þú á upprisu? (Sjá neðanmálsgrein.)

„ÞEIR sem lifa, vita að þeir eiga að deyja.“ Þannig hefur það verið síðan Adam syndgaði. Menn hafa alltaf vitað að allir deyja að lokum og margir hafa velt fyrir sér hvað taki við. Hvert er ástand hinna dánu? Í Biblíunni segir: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ — Prédikarinn 9:5.

2 Er þá einhver von fyrir hina dánu? Já, svo hlýtur að vera ef upprunaleg fyrirætlun Guðs með mannkynið á að ná fram að ganga. Í aldanna rás hafa dyggir þjónar Guðs trúað á loforð hans um sæði sem myndi eyða Satan og gera að engu tjónið sem hann olli. (1. Mósebók 3:15) Flestir þessara þjóna Guðs eru dánir. Til að sjá uppfyllingu þessa loforðs og annarra sem Jehóva hefur gefið verða þeir að rísa upp frá dauðum. (Hebreabréfið 11:13) Er það mögulegt? Já, Páll postuli sagði: „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Einu sinni reisti Páll upp frá dauðum ungan mann að nafni Evtýkus. Hann hafði fallið úr glugga á þriðju hæð og „var liðinn, þegar hann var tekinn upp“. Þetta er síðasta upprisan af níu sem sagt er frá í Biblíunni. — Postulasagan 20:7-12. *

3. Hvernig hafa orð Jesú í Jóhannesi 5:28, 29 verið þér til huggunar og hvers vegna?

3 Við getum treyst orðum Páls þar sem við höfum þessi níu dæmi um upprisu. Þau styrkja trú okkar á loforð Jesú: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Þetta eru traustvekjandi orð og þau eru mjög hughreystandi fyrir þær milljónir manna sem hafa misst ástvin í dauðann.

4, 5. Hvers konar ólíkar upprisur er talað um í Biblíunni og hvaða upprisu verður rætt um í þessari grein?

4 Flestir verða reistir upp til lífs á friðsælli jörð undir stjórn Guðsríkis. (Sálmur 37:10, 11, 29; Jesaja 11:6-9; 35:5, 6; 65:21-23) En aðrar upprisur áttu að eiga sér stað áður en það gerðist. Fyrst þurfti Jesús Kristur að rísa upp til að færa Guði andvirði lausnarfórnarinnar sem hann færði í okkar þágu. Hann dó og var reistur upp árið 33.

5 Síðan áttu hinir andasmurðu, sem mynda „Ísrael Guðs“, að sameinast Drottni Jesú Kristi í himneskri dýrð þar sem þeir verða „með Drottni alla tíma“. (Galatabréfið 6:16; 1. Þessaloníkubréf 4:17) Þetta er kallað ‚fyrri upprisan‘. (Opinberunarbókin 20:6) Þegar þeirri upprisu lýkur verða milljónir manna reistar upp hér á jörð og fá von um eilíft líf í paradís. Þess vegna höfum við mikinn áhuga á „fyrri upprisunni“ hvort sem við eigum von um líf á himnum eða jörðinni. Hvers konar upprisa er þetta? Hvenær á hún sér stað?

„Hvaða líkama hafa þeir?“

6, 7. (a) Hvað verður að eiga sér stað áður en andasmurðir kristnir menn geta farið til himna? (b) Í hvers konar líkama verða þeir reistir upp?

6 Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna varpar Páll fram spurningu um fyrri upprisuna: „Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?“ Síðan svarar hann spurningunni og segir: „Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. . . . En Guð gefur því líkama eftir vild sinni. . . . Vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.“ — 1. Korintubréf 15:35-40.

7 Af orðum Páls má sjá að andasmurðir kristnir menn verða að deyja áður en þeir hljóta laun sín á himnum. Við dauðann verður jarðneskur líkami þeirra aftur að moldu. (1. Mósebók 3:19) Á tilsettum tíma Guðs eru þeir reistir upp í líkama sem er ætlaður fyrir líf á himnum. (1. Jóhannesarbréf 3:2) Guð gefur þeim einnig ódauðleika. Þeir búa ekki yfir honum frá fæðingu, rétt eins og ódauðleg sál væri innra með þeim. „Þetta dauðlega [á] að íklæðast ódauðleikanum,“ segir Páll. Ódauðleikinn er gjöf frá Guði og þeir sem eiga hlut í fyrri upprisunni „íklæðast“ honum. — 1. Korintubréf 15:50, 53; 1. Mósebók 2:7; 2. Korintubréf 5:1, 2, 8.

8. Hvernig vitum við að hinar 144.000, sem Guð velur, tilheyra ekki mismunandi trúarbrögðum?

8 Aðeins 144.000 eiga hlut í fyrri upprisunni. Jehóva byrjaði að útvelja þá á hvítasunnunni árið 33, stuttu eftir að hann reisti Jesú upp frá dauðum. Allir höfðu þeir „nafn [Jesú] og nafn föður [hans] skrifað á ennum sér“. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Af þessu má sjá að þeir sem Guð velur tilheyra ekki mörgum ólíkum trúarbrögðum. Allir eru þeir fylgjendur Krists og allir bera þeir nafn föðurins, Jehóva, með stolti. Þegar þeir eru reistir upp fá þeir verkefni á himnum. Þeim finnst alveg einstakt að hugsa til þess að mega þjóna Guði svona náið.

Hvenær á hún sér stað?

9. Hvernig getum við áætlað út frá Opinberunarbókinni 12:7 og 17:14 á hvaða tímabili fyrri upprisan eigi sér stað?

9 Hvenær á fyrri upprisan sér stað? Allt bendir til þess að hún sé þegar hafin. Berum til dæmis saman tvo kafla í Opinberunarbókinni. Skoðum fyrst 12. kaflann. Þar segir frá því að hinn nýkrýndi konungur, Jesús Kristur, og heilagir englar hans heyi stríð við Satan og illu andana. (Opinberunarbókin 12:7-9) Eins og oft hefur komið fram í þessu tímariti hófst þetta stríð árið 1914. * En taktu eftir að þess er ekki getið að nokkur af fylgjendum Krists sé með honum í þessu stríði á himnum. Lítum nú á 17. kaflann. Þar segir að lambið muni sigra þjóðirnar eftir að ‚Babýlon hinni miklu‘ er eytt. Síðan segir: „Með því [lambinu] eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu.“ (Opinberunarbókin 17:5, 14) „Hinir kölluðu og útvöldu og trúu“ hljóta að vera upprisnir fyrst þeir eru með Jesú þegar hann sigrar heim Satans. Það er því rökrétt að álykta að andasmurðir menn, sem deyja fyrir Harmagedón, séu reistir upp einhvern tíma milli 1914 og Harmagedón.

10, 11. (a) Hverja tákna öldungarnir 24 og hvað opinberar einn þeirra Jóhannesi? (b) Hvaða ályktun getum við dregið af þessu?

10 Getum við tímasett af meiri nákvæmni hvenær fyrri upprisan hefst? Athyglisverða vísbendingu er að finna í Opinberunarbókinni 7:9-15 þar sem Jóhannes postuli segir frá sýn um ‚mikinn múg sem enginn gat tölu á komið‘. Einn af öldungunum 24 segir Jóhannesi hver múgurinn mikli er en þessir öldungar tákna 144.000 samerfingja Krists í himneskri dýrð. * (Lúkas 22:28-30; Opinberunarbókin 4:4) Jóhannes hafði himneska von en var enn þá maður á jörðinni þegar öldungurinn talaði við hann. Hann hlýtur því í þessu tilfelli að tákna andasmurða menn á jörðinni sem hafa ekki enn hlotið laun sín á himnum.

11 Hvaða ályktun getum við dregið af því að einn af öldungunum 24 skuli segja Jóhannesi hver hinn mikli múgur er? Svo virðist sem hinir upprisnu af þessum hópi geti átt þátt í því að miðla andlegum sannindum nú á dögum. Hvers vegna skiptir það máli? Vegna þess að árið 1935 var andasmurðum þjónum Guðs á jörðinni opinberað hver múgurinn mikli væri. Hafi einn af öldungunum 24 verið notaður til að koma þessum mikilvægu sannindum á framfæri hlýtur hann í síðasta lagi að hafa verið reistur upp til himna árið 1935. Það myndi þýða að fyrri upprisan hafi hafist einhvern tíma á bilinu 1914 til 1935. Getum við tímasett hana enn nákvæmar?

12. Útskýrðu af hverju hugsanlegt er að fyrri upprisan hafi hafist vorið 1918.

12 Nú er kannski gott að líta á það sem telja mætti hliðstæðu í Biblíunni. Jesús Kristur var smurður sem tilvonandi konungur Guðsríkis haustið 29. Þremur og hálfu ári síðar, vorið 33, var hann reistur upp sem voldug andavera. Mætti þá leiða rök að því að fyrst Jesús var krýndur haustið 1914 hafi verið byrjað að reisa upp trúfasta andasmurða fylgjendur hans þremur og hálfu ári síðar, vorið 1918? Þetta er athyglisverður möguleiki. Þótt ekki sé hægt að staðfesta þetta beint með biblíulegum rökum stangast það ekki á við aðra ritningarstaði sem gefa til kynna að fyrri upprisan hafi hafist fljótlega eftir að nærvera Krists hófst.

13. Hvernig má ráða af 1. Þessaloníkubréfi 4:15-17 að fyrri upprisan hafi hafist snemma á nærverutíma Krists?

13 Páll skrifaði til dæmis: „Vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins [ekki við lok nærveru hans], munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu. Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.“ (1. Þessaloníkubréf 4:15-17) Þess vegna voru andasmurðir kristnir menn, sem dóu fyrir nærveru Krists, reistir upp til himna á undan þeim sem voru enn á lífi á nærverutíma hans. Það þýðir að fyrri upprisan hlýtur að hafa hafist snemma á nærverutíma Krists og hún heldur áfram á meðan hann er nærverandi. (1. Korintubréf 15:23) Fyrri upprisan á sér því ekki stað á einu augabragði heldur teygir sig yfir ákveðið tímabil.

„Þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja“

14. (a) Hvenær uppfyllast sýnirnar í 6. kafla Opinberunarbókarinnar? (b) Hverju er lýst í Opinberunarbókinni 6:9?

14 Skoðum einnig rök sem er að finna í 6. kafla Opinberunarbókarinnar. Þar er Jesú lýst sem sigrandi konungi á hvítum hesti. (Opinberunarbókin 6:2) Þjóðirnar heyja stríð sem aldrei fyrr. (Opinberunarbókin 6:4) Hungur herjar á mannkynið. (Opinberunarbókin 6:5, 6) Drepsóttir geisa. (Opinberunarbókin 6:8) Þessi spádómur kemur augljóslega heim og saman við ástandið í heiminum frá 1914. En fleira gerist. Athygli okkar er beint að fórnaraltari. Við fót þess eru „sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu“. (Opinberunarbókin 6:9) Þar sem „líf [„sál“, NW ] líkamans er í blóðinu“ er það í rauninni blóð trúfastra þjóna Jesú sem er að finna við fót altarisins, þeirra sem voru drepnir fyrir að prédika af kappi og dirfsku. — 3. Mósebók 17:11.

15, 16. Útskýrðu af hverju orðin í Opinberunarbókinni 6:10, 11 eiga við fyrri upprisuna.

15 Blóð þessara kristnu píslarvotta hrópar á réttlæti eins og blóð hins réttláta Abels. (1. Mósebók 4:10) „Þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: ‚Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?‘“ Hvað gerist næst? „Þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.“ — Opinberunarbókin 6:10, 11.

16 Voru hvítu skikkjurnar afhentar blóðflekkjum við fót altarisins? Auðvitað ekki. Þær voru fengnar einstaklingum en blóði þeirra hafði verið úthellt á altarinu, ef svo má að orði komast. Þeir fórnuðu lífi sínu sakir nafns Jesú og voru nú upprisnir sem andaverur. Hvernig vitum við það? Fyrr í Opinberunarbókinni segir: „Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins.“ Mundu líka að öldungarnir 24 voru skrýddir „hvítum klæðum og á höfðum þeirra [voru] gullkórónur“. (Opinberunarbókin 3:5; 4:4) Eftir að stríð, hungur og drepsóttir tóku að geisa um jörðina voru dánir einstaklingar af hinum 144.000 reistir upp til himna og skrýddir táknrænum hvítum skikkjum. Þetta eru þeir sem blóðið við fót altarisins táknaði.

17. Í hvaða skilningi eiga þeir sem hljóta hvítar skikkjur að „hvílast“?

17 Þeir sem reistir hafa verið upp eiga að „hvílast“. Þeir verða að bíða þolinmóðir eftir hefndardegi Guðs. „Samþjónar þeirra“, andasmurðir menn sem eru enn á jörðinni, eiga enn eftir að sanna ráðvendni sína í prófraunum. Hvíldinni lýkur þegar dómstími Guðs rennur upp. (Opinberunarbókin 7:3) Þá munu hinir upprisnu vinna með Jesú Kristi að því að eyða hinum illu, þar á meðal þeim sem hafa úthellt blóði saklausra kristinna manna. — 2. Þessaloníkubréf 1:7-10.

Hvað þýðir þetta fyrir okkur?

18, 19. (a) Af hverju má álykta að fyrri upprisan sé hafin? (b) Hvernig er þér innanbrjósts í ljósi þess sem þú veist um fyrri upprisuna?

18 Fyrri upprisan er ekki tímasett nákvæmlega í orði Guðs. Hins vegar kemur fram að hún teygi sig yfir ákveðið tímabil meðan nærvera Krists stendur yfir. Fyrst eru reistir upp andasmurðir kristnir menn sem dóu fyrir nærveru Krists. Einstaklingar úr þessum hópi, sem deyja trúfastir eftir að nærvera hans er hafin, breytast „á einu augabragði“ í voldugar andaverur. (1. Korintubréf 15:52) Munu allir andasmurðir menn hljóta laun sín á himnum fyrir Harmagedónstríðið? Við vitum það ekki. Við vitum hins vegar að á tilsettum tíma Guðs munu allar hinar 144.000 standa á Síonfjalli á himnum.

19 Við vitum sömuleiðis að meiri hluti hinna 144.000 er þegar sameinaður Kristi á himnum. Tiltölulega fáir eru eftir á jörðinni. Það er sterk vísbending um að sá tími sé nálægur þegar Guð fullnægir dómi sínum. Bráðlega verður öllum heimi Satans eytt og sjálfum verður honum varpað í undirdjúpið. Þá getur hin almenna upprisa hafist. Á grundvelli lausnarfórnar Jesú geta trúfastir menn hlotið sambærilegan fullkomleika og Adam glataði. Spádómur Jehóva í 1. Mósebók 3:15 er að uppfyllast á stórkostlegan hátt. Það er mikill heiður að fá að vera uppi nú á dögum.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Finna má biblíulegar sannanir fyrir því að nærvera Krists hafi hafist árið 1914 í bókinni Hvað kennir Biblían? á bls. 215-18. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 10 Í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand! á bls. 77 er að finna rök fyrir því að öldungarnir 24 tákni andasmurða kristna menn á himnum. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

Geturðu útskýrt?

Hvernig hjálpa eftirfarandi ritningarstaðir okkur að tímasetja fyrri upprisuna?

Opinberunarbókin 12:7; 17:14.

Opinberunarbókin 7:13, 14.

1. Korintubréf 15:23; 1. Þessaloníkubréf 4:5-17.

Opinberunarbókin 6:2, 9-11.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 31]

Hvernig hljóta sumir, sem hafa sofið dauðasvefni, hvítar skikkjur?

[Myndir á blaðsíðu 32]

Hvaða upprisur eiga sér stað áður en menn almennt verða reistir upp frá dauðum?