Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðjumst mikillega

Gleðjumst mikillega

Gleðjumst mikillega

„Þú [skalt] halda Drottni Guði þínum hátíð. . . . Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega.“ — 5. MÓSEBÓK 16:15.

1. (a) Hvaða deilumál vakti Satan? (b) Hvað sagði Jehóva að myndi gerast í kjölfar uppreisnar Adams og Evu?

SATAN vakti upp tvö deilumál þegar hann leiddi Adam og Evu út í uppreisn gegn skaparanum. Í fyrsta lagi véfengdi hann stjórnarhætti Jehóva og vændi hann um lygi. Í öðru lagi gaf hann í skyn að menn myndu aðeins þjóna Guði í eiginhagsmunaskyni, og þessi ásökun hans kom enn skýrar fram á dögum Jobs. (1. Mósebók 3:1-6; Jobsbók 1:9, 10; 2:4, 5) Jehóva tók hins vegar strax á málunum. Adam og Eva voru enn í Eden þegar hann sagði hvernig hann myndi leysa þessi deilumál. Hann sagði að ‚sæði‘ myndi koma fram á sjónarsviðið, hljóta hælmar og gera síðan út af við Satan með því að merja höfuð hans. — 1. Mósebók 3:15.

2. Hvernig varpaði Jehóva ljósi á uppfyllingu spádómsins í 1. Mósebók 3:15?

2 Með tímanum varpaði Jehóva auknu ljósi á þennan spádóm og staðfesti þannig að hann hlyti uppfyllingu að lokum. Hann sagði Abraham til dæmis að þetta sæði eða „afkvæmi“ myndi koma í ættlegg hans. (1. Mósebók 22:15-18) Jakob, sonarsonur Abrahams, varð faðir 12 ættkvísla Ísraels. Þegar þessar ættkvíslir urðu að þjóð árið 1513 f.Kr. gaf Jehóva þeim lögmál þar sem meðal annars var kveðið á um árlegar hátíðir. Páll postuli sagði að þessar hátíðir væru „skuggi þess, sem koma átti“. (Kólossubréfið 2:16, 17; Hebreabréfið 10:1) Þær gáfu innsýn í það hvernig fyrirætlun Jehóva með sæðið næði fram að ganga. Hátíðirnar vöktu mikla gleði í Ísrael. Við getum styrkt trú okkar og traust á loforð Jehóva með því að kynna okkur þær.

Sæðið kemur fram

3. Hver var fyrirheitna sæðið og hvernig hlaut það hælmar?

3 Rúmlega 4000 árum eftir þennan fyrsta spádóm kom hið fyrirheitna sæði eða afkvæmi fram á sjónarsviðið. Það var Jesús. (Galatabréfið 3:16) Sem fullkominn maður sýndi Jesús trúfesti allt til dauðadags og sannaði þar með að ásakanir Satans væru rangar. Og þar sem Jesús var syndlaus var fórnardauði hans einnig mjög mikils virði. Með því að fórna lífi sínu gat Jesús frelsað trúfasta afkomendur Adams og Evu undan synd og dauða. Dauði Jesú á kvalastaurnum var hælmarið sem fyrirheitna sæðið átti að fá. — Hebreabréfið 9:11-14.

4. Hvernig var fórn Jesú fyrirmynduð?

4 Jesús dó 14. nísan árið 33. * Í Ísrael var páskadagurinn haldinn 14. nísan. Á þessum degi ár hvert komu fjölskyldur saman og borðuðu lýtalaust unglamb. Þannig minntust Ísraelsmenn þess að vegna lambsblóðs voru frumburðir þeirra frelsaðir þegar engill dauðans drap frumburði Egypta 14. nísan árið 1513 f.Kr. (2. Mósebók 12:1-14) Páskalambið táknaði Jesú. Páll postuli sagði: „Páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur.“ (1. Korintubréf 5:7) Úthellt blóð Jesú frelsar líf margra eins og blóð páskalambsins gerði. — Jóhannes 3:16, 36.

Frumgróði hinna dánu

5, 6. (a) Hvenær var Jesús reistur upp og hvernig var sá atburður fyrirmyndaður í lögmálinu? (b) Hvernig gerði upprisa Jesú honum kleift að uppfylla 1. Mósebók 3:15?

5 Á þriðja degi var Jesús reistur upp til lífs á ný til að færa föður sínum andvirði lausnarfórnarinnar. (Hebreabréfið 9:24) Upprisa hans var fyrirmynduð á annarri hátíð. Daginn eftir 14. nísan hófst hátíð hinna ósýrðu brauða. Næsta dag, 16. nísan, færðu Ísraelsmenn prestinum fyrsta kornbundinið af bygguppskerunni sem var fyrsta uppskeran í Ísrael og presturinn veifaði kornbundininu frammi fyrir Jehóva. (3. Mósebók 23:6-14) Það var mjög viðeigandi að á þessum sama degi árið 33 skuli Jehóva hafa gert að engu tilraunir Satans til að þagga að eilífu niður í ‚vottinum trúa og sanna‘. Sextánda nísan árið 33 reisti Jehóva Jesú upp frá dauðum og veitti honum ódauðlegt líf sem andaveru. — Opinberunarbókin 3:14; 1. Pétursbréf 3:18.

6 Jesús varð „frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru“ dauðasvefni. (1. Korintubréf 15:20) Hann dó ekki aftur, ólíkt þeim sem áður höfðu verið reistir upp. Hann steig upp til himna og settist við hægri hönd Jehóva þar sem hann beið þess að verða settur í embætti sem konungur í himnesku ríki Jehóva. (Sálmur 110:1; Postulasagan 2:32, 33; Hebreabréfið 10:12, 13) Núna hefur hann tekið við völdum sem konungur og er í aðstöðu til að merja höfuð Satans, óvinarins mikla, og eyða sæði hans að fullu. — Opinberunarbókin 11:15, 18; 20:1-3, 10.

Fleiri tilheyra sæði Abrahams

7. Hvað var viknahátíðin?

7 Jesús var sæðið sem Jehóva lofaði í Eden að kæmi fram og „skyldi brjóta niður verk djöfulsins“. (1. Jóhannesarbréf 3:8) En þegar Jehóva talaði við Abraham gaf hann til kynna að sæði hans yrði ekki bara einn maður. Það yrði „sem stjörnur á himni, sem [sandur] á sjávarströnd“. (1. Mósebók 22:17) Það að aðrir auk Jesú myndu tilheyra sæðinu var fyrirmyndað með enn annarri hátíð. Fimmtíu dögum eftir 16. nísan héldu Ísraelsmenn viknahátíðina. Í lögmálinu segir um þessa hátíð: „Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn. Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi — frumgróðafórn Drottni til handa.“ * — 3. Mósebók 23:16, 17, 20.

8. Hvað átti sér stað á hvítasunnu árið 33?

8 Þegar Jesús var á jörðinni var viknahátíðin kölluð hvítasunna (á grísku pentēkostē sem þýðir „fimmtugasti“). Á hvítasunnunni árið 33, eftir upprisu Jesú Krists, hins meiri æðstaprests, úthellti hann heilögum anda yfir 120 lærisveina sem safnast höfðu saman í Jerúsalem. Þannig urðu þessir lærisveinar andasmurðir synir Guðs og bræður Jesú Krists. (Rómverjabréfið 8:15-17) Þeir urðu ný þjóð, „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16) Þótt þessi þjóð hefði verið smá í byrjun átti hún eftir að verða 144.000 manns. — Opinberunarbókin 7:1-4.

9, 10. Hvernig var söfnuður andasmurðra kristinna manna fyrirmyndaður á hvítasunnunni?

9 Söfnuður andasmurðra kristinna manna var fyrirmyndaður með súrdeigsbrauðunum tveimur sem var veifað frammi fyrir Jehóva á hverri hvítasunnu. Þar sem brauðin voru úr súrdegi benti það til þess að andasmurðir kristnir menn myndu enn búa yfir erfðasyndinni sem oft er líkt við súrdeig. Þrátt fyrir það hefðu þeir aðgang að Jehóva á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Rómverjabréfið 5:1, 2) En af hverju voru brauðin tvö? Það var ef til vill vísbending um að andasmurðir synir Guðs yrðu fyrst teknir úr hópi Gyðinga og síðar heiðingja. — Galatabréfið 3:26-29; Efesusbréfið 2:13-18.

10 Brauðin tvö, sem fórnað var á hvítasunnunni, voru bökuð úr frumgróða hveitiuppskerunnar. Andasmurðir kristnir menn eru sömuleiðis kallaðir „frumgróði sköpunar hans“. (Jakobsbréfið 1:18) Þeir eru þeir fyrstu sem hljóta fyrirgefningu synda sinna á grundvelli úthellts blóðs Jesú og það gefur þeim kost á ódauðleika á himnum þar sem þeir ríkja með honum. (1. Korintubréf 15:53; Filippíbréfið 3:20, 21; Opinberunarbókin 20:6) Í stöðu sinni á himnum munu þeir bráðlega stjórna þjóðunum með járnsprota og sjá þegar ‚Satan verður sundurmolaður undir fótum þeirra‘. (Opinberunarbókin 2:26, 27; Rómverjabréfið 16:20) Jóhannes postuli sagði: „Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.“ — Opinberunarbókin 14:4.

Dagur frelsunar

11, 12. (a) Hvað gerðist á friðþægingardeginum? (b) Hvaða gagn höfðu Ísraelsmenn af nauta- og hafrafórnunum?

11 Á tíunda degi mánaðarins etaním (sem síðar kallaðist tísrí) * héldu Ísraelsmenn hátíð sem var til tákns um þá friðþægingu sem launsnarfórn Jesú myndi veita. Á þessum friðþægingardegi kom öll þjóðin saman og lét færa fórnir til að breiða yfir syndir sínar. — 3. Mósebók 16:29, 30.

12 Á friðþægingardeginum slátraði æðstipresturinn ungnauti og stökkti hluta af blóðinu sjö sinnum yfir lok sáttmálsarkarinnar í hinu allra helgasta. Þannig færði hann blóðið á táknrænan hátt að fórn fyrir Jehóva. Þessi fórn var fyrir syndir æðstaprestsins, ‚húss hans‘, undirprestanna og levítanna. Því næst tók æðstipresturinn tvo hafra. Öðrum slátraði hann að syndarfórn fyrir lýðinn. Hluta blóðsins var stökkt yfir lok sáttmálsarkarinnar í hinu allra helgasta. Eftir það lagði æðstipresturinn hendur sínar á höfuð hins hafursins og játaði yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna. Síðan lét hann leiða hafurinn út á eyðimörkina svo að hann bæri burt syndir þjóðarinnar á táknrænan hátt. — 3. Mósebók 16:3-16, 21, 22.

13. Hvernig voru atburðirnir á friðþægingardeginum til tákns um hlutverk Jesú?

13 Eins og þessir atburðir fyrirmynduðu notar Jesús, æðstipresturinn mikli, úthellt blóð sitt til að veita fyrirgefningu synda. Andvirði blóðs hans var fyrst notað fyrir „andlegt hús“ hinna 144.000 kristnu manna sem eru andasmurðir. Þannig er hægt að lýsa þá réttláta og þeir geta staðið hreinir frammi fyrir Jehóva. (1. Pétursbréf 2:5; 1. Korintubréf 6:11) Þetta var það sem nautafórnin fyrirmyndaði. Þannig gátu þeir átt kost á að öðlast arfleifð sína á himnum. Síðan var andvirði blóðs Jesú notað í þágu milljóna annarra sem sýna trú á hann. Þetta var fyrirmyndað með hafrafórninni. Þeir hljóta eilíft líf hér á jörðinni, arfleifðina sem Adam og Eva glötuðu. (Sálmur 37:10, 11) Jesús ber burt syndir manna á grundvelli úthellts blóðs síns á sama hátt og seinni hafurinn bar syndir Ísraelsmanna út á eyðimörkina á táknrænan hátt. — Jesaja 53:4, 5.

Gleðjumst frammi fyrir Jehóva

14, 15. Hvað var gert á laufskálahátíðinni og á hvað minnti það Ísraelsmenn?

14 Eftir friðþægingardaginn héldu Ísraelsmenn laufskálahátíðina sem var gleðilegasta hátíð ársins. (3. Mósebók 23:34-43) Hátíðin stóð frá 15. til 21. etaním og lauk með hátíðarfundi 22. þess mánaðar. Hún markaði lok uppskerutímans og gaf fólki tækifæri til að þakka Guði fyrir ríkulega gæsku hans. Þess vegna sagði Jehóva hátíðargestunum: „Drottinn Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega.“ (5. Mósebók 16:15) Þetta hlýtur að hafa verið mjög ánægjulegur tími.

15 Yfir hátíðina bjuggu Ísraelsmenn í laufskálum í sjö daga. Þannig voru þeir minntir á þann tíma þegar þeir bjuggu í tjöldum í eyðimörkinni. Hátíðin gaf þeim næg tækifæri til að minnast föðurlegrar umhyggju Jehóva. (5. Mósebók 8:15, 16) Og þar sem ríkir og fátækir bjuggu í svipuðum skálum minnti það Ísraelsmenn á að yfir hátíðardagana voru þeir allir jafnir. — Nehemíabók 8:14-16.

16. Hvað fyrirmyndaði laufskálahátíðin?

16 Laufskálahátíðin var gleðileg uppskeruhátíð og fyrirmyndaði samansöfnun þeirra sem sýna trú á Jesú Krist. Byrjað var að safna þessum hópi saman á hvítasunnu árið 33 þegar 120 lærisveinar Jesú voru smurðir til að vera ‚heilagt prestafélag‘. Ísraelsmenn bjuggu aðeins í laufskálum í fáeina daga og sömuleiðis vita hinir andasmurðu að þeir eru einungis ‚gestir‘ í þessum óguðlega heimi. Þeir eiga von um líf á himnum. (1. Pétursbréf 2:5, 11) Samansöfnun andasmurðra kristinna manna lýkur á hinum „síðustu dögum“ þegar þeir sem eftir eru af hinum 144.000 bætast í hópinn. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

17, 18. (a) Hvað bendir til þess að ekki aðeins andasmurðir kristnir menn muni njóta góðs af fórn Jesú? (b) Hverjir njóta góðs af því sem laufskálahátíðin táknaði og hvenær nær sá ánægjulegi tími hámarki?

17 Athygli vekur að 70 nautum var fórnað á þessari fornu hátíð. (4. Mósebók 29:12-34) Talan 70 samsvarar 7 margfaldað með 10 en í Biblíunni standa þessar tölur fyrir himneskan og jarðneskan fullkomleika. Fórn Jesú mun því gagnast trúföstum mönnum af öllum 70 ættkvíslunum sem komu af Nóa. (1. Mósebók 10:1-29) Þess vegna er núna verið að safna saman fólki af öllum þjóðum sem iðkar trú á Jesú og hefur von um að lifa í paradís á jörð.

18 Jóhannes postuli sá í sýn þessa samansöfnun fólks nú á dögum. Fyrst heyrði hann tilkynningu þess efnis að búið væri að innsigla þá síðustu af hinum 144.000. Síðan sá hann mikinn múg manna, „sem enginn gat tölu á komið“, standa frammi fyrir Jehóva og Jesú og þeir „höfðu pálmagreinar í höndum“. „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu“ inn í nýja heiminn. Núna eru þeir líka gestir í þessum gamla heimi og horfa með trúartrausti til þess tíma þegar „lambið . . . mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins“. Þá mun Guð „þerra hvert tár af augum þeirra“. (Opinberunarbókin 7:1-10, 14-17) Tíminn, sem táknaður var með laufskálahátíðinni, nær hámarki við lok þúsund ára stjórnar Krists þegar hinn mikli múgur og trúfastir menn, sem reistir hafa verið upp, hljóta eilíft líf. — Opinberunarbókin 20:5.

19. Hvaða gagn höfum við af því að skoða hátíðirnar sem haldnar voru í Ísrael?

19 Við getum glaðst mikillega þegar við hugleiðum merkingu hátíðanna í Ísrael til forna. Það er stórkostlegt að hugsa til þess að Jehóva hafi veitt okkur innsýn í það hvernig spádómurinn, sem hann bar fram í Eden, myndi uppfyllast og það er spennandi að sjá uppfyllinguna núna skref fyrir skref. Við vitum að sæðið er komið fram, hefur hlotið hælmar og er nú konungur á himnum. Auk þess hafa flestir af hinum 144.000 verið trúfastir til dauða. Hvað er þá eftir? Hvað er langt þangað til spádómurinn uppfyllist að fullu? Um það verður rætt í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nísanmánuður samsvarar mars-apríl samkvæmt núverandi tímatali.

^ gr. 7 Þegar þessi tvö súrdeigsbrauð voru færð að veififórn hélt presturinn oft á brauðunum í hvorri hendinni, lyfti höndunum og veifaði brauðunum til beggja hliða. Þessi hreyfing táknaði það að færa Jehóva fórn. — Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 528, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 11 Etaním, eða tísrí, samsvarar september-október samkvæmt núverandi tímatali.

Geturðu útskýrt?

• Hvað táknaði páskalambið?

• Hvaða samansöfnun var fyrirmynduð með hvítasunnuhátíðinni?

• Hvað var gert á friðþægingardeginum sem lýsir lausnarfórn Jesú?

• Hvernig var samansöfnun kristinna manna táknuð með laufskálahátíðinni?

[Spurningar]

[Skýringarmynd á blaðsíðu 24, 25]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Páskahátíðin

14. nísan

Atburður:

Páskalambi slátrað

Fyrirmyndaði:

Jesú fórnað

Hátíð hinna ósýrðu brauða (15.-21. nísan)

15. nísan

Atburður:

Hvíldardagur

16. nísan

Atburður:

Byggi fórnað

Fyrirmyndaði:

Jesús reistur upp

50 dagar

Viknahátíðin (hvítasunna)

6. sívan

Atburður:

Tveim brauðum fórnað

Fyrirmyndaði:

Jesús leiðir andasmurða bræður sína fram fyrir Jehóva

Friðþægingardagurinn

10. tísrí

Atburður:

Nauti og tveim höfrum fórnað

Fyrirmyndaði:

Jesús ber fram andvirði blóðs síns í þágu alls mannkyns

Laufskálahátíðin (uppskeruhátíðin)

15.-21. tísrí

Atburður:

Ísraelsmenn dvöldu í laufskálum og glöddust yfir uppskerunni, 70 nautum fórnað

Fyrirmyndaði:

Samansöfnun andasmurðra manna og múgsins mikla

[Myndir á blaðsíðu 23]

Margir björguðust vegna blóðs páskalambsins og sömuleiðis geta margir hlotið hjálpræði vegna úthellts blóðs Jesú.

[Myndir á blaðsíðu 24]

Frumgróði bygguppskerunnar, sem fórnað var 16. nísan, táknaði upprisu Jesú.

[Myndir á blaðsíðu 25]

Brauðin tvö, sem fórnað var á hvítasunnunni, táknuðu söfnuð andasmurðra kristinna manna.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Laufskálahátíðin fyrirmyndaði samansöfnun andasmurðra manna og múgsins mikla af öllum þjóðum.