Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpaðu öðrum að fara eftir því sem Biblían kennir

Hjálpaðu öðrum að fara eftir því sem Biblían kennir

Hjálpaðu öðrum að fara eftir því sem Biblían kennir

„Það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.“ — LÚKAS 8:15.

1, 2. (a) Í hvaða tilgangi var bókin Hvað kennir Biblían? gefin út? (b) Hvernig hefur Jehóva blessað boðunarstarf þjóna sinna á síðustu árum?

„BÓKIN er hreint afbragð. Nemendur mínir eru stórhrifnir af henni. Mér finnst hún frábær. Með hjálp þessarar bókar er hægt að hefja biblíunámskeið við dyrnar hjá fólki.“ Vottur Jehóva, sem notar megnið af tíma sínum til að boða trúna, sagði þetta um bókina Hvað kennir Biblían? * Roskinn boðberi fagnaðarerindisins sagði um þessa sömu bók: „Ég hef haft tækifæri til að hjálpa mörgum að kynnast Jehóva á þeim 50 árum sem ég hef tekið þátt í boðunarstarfinu. Ég verð hins vegar að segja að þessi námsbók er einstök. Líkingamálið er ferskt og myndirnar fallegar.“ Hugsar þú þannig um bókina Hvað kennir Biblían? Þessi námsbók er samin til að hjálpa þér að fylgja eftirfarandi fyrirmælum Jesú: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.

2 Við megum vera viss um að það gleður Jehóva að sjá 6,6 milljónir votta sinna hlýða fúslega fyrirmælum Jesú um að gera fólk að lærisveinum. (Orðskviðirnir 27:11) Augljóst er að hann blessar starf þeirra. Árið 2005 var fagnaðarerindið boðað í 235 löndum og haldin voru að meðaltali 6.061.500 biblíunámskeið. Fyrir vikið ‚veittu margir orði Guðs viðtöku, ekki sem manna orði heldur sem Guðs orði eins og það í sannleika er‘. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Á síðastliðnum tveim árum hefur meira en hálf milljón nýrra lærisveina farið að lifa eftir lífsreglum Jehóva og vígst honum.

3. Hvaða spurningar verða skoðaðar í þessari grein varðandi bókina Hvað kennir Biblían?

3 Hefur þú orðið þeirrar gleði aðnjótandi nýlega að leiðbeina einhverjum við biblíunám? Út um allan heim er enn að finna fólk með ‚göfugt og gott hjarta‘ sem ‚ber ávöxt með stöðuglyndi‘ þegar það heyrir orð Guðs. (Lúkas 8:11-15) Við skulum kanna hvernig hægt er að nota bókina Hvað kennir Biblían? til að kenna nýjum lærisveinum. Við munum ræða þrjár spurningar: (1) Hvernig er hægt að hefja nýtt biblíunámskeið? (2) Hvaða kennsluaðferðir eru áhrifaríkastar? (3) Hvernig geturðu hjálpað fólki að vera ekki aðeins nemendur heldur einnig kennarar og fræða aðra um ritað orð Guðs, Biblíuna?

Hvernig geturðu komið af stað biblíunámskeiði?

4. Af hverju hika sumir við að þiggja biblíunámskeið og hvernig er hægt að sigrast á því?

4 Trúlega myndi þér ekki lítast á blikuna ef þér væri sagt að stökkva yfir á í einu stökki. Sennilega hugnaðist þér betur að fara yfir ána ef settir væru steinar með reglulegu millibili út í hana og þú gætir stiklað á þeim. Á sama hátt gæti upptekin manneskja hikað við að þiggja biblíunámskeið. Húsráðandinn hugsar kannski með sér að það kosti of mikinn tíma og fyrirhöfn að kynna sér Biblíuna. Hvernig geturðu hjálpað honum að skipta um skoðun? Þú getur notað bókina Hvað kennir Biblían? í stuttum en innihaldsríkum samtölum til að koma af stað reglubundnu biblíunámskeiði. Ef þú ert vel undirbúinn verður hver heimsókn eins og stikla eða áfangi í þá átt að viðmælandinn eignist vináttusamband við Jehóva.

5. Af hverju þarftu að lesa bókina Hvað kennir Biblían?

5 Til að geta hjálpað öðrum að njóta góðs af bókinni Hvað kennir Biblían? þarftu að þekkja efni hennar vel. Hefurðu lesið bókina frá upphafi til enda? Hjón nokkur tóku hana með sér þegar þau fóru í frí og byrjuðu að lesa hana þar sem þau slökuðu á á ströndinni. Þá bar að konu sem var að selja ferðamönnum varning og hún rak augun í bókartitilinn Hvað kennir Biblían? Hún sagði hjónunum að hún hefði beðið til Guðs fáeinum klukkustundum áður og beðið hann um svar við þessari spurningu. Hjónin gáfu konunni fúslega eintak af bókinni. Hefur þú gefið þér tíma til að lesa bókina, ef til vill í annað sinn, til dæmis á biðstofu eða í hléum á vinnustað eða í skóla? (Efesusbréfið 5:15, 16) Ef þú gerir það verður þú vel heima í þessari biblíunámsbók og getur jafnframt skapað þér tækifæri til að tala við aðra um efni hennar.

6, 7. Hvernig er hægt að nota bókina Hvað kennir Biblían? til að hefja biblíunámskeið?

6 Þegar þú býður bókina í boðunarstarfinu skaltu nota vel myndirnar, ritningarstaðina og spurningarnar á bls. 4, 5 og 6. Þú gætir til dæmis byrjað samtal með því að spyrja: „Hvar ætli sé hægt að fá örugga leiðsögn í ljósi allra þeirra vandamála sem mannkynið á við að glíma?“ Eftir að hafa hlustað vel á svar viðmælandans skaltu lesa 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17 og nefna að Biblían bendi á lausnina á vandamálum mannkyns. Sýndu húsráðanda síðan bls. 4 og 5 og spyrðu: „Hvað af því sem þú sérð á þessum myndum veldur þér mestum áhyggjum?“ Eftir að húsráðandinn hefur bent á ákveðið atriði skaltu biðja hann að halda á bókinni meðan þú lest viðeigandi ritningarstað í Biblíunni. Lestu síðan bls. 6 og spyrðu: „Hvaða spurningu vildirðu helst fá svarað af þessum sex sem eru hér neðst á síðunni?“ Eftir að húsráðandinn hefur bent á einhverja af spurningunum skaltu sýna honum kaflann þar sem henni er svarað, gefa honum bókina og mæla þér mót við hann til að ræða spurninguna.

7 Það tekur rétt um fimm mínútur að fara með kynninguna hér að ofan. Á þessum mínútum ertu búinn að komast að raun um hvað veldur húsráðandanum mestum áhyggjum, lesa og skýra tvo ritningarstaði og mæla þér mót við hann að nýju. Vel má vera að þetta stutta samtal hafi hughreyst hann og uppörvað meira en nokkuð annað sem hefur gerst í lífi hans um langt skeið. Sennilega hlakkar hann til að hitta þig aftur í nokkrar mínútur þótt hann eigi annríkt, og þú getur þá hjálpað honum að stíga næsta skrefið inn á veginn sem „liggur til lífsins“. (Matteus 7:14) Eftir því sem áhugi húsráðandans eykst ætti að lengja námsstundirnar. Það má gera með því að stinga upp á að þið setjist niður og gefið ykkur ákveðinn tíma til biblíunámsins.

Áhrifaríkustu kennsluaðferðirnar

8, 9. (a) Hvernig er hægt að búa biblíunemanda undir tálma og prófraunir sem líklegt er að verði á vegi hans? (b) Hvar er að finna eldtraust efni til að byggja upp sterka trú?

8 Þegar biblíunemandi fer að fara eftir því sem Biblían kennir er líklegt að ýmislegt komi upp á sem gæti tálmað honum að taka framförum. Páll postuli sagði: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Páll líkti þessum prófraunum við eld sem eyðir lélegu byggingarefni en skaðar ekki efni eins og gull, silfur og dýra steina. (1. Korintubréf 3:10-13; 1. Pétursbréf 1:6, 7) Þú þarft að hjálpa biblíunemandanum með því að byggja úr eldtraustum efnum, það er að segja að hjálpa honum að þroska með sér þá eiginleika sem þarf til að standast prófraunirnar sem gætu orðið á vegi hans.

9 Sálmaritarinn líkir orði Jehóva við „skírt silfur, sjöhreinsað gull“. (Sálmur 12:7) Já, Biblían inniheldur öll þau dýrmætu efni sem hægt er að nota til að byggja upp sterka trú. (Sálmur 19:8-12; Orðskviðirnir 2:1-6) Og bókin Hvað kennir Biblían? sýnir okkur hvernig við getum beitt orði Guðs á áhrifaríkan hátt.

10. Hvernig geturðu beint athygli nemandans að Biblíunni?

10 Meðan á náminu stendur skaltu beina athygli nemandans að ritningarstöðunum í kaflanum sem þið eruð að fara yfir. Beittu spurningum til að hjálpa honum að skilja mikilvæga ritningarstaði og heimfæra þá upp á sjálfan sig. Gættu þess að segja honum ekki hvað hann eigi að gera. Líktu heldur eftir Jesú. Þegar lögfróður maður spurði hann spurningar svaraði hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Maðurinn svaraði samkvæmt Ritningunni og Jesús sýndi honum fram á hvernig hann ætti að heimfæra meginregluna upp á sjálfan sig. Síðan sagði Jesús dæmisögu til að benda manninum á hvaða áhrif meginreglan ætti að hafa á hann. (Lúkas 10:25-37) Í bókinni Hvað kennir Biblían? er mikið af einföldum líkingum og dæmum sem þú getur notað til að hjálpa nemandanum að heimfæra frumreglur Biblíunnar upp á sjálfan sig.

11. Hve mikið efni ætti að fara yfir í hverri námsstund?

11 Í bókinni er notað skýrt og einfalt mál til að útskýra orð Guðs, rétt eins og Jesús kom flóknum hugmyndum á framfæri með einföldum orðum. (Matteus 7:28, 29) Farðu að dæmi hans. Komdu upplýsingunum nákvæmlega til skila á einfaldan og skýran hátt. Farðu ekki of hratt yfir efnið. Láttu aðstæður og færni nemandans ráða því hve margar greinar er farið yfir í hverri námsstund. Jesús þekkti takmörk lærisveina sinna og íþyngdi þeim ekki með meiri upplýsingum en þeir þurftu á að halda hverju sinni. — Jóhannes 16:12.

12. Hvernig ætti að nota viðaukann?

12 Í bókinni Hvað kennir Biblían? er viðauki þar sem fjallað er um 14 viðfangsefni. Þar sem þú ert leiðbeinandinn ættirðu að geta metið hvernig best sé að nota þetta efni í samræmi við þarfir nemandans. Segjum til dæmis að nemandi eigi erfitt með að skilja ákveðið efni eða sé með vissar spurningar vegna fyrri trúarskoðana sinna. Þá gæti verið nóg að benda honum á viðeigandi kafla í viðaukanum og láta hann að skoða efnið sjálfur. Hins vegar gæti líka verið að þú metir þarfir nemandans þannig að best sé að fara yfir efnið með honum. Í viðaukanum er fjallað um mikilvæg biblíuleg málefni eins og „Hvað eru ‚sál‘ og ‚andi‘?“ og „Hvað er ‚Babýlon hin mikla‘?“ Þú gætir hugsanlega farið yfir þetta efni með nemandanum. Þar sem engar námsspurningar fylgja viðaukanum þarftu að setja þig vel inn í efnið til að geta borið fram viðeigandi spurningar.

13. Hvernig stuðlar bænin að því að styrkja trúna?

13 „Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis,“ segir í Sálmi 127:1. Biddu því Jehóva um hjálp þegar þú býrð þig undir næstu biblíunámsstund. Láttu bænir þínar við upphaf og endi námsstundarinnar endurspegla hlýlegt samband þitt við Jehóva. Hvettu nemandann til að biðja Jehóva um visku til að skilja Biblíuna og styrk til að fara eftir henni. (Jakobsbréfið 1:5) Ef hann gerir það fær hann kraft til að standast prófraunir og heldur áfram að styrkjast í trúnni.

Hjálpaðu biblíunemendum að verða kennarar

14. Hvaða framförum þurfa biblíunemendur að taka?

14 Eigi nemendur þínir að „halda allt það“ sem Jesús sagði lærisveinunum að gera þurfa þeir að sækja fram og gerast biblíukennarar sjálfir. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:6-8) Hvað geturðu gert til að hjálpa nemanda að taka slíkum framförum í trúnni?

15. Af hverju ættirðu að hvetja biblíunemanda til að sækja safnaðarsamkomur?

15 Allt frá fyrstu námsstundinni skaltu bjóða nemandanum að sækja safnaðarsamkomur með þér. Bentu honum á að það sé á samkomunum sem þú fáir fræðslu til að geta kennt orð Guðs. Notaðu nokkrar mínútur í lok hverrar námsstundar í fáeinar vikur til að lýsa fræðslunni sem þú færð á samkomum og mótum. Talaðu af eldmóði um það gagn sem þú hefur af samkomunum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þegar nemandinn fer að sækja samkomur að staðaldri er líklegt að hann fari sjálfur að kenna öðrum orð Guðs.

16, 17. Nefndu nokkur raunhæf markmið sem biblíunemandi gæti sett sér.

16 Hjálpaðu biblíunemandanum að setja sér raunhæf markmið. Hvettu hann til dæmis til að segja vini eða ættingja frá því sem hann er að læra. Leggðu til að hann stefni að því að lesa Biblíuna í heild. Ef þú hjálpar honum að temja sér að lesa reglulega í Biblíunni á hann eftir að njóta góðs af því um langa framtíð. Og hví ekki að hvetja nemandann til að setja sér það markmið að leggja á minnið að minnsta kosti einn mikilvægan ritningarstað úr hverjum kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Þannig verður hann „verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans“. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

17 Í stað þess að kenna nemanda að fara einfaldlega með biblíuvers eða endursegja það skaltu hvetja hann til að útskýra viðeigandi vers þegar hann svarar fólki sem krefur hann um rök fyrir trú sinni. Stuttar æfingar gætu auðveldað honum þetta þar sem þú leikur ættingja eða vinnufélaga sem spyr hann út í trú hans. Kenndu nemandanum að svara spurningum „með hógværð og virðingu“. — 1. Pétursbréf 3:15, 16.

18. Hvernig geturðu aðstoðað biblíunemandann þegar hann verður hæfur til að vera óskírður boðberi?

18 Þegar fram líða stundir gæti nemandinn orðið hæfur til að taka þátt í boðunarstarfinu. Leggðu áherslu á að það sé mikill heiður að mega taka þátt í þessu starfi. (2. Korintubréf 4:1, 7) Eftir að öldungarnir hafa gengið úr skugga um að nemandinn sé hæfur til að vera óskírður boðberi skaltu hjálpa honum að undirbúa einfalda kynningu og farðu síðan með honum í boðunarstarfið. Starfaðu með honum að staðaldri í ýmsum greinum boðunarstarfsins og kenndu honum að búa sig vel undir að fara aftur til þeirra sem sýndu áhuga. Gott fordæmi þitt hefur jákvæð áhrif. — Lúkas 6:40.

Gerðu „sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína“

19, 20. Hvaða markmið ættum við að setja okkur og hvers vegna?

19 Það kostar tvímælalaust mikla vinnu að hjálpa öðrum að ‚komast til þekkingar á sannleikanum‘. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Fátt er hins vegar ánægjulegra en að geta aðstoðað fólk við að fara eftir því sem Biblían kennir. (1. Þessaloníkubréf 2:19, 20) Það er mikill heiður að mega vera „samverkamenn Guðs“ í þessu kennslustarfi sem fer fram um allan heim. — 1. Korintubréf 3:9.

20 Guð mun bráðlega, fyrir atbeina Jesú Krists og voldugra engla, láta þá svara til saka sem „þekkja ekki Guð, og . . . hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. (2. Þessaloníkubréf 1:6-8) Mannslíf eru í húfi. Geturðu sett þér það markmið að halda að minnsta kosti eitt biblíunámskeið með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían? Með því að taka þátt í þessu starfi hefurðu tækifæri til að „gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína“. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Nú er brýnna er nokkru sinni fyrr að hjálpa öðrum að fara eftir því sem Biblían kennir.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Gefin út af Vottum Jehóva.

Hvað lærðir þú?

• Í hvaða augnamiði er bókin Hvað kennir Biblían? samin?

• Hvernig geturðu komið af stað biblíunámskeiði með því að nota bókina Hvað kennir Biblían?

• Hvaða kennsluaðferðir eru áhrifaríkastar?

• Hvernig geturðu hjálpað nemanda að kenna öðrum orð Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Notarðu þessa bók vel?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Stutt samtal getur vakið áhuga annarra á Biblíunni.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hvernig geturðu beint athygli nemandans að Biblíunni?

[Mynd á blaðsíðu 22]

Hjálpaðu biblíunemandanum að taka framförum.