Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kenndu það sem Biblían kennir

Kenndu það sem Biblían kennir

Kenndu það sem Biblían kennir

„Gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim.“ — MATTEUS 28:19, 20.

1. Hvað má segja um útbreiðslu Biblíunnar?

ORÐ JEHÓVA, heilög Biblía, er ein af elstu og útbreiddustu bókum veraldar. Hún hefur verið þýdd í heild eða að hluta á meira en 2300 tungumál. Yfir 90 af hundraði jarðarbúa hafa aðgang að henni á móðurmáli sínu.

2, 3. (a) Af hverju er fólk í óvissu um hvað Biblían kennir? (b) Hvaða spurningar ætlum við að líta á?

2 Milljónir manna lesa daglega í Biblíunni. Sumir hafa lesið hana mörgum sinnum spjaldanna á milli. Þúsundir trúfélaga og hópa segjast byggja kenningar sínar á Biblíunni en eru ekki sammála um hvað hún kennir. Ekki bætir úr skák að fólk innan sama trúarsafnaðar er oft á öndverðum meiði. Sumir hafa efasemdir um Biblíuna, uppruna hennar og gildi. Í augum margra er þetta heilög bók sem á aðeins að nota í tengslum við ákveðna viðhafnarsiði, svo sem að strengja heit í nafni hennar eða sverja við hana í réttarsal að segja sannleikann.

3 Sannleikurinn er sá að Biblían hefur að geyma hið kröftuga orð Guðs, boðskap hans til mannanna. (Hebreabréfið 4:12) Við sem erum vottar Jehóva viljum því hjálpa fólki að kynnast því sem Biblían kennir. Við höfum mikla ánægju af því að fara eftir fyrirmælum Jesú Krists til fylgjenda sinna: „Gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim.“ (Matteus 28:19, 20) Þegar við boðum trúna meðal almennings finnum við hjartahreint fólk sem er ráðvillt vegna hinnar trúarlegu ringulreiðar í heiminum. Það vill fá að vita sannleikann um skaparann og langar til að vita hvað Biblían segir um tilgang lífsins. Við skulum líta á þrjár spurningar sem margir velta fyrir sér. Við skoðum hverju leiðtogar og kennarar á vettvangi trúmála halda ranglega fram og síðan könnum við hvað Biblían kennir í raun og veru. Spurningarnar eru: (1) Er Guði annt um okkur? (2) Hver er tilgangur lífsins? og (3) Hvað verður um okkur við dauðann?

Er Guði annt um okkur?

4, 5. Af hverju halda margir að Guði sé ekki annt um okkur?

4 Lítum á fyrstu spurninguna: Er Guði annt um okkur? Margir halda því miður að svarið sé nei. Af hverju hugsa þeir þannig? Ein ástæðan er sú að við búum í heimi sem er altekinn hatri, styrjöldum og þjáningum. Þeir hugsa með sér að Guð myndi örugglega koma í veg fyrir svona hörmungar ef honum væri annt um mennina.

5 Það er önnur ástæða fyrir því að margir ímynda sér að Guði standi á sama um okkur — prestar og kennimenn hafa komið þeirri hugmynd inn hjá þeim. Hvað segja prestar gjarnan þegar harmleik ber að garði? Þegar móðir nokkur missti tvö lítil börn í bílslysi sagði presturinn hennar: „Þetta var vilji Guðs. Hann vantaði tvo engla til viðbótar.“ Þegar prestar segja svona lagað eru þeir í rauninni að kenna Guði um þá harmleiki sem eiga sér stað. Lærisveinninn Jakob skrifaði hins vegar: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Jehóva Guð er aldrei valdur að hinu illa. „Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt.“ — Jobsbók 34:10.

6. Hver stendur að baki illskunni og þjáningunum í heiminum?

6 Hvers vegna er þá svona mikil illska og þjáningar í heiminum? Ein ástæðan er sú að mannkynið í heild hefur hafnað Guði sem stjórnanda sínum. Það vill ekki lúta réttlátum lögum hans og meginreglum. Mennirnir hafa óafvitandi gengist undir yfirráð Satans djöfulsins, óvinar Guðs því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þetta varpar ljósi á það hvers vegna ástandið er svona slæmt. Satan er altekinn illsku, hatri, grimmd og undirferli. Það er því ekki við öðru að búast en að heimurinn endurspegli persónuleika stjórnanda síns. Engin furða að illskan skuli vera svona mikil!

7. Nefndu nokkrar ástæður fyrir þjáningum okkar.

7 Ófullkomleiki mannanna er önnur ástæða fyrir þjáningunum þeirra. Syndugir menn hafa tilhneigingu til að berjast um yfirráð og það veldur oft styrjöldum, kúgun og þjáningum. Prédikarinn 8:9 orðar það ágætlega og segir að ‚einn maðurinn drottni yfir öðrum honum til ógæfu‘. Og ekki má gleyma því að „tími og tilviljun“ á sinn þátt í þjáningunum. (Prédikarinn 9:11) Oft lendir fólk í hremmingum vegna þess að það er á röngum stað á röngum tíma.

8, 9. Hvernig vitum við að Jehóva er virkilega annt um okkur?

8 Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva veldur ekki þjáningum mannanna. En hefur hann áhuga á því sem á sér stað í lífi okkar? Svarið er já og það er mjög traustvekjandi. Við vitum að Jehóva er annt um okkur vegna þess að hann skýrir í innblásnu orði sínu af hverju hann hefur leyft mönnunum að fara rangar brautir. Ástæðurnar fyrir því eru nátengdar tvíþættu deilumáli: deilunni um drottinvald hans og um ráðvendni mannanna. Alvöldum skapara alheims ber engin skylda til að segja okkur hvers vegna hann leyfir þjáningar. Hann gerir það samt af því að honum er annt um okkur.

9 Lítum á fleira sem bendir til þess að Guði sé annt um okkur. Honum „sárnaði það í hjarta sínu“ þegar jörðin fylltist illsku á dögum Nóa. (1. Mósebók 6:5, 6) Er honum eitthvað öðruvísi innanbrjósts núna? Nei, Jehóva breytist ekki. (Malakí 3:6) Hann hatar óréttlæti og það tekur hann sárt að sjá mennina þjást. Biblían kennir að bráðlega muni hann bæta allt það tjón sem hlotist hefur af stjórn manna og áhrifum Satans. Eru það ekki sannfærandi rök fyrir því að Guði sé annt um okkur?

10. Hvað finnst Jehóva um þjáningar mannanna?

10 Kennimenn draga því upp alranga mynd af Guði þegar þeir segja að harmleikir lífsins séu samkvæmt vilja hans. Sannleikurinn er sá að Jehóva þráir að sjá þjáningar taka enda. „Hann ber umhyggju fyrir yður,“ segir í 1. Pétursbréfi 5:7. Það er þetta sem Biblían kennir í raun og veru!

Hver er tilgangur lífsins?

11. Hvað kenna trúarbrögð heims oft um veru mannsins á jörðinni?

11 Lítum nú á aðra spurningu sem margir velta fyrir sér: Hver er tilgangur lífsins? Trúarbrögð heims kenna oft að vera mannsins á jörðinni sé aðeins til bráðabirgða. Í augum þeirra er jörðin lítið annað en viðkomustaður á leiðinni til annars lífs. Sumir prestar kenna ranglega að Guð ætli að eyða jörðinni einhvern tíma í framtíðinni. Slíkar kenningar valda því að margir hugsa sem svo að það sé best að reyna að fá sem mest út úr lífinu því að okkar bíði ekkert annað en dauðinn. En hvað skyldi Biblían kenna í raun og veru um tilgang lífsins?

12-14. Hvað kennir Biblían varðandi fyrirætlun Guðs með jörðina og mannkynið?

12 Guð hefur stórfenglegan tilgang með jörðina og mannkynið. Hann hefur „eigi skapað [jörðina] til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg“. (Jesaja 45:18) Hann hefur ‚grundvallað jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi‘. (Sálmur 104:5) Með því að kynna okkur hvaða hlutverk Guð ætlaði jörðinni og mannkyninu skiljum við tilgang lífsins.

13 Í 1. og 2. kafla 1. Mósebókar kemur fram að Guð hafi búið jörðina af mikilli natni undir ábúð mannsins. Að því búnu gekk hann úr skugga um að allt væri „harla gott“. (1. Mósebók 1:31) Hann setti fyrstu mennina, þau Adam og Evu, í yndislegan garð sem hét Eden og þar var meira en nóg af góðum mat handa þeim. Guð sagði þeim að ‚vera frjósöm, margfaldast, uppfylla jörðina og gera sér hana undirgefna‘. Þau áttu að eignast fullkomin börn, stækka garðinn þar sem þau bjuggu uns hann næði um alla jörðina og hafa kærleiksrík yfirráð yfir dýrunum. — 1. Mósebók 1:26-28.

14 Það er ætlun Jehóva að fullkomnir menn búi að eilífu á jörðinni. Í orði hans segir: „Þeir réttlátu erfa landið og búa eilíflega í því.“ (Sálmur 37:29, Biblían 1859) Já, mannkynið átti að lifa að eilífu í paradís á jörð. Það er þetta sem Guð ætlast fyrir og það er einmitt þetta sem Biblían kennir.

Hvað verður um okkur við dauðann?

15. Hvað kenna flest trúarbrögð heims að verði um okkur þegar við deyjum?

15 Snúum okkur nú að þriðju spurningunni sem margir velta fyrir sér. Hvað verður um okkur við dauðann? Flest trúarbrögð heims kenna að maðurinn hafi eitthvað hið innra með sér sem haldi áfram að lifa eftir að líkaminn deyr. Sumir trúarhópar ríghalda enn í þá hugmynd að Guð refsi hinum vondu með því að kvelja þá að eilífu í logandi helvíti. Er það sannleikanum samkvæmt? Hvað kennir Biblían eiginlega um dauðann?

16, 17. Hvað verður um okkur við dauðann, að því er segir í Biblíunni?

16 Í orði Guðs segir: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar.“ Fyrst hinir dauðu „vita ekki neitt“ geta þeir hvorki heyrt, séð, talað, fundið til né hugsað. Þeir hljóta engin laun framar. Hvernig gætu þeir það úr því að þeir geta ekkert unnið? „Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið“ vegna þess að þeir geta ekki látið í ljós neinar tilfinningar. — Prédikarinn 9:5, 6, 10.

17 Það sem Biblían segir um dauðann er einfalt og skýrt — hinir dánu lifa ekki einhvers staðar áfram. Það er ekkert í okkur sem yfirgefur líkamann við dauðann og lifir áfram til að endurfæðast í öðrum líkama eins og þeir halda fram sem trúa á endurholdgun. Það mætti líkja lífi okkar við logann á kerti. Þegar loginn slokknar fer hann hvorki eitt né neitt. Hann hverfur hreinlega.

18. Hvað getur biblíunemandi ályktað þegar hann uppgötvar að hinir dánu hafa enga meðvitund?

18 Hugsaðu þér hvílík áhrif þessi einfaldi en kröftugi sannleikur hefur. Þegar biblíunemandi uppgötvar að hinir dánu hafa enga meðvitund ætti að vera auðvelt fyrir hann að álykta að látnir forfeður geti ekki gert honum mein, þótt þeir hafi verið honum reiðir í lifanda lífi. Það ætti að vera auðvelt fyrir hann að skilja að látnir ástvinir hans geta hvorki heyrt, séð, talað, fundið til né hugsað. Þess vegna getur ekki verið að þeir líði óbærilega einsemd í hreinsunareldi eða kveljist í logum vítis. Biblían kennir hins vegar að dánir menn, sem Guð geymir í minni sér, verði reistir upp frá dauðum. Það er unaðsleg von. — Jóhannes 5:28, 29.

Ný bók til að nota við kennslu

19, 20. Hvaða verkefni er okkur falið og hvaða biblíunámsrit er sérstaklega samið til að nota í boðunarstarfinu?

19 Við höfum aðeins litið á þrjár spurningar sem margir velta fyrir sér. Við höfum séð að Biblían gefur skýr og einföld svör við þeim. Það er gleðilegt að geta sagt fólki frá slíkum sannindum, sérstaklega fólki sem langar til að vita hvað Biblían kennir. En það eru margar aðrar mikilvægar spurningar sem hjartahreinir menn þurfa að fá fullnægjandi svör við. Það er verkefni okkar að hjálpa fólki að fá svör við slíkum spurningum.

20 Okkur er sá vandi á höndum að kenna sannleika Biblíunnar á einfaldan og skýran hátt þannig að hann nái til hjartans. Til að auðvelda okkur það hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ gefið út bók sem er samin sérstaklega til að nota í boðunarstarfi okkar. (Matteus 24:45-47) Bókin er 224 blaðsíður og nefnist Hvað kennir Biblían?

21, 22. Lýstu í stuttu máli hvernig bókin Hvað kennir Biblían? er úr garði gerð.

21 Bókin var gefin út á umdæmismótunum „Hlýðni við Guð“ sem Vottar Jehóva héldu árið 2005. Lítum nánar á hvernig bókin er úr garði gerð. Í henni er fimm blaðsíðna formáli sem hefur reynst afar mikil hjálp til að hefja ný biblíunámskeið. Það ætti að vera auðvelt að ræða um myndirnar og ritningarstaðina sem er að finna í formálanum. Einnig mætti nota efni í formálanum til að kenna nemendum að finna ákveðinn kafla og vers í Biblíunni.

22 Stíllinn á þessari nýju bók er skýr og einfaldur. Lögð er áhersla á að ná til hjarta nemandans með því að höfða til hans eftir því sem kostur er. Í byrjun hvers kafla eru nokkrar inngangsspurningar og í lok hans er rammi með yfirskriftinni: „Biblían kennir.“ Í rammanum er að finna svörin við spurningunum í byrjun kaflans ásamt biblíuvísunum. Með myndum, millifyrirsögnum og líkingum er leitast við að hjálpa nemandanum að meðtaka nýjar hugmyndir. Þótt meginmál bókarinnar sé með frekar einföldu sniði er viðauki í henni þar sem fjallað er ítarlegar um 14 viðfangsefni, ef nemandann langar til að afla sér nánari upplýsinga.

23. Hvernig er stungið upp á að nota bókina Hvað kennir Biblían?

23 Bókin Hvað kennir Biblían? er samin með það fyrir augum að auðvelda okkur að kenna fólki sem hefur hlotið ólíka menntun og trúaruppeldi. Ef nemandinn er ókunnugur Biblíunni getur þurft fleiri en eina námsstund til að fara yfir kafla. Farðu ekki of hratt yfir efnið heldur reyndu að höfða til hjarta nemandans. Ef hann skilur ekki ákveðna líkingu í bókinni skaltu gefa skýringu eða nota aðra líkingu. Undirbúðu þig vel, leggðu þig fram við að nota bókina sem best og biddu Guð að hjálpa þér að ‚fara rétt með orð sannleikans‘. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

Vertu þakklátur fyrir þann mikla heiður sem þér er sýndur

24, 25. Hvaða ómetanlega heiður hefur Jehóva sýnt þjónum sínum?

24 Jehóva hefur sýnt þjónum sínum ómetanlegan heiður. Hann hefur gert okkur kleift að þekkja sannleikann um sig. Við megum ekki vanmeta þessa verðmætu gjöf! Jehóva hefur nefnilega opinberað auðmjúkum mönnum fyrirætlanir sínar en hulið þær fyrir hinum dramblátu. Jesús sagði: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.“ (Matteus 11:25) Það er fágætur heiður að mega teljast í hópi auðmjúkra manna sem þjóna alheimsdrottni, Jehóva Guði.

25 Jehóva hefur gefið okkur það verkefni að fræða aðra um sig. Eins og þú manst hefur verið dregin upp röng mynd af honum með því að ljúga til um hann. Margir gera sér því alranga mynd af Jehóva og halda að hann sé harðbrjósta og áhugalaus um hagi okkar. Ertu fús og jafnvel ákafur að taka þátt í því að leiðrétta rangfærslurnar? Viltu að hjartahreinir menn hvar sem er í heiminum kynnist sannleikanum um Jehóva? Þá skaltu fyrir alla muni hlýða honum með því að taka dyggilega þátt í að boða trúna og kenna öðrum hvað Biblían segir um mikilvæg mál. Þeir sem þrá að þekkja sannleikann þurfa að fá að vita hvað Biblían kennir í raun og veru.

Hvert er svarið?

• Hvernig vitum við að Guði er annt um okkur?

• Hver er tilgangur lífsins?

• Hvað verður um okkur við dauðann?

• Hvaða þætti bókarinnar Hvað kennir Biblían? kanntu sérstaklega að meta?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 14]

Biblían kennir að þjáningar taki enda.

[Rétthafi]

Telpa: © Bruno Morandi/age fotostock; kona: AP Photo/Gemunu Amarasinghe; flóttamenn: © Sven Torfinn/Panos Pictures

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hinir réttlátu fá að lifa að eilífu í paradís.