Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiginkonur — sýnið eiginmönnum ykkar djúpa virðingu

Eiginkonur — sýnið eiginmönnum ykkar djúpa virðingu

Eiginkonur — sýnið eiginmönnum ykkar djúpa virðingu

„Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:21, 22.

1. Af hverju getur það oft verið áskorun fyrir eiginkonu að virða eiginmann sinn?

VIÐ hjónavígslur í mörgum löndum strengir brúðurin þess heit að sýna eiginmanni sínum djúpa virðingu. En framkoma eiginmanns við konu sína ræður miklu um það hvort það er auðvelt eða erfitt fyrir hana að lifa í samræmi við þetta heit. Hjónabandið var frá upphafi dásamleg ráðstöfun. Guð tók rifbein úr Adam, fyrsta manninum, og skapaði konuna. Þá sagði Adam: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi.“ — 1. Mósebók 2:19-23.

2. Hvernig hefur viðhorf kvenna til hjónabandsins breyst á síðustu áratugum?

2 Þrátt fyrir þessa góðu byrjun hófst kvenfrelsisbaráttan í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar en þá leituðust konur við að brjótast undan yfirráðum karlmanna. Á þeim tíma yfirgaf ein eiginkona fjölskyldu sína á móti 300 eiginmönnum. Undir lok þess áratugar breyttist hlutfallið í eina eiginkonu á móti 100 eiginmönnum. Núna virðast konur blóta, drekka, reykja og stunda siðleysi í sama mæli og karlmenn. En eru þær hamingjusamari fyrir vikið? Nei. Í sumum löndum endar um helmingur allra hjónabanda með skilnaði. Hafa tilraunir sumra kvenna til að bæta hlutskipti sitt í hjónabandinu fært málin í betra horf? — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

3. Hvaða grefur helst undan hjónabandinu?

3 Hvert er helsta vandamálið? Að hluta til er þetta sama vandamál og kom upp þegar Eva lét tælast af uppreisnarenglinum, „hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan“. (Opinberunarbókin 12:9; 1. Tímóteusarbréf 2:13, 14) Satan hefur haldið uppi áróðri gegn því sem Guð kennir. Hann hefur til dæmis látið það sem Guð segir um hjónabandið virka íþyngjandi og strangt. Hann stjórnar þessum heimi og áróðurinn sem hann kemur á framfæri í fjölmiðlum miðar að því að láta leiðbeiningar Guðs virka ósanngjarnar og úreltar. (2. Korintubréf 4:3, 4) En ef við skoðum með opnum huga það sem Guð segir um hlutverk kvenna í hjónabandinu sjáum við hve viturlegar og hagnýtar leiðbeiningar hans eru.

Varnaðarorð til þeirra sem ganga í hjónaband

4, 5. (a) Hvers vegna er nauðsynlegt að hugsa sig vandlega um áður en gengið er í hjónaband? (b) Hvað ætti kona að gera áður en hún tekur bónorði?

4 Í Biblíunni er að finna varnaðarorð. Þar segir að í þessum heimi Satans muni jafnvel þeir sem eru í góðum hjónaböndum ganga í gegnum þrengingar. Biblían veitir þessa viðvörun enda þótt hjónabandið sé fyrirkomulag sem Guð kom á fót. Innblásinn biblíuritari sagði um konu sem missir eiginmann sinn og er því frjáls til að giftast á ný: „Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er.“ Jesús mælti einnig með því að þeir sem „höndli“ það séu einhleypir. En ef einhver ákveður að ganga í hjónaband ætti hann að giftast „í Drottni“, það er að segja vígðum og skírðum þjóni Guðs. — 1. Korintubréf 7:28, 36-40; Matteus 19:10-12.

5 Það er sérstaklega mikilvægt að konur hugi vandlega að því hverjum þær giftast því að í Biblíunni segir: „Gift kona er að lögum bundin manni sínum.“ Hún losnar ekki undan ‚lögmáli mannsins‘ (Biblían 1859) nema hann deyi eða fremji hjúskaparbrot og þau skilji í framhaldi af því. (Rómverjabréfið 7:2, 3) Þó að ást við fyrstu sýn dugi ef til vill í tilhugalífinu er hún ein og sér ekki traustur grunnur að farsælu hjónabandi. Einhleyp kona verður því að spyrja sig hvort hún sé fús til að skuldbinda sig til að lúta lögmáli þessa manns. Þetta verður hún að hugleiða áður en hún gengur í hjónaband en ekki eftir.

6. Hvað geta flestar konur nú á dögum ákveðið og af hverju er þetta svona stór ákvörðun?

6 Víðast hvar geta konur ákveðið hvort þær taka eða hafna bónorði. En að taka rétta ákvörðun getur verið það erfiðasta sem kona gerir á lífsleiðinni þar sem þrá hennar eftir þeirri ást og því innilega sambandi, sem hjónabandið veitir, getur verið mjög sterk. Rithöfundur nokkur sagði: „Því heitara sem við þráum eitthvað — hvort sem það er að ganga í hjónaband eða klífa ákveðið fjall — þeim mun meiri líkur eru á að við göngum út frá því að allt sé í lagi og hlustum aðeins á það sem við viljum heyra.“ Ef fjallgöngumaður tekur óskynsamlega ákvörðun getur það kostað hann lífið. Það getur verið álíka varasamt að taka óskynsamlega ákvörðun varðandi val á maka.

7. Hvaða viturlegu leiðbeiningar hafa verið gefnar um val á maka?

7 Kona ætti að hugsa alvarlega um það hvað geti falist í því að vera undir lögmáli manns sem biður hennar. Fyrir mörgum árum viðurkenndi ung indversk stúlka hæversklega: „Foreldrar okkar eru eldri og vitrari en við og láta ekki blekkjast jafn auðveldlega . . . Ég gæti hæglega gert mistök.“ Sú aðstoð, sem foreldrar og aðrir geta veitt, er mjög mikils virði. Maður nokkur hvatti gjarnan ungt fólk til að kynnast foreldrum tilvonandi maka síns og fylgjast vandlega með samskiptum hans við foreldrana og aðra í fjölskyldunni.

Hvernig sýndi Jesús undirgefni?

8, 9. (a) Hvernig leit Jesús á það að vera undirgefinn Guði? (b) Hvaða gagn hlýst af því að sýna undirgefni?

8 Þótt það geti verið erfitt að sýna undirgefni ættu konur að álíta það heiður eins og Jesús gerði. Honum fannst ánægjulegt að vera Guði undirgefinn þótt það hefði í för með sér þjáningar og dauða á kvalastaur. (Lúkas 22:41-44; Hebreabréfið 5:7, 8; 12:3) Konur geta tekið sér Jesú til fyrirmyndar því að í Biblíunni segir: „Maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) En það er eftirtektarvert að það er ekki aðeins eftir að konur ganga í hjónaband sem þær þurfa að fylgja forystu karlmanna.

9 Í Biblíunni segir að konur, hvort sem þær eru giftar eða einhleypar, eigi að fylgja forystu andlega þroskaðra manna sem sinna umsjónarstörfum í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 2:12, 13; Hebreabréfið 13:17) Þegar konur fylgja þessum leiðbeiningum Guðs eru þær englum innan alheimssafnaðar hans til fyrirmyndar. (1. Korintubréf 11:8-10) Rosknar giftar konur geta auk þess, með fordæmi sínu og gagnlegum leiðbeiningum, kennt þeim yngri að vera „eiginmönnum sínum undirgefnar“. — Títusarbréfið 2:3-5.

10. Hvernig er Jesús okkur til fyrirmyndar með undirgefni sinni?

10 Jesús gerði sér grein fyrir gildi þess að sýna viðeigandi undirgefni. Eitt sinn sagði hann Pétri postula að borga yfirvöldum skatta fyrir þá báða og lét hann meira að segja fá pening til þess. Síðar skrifaði Pétur: „Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan.“ (1. Pétursbréf 2:13; Matteus 17:24-27) Undirgefni Jesú birtist með hvað skýrustum hætti þegar „hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða.“ — Filippíbréfið 2:5-8.

11. Hvers vegna hvatti Pétur eiginkonur til að sýna mönnum sínum undirgefni jafnvel þótt þeir væru ekki í trúnni?

11 Þegar Pétur hvatti kristna menn til að sýna jafnvel harðskeyttum og óréttlátum yfirvöldum undirgefni sagði hann: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Eftir að Pétur hafði útskýrt hve mikið Jesús þurfti að þjást og hvernig hann sýndi undirgefni og úthald beindi hann orðum sínum til kvenna sem áttu vantrúaða eiginmenn og sagði: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ — 1. Pétursbréf 3:1, 2.

12. Hvaða áhrif hafði undirgefni Jesú?

12 Sumir gætu álitið það veikleikamerki að sýna undirgefni andspænis háði og svívirðingum. En þannig leit Jesús ekki á málin. Pétur skrifaði: „Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið.“ (1. Pétursbréf 2:23) Sumir sem horfðu upp á þjáningar Jesú tóku trú, að minnsta kosti í einhverjum mæli. Á meðal þeirra var ræningi sem hékk á staur við hlið hans og hundraðshöfðingi sem fylgdist með aftökunni. (Matteus 27:38-44, 54; Markús 15:39; Lúkas 23:39-43) Pétur gaf einnig í skyn að sumir vantrúaðir eiginmenn — jafnvel þeir sem koma illa fram við konur sínar — tækju trú þegar þeir sæju undirgefni eiginkvenna sinna. Við höfum séð þetta gerast nú á dögum.

Að vinna eiginmann sinn orðalaust

13, 14. Hvernig hefur það reynst vel þegar vantrúuðum eiginmanni er sýnd undirgefni?

13 Konur, sem hafa tekið trú, hafa unnið eiginmenn sína orðalaust með kristilegri hegðun sinni. Á umdæmismóti Votta Jehóva fyrir skemmstu sagði eiginmaður þetta um konu sína: „Það má segja að ég hafi komið fram við hana eins og algjör bjáni. En hún sýndi mér samt virðingu. Hún gerði aldrei lítið úr mér og reyndi ekki að þvinga trúarskoðunum sínum upp á mig. Hún annaðist mig af mikilli alúð. Þegar hún fór á mót lagði hún sig alla fram um að undirbúa matinn fyrir fram og vera búin að sinna öllum húsverkunum. Framkoma hennar vakti áhuga minn á Biblíunni. Og viti menn, nú er ég hér.“ Já, hann hafði „unnist orðalaust“ vegna hegðunar konu sinnar.

14 Eins og Pétur sagði skiptir það sem eiginkonan gerir meira máli en það sem hún segir. Gott dæmi um það er kona nokkur sem kynntist sannleika Biblíunnar og var staðráðin í því að sækja safnaðarsamkomur. „Agnes, ef þú ferð út um þessar dyr geturðu sleppt því að koma aftur,“ æpti eiginmaður hennar. Hún fór ekki út um „þessar dyr“ heldur aðrar. Næsta samkomukvöld sagði hann í hótunartón: „Ég verð farinn þegar þú kemur til baka.“ Hann stóð við orð sín og var í burtu í þrjá daga. Þegar hann kom heim aftur spurði hún vingjarnlega: „Viltu fá eitthvað að borða?“ Agnes hvikaði aldrei frá ráðvendni sinni við Jehóva. Að lokum þáði eiginmaður hennar biblíunámskeið, vígði Guði líf sitt og þjónaði síðar sem umsjónarmaður í söfnuðinum með mörg ábyrgðarstörf.

15. Hvað ætti að prýða kristnar eiginkonur?

15 Þessar eiginkonur, nefndar hér á undan, lifðu í samræmi við orð Péturs postula. Hann sagði að prýði kvenna væri ekki „hárgreiðslur“ eða „viðhafnarbúningur“ heldur „hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.“ Þessi andi birtist í hlýjum raddblæ og framkomu sem er aðlaðandi en ekki ögrandi eða krefjandi. Með þessum hætti sýnir kristin eiginkona djúpa virðingu fyrir manni sínum. — 1. Pétursbréf 3:3, 4.

Fordæmi til eftirbreytni

16. Að hvaða leyti er Sara kristnum eiginkonum gott fordæmi?

16 Pétur skrifaði: „Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar.“ (1. Pétursbréf 3:5) Þær vissu að ef þær gleddu Jehóva og fylgdu leiðbeiningum hans yrði fjölskyldulífið farsælla og þær hefðu von um eilíft líf. Pétur nefnir Söru, hina fögru konu Abrahams, og segir að hún ‚hafi hlýtt Abraham og kallað hann herra‘. Hún studdi guðrækinn eiginmann sinn en Guð hafði falið honum það verkefni að þjóna í fjarlægu landi. Hún fórnaði þægilegum lífsstíl og stofnaði jafnvel lífi sínu í hættu. (1. Mósebók 12:1, 10-13) Pétur lofaði Söru fyrir það góða fordæmi sem hún gaf með hugrekki sínu. Hann sagði: „Börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður.“ — 1. Pétursbréf 3:6.

17. Hvers vegna hefur Pétur ef til vill haft Abígaíl í huga sem fordæmi fyrir kristnar eiginkonur?

17 Abígaíl var önnur hugrökk kona sem setti von sína á Guð og ef til vill hafði Pétur hana einnig í huga. Hún var „kona vitur“ en Nabal, eiginmaður hennar, var „harður og illur viðureignar“. Þegar Nabal neitaði að aðstoða Davíð og menn hans ákváðu þeir að drepa hann og allt heimilisfólk hans. En Abígaíl greip til sinna ráða til að bjarga fólki sínu. Hún klyfjaði asna matarbirgðum og fór til móts við Davíð og vopnaða menn hans. Þegar hún sá Davíð steig hún af baki, féll til fóta honum og sárbað hann um að gera ekkert í fljótfærni. Þetta hafði sterk áhrif á Davíð. Hann sagði „Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund. Og blessuð séu hyggindi þín.“ — 1. Samúelsbók 25:2-33.

18. Hvaða fordæmi ættu eiginkonur að hugleiða ef annar maður sýnir þeim ástleitni og hvers vegna?

18 Unga konan frá Súlem er eiginkonum einnig til fyrirmyndar. Hún var trú unnusta sínum sem var óbreyttur fjárhirðir. Ást hennar í hans garð var óhagganleg þrátt fyrir tilraunir auðugs konungs til að vinna hjarta hennar. Hún tjáði unga fjárhirðinum tilfinningar sínar og sagði: „Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér, sem innsiglishring við armlegg þinn. Því að elskan er sterk eins og dauðinn . . . Mikið vatn getur ekki slökkt elskuna og árstraumar ekki drekkt henni.“ (Ljóðaljóðin 8:6, 7) Þær konur, sem taka bónorði, ættu sömuleiðis að einsetja sér að vera trúar mönnum sínum og sýna þeim djúpa virðingu.

Fleiri leiðbeiningar frá Guði

19, 20. (a) Af hverju ættu eiginkonur að vera mönnum sínum undirgefnar? (b) Hvaða góðu fyrirmynd geta eiginkonur líkt eftir?

19 Lykilritningarstaður þessarar greinar var Efesusbréfið 5:21, 22 sem segir: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum.“ Hvers vegna er slík undirgefni nauðsynleg? Könnum í hvaða samhengi þessi orð voru skrifuð. Í versinu á eftir segir: „Því að maðurinn er höfuð konunnar, að sínu leyti eins og Kristur er höfuð safnaðarins.“ Þess vegna eru eiginkonur hvattar til að vera eiginmönnum sínum undirgefnar í öllu „eins og söfnuðurinn er undirgefinn Kristi“. — Efesusbréfið 5:23, 24, 33, Biblían 1912.

20 Til að fylgja þessum fyrirmælum verða eiginkonur að kynna sér og líkja eftir fordæmi andasmurðra fylgjenda Krists. Með því að lesa 2. Korintubréf 11:23-28 geturðu séð hvað Páll postuli, sem tilheyrði söfnuði hinna andasmurðu, þurfti að þola til að vera trúr leiðtoga sínum, Jesú Kristi. Eiginkonur og allir aðrir í söfnuðinum þurfa, eins og Páll, að sýna Jesú undirgefni. Eiginkonur gera það með því að vera eiginmönnum sínum undirgefnar.

21. Hvað getur verið eiginkonum hvöt til að vera mönnum sínum undirgefnar?

21 Þótt margar eiginkonur nú á dögum séu lítið hrifnar af því að vera undirgefnar getur skynsöm kona séð kosti þess. Ef eiginmaðurinn er til dæmis ekki í trúnni gæti eiginkonan ‚frelsað mann sinn‘ ef hún fylgir forystu hans í öllu, svo framarlega sem það brýtur ekki í bága við lög eða meginreglur Guðs. Það væri stórkostleg umbun. (1. Korintubréf 7:13, 16) Þar að auki veitir það henni gleði að vita að hún hefur velþóknun Jehóva Guðs og að hann launar henni fyrir að líkja eftir ástkærum syni sínum.

Manstu?

• Af hverju getur það verið áskorun fyrir eiginkonu að virða mann sinn?

• Af hverju er það alvarlegt mál að taka bónorði?

• Hvaða fordæmi setti Jesús eiginkonum og hvað gæti hlotist af því að fylgja fordæmi hans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Af hverju er alvarlegt mál að ákveða hvort taka eigi bónorði eða ekki?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hvað geta eiginkonur lært af fordæmi biblíupersóna eins og Abígaíl?