Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tignum í sameiningu nafn Jehóva

Tignum í sameiningu nafn Jehóva

Tignum í sameiningu nafn Jehóva

„Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.“ — SÁLMUR 34:4.

1. Hvaða fordæmi gaf Jesús meðan hann þjónaði hér á jörð?

KVÖLDIÐ 14. nísan árið 33 sungu Jesús og postularnir lofsöng til Jehóva í loftstofu í húsi einu í Jerúsalem. (Matteus 26:27-30) Þetta var í síðasta sinn sem Jesús gerði þetta með postulunum. Það var hins vegar vel við hæfi að hann lyki samverustund þeirra með þessum hætti. Jesús lofaði föður sinn og kunngerði nafn hans af kappi allt frá því að hann hóf þjónustu sína hér á jörð uns henni lauk. (Matteus 4:10; 6:9; 22:37, 38; Jóhannes 12:28; 17:6) Þannig endurómaði hann hlýlega hvatningu sálmaskáldsins: „Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.“ (Sálmur 34:4) Þetta er góð fyrirmynd fyrir okkur.

2, 3. (a) Hvernig vitum við að Sálmur 34 hefur spádómlegt gildi? (b) Um hvað verður fjallað í þessari grein og þeirri næstu?

2 Nokkrum klukkustundum eftir að Jóhannes postuli hafði sungið lofsöng með Jesú varð hann vitni að afar ólíkum atburði. Hann sá meistara sinn líflátinn á kvalastaur og tvo afbrotamenn á sama hátt. Rómverskir hermenn brutu fótleggi afbrotamannanna til að flýta fyrir dauða þeirra. Jóhannes greinir hins vegar frá því að þeir hafi ekki brotið fótleggi Jesú. Hann var látinn þegar þeir komu að honum. Jóhannes nefnir í guðspjalli sínu að þar hafi uppfyllst annað vers í Sálmi 34: „Ekkert bein hans skal brotið.“ — Jóhannes 19:32-36; Sálmur 34:21.

3 Í Sálmi 34 er að finna margt annað áhugavert fyrir kristna menn. Í þessari grein og þeirri næstu skulum við kynna okkur við hvaða aðstæður Davíð orti sálminn og sömuleiðis efni hans sem er einkar uppörvandi.

Davíð kemst undan Sál

4. (a) Af hverju var Davíð smurður til konungs í Ísrael? (b) Hvers vegna „lagði Sál mikinn þokka á“ Davíð?

4 Sál var konungur Ísraels þegar Davíð var ungur. En Sál gerðist óhlýðinn og missti velþóknun Jehóva. Þar af leiðandi sagði Samúel spámaður honum: „Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú.“ (1. Samúelsbók 15:28) Síðar lét Jehóva Samúel smyrja Davíð, yngsta son Ísaí, sem næsta konung Ísraels. Sál konungur hafði misst anda Guðs og stundum sótti að honum þunglyndi. Davíð var góður tónlistarmaður og var komið með hann til Gíbeu til að þjóna konungi. Tónlist Davíðs veitti konungi hugsvölun og „lagði Sál mikinn þokka á hann“. — 1. Samúelsbók 16:11, 13, 21, 23.

5. Af hverju breyttist afstaða Sáls til Davíðs og hvað neyddist Davíð til að gera?

5 Jehóva var með Davíð eins og sýndi sig þegar fram liðu stundir. Jehóva hjálpaði honum að sigra Filistarisann Golíat. Davíð naut vinsælda í Ísrael fyrir hernaðarafrek sín og Jehóva var með honum. En blessun Jehóva vakti öfund með Sál og hann fékk hatur á Davíð. Tvisvar kastaði konungur spjóti að honum þegar hann lék á hörpu sína. Í bæði skiptin tókst Davíð að skjóta sér undan. Þegar Sál reyndi að drepa hann í þriðja sinn vissi tilvonandi konungur Ísraels að hann yrði að forða sér til að bjarga lífi sínu. Sál reyndi að handtaka Davíð til að drepa hann og ákvað Davíð þá að leita hælis utan landamæra Ísraels. — 1. Samúelsbók 18:11; 19:9, 10.

6. Hvers vegna fyrirskipaði Sál að íbúar Nób skyldu drepnir?

6 Á leiðinni til landamæranna hafði Davíð viðkomu í borginni Nób en þar var tjaldbúð Jehóva. Davíð virðist hafa haft hóp ungra manna sér til fylgdar á flóttanum og fór fram á að fá matarbita handa þeim og sér. Sál komst á snoðir um að æðstipresturinn hafði gefið Davíð og mönnum hans að borða og látið þá fá sverðið sem Davíð hafði tekið af Golíat föllnum. Í reiði sinni lét Sál þá drepa alla borgarbúa, þar á meðal 85 presta. — 1. Samúelsbók 21:1, 2; 22:12, 13, 18, 19; Matteus 12:3, 4.

Davíð kemst undan á nýjan leik

7. Af hverju var Davíð ekki óhultur í Gat?

7 Davíð flúði frá Nób, um 40 kílómetra veg vestur á yfirráðasvæði Filista. Þar leitaði hann hælis hjá Akís konungi í Gat, heimabæ Golíats. Ef til vill hugsaði hann sem svo að Sál myndi síst leita hans þar. En ekki leið á löngu áður en þjónar konungsins í Gat báru kennsl á Davíð. Þegar hann frétti það varð hann „mjög hræddur við Akís konung í Gat“. — 1. Samúelsbók 21:10-12.

8. (a) Hvað kom fyrir Davíð í Gat samanber Sálm 56? (b) Hvernig komst Davíð naumleg undan?

8 Filistar handtóku nú Davíð. Vera má að hann hafi þá ort hinn hjartnæma sálm þar sem hann segir í bæn til Jehóva: „Tárum mínum er safnað í sjóð þinn“. (Sálmur 56:9 og yfirskrift) Hann lýsir þannig yfir að hann treysti að Jehóva gleymi ekki sorg hans heldur gæti hans og verndi hann. En Davíð upphugsar líka ráð til að blekkja konung Filista og gerir sér upp geðveiki. Þegar Akís konungur sér þetta átelur hann menn sína fyrir að koma með „vitstola“ mann til sín. Jehóva blessaði greinilega kænskubragð Davíðs. Hann var rekinn frá borginni eftir að hafa bjargað lífi sínu naumlega með þessum hætti. — 1. Samúelsbók 21:13-15.

9, 10. Af hvaða tilefni orti Davíð Sálm 34 og hverja kann hann að hafa haft í huga?

9 Ósagt er látið í Biblíunni hvort menn Davíðs flúðu til Gat með honum eða voru á verði í nálægum þorpum í Ísrael. Hvort heldur var hljóta að hafa orðið fagnaðarfundir með þeim og Davíð greindi þeim frá því hvernig Jehóva hefði enn einu sinni frelsað hann. Þessi atburðarás var undanfari þess að hann orti Sálm 34 eins og sjá má af yfirskriftinni. Í fyrstu sjö versunum lofar Davíð Jehóva fyrir að frelsa sig og hvetur menn sína til að lofa Jehóva með sér fyrir að frelsa þjóð sína. — Sálmur 34:4, 5, 8.

10 Davíð og menn hans leituðu skjóls í Adúllamhelli sem var í fjalllendi í Ísrael um 15 kílómetra austur af Gat. Þangað söfnuðust til hans menn úr Ísrael sem voru óánægðir með ástandið undir stjórn Sáls. (1. Samúelsbók 22:1, 2) Hugsanlegt er að Davíð hafi haft slíka menn í huga þegar hann orti það sem stendur í Sálmi 34:9-23. Hvatningarorðin í þessum versum eiga fullt erindi til okkar og það er gagnlegt fyrir okkur að fara ítarlega yfir þennan fagra sálm.

Hefur þú sömu löngun og Davíð?

11, 12. Hvaða tilefni höfum við til að lofa Jehóva án afláts?

11„Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.“ (Sálmur 34:2) Davíð þurfti að lifa eins og útlagi og hlýtur oft að hafa haft áhyggur af daglegu viðurværi, en eins og þessi orð bera með sér skyggði það ekki á einbeittan vilja hans að lofa Jehóva. Þetta er gott fordæmi fyrir okkur þegar við eigum í erfiðleikum. Okkur ætti alltaf að vera efst í huga að lofa Jehóva, hvort sem við erum í skóla, í vinnu, með trúsystkinum eða í boðunarstarfinu. Hugsaðu þér hve margar ástæður við höfum til þess. Til dæmis er endalaust hægt að rannsaka sköpunarverk Jehóva og njóta þeirra. Og ekki má gleyma því sem hann hefur áorkað með söfnuði sínum hér á jörð. Það er ekki lítið sem Jehóva hefur afrekað á okkar tímum fyrir atbeina trúfastra manna þótt ófullkomnir séu. Hvernig eru verk Jehóva í samanburði við verk manna sem heimurinn hampar? Tekurðu ekki undir með Davíð sem sagði annars staðar: „Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk“? — Sálmur 86:8.

12 Okkur er innanbrjósts eins og Davíð. Við getum ekki annað en lofað hann án afláts fyrir óviðjafnanleg verk hans. Við erum ákaflega glöð að vita að ríki Guðs hefur nú tekið til starfa undir forystu Jesú Krists sem er eilífur erfingi Davíðs. (Opinberunarbókin 11:15) Það þýðir að núverandi heimskerfi á stutt eftir. Eilíf framtíð meira en sex milljarða manna er í húfi. Aldrei hefur verið brýnna að segja öðrum frá ríki Guðs og því sem það mun gera fyrir mannkynið. Aldrei hefur verið brýnna að hjálpa fólki að lofa Guð með okkur. Við ættum að nota hvert tækifæri til að hvetja aðra til að taka við fagnaðarerindinu áður en það er um seinan. — Matteus 24:14.

13. (a) Hverjum hrósaði Davíð sér af og hvaða áhrif hafði það? (b) Hvernig laðast auðmjúkt fólk að kristna söfnuðinum nú á tímum?

13„Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.“ (Sálmur 34:3) Davíð hrósar sér ekki af eigin afrekum. Hann stærir sig til að mynda ekki af því hvernig hann blekkti konunginn í Gat. Honum er ljóst að Jehóva verndaði hann meðan hann var í Gat og að hann komst undan með hjálp hans. (Orðskviðirnir 21:1) Davíð hrósaði sér ekki af sjálfum sér heldur Jehóva. Þetta hafði þau áhrif að hógværir menn löðuðust að Guði. Jesús upphóf sömuleiðis nafn Jehóva og það laðaði auðmjúkt fólk að Guði. Núna laðast hógvært fólk af öllum þjóðum að alþjóðlegum söfnuði hinna andasmurðu en hann á sér Jesú sem höfuð. (Kólossubréfið 1:18) Hjörtu slíkra manna eru snortin þegar þeir heyra auðmjúka þjóna hans vegsama nafn hans, og þegar þeir heyra boðskap Biblíunnar sem heilagur andi Guðs hjálpar þeim að skilja. — Jóhannes 6:44; Postulasagan 16:14.

Samkomur styrkja trúna

14. (a) Lét Davíð sér nægja að lofa Jehóva í einrúmi? (b) Hvaða fordæmi gaf Jesús varðandi samkomur?

14„Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.“ (Sálmur 34:4) Davíð lét sér ekki nægja að lofa Jehóva í einrúmi. Hann hvatti félaga sína hlýlega til að tigna nafn hans með sér. Jesús Kristur, sem er hinn meiri Davíð, hafði sömuleiðis yndi af því að lofa Jehóva í fjölmenni — í samkunduhúsinu, á hátíðum í musteri Guðs í Jerúsalem og þegar hann var með fylgjendum sínum. (Lúkas 2:49; 4:16-19; 10:21; Jóhannes 18:20) Það er gleðilegt fyrir okkur að geta líkt eftir Jesú með því að lofa Jehóva með trúsystkinum okkar hvenær sem færi gefst, ekki síst núna þegar „dagurinn færist nær“. — Hebreabréfið 10:24, 25.

15. (a) Hvaða áhrif hafði reynsla Davíðs á menn hans? (b) Hvaða gagn höfum við af því að sækja samkomur?

15„Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.“ (Sálmur 34:5) Þessi reynsla Davíðs var honum verðmæt. Þess vegna hélt hann áfram: „Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.“ (Sálmur 34:7) Þegar við erum með trúsystkinum fáum við mörg tækifæri til að segja uppbyggilegar frásögur af því hvernig Jehóva hefur hjálpað okkur í nauðum. Þetta styrkir trú annarra á svipaðan hátt og orð Davíðs styrktu þá sem með honum voru. „Lítið til [Jehóva] og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast,“ sagði Davíð. (Sálmur 34:6) Félagar hans gerðu þetta. Þeir þurftu ekki að blygðast sín þótt þeir væru á flótta undan Sál. Þeir treystu að Jehóva styddi Davíð og glöddust. Þeir sem hafa nýlega sýnt áhuga treysta sömuleiðis á stuðning Jehóva og hið sama er að segja um þá sem hafa þjónað Jehóva lengi. Þeir hafa sjálfir kynnst hjálp hans, og gleði þeirra endurspeglar að þeir séu staðráðnir í að vera Jehóva trúir.

Þakklát fyrir hjálp englanna

16. Hvernig hefur Jehóva látið engla sína koma okkur til bjargar?

16„Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.“ (Sálmur 34:8) Davíð hugsaði ekki sem svo að Jehóva bjargaði engum nema honum. Vissulega var hann smurður sem tilvonandi konungur Ísraels en hann vissi að Jehóva notar engla sína til að gæta allra sem dýrka hann í trúfesti, jafnt hárra sem lágra. Þjónar Guðs á okkar tímum hafa einnig kynnst vernd hans. Yfirvöld margra landa hafa reynt að útrýma vottum Jehóva með kerfisbundnum hætti en án árangurs. Þetta gerðist á nasistatímanum í Þýskalandi og einnig í Angóla, Malaví, Mósambík og víðar. Þjónar Jehóva í þessum löndum lofa nafn hans í sameiningu og þeim hefur fjölgað jafnt og þétt. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva notar heilaga engla til að vernda þjóna sína og leiðbeina þeim. — Hebreabréfið 1:14.

17. Hvernig hjálpa englar Guðs okkur?

17 Englar Jehóva geta einnig hagrætt málum á þann veg að þeim sem hneyksla aðra eða verða þeim að falli sé vikið úr söfnuði hans. (Matteus 13:41; 18:6, 10) Og jafnvel þótt við vitum ekki af því meðan á því stendur ryðja englar úr vegi hindrunum sem gætu tálmað okkur í þjónustu Guðs og þeir vernda okkur fyrir ýmsu sem gæti skemmt samband okkar við hann. Síðast en ekki síst leiðbeina þeir okkur við að flytja öllu mannkyni ‚eilífan fagnaðarboðskap‘, meðal annars á stöðum þar sem boðunarstarfið fer fram við hættulegar aðstæður. (Opinberunarbókin 14:6) Í ritum votta Jehóva hefur oft verið bent á sannanir fyrir hjálp englanna. * Slík dæmi eru margfalt fleiri en svo að þau geti verið hrein tilviljun.

18. (a) Hvað þurfum við að gera til að njóta hjálpar englanna? (b) Um hvað er fjallað í greininni á eftir?

18 Til að njóta handleiðslu og verndar englanna verðum við að halda áfram að tigna nafn Jehóva, jafnvel þegar við verðum fyrir andstöðu. Munum að englar Jehóva setja aðeins vörð „kringum þá er óttast hann“. Hvað er átt við með því? Hvað er guðsótti og hvernig getum við tileinkað okkur hann? Af hverju skyldi kærleiksríkur Guð vilja að við óttumst sig? Fjallað verður um þessar spurningar í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Sjá Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 550; 2005 Yearbook of Jehovah’s Witnesses, bls. 53-54; Varðturninn (ensk útgáfa) 1. mars 2000, bls. 5-6; 1. janúar 1991, bls. 27 og 15. febrúar 1991, bls. 26.

Hvert er svarið?

• Hvaða þrengingar mátti Davíð þola sem ungur maður?

• Hvað er okkur efst í huga, líkt og Davíð?

• Hvernig lítum við á samkomur?

• Hvernig notar Jehóva engla til að hjálpa okkur?

[Spurningar]

[Kort á blaðsíðu 23]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Rama

Gat

Siklag

Gíbea

Nób

Jerúsalem

Betlehem

Adúllam

Kegíla

Hebron

Síf

Hóres

Karmel

Maon

Engedí

Saltisjór

[Rétthafi]

Kort: Byggt á kortum í eigu Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. og Survey of Israel.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Davíð tignaði nafn Jehóva, jafnvel þegar hann var á flótta.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Við styrkjum trúna þegar við heyrum uppbyggilegar frásögur á samkomum og mótum.