Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Englar og áhrif þeirra á mannkynið

Englar og áhrif þeirra á mannkynið

Englar og áhrif þeirra á mannkynið

„Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald . . . Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: ‚Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla‘.“ — OPINBERUNARBÓKIN 18:1, 2.

1, 2. Hvað sýnir að Jehóva notar engla til að hrinda vilja sínum í framkvæmd?

JÓHANNES postuli fær að sjá spádómlegar sýnir meðan hann er í útlegð á eynni Patmos í hárri elli. „Hrifinn í anda“ sér hann stórfenglega atburði sem eiga sér stað „á Drottins degi“. Þessi dagur hefst þegar Jesús Kristur er krýndur árið 1914 og hann stendur allt til loka þúsundáraríkisins. — Opinberunarbókin 1:10.

2 Jóhannes fær ekki þessa opinberun milliliðalaust frá Jehóva Guði heldur er notuð ákveðin boðleið. Í Opinberunarbókinni 1:1 segir: „Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum.“ Fyrir milligöngu Jesú notar Jehóva engil til að kunngera Jóhannesi undraverða atburði sem eiga að gerast á „Drottins degi“. Síðar sér Jóhannes „annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald“. Hvaða verkefni hafði þessi engill? „Hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: ‚Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla‘.“ (Opinberunarbókin 18:1, 2) Þessum volduga engli var falið það verkefni að tilkynna fall Babýlonar hinnar miklu sem er heimsveldi falskra trúarbragða. Enginn vafi getur því leikið á að Jehóva notar engla til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Áður en við skoðum í smáatriðum hvaða mikilvæga hlutverki englar gegna í fyrirætlun Guðs og þau áhrif sem það hefur á okkur skulum við kanna uppruna þessara andavera.

Hvernig urðu englar til?

3. Hvaða ranghugmynd hafa margir um engla?

3 Milljónir manna trúa að til séu englar. Margir hafa hins vegar rangar hugmyndir um þá og uppruna þeirra. Sumt trúað fólk heldur til dæmis að Guð kalli til sín ástvini þeirra við dauðann og þeir verði að englum. Kennir Biblían þetta um tilurð engla, tilvist þeirra og hlutverk?

4. Hvað segir Biblían um uppruna englanna?

4 Voldugasti og máttugasti engillinn er kallaður höfuðengillinn Míkael. (Júdasarbréfið 9) Hann er enginn annar en Jesús Kristur. (1. Þessaloníkubréf 4:16) Þegar Jehóva ákvað fyrir óralöngu að gerast skapari var þessi englasonur fyrsta sköpunarverk hans. (Opinberunarbókin 3:14) Síðan skapaði hann allar aðrar andaverur fyrir atbeina þessa frumgetna sonar. (Kólossubréfið 1:15-17) Jehóva talar um þessa engla sem syni sína þegar hann spyr ættföðurinn Job: „Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til. . . . Hver lagði hornstein hennar, þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?“ (Jobsbók 38:4, 6, 7) Ljóst er að englarnir eru sköpunarverk Guðs og urðu til löngu á undan mönnunum.

5. Hvernig er englunum skipað í flokka?

5 „Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins,“ segir í 1. Korintubréfi 14:33. Í samræmi við það skipar Jehóva andasonum sínum í þrjá meginflokka: (1) serafa sem þjóna við hásæti hans, lýsa yfir heilagleika hans og halda fólki hans andlega hreinu, (2) kerúba sem halda hátign hans á lofti og (3) aðra engla sem framkvæma vilja hans. (Sálmur 103:20; Jesaja 6:1-3; Esekíel 10:3-5; Daníel 7:10) Lítum á dæmi um það hvernig þessar andaverur hafa áhrif á mennina. — Opinberunarbókin 5:11.

Hlutverk engla

6. Hvernig notaði Jehóva kerúba í sambandi við Edengarðinn?

6 Fyrst er minnst berum orðum á andaverur í 1. Mósebók 3:24 þar sem við lesum: „[Jehóva] rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.“ Kerúbarnir gerðu Adam og Evu ókleift að komast aftur inn í Eden sem verið hafði heimili þeirra. Þetta gerðist í upphafi mannkynssögunnar. Hvaða hlutverki hafa englar gegnt síðan?

7. Hvað merkja hebresku og grísku orðin, sem þýdd eru „engill“, og hvað segir það um eitt af hlutverkum engla?

7 Englar eru nefndir hátt í 300 sinnum í Biblíunni. Hebreska orðið, sem þýtt er engill, og sömuleiðis það gríska getur merkt „sendiboði“ enda hafa englar verið notaðir til að bera boð milli Guðs og manna. Eins og fram kom í byrjun þessarar greinar notaði Jehóva engil til að flytja Jóhannesi postula boðskap sinn.

8, 9. (a) Hvaða áhrif höfðu heimsóknir engils á Manóa og konu hans? (b) Hvað geta foreldrar lært af samskiptum Manóa við engil Guðs?

8 Englar eru einnig notaðir til að styðja þjóna Guðs á jörðinni og veita þeim hvatningu og uppörvun. Lítum á dæmi. Manóa og kona hans voru uppi á dómaratímanum í Ísrael. Þau þráðu innilega að eignast barn en gátu ekki. Jehóva sendi engil til að tilkynna konunni að hún myndi eignast son. Frásagan segir: „Sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista.“ — Dómarabókin 13:1-5.

9 Eiginkona Manóa eignaðist síðan soninn Samson sem frægur er í biblíusögunni. (Dómarabókin 13:24) Áður en drengurinn fæddist bað Manóa þess að engillinn kæmi aftur til að leiðbeina þeim um uppeldi hans. Manóa spurði: „Hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?“ Engill Jehóva endurtók þá fyrirmælin sem hann hafði gefið konu Manóa. (Dómarabókin 13:6-14) Þetta hlýtur að hafa verið uppörvandi fyrir Manóa. Englar koma ekki til einstaklinga með þessum hætti nú á tímum en foreldrar geta engu að síður leitað leiðsagnar Jehóva varðandi uppeldi barna sinna, rétt eins og Manóa gerði. — Efesusbréfið 6:4.

10, 11. (a) Hvaða áhrif hafði innrásarher Sýrlendinga á Elísa og svein hans? (b) Hvað lærum við af þessum atburði?

10 Finna má athyglisvert dæmi um stuðning engla á dögum Elísa spámanns. Elísa dvaldist þá í borginni Dótan í Ísrael. Dag einn, þegar sveinn hans fór á fætur árla morguns og leit út, sá hann að borgin var umkringd hestum og hervögnum. Sýrlandskonungur hafði sent þangað öflugt herlið til að handsama Elísa. Hvernig brást sveinninn við? Hann hrópaði skelfingu lostinn: „Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?“ Honum sýndust öll sund lokuð en Elísa svaraði: „Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ Hvað átti hann við? — 2. Konungabók 6:11-16.

11 Elísa vissi að englasveitir voru á staðnum til að styðja hann. En sveinn hans sá ekkert svo að „Elísa gjörði bæn sína og mælti: ‚Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái.‘ Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.“ (2. Konungabók 6:17) Þá sá sveinninn englasveitirnar. Við getum einnig séð með augum skilnings að Jehóva og Jesús nota engla undir sinni stjórn til að styðja okkur og vernda.

Stuðningur engla á dögum Krists

12. Hvaða stuðning fékk María frá englinum Gabríel?

12 Hvaða stuðning fékk gyðingastúlkan María þegar hún heyrði þessi tíðindi: „Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita Jesú“? Rétt áður en engillinn Gabríel, sem Guð sendi, flutti henni þessi óvæntu tíðindi sagði hann henni: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði.“ (Lúkas 1:26, 27, 30, 31) Þessi orð hljóta að hafa verið uppörvandi og styrkjandi fyrir Maríu því að þau veittu henni vissu fyrir því að hún hefði velþóknun Guðs.

13. Hvernig studdu englar Jesú?

13 Við finnum annað dæmi um stuðning engla eftir að Jesús hafði staðist freistingarnar þrjár sem Satan lagði fyrir hann í eyðimörkinni. Í frásögunni segir að þegar freistingunum var lokið hafi djöfullinn farið frá honum. Síðan segir: „Og englar komu og þjónuðu honum.“ (Matteus 4:1-11) Svipað átti sér stað nóttina áður en Jesús dó. Í mikilli angist féll hann á kné og bað: „‚Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.‘ Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.“ (Lúkas 22:42, 43) En hvernig styðja englar okkur sem nú lifum?

Stuðningur engla á okkar dögum

14. Hvaða ofsóknir hafa vottar Jehóva mátt þola á okkar dögum og hvernig hefur þeim vegnað?

14 Sjáum við ekki merki um stuðning engla þegar við lítum á hvernig boðunarstarfi Votta Jehóva hefur miðað fram á okkar dögum? Þjónar Jehóva stóðust til dæmis árásir nasista í Þýskalandi og Vestur-Evrópu bæði fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan á henni stóð (1939-45). Þeir máttu þola enn lengri ofsóknir undir fasistastjórn kaþólskra á Ítalíu, Spáni og Portúgal. Og áratugum saman voru þeir ofsóttir í Sovétríkjunum fyrrverandi og í fylgiríkjum þeirra. Ekki má heldur gleyma þeim ofsóknum sem þjónar Jehóva hafa mátt sæta í ýmsum Afríkuríkjum. * Á allra síðustu árum hafa þeir verið ofsóttir grimmilega í fyrrverandi Sovétlýðveldinu Georgíu. Satan hefur beitt öllum ráðum til að reyna að binda enda á starf Votta Jehóva. En sem söfnuður hafa þeir staðist mótlætið og vaxið og dafnað. Að hluta til má rekja það til þess að englar hafa haldið hlífiskildi yfir þeim. — Sálmur 34:8; Daníel 3:28; 6:23.

15, 16. Hvernig styðja englar þjóna Jehóva í boðunarstarfi þeirra um allan heim?

15 Vottar Jehóva taka mjög alvarlega það verkefni að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim og gera menn að lærisveinum með því að kenna áhugasömum alls staðar sannleika Biblíunnar. (Matteus 28:19, 20) Þeim er hins vegar fullljóst að þeir geta ekki gert þessu verkefni skil án stuðnings engla. Orðin í Opinberunarbókinni 14:6, 7 hafa því verið þeim til stöðugrar hvatningar. Þar stendur: „Ég [Jóhannes postuli] sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð, og sagði hárri röddu: ‚Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.‘“

16 Þessi orð bera greinilega með sér að hið mikla boðunarstarf Votta Jehóva nýtur stuðnings og leiðsagnar engla. Jehóva notar engla sína til að beina hjartahreinu fólki til votta sinna. Englarnir hafa einnig vísað vottunum á verðuga einstaklinga. Það hlýtur að vera skýringin á því að vottar hafa oft hitt fólk einmitt þegar það á við erfiðleika að glíma og þarfnast trúarlegrar leiðsagnar. Dæmin eru fleiri en svo að þau geti verið tilviljun.

Veigamikið hlutverk í náinni framtíð

17. Hvernig fór fyrir her Assýringa þegar einn engill réðst gegn honum?

17 Englar þjóna ekki aðeins því hlutverki að bera boð Guðs til manna og til að styðja þá og styrkja. Forðum daga fullnægðu þeir einnig dómum Guðs. Tökum dæmi: Á áttundu öld f.Kr. settist afar fjölmenn hersveit Assýringa um Jerúsalem. Hvað gerði Jehóva? Hann sagði: „Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns.“ Biblían segir hvað gerðist þessu næst: „Þessa sömu nótt fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík.“ (2. Konungabók 19:34, 35) Herir mannanna mega sín ósköp lítils gegn aðeins einum engli!

18, 19. Hvaða afdrifaríka hlutverki munu englar gegna í náinni framtíð og hvaða áhrif mun það hafa á mannkynið?

18 Englar eiga eftir að fullnægja dómi Guðs í náinni framtíð. Innan skamms kemur Drottinn „með englum máttar síns . . . í logandi eldi“. Verkefni þeirra verður að láta „hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Þessi aðgerð verður mjög afdrifarík fyrir mannkynið. Þeir sem vilja ekki hlýða fagnaðarerindinu, sem nú er boðað um heim allan, líða undir lok. Þeir einir sem leita Jehóva og ástunda réttlæti og auðmýkt verða „faldir á reiðidegi Drottins“ og komast undan heilir á húfi. — Sefanía 2:3.

19 Við getum verið Jehóva þakklát fyrir að láta máttuga engla styðja og styrkja tilbiðjendur sína á jörðinni. Það er hughreystandi fyrir okkur að skilja hvaða hlutverki englarnir gegna í fyrirætlun Guðs. Ástæðan er sú að til eru englar sem gert hafa uppreisn gegn Jehóva og eru nú undir stjórn Satans. Í greininni á eftir er fjallað um það hvað sannkristnir menn geta gert til að verjast sterkum áhrifum Satans djöfulsins og illu andanna.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Ítarlegar frásagnir af þessum ofsóknaröldum má finna í árbókum Votta Jehóva 1983 (Angóla), 1992 (Eþíópía), 1982 (Ítalía), 1999 (Malaví), 2004 (Moldóva), 1996 (Mósambík), 1983 (Portúgal), 1994 (Pólland), 2006 (Sambía), 1978 (Spánn), 2000 (Tékkland), 1972 (Tékkóslóvakía), 2002 (Úkraína) og 1974 og 1999 (Þýskaland).

Hvað lærðir þú?

• Hvernig urðu englarnir til?

• Hvaða hlutverki gegndu englar á biblíutímanum?

• Hvaða upplýsingar fáum við í Opinberunarbókinni 14:6, 7 um hlutverk engla nú á tímum?

• Hvaða afdrifaríka hlutverki munu englar gegna í náinni framtíð?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Engill hvatti og uppörvaði Manóa og eiginkonu hans.

[Mynd á blaðsíðu 25]

„Fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“