Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Grimmur heimur

Grimmur heimur

Grimmur heimur

MARÍA var 64 ára gömul og bjó ein. Hún fannst látin á heimili sínu eftir að hafa verið barin og kyrkt með vír.

Æstur múgur réðst á þrjá lögreglumenn og sakaði þá um að hafa rænt tveimur drengjum undir lögaldri. Múgurinn hellti bensíni yfir tvo af lögreglumönnunum og kveikti í þeim en sá þriðji komst undan. Eldurinn varð mönnunum tveim að bana.

Ótrúleg uppgötvun átti sér stað eftir að vísbending barst með nafnlausu símtali. Líkamsleifar fjögurra ferðamanna voru grafnar upp í garði. Hendur þeirra voru bundnar saman og bundið hafði verið fyrir augun á þeim. Krufning leiddi í ljós að þeir höfðu verið grafnir lifandi.

Þetta eru ekki senur úr ofbeldisfullri hryllingsmynd heldur sannsögulegir atburðir sem voru fyrir skemmstu í fyrirsögnum frétta í landi í Rómönsku Ameríku. En það er ekki aðeins í þessu landi sem slíkir atburðir eiga sér stað.

Grimmdarverk eru orðin daglegt brauð. Sprengjuárásir, hryðjuverk, morð, líkamsárásir, skotárásir og nauðganir eru aðeins brot af þeim hræðilegu verknuðum sem framdir eru. Fjölmiðlar greina oft mjög ítarlega frá þessum grimmdarverkum og mörgum bregður ekki lengur í brún að heyra af slíkri grimmd eða sjá grimmdarverk framin.

Þú veltir kannski fyrir þér hvað sé eiginlega að verða um þennan heim. Er mannslífið orðið einskis virði í augum fólks og kann það ekki lengur að taka tillit til annarra? Af hverju er heimurinn svona grimmur?

En lítum nú á annað dæmi. Harry er 69 ára og er með krabbamein og konan hans er með heila- og mænusigg. En nágrannar þeirra og vinir hjálpa þeim. „Ég veit ekki hvað við myndum gera ef við hefðum ekki allt þetta fólk okkur til aðstoðar,“ segir Harry. Í Kanada, þar sem hann býr, er meira en helmingur þeirra sem sjá um umönnun aldraðra að annast ókunnugt fólk. Þú þekkir án efa fólk sem sýnir almenna góðvild og náungakærleika í samskiptum við aðra. Já, mennirnir eru þeim hæfileika gæddir að geta sýnt öðrum umhyggju og góðvild í stað þess að vera grimmir.

En hvers vegna er grimmdin þá svona mikil? Hvað fær fólk til að vera grimmt? Geta þeir sem koma illa fram við aðra breyst? Mun grimmdin einhvern tíma taka enda? Og ef svo er, hvenær mun það gerast og hvernig?

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 3]

Lest: CORDON PRESS