Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Látum orð Guðs stýra skrefum okkar

Látum orð Guðs stýra skrefum okkar

Látum orð Guðs stýra skrefum okkar

„Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — SÁLMUR 119:105.

1, 2. Hvers vegna hefur flestum mistekist að finna sannan frið og hamingju?

HEFURÐU einhvern tíma þurft að spyrja til vegar? Þú varst ef til vill að nálgast áfangastaðinn en varst ekki viss um í hvaða átt þú ættir að fara á allra síðustu gatnamótunum. Eða kannski varstu rammvilltur og þurftir að fara allt aðra leið. Væri ekki viturlegt í báðum tilfellum að fylgja leiðbeiningum einhvers sem þekkti svæðið? Hann gæti hjálpað þér að komast á leiðarenda.

2 Um þúsundir ára hefur mannkynið reynt að rata um lífsins veg án hjálpar Guðs. En án leiðsagnar hans eru ófullkomnir menn rammvilltir. Þeir finna einfaldlega ekki sannan frið og hamingju. Hvers vegna hafa þeir ekki ratað rétta leið? Fyrir meira en 2500 árum sagði spámaðurinn Jeremía að það væri ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. (Jeremía 10:23) Það er ávísun á vonbrigði að reyna að stýra skrefum sínum án þess að þiggja hjálp þess sem þekkir leiðina. Mennirnir þarfnast leiðsagnar Guðs.

3. Hvers vegna er Jehóva Guð best til þess fallinn að veita mannkyninu leiðsögn og hverju lofar hann?

3 Enginn er færari en Jehóva Guð að veita okkur slíka leiðsögn. Hvers vegna? Vegna þess að hann skilur okkur mennina betur en nokkur annar. Og hann veit mætavel hvernig mannkynið villtist af leið. Hann veit líka hvað þarf til að mennirnir komist aftur inn á rétta braut. Auk þess er Jehóva skapari okkar og veit því alltaf hvað er okkur fyrir bestu. (Jesaja 48:17) Við getum því treyst fullkomlega loforði hans í Sálmi 32:8: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ Á því leikur enginn vafi að Jehóva veitir okkur bestu leiðbeiningarnar. En hvernig gerir hann það?

4, 5. Hvernig getur orð Guðs leiðbeint okkur?

4 Sálmaskáld sagði í bæn til Jehóva „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur 119:105) Orð Guðs og áminningar er að finna í Biblíunni og þær geta hjálpað okkur að yfirstíga ýmsar hindranir sem verða á vegi okkar. Þegar við lesum í Biblíunni og látum hana stýra skrefum okkar kynnumst við af eigin raun því sem segir í Jesaja 30:21: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér . . . : ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“

5 Tökum samt eftir að í Sálmi 119:105 er bent á að orð Guðs gegni tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi er það eins og lampi fóta okkar. Þegar vandamál koma upp í dagsins önn ættu meginreglur Biblíunnar að stýra skrefum okkar svo að við tökum skynsamlegar ákvarðanir og sneiðum hjá tálgryfjum þessa heims. Í öðru lagi eru áminningar Guðs ljós á vegum okkar og hjálpa okkur að taka ákvarðanir sem eru í samræmi við vonina um eilíft líf í paradís. Þegar vegurinn fram undan er vel upplýstur getum við séð fyrir afleiðingar ákveðinnar stefnu, hvort heldur góðar eða slæmar. (Rómverjabréfið 14:21; 1. Tímóteusarbréf 6:9; Opinberunarbókin 22:12) Lítum nánar á hvernig orð Guðs í Biblíunni getur verið lampi fóta okkar og ljós á vegum okkar.

„Lampi fóta minna“

6. Við hvaða aðstæður getur orð Guðs verið lampi fóta okkar?

6 Við tökum ákvarðanir á hverjum degi. Sumar þeirra virðast kannski smávægilegar en stundum lendum við í aðstöðu þar sem reynir á siðferði okkar, heiðarleika eða hlutleysi. Til að standast slíkar prófraunir verðum við að „hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Þegar við öflum okkur nákvæmrar þekkingar á Biblíunni og bætum skilning okkar á meginreglum hennar þjálfum við samviskuna svo að ákvarðanir okkar verði Jehóva þóknanlegar. — Orðskviðirnir 3:21.

7. Lýstu hvernig kristnum manni gæti þótt freistandi að hafa félagsskap við vinnufélaga sem eru ekki í trúnni.

7 Tökum dæmi. Ertu fullorðin manneskja og reynir þú í einlægni að gleðja hjarta Jehóva? (Orðskviðirnir 27:11) Það er hrósvert. En setjum sem svo að vinnufélagar bjóði þér að koma með sér á íþróttaviðburð. Þeim líkar vel við þig sem vinnufélaga og þá langar til að blanda geði við þig utan vinnutíma. Þú hefur sterklega á tilfinningunni að þetta sé ágætisfólk. Það hefur ef til vill góð lífsgildi að leiðarljósi. Hvernig bregstu við? Er einhver hætta á ferðum ef þú þiggur boðið? Hvernig getur orð Guðs hjálpað þér að taka rétta ákvörðun?

8. Hvaða meginreglur Biblíunnar hjálpa okkur að taka ákvarðanir um samneyti við aðra?

8 Lítum á nokkrar meginreglur Biblíunnar. Sú fyrsta sem gæti komið upp í hugann er í 1. Korintubréfi 15:33 þar sem segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Verðum við að sniðganga vantrúaða með öllu til að fylgja þessari meginreglu? Biblían svarar því neitandi. Til dæmis má nefna að Páll postuli sýndi alls konar fólki umhyggju, einnig vantrúuðum. (1. Korintubréf 9:22) Til að vera kristin verðum við að sýna öðrum áhuga — líka þeim sem eru ekki sömu trúar og við. (Rómverjabréfið 10:13-15) Hvernig gætum við ‚gert öllum gott‘ ef við einangruðum okkur frá fólki sem gæti þurft á hjálp okkar að halda? — Galatabréfið 6:10.

9. Hvaða meginregla Biblíunnar hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf til vináttu við vinnufélaga?

9 Engu að síður eru skýr mörk á milli þess að vera vingjarnlegur við vinnufélaga og að vera náinn vinur hans. Hér þarf að taka mið af annarri meginreglu í Biblíunni. Páll postuli aðvaraði kristna menn: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum.“ (2. Korintubréf 6:14) Hvað þýðir setningin „gangið ekki undir ósamkynja ok“? Í öðrum biblíuþýðingum segir meðal annars: „Gangið ekki til liðs við vantrúaða,“ „reynið ekki að vinna með vantrúuðum eins og jafningjum“ eða „hættið að stofna til óviðeigandi tengsla við vantrúaða.“ Hvenær verður samband við vinnufélaga óviðeigandi? Hvenær gengur það of langt og verður ósamkynja ok? Orð Guðs, Biblían, getur leiðbeint þér í þessu máli.

10. (a) Hverja valdi Jesús sér að vinum? (b) Hvaða spurningar geta hjálpað okkur að taka réttar ákvarðanir varðandi félagsskap?

10 Tökum Jesú sem dæmi. Hann elskaði mennina allt frá sköpun þeirra. (Orðskviðirnir 8:31) Þegar hann var hér á jörð tengdist hann fylgjendum sínum sterkum böndum. (Jóhannes 13:1) Honum þótti meira að segja vænt um mann sem var á villigötum í trúarlegum efnum. (Markús 10:17-22) En Jesús setti líka skýr mörk þegar hann valdi sér nána vini. Hann myndaði ekki náin tengsl við fólk sem hafði ekki einlægan áhuga á að gera vilja föður hans. Einhverju sinni sagði hann: „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.“ (Jóhannes 15:14) Vera má að þér lyndi vel við ákveðinn vinnufélaga. En spyrðu þig: ‚Er hann fús til að gera það sem Jesús býður okkur? Vill hann kynnast Jehóva sem Jesús kenndi okkur að tilbiðja? Hefur hann sömu siðferðisreglur og ég hef sem kristinn maður?‘ (Matteus 4:10) Svörin við þessum spurningum verða augljós þegar þú talar við vinnufélagana og segir þeim að þú viljir halda fast við lífsreglur Biblíunnar.

11. Nefndu dæmi um aðstæður þar sem orð Guðs ætti að stýra skrefum okkar.

11 Orð Guðs getur verið lampi fóta okkar við ýmsar aðrar aðstæður. Segjum til dæmis að atvinnulausum þjóni Guðs sé boðin vinna. Hann þarfnast vinnunnar sárlega en vinnutímanum er þannig háttað að hann myndi missa alloft af samkomum. Auk þess færi hann oft á mis við aðra þætti sannrar tilbeiðslu. (Sálmur 37:25) Öðrum þjóni Guðs gæti þótt mjög freistandi að horfa á skemmtiefni sem stangast á við meginreglur Biblíunnar. (Efesusbréfið 4:17-19) Sá þriðji hneykslast kannski auðveldlega á göllum trúsystkina sinna. (Kólossubréfið 3:13) Við ættum að láta orð Guðs vera lampa fóta okkar við allar slíkar aðstæður. Með því að fylgja meginreglum Biblíunnar getum við tekist á við hvaðeina sem verður á vegi okkar í lífinu. Biblían er „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti“. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

„Ljós á vegum mínum“

12. Hvernig er orð Guðs ljós á vegum okkar?

12 Í Sálmi 119:105 segir einnig að orð Guðs geti verið ljós á vegum okkar og lýst upp leiðina fram undan. Við erum vel upplýst um framtíðina því Biblían skýrir hvað ástandið í heiminum þýðir og hvernig fer að lokum. Við gerum okkur grein fyrir að við lifum á „síðustu dögum“ þessa illa heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Vitneskjan um hvað er fram undan ætti að hafa djúpstæð áhrif á hvernig við lifum lífinu núna. Pétur postuli skrifaði: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ — 2. Pétursbréf 3:11, 12.

13. Hvernig ætti tíminn sem við lifum á að hafa áhrif á hugsunarhátt okkar og lífsstíl?

13 Hugsunarháttur okkar og lífstíll ætti að sýna að við trúum því staðfastlega að ‚heimurinn fyrirfarist og fýsn hans‘. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Leiðbeiningar Biblíunnar hjálpa okkur að taka viturlegar ákvarðanir varðandi framtíðarmarkmið okkar. Jesús sagði til dæmis: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Það er hrósvert að sjá margt ungt fólk sýna að það treystir orðum Jesú og notar mestan hluta tíma síns í boðunarstarfinu. Aðrir — meðal annars heilu fjölskyldurnar — hafa að eigin frumkvæði flust til landa þar sem mikil þörf er á boðberum Guðsríkis.

14. Hvað gerði fjölskylda nokkur til að verða að meira gagni í boðunarstarfinu?

14 Sem dæmi má nefna fjögurra manna fjölskyldu sem flutti frá Bandaríkjunum til að þjóna í söfnuði í 50.000 manna bæ í Dóminíska lýðveldinu. Í söfnuðinum eru 130 boðberar. En á minningarhátíðinni um dauða Krists, sem haldin var 12. apríl 2006, voru 1.300 viðstaddir. Akrarnir á þessu svæði eru svo „hvítir til uppskeru“ að eftir aðeins fimm mánuði héldu faðirinn, móðirin, sonurinn og dóttirin samtals 30 biblíunámskeið. (Jóhannes 4:35) Faðirinn segir: „Í söfnuðinum eru 30 bræður og systur sem hafa flust hingað til að hjálpa til. Um 20 þeirra eru frá Bandaríkjunum en hin eru frá Bahamaeyjum, Kanada, Ítalíu, Nýja-Sjálandi og Spáni. Þau komu hingað til að taka ötullega þátt í boðunarstarfinu og hafa haft ákaflega hvetjandi áhrif á vottana á staðnum.“

15. Hvaða blessun hefur þú hlotið fyrir að einbeita þér að því að sinna hagsmunum Guðsríkis?

15 Skiljanlega eru ekki allir í aðstöðu til að flytja milli landa til að þjóna þar sem þörf er fyrir fleiri boðbera. En þeir sem eru í aðstöðu til þess — eða geta hagað málum sínum þannig að þeir hafi tök á því — mega treysta að þeir hljóti margskonar blessun ef þeir þjóna þar sem þörfin er mikil. En sama hvar við þjónum skulum við ekki fara á mis við þá gleði sem við getum öðlast þegar við þjónum Jehóva af öllum mætti. Ef þú einbeitir þér að því að sinna hagsmunum Guðsríkis lofar Jehóva að úthella yfir þig „yfirgnæfanlegri blessun“. — Malakí 3:10.

Njótum góðs af leiðbeiningum Jehóva

16. Hvaða gagn höfum við af því að láta orð Guðs leiðbeina okkur?

16 Eins og við höfum séð leiðbeina orð Jehóva okkur á tvo vegu. Þau eru lampi fóta okkar, hjálpa okkur að stefna í rétta átt og eru okkur til leiðsagnar þegar við þurfum að taka ákvarðanir. Auk þess er Biblían ljós á vegum okkar svo að við sjáum greinilega hvað er fram undan. Það hjálpar okkur síðan að fylgja hvatningu Péturs: „Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.“ — 1. Pétursbréf 1:13.

17. Hvernig getur biblíulestur hjálpað okkur að fylgja handleiðslu Guðs?

17 Enginn vafi leikur á því að Jehóva leiðbeinir okkur. En spurningin er hvort þú þiggir handleiðslu hans. Einsettu þér að lesa í Biblíunni á hverjum degi til að skilja þá leiðsögn sem Jehóva lætur í té. Hugleiddu það sem þú lest, reyndu að glöggva þig á vilja Jehóva í hinum ýmsu málum og veltu fyrir þér hvernig efnið getur átt við á mismunandi sviðum í lífi þínu. (1. Tímóteusarbréf 4:15) Notaðu síðan skynsemina þegar þú tekur ákvarðanir. — Rómverjabréfið 12:1, Biblían 1912.

18. Hvaða blessun hljótum við þegar við látum Biblíuna leiðbeina okkur?

18 Meginreglur Biblíunnar upplýsa okkur þegar við fylgjum þeim og veita okkur þá leiðsögn sem við þurfum til að ákveða hvaða leið við eigum að fara. Við getum verið viss um að skráð orð Jehóva ‚gera hinn fávísa vitran‘. (Sálmur 19:8) Þegar við látum Biblíuna stýra skrefum okkar höfum við hreina samvisku og þá ánægju sem fylgir því að þóknast Jehóva. (1. Tímóteusarbréf 1:18, 19) Ef við höfum orð Guðs að leiðarljósi á hverjum degi mun hann veita okkur mestu umbun sem hugsast getur — eilíft líf. — Jóhannes 17:3.

Manstu?

• Hvers vegna er mikilvægt að láta Jehóva Guð stýra skrefum okkar?

• Hvernig getur orð Guðs verið lampi fóta okkar?

• Hvernig getur orð Guðs verið ljós á vegum okkar?

• Hvernig getur biblíulestur hjálpað okkar að fylgja leiðsögn Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hvenær verður samband við vantrúaða óviðeigandi?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Nánir vinir Jesú gerðu vilja Jehóva.

[Myndir á blaðsíðu 11]

Ber lífstíll okkar vitni um að við látum hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir?